Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Biblían innblásin af Guði?

Er Biblían innblásin af Guði?

18. kafli

Er Biblían innblásin af Guði?

1. Hvaða hæfileika hefur skaparinn fram yfir menn?

 ENGINN maður getur sagt framtíðina fyrir í smáatriðum. Það er mönnum ofviða. En skapari alheimsins þekkir allar staðreyndir og getur meira að segja stjórnað gangi atburða. Þess vegna getur hann sagt um sjálfan sig: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ — Jesaja 46:10; 41:22, 23.

2. Hvað ætti að færa okkur heim sanninn um að Biblían sé innblásin af Guði?

2 Biblían inniheldur hundruð spádóma. Hafa þeir ræst nákvæmlega fram til þessa? Ef svo er hlýtur það að teljast veigamikill vitnisburður þess að Biblían sé „innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Það hlýtur enn fremur að vekja trúartraust til spádóma um atburði sem enn eiga eftir að gerast. Við skulum þess vegna líta á nokkra spádóma sem hafa nú þegar uppfyllst.

Fall Týrusar

3. Hvað var sagt fyrir um Týrus?

3 Týrus var mikilvæg hafnarborg Fönikíumanna sem komið höfðu sviksamlega fram við Ísraelsmenn sem voru tilbiðjendur Jehóva og nágrannar þeirra í suðri. Fyrir munn spámanns að nafni Esekíel sagði Jehóva fyrir gereyðingu borgarinnar meira en 250 árum áður en hún átti sér stað. Jehóva lýsti yfir: „Ég skal leiða í móti þér margar þjóðir . . . Þær skulu brjóta múra Týrusar og rífa niður turna hennar, og ég mun sjálfur sópa burt öllum jarðveg af henni og gjöra hana að berum kletti. Hún skal verða að þerrireit fyrir fiskinet úti í hafinu.“ Esekíel nafngreindi enn fremur fyrirfram þá þjóð er fyrst skyldi setjast um Týrus, svo og leiðtoga hennar: „Ég leiði Nebúkadresar konung í Babýlon . . . gegn Týrus.“ — Esekíel 26:3-5, 7.

4. (a) Hvernig rættist spádómurinn um sigur Babýlonar á Týrus? (b) Hvers vegna tóku Babýloníumenn ekki herfang?

4 Eins og sagt var fyrir vann Nebúkadresar (Nebúkadnesar) síðar þann hluta borgarinnar er lá á meginlandinu, eftir „þrettán ára umsátur“ að sögn The Encyclopædia Britannica.1 En spádómurinn gat þess einnig að hann myndi ekkert herfang taka: „Þó hefir hvorki hann né herlið hans fengið nein laun frá Týrus.“ (Esekíel 29:18) Hvers vegna ekki? Vegna þess að Týrus stóð að hluta til á eyju sem mjótt sund skildi frá meginlandinu.⁠2 Fjársjóðir borgarinnar höfðu að stærstum hluta verið fluttir frá meginlandinu til eyjarinnar sem ekki var unnin.

5, 6. Hvernig eyddi Alexander mikli eyborgina Týrus og uppfyllti í smáatriðum það sem spáð hafði verið?

5 Nebúkadnesar ‚sópaði ekki heldur öllum jarðvegi af Týrus og gerði hana að berum kletti‘ eins og Esekíel hafði spáð. Og ekki rættist þá heldur spádómur Sakaría sem sagði að Týrus yrði steypt „í sjóinn.“ (Sakaría 9:4) Voru þá spádómarnir ónákvæmir? Alls ekki. Meira en 250 árum eftir að Esekíel bar fram spádóm sinn og nálega 200 árum eftir að Sakaría skráði sinn lagði grískur her undir stjórn Alexanders mikla Týrus algerlega í rúst, árið 332 f.o.t. „Úr rústahaugum meginlandsborgarinnar,“ segir Encyclopedia Americana, „byggði hann gríðarmikinn [grjótgarð] árið 332 til að tengja eyna við meginlandið. Eftir sjö mánaða umsátur . . . tók hann Týrus og eyddi hana.“⁠3

6 Þannig endaði jarðvegur og rústir Týrusar í hafinu eins og Esekíel og Sakaría höfðu spáð. Eftir stóð ber klettur, ‚þerrireitur fyrir fiskinet,‘ eins og maður, sem heimsótti staðinn, lýsti honum einu sinni.⁠4 Þannig rættust nákvæmlega í smæstu atriðum spádómar sem bornir voru fram öldum áður!

Kýrus og fall Babýlonar

7. Hvað sagði Biblían fyrir um Gyðinga og Babýlon?

7 Spádómarnir um Gyðinga og Babýlon eru og eftirtektarverðir. Mannkynssagan greinir frá því að Babýloníumenn hafi herleitt Gyðinga. Jeremía hafði spáð því um 40 árum áður en það gerðist og Jesaja sagði það fyrir með um 150 ára fyrirvara. Hann spáði einnig að Gyðingar myndu snúa heim úr útlegðinni. Sama gerði Jeremía sem sagði það mundu gerast eftir 70 ára útlegð. — Jesaja 39:6, 7; 44:26; Jeremía 25:8-12; 29:10.

8, 9. (a) Hver vann Babýlon og hvernig? (b) Hvernig staðfestir mannkynssagan uppfyllingu spádómsins um Babýlon?

8 Gyðingar áttu afturkvæmt vegna þess að Medar og Persar lögðu Babýlon undir sig árið 539 f.o.t. Jesaja hafði sagt þann atburð fyrir næstum 200 árum áður og Jeremía um það bil 50 árum áður. Jeremía sagði að hermenn Babýlonar myndu enga mótspyrnu veita. Bæði Jesaja og Jeremía sögðu að vötnin, sem vernduðu Babýlon, fljótið Efrat, skyldu „þorna.“ Jesaja nafngreindi jafnvel hinn sigursæla persneska hershöfðingja, Kýrus, og sagði að fyrir honum yrðu „borgarhliðin [í Babýlon] . . . eigi lokuð.“ — Jeremía 50:38; 51:11, 30; Jesaja 13:17-19; 44:27; 45:1.

9 Gríski sagnaritarinn Heródótus segir svo frá að Kýrus hafi einmitt veitt Efratfljótinu úr farvegi sínum og við það hafi „vatnsborðið í gamla árfarveginum lækkað svo að áin varð væð.“⁠5 Í skjóli náttmyrkurs gekk óvinaherinn fylktu liði eftir árfarveginum og inn um borgarhliðin sem höfðu í kæruleysi verið skilin eftir opin. „Hefðu Babýloníumenn haft spurnir af hvað Kýrus var að gera,“ heldur Heródótus áfram, „hefðu þeir lokað öllum borgarhliðunum sem sneru út að ánni . . . En nú komu Persar þeim að óvörum og tóku borgina.“⁠6 Biblían segir svo frá að Babýloníumenn hafi haldið svallveislu þessa nótt og Heródótus staðfestir það.⁠7 (Daníel 5:1-4, 30) Jesaja og Jeremía sögðu báðir fyrir að Babýlon myndi að síðustu verða að óbyggðum rústum. Þannig fór líka fyrir henni og núna er Babýlon eyðilegir rústahaugar. — Jesaja 13:20-22; Jeremía 51:37, 41-43.

10. Hvað staðfestir að Kýrus hafi veitt Gyðingum heimfararleyfi?

10 Kýrus veitti einnig Gyðingum heimfararleyfi. Meira en tveim öldum áður hafði Jehóva sagt um Kýrus: „Hann skal framkvæma allan vilja minn.“ (Jesaja 44:28) Í samræmi við spádóminn lét Kýrus fangana snúa heim í land sitt árið 537 f.o.t. (Esra 1:1-4) Á fornu persnesku leirkefli, sem kennt er við Kýrus, stendur skýrum stöfum að sú hafi verið stefna Kýrusar að leyfa föngum að snúa heim til fyrri heimkynna. Þar er haft eftir Kýrusi varðandi íbúa Babýlonar: „Ég safnaði (einnig) saman öllum (fyrri) íbúum þeirra og gaf (þeim) aftur fyrri heimkynni.“⁠8

Medía-Persía og Grikkland

11. Hvernig spáði Biblían uppgangi Medíu-Persíu og síðan falli fyrir Grikklandi?

11 Babýlon var enn heimsveldi þegar Biblían spáði því að tvíhyrndur hrútur, sem táknaði „konungana í Medíu og Persíu,“ myndi sigra hana. (Daníel 8:20) Eins og spádómurinn sagði tók Medía-Persía við sem heimsveldi er hún lagði Babýlon undir sig árið 539 f.o.t. Síðar kom „geithafur“ fram á sjónarsviðið, Grikkland, og „laust hrútinn og braut bæði horn hans.“ (Daníel 8:1-7) Það gerðist árið 332 f.o.t. þegar Grikkland sigraði Medíu-Persíu og varð næsta heimsveldi.

12. Hvað sagði Biblían um stjórnina yfir Grikklandi?

12 Taktu eftir hvað síðan átti að gerast samkvæmt spádóminum: „Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur.“ (Daníel 8:8) Hvað merkir þetta? Biblían skýrir það svo: „Hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn. Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.“ — Daníel 8:21, 22.

13. Hvernig rættist spádómurinn um Grikkland meira en 200 árum eftir að hann var skráður?

13 Sagan sýnir að þessi ‚Grikklands konungur‘ var Alexander mikli. En eftir dauða hans árið 323 f.o.t. klofnaði ríkið og skiptist milli fjögurra hershöfðingja — það voru Selevkos Níkator, Kassander, Ptólemeos Lagos og Lýsimakhos. Rétt eins og Biblían hafði sagt spruttu „í þess stað . . . upp önnur fjögur.“ Enginn þeirra var þó jafnvoldugur og Alexander hafði verið. Þessi spádómur byrjaði að uppfyllast meira en 200 árum eftir að hann var skráður — enn ein athyglisverð sönnun fyrir innblæstri Biblíunnar!

Spádómar um Messías

14. Hvað segir fræðimaður um hina mörgu spádóma sem uppfylltust á Jesú Kristi?

14 Spádómar Biblíunnar um Jesú Krist eru sérlega eftirtektarverðir, enda skipta þeir tugum. Prófessor J. P. Free segir: „Líkurnar á að allir þessir spádómar hafi ræst af tilviljun á einum manni eru svo hverfandi litlar að uppfylling þeirra er eindregin sönnun þess að þeir geta ekki verið skarplegar ágiskanir manna.“⁠9

15. Nefndu nokkra spádóma um Jesú sem hann gat ekki haft áhrif á að uppfylltust.

15 Margir þessara spádóma voru þess eðlis að Jesús gat engin áhrif haft á uppfyllingu þeirra. Hann gat til dæmis ekki búið svo um hnútana að hann fæddist í ættkvísl Júda eða væri afkomandi Davíðs. (1. Mósebók 49:10; Jesaja 9:6, 7; 11:1, 10; Matteus 1:2-16) Hann gat heldur ekki haldið svo á málum að hann myndi fæðast í Betlehem. (Míka 5:1; Lúkas 2:1-7) Hann gat ekki séð til þess að hann yrði svikinn fyrir 30 silfurpeninga (Sakaría 11:12; Matteus 26:15); að óvinir hans hræktu á hann (Jesaja 50:6; Matteus 26:67); að hann yrði spottaður er hann hékk á aftökustaurnum (Sálmur 22:8, 9; Matteus 27:39-43); að hann yrði stunginn en ekkert bein í líkama hans brotið (Sakaría 12:10; Sálmur 34:21; Jóhannes 19:33-37) og að hermenn skyldu varpa hlutkesti um klæði hans (Sálmur 22:19; Matteus 27:35). Þetta eru aðeins fáeinir spádómar af mörgum sem rættust á manninum Jesú.

Eyðing Jerúsalem

16. Hverju spáði Jesús um Jerúsalem?

16 Jesús var mestur spámanna Jehóva. Fyrst skulum við athuga það sem hann sagði um örlög Jerúsalem: „Óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ (Lúkas 19:43, 44) Jesús sagði einnig: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ — Lúkas 21:20, 21.

17. Hvernig rættist spádómur Jesú um umsátur Jerúsalem og hvernig var mönnum gert kleift að flýja borgina?

17 Eins og spádómurinn hafði sagt settist rómverskur her undir stjórn Cestíusar Gallusar um Jerúsalem árið 66. Af einhverjum undarlegum orsökum varð umsátrið endasleppt. Sagnaritarinn Flavíus Jósefus, sem uppi var á fyrstu öld, segir: „Hann dró herlið sitt til baka frá borginni án nokkurrar einustu ástæðu.“⁠10 Með þessum óvæntu lokum umsátursins opnaðist tækifæri til að hlýða fyrirmælum Jesú um að flýja Jerúsalem. Sagnaritarinn Evsebíus segir að það hafi verið kristnir menn sem gerðu það.⁠11

18. (a) Hvað gerðist árið 70, innan við fjórum árum eftir að rómverskur her hafði horfið frá Jerúsalem? (b) Hversu alger var eyðing borgarinnar?

18 Innan við fjórum árum síðar, árið 70, kom rómverskur her aftur, nú undir stjórn Títusar hershöfðingja, og umkringdi Jerúsalem. Hann felldi trén á margra kílómetra breiðu belti kringum borgina og reisti um hana „virki,“ víggirðingu úr oddastaurum. Jósefus segir að þar með hafi ‚öll undankomuvon Gyðinga verið að engu gerð.‘⁠12 Jósefus nefnir að eftir um það bil fimm mánaða umsátur hafi ekkert staðið eftir nema þrír turnar og hluti borgarmúrsins. Að því undanskildu var borgin „svo gersamlega jöfnuð við jörðu . . . að ekkert stóð eftir sem gat fengið nokkurn, er þangað kom, til að trúa að hún hefði nokkurn tíma verið byggð.“⁠13

19. (a) Hver urðu örlög Jerúsalembúa? (b) Um hvað er sigurbogi Títusar þögul áminning?

19 Um það bil 1.100.000 féllu í umsátrinu og 97.000 voru teknir til fanga.⁠14 Fram á þennan dag má sjá í Rómaborg þögult vitni um uppfyllingu spádóms Jesú. Þar stendur sigurbogi Títusar sem Rómverjar reistu árið 81 til að minnast hins árangursríka sigurs yfir Jerúsalem. Sigurboginn er þögul áminning um ógæfuna sem getur hlotist af því að sinna ekki þeim viðvörunum sem fólgnar eru í spádómum Biblíunnar.

Spádómar sem eru að rætast núna

20. Hvaða spurningu var Jesús að svara er hann gaf ‚táknið‘ sem myndi sýna að heimsbreyting væri í nánd?

20 Að sögn Biblíunnar á heimurinn stórkostleg umskipti í vændum. Á sama hátt og Jesús sagði fyrir atburði sem voru fólki fyrstu aldar tákn um yfirvofandi eyðingu Jerúsalem, sagði hann fyrir atburðarás sem nútímamenn geta haft til marks um að mikil heimsbreyting sé í nánd. Jesús gaf þetta „tákn“ til svars við spurningu lærisveina sinna: „Hvert verður tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins?“ — Matteus 24:3, New World Translation.

21. (a) Hvað er ‚nærvera‘ Krists og hvað eru „endalok heimskerfisins“? (b) Hvar getum við lesið um táknið sem Jesús gaf?

21 Að sögn Biblíunnar átti Kristur ekki að vera ‚nærverandi‘ í mannsmynd heldur sem máttugur stjórnandi á himnum er myndi frelsa kúgað mannkyn. (Daníel 7:13, 14) ‚Nærvera‘ hans myndi standa yfir samtímis og ‚endalok heimskerfisins‘ sem hann kallaði svo. En hvert átti þá að vera tákn þess að Jesús væri ósýnilega nærverandi sem konungur og að endalok heimskerfisins væru nálæg? Þú getur lesið um þá atburði, sem til samans mynda táknið, hjá Matteusi í kafla 24, Markúsi kafla 13 og Lúkasi kafla 21. Nokkur meginatriði táknsins eru sem hér segir:

22. Hvernig hafa stríð frá 1914 verið hluti táknsins og hve miklu tjóni hafa þau valdið?

22 STÓRSTYRJALDIR: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ (Matteus 24:7) Alla tíð frá 1914 hefur uppfylling þessara orða verið yfirþyrmandi. Í fyrri heimsstyrjöldinni, sem braust út árið 1914, var fyrst farið að nota í stórum stíl vélbyssur, skriðdreka, kafbáta, flugvélar og einnig eiturgas. Þegar henni lauk árið 1918 höfðu um það bil 14 milljónir hermanna og óbreyttra borgara fallið. Sagnfræðingur segir: „Fyrri heimsstyrjöldin var fyrsta allsherjarstyrjöldin.“⁠15 Síðari heimsstyrjöldin á árunum 1939 til 1945 olli enn meiri eyðileggingu en sú fyrri. Tala fallinna hermanna og óbreyttra borgara komst upp í 55 milljónir. Og nýtt ógnarvopn var tekið í notkun — kjarnorkusprengjan! Síðan hafa yfir 30 milljónir manna í viðbót fallið í fjölda styrjalda, smáum sem stórum. Þýska fréttatímaritið Der Spiegel segir: „Sannur friður hefur ekki ríkt í heiminum einn einasta dag frá 1945.“⁠16

23. Í hvaða mæli hefur matvælaskortur herjað á heiminn síðan 1914?

23 MATVÆLASKORTUR: „Þá verður hungur.“ (Matteus 24:7) Víðtæk hungursneyð fylgdi í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Eftir þá síðari varð enn verri hungursneyð. Og núna er „hungrið víðtækara en nokkru sinni fyrr. . . . hungurdauði vofir stöðugt yfir allt að 400 milljónum manna,“ segir Lundúnablaðið Times.17 Tórontóblaðið The Globe and Mail segir: „Yfir 800 milljónir manna eru vannærðar.“⁠18Og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að „12 milljónir barna deyi ár hvert undir eins árs aldri“ vegna vannæringar.⁠19

24. Hvernig hafa jarðskjálftar færst í aukana frá 1914?

24 JARÐSKJÁLFTAR: „Þá verða landskjálftar miklir.“ (Lúkas 21:11) Sérfræðingur í jarðskjálftavörnum, George W. Housner að nafni, kallar jarðskjálftann í Tangshan í Kína árið 1976, sem kostaði hundruð þúsunda manna lífið, „mestu jarðskjálftahamfarir í sögu mannkyns.“⁠20 Ítalska tímaritið Il Piccolo segir: „Kynslóð okkar lifir hættulega tíma mikillar jarðskjálftavirkni, eins og talnaskýrslur sýna.“⁠21 Ár hvert hafa að meðaltali um tífalt fleiri farist í jarðskjálftum síðan 1914 en fyrr á öldum.

25. Hvaða alvarlegir sjúkdómar og farsóttir hafa hrjáð mannkynið síðan 1914?

25 SJÚKDÓMAR: „Drepsóttir . . . á ýmsum stöðum.“ (Lúkas 21:11) Tímaritið Science Digest segir: „Spánski inflúensufaraldurinn árið 1918 geystist um jörðina og lagði að velli 21 milljón manna,“ og bætir svo við: „Aldrei áður í sögunni hafði dauðinn heimsótt jafnmiskunnarlaust og jafnskyndilega. . . . Hefði farsóttin haldið áfram að færast í aukana með sama hraða hefði mannkynið þurrkast út á fáeinum mánuðum.“⁠22 Síðan þá hafa hjartasjúkdómar, krabbamein, kynsjúkdómar og ýmsar aðrar plágur bæklað og drepið hundruð milljóna manna.

26. Hvernig hefur lögleysi vaxið frá 1914?

26 GLÆPIR: „Lögleysi magnast.“ (Matteus 24:12) Morð, rán, nauðganir, hryðjuverk, spilling — listinn er langur og alkunnur. Víða er fólk hrætt við að ganga um göturnar. Sérfræðingur um hryðjuverkastarfsemi staðfestir að lögleysi hafi magnast frá 1914: „Tíminn fram að fyrri heimsstyrjöldinni var á heildina litið mannúðlegri.“⁠23

27. Hvernig er spádómurinn um ótta að uppfyllast núna?

27 ÓTTI: „Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ (Lúkas 21:26) Hamborgarblaðið Die Welt kallaði okkar tíma einu sinni „öld óttans.“⁠24 Nú blasa við mannkyninu nýjar ógnir er vekja ótta af því tagi sem menn þekktu ekki fyrr. Í fyrsta sinn í sögunni er sú ógn fyrir hendi að kjarnorkuvopn eða mengun muni „jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Stigvaxandi glæpir, verðbólga, kjarnorkuvígbúnaður, hungur, sjúkdómar og annað böl hefur alið á djúpstæðum ótta — fólki finnst öryggi sínu og jafnvel lífi ógnað.

Hvað gerir tímana óvenjulega?

28. Hvernig sýna þeir atburðir og aðstæður, sem nefndir hafa verið, að við lifum við ‚endalok heimskerfisins‘?

28 Sumir benda þó á að margt af þessu hafi gerst fyrr á öldum. Er þá eitthvað óvenjulegt við það núna? Í fyrsta lagi hafa öll atriðin, sem mynda táknið, sést innan einnar og sömu kynslóðar — kynslóðarinnar sem lifði árið 1914. Enn eru lifandi milljónir manna af þeirri kynslóð. Jesús sagði: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.“ (Lúkas 21:32) Í öðru lagi finna menn fyrir áhrifum táknsins um allan heim, á einum stað af öðrum. (Matteus 24:3, 7, 9; 25:32) Í þriðja lagi hefur ástandið versnað stöðugt á þessu tímabili: „Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ (Matteus 24:8; 2. Tímóteusarbréf 3:13) Og í fjórða lagi hefur þessi framvinda haldist í hendur við breytingar á viðhorfum manna og hátterni eins og Jesús benti á: „Kærleikur flestra [mun] kólna.“ — Matteus 24:12.

29. Hversu vel samsvarar lýsing Biblíunnar á „síðustu dögum“ siðferði okkar tíma?

29 Siðferðishrunið meðal manna er ein af traustum sönnunum þess að við lifum hina hættulegu endalokatíma sem spáð var. Berðu saman það sem þú sérð gerast í heiminum og þessi spádómsorð um okkar tíma: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

1914 — straumhvörf í mannkynssögunni

30, 31. (a) Hvernig litu menn fyrir 1914 á horfurnar í heimsmálum og hvað héldu þeir framtíðina bera í skauti sér? (b) Hvað annað en lýsingu á tákninu er að finna í Biblíunni sem sýnir að við lifum á „síðustu dögum“?

30 Fyrir 1914 komu mönnum vart í hug þær miklu hörmungar og styrjaldir um heim allan sem Biblían spáði um. Þýski stjórnmálamaðurinn Konrad Adenauer sagði: „Hugsanir og myndir koma upp í huga mér, . . . hugsanir frá árunum fyrir 1914 þegar ríkti sannur friður, ró og öryggi á þessari jörð — tími er við þekktum ekki ótta. . . . Öryggi og ró hafa horfið úr lífi manna upp frá 1914.“⁠25 Þeir sem uppi voru fyrir 1914 héldu að framtíðin „myndi verða betri og betri,“ eins og breski stjórnmálamaðurinn Harold Macmillan komst að orði.⁠26 Bókin 1913: America Between Two Worlds segir: „Bryan utanríkisráðherra sagði [árið 1913] að ‚horfurnar á heimsfriði hafi aldrei verið betri en nú.‘“⁠27

31 Já, allt þar til fyrri heimsstyrjöldin skall á spáðu heimsleiðtogar að í hönd færi tími aukinnar upplýsingar og félagslegra framfara. En Biblían hafði spáð hinu gagnstæða — að stríð, er ætti sér enga hliðstæðu, myndi marka upphaf hinna ‚síðustu daga‘ eins og stríðið á árunum 1914-1918 gerði. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Biblían innihélt auk þess tímatalsfræði sem sýndi að árið 1914 yrði ríki Guðs stofnsett á himni og að í kjölfarið myndu koma fordæmislausar þrengingar yfir heiminn.⁠28 En gerðu einhverjir þálifandi menn sér grein fyrir að slík straumhvörf yrðu í mannkynssögunni árið 1914?

32. (a) Hvað sögðu þeir sem þekktu tímatalsfræði Biblíunnar um árið 1914 áratugum áður en það rann upp? (b) Hvað hafa aðrir sagt um árið 1914, samanber yfirlitið á blaðsíðu 228?

32 Áratugum fyrir 1914 höfðu samtök manna vakið athygli á þýðingu þess árs. New Yorkblaðið World sagði þann 30. ágúst 1914: „Hið skelfilega stríð, sem brotist hefur út í Evrópu, hefur uppfyllt mjög sérstakan spádóm. Í aldarfjórðung hafa ‚Alþjóðasamtök biblíunemenda‘ [vottar Jehóva] . . . boðað heiminum í ræðu og riti að dagur reiðinnar, sem spáð er í Biblíunni, myndi renna upp árið 1914. ‚Hafið gætur á árinu 1914!‘ hafa kristniboðarnir hrópað.“⁠29

Fólk sem uppfyllir spádóm

33. Hvernig uppfylla vottar Jehóva einnig spádóm um ‚síðustu daga‘?

33 Biblían sagði einnig fyrir að „á hinum síðustu dögum“ myndu menn af öllum þjóðum í táknrænum skilningi streyma til ‚fjalls Jehóva‘ þar sem hann myndi ‚kenna þeim sína vegu.‘ Spádómurinn segir að árangur þeirrar fræðslu yrði meðal annars þessi: „Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. . . . ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ (Jesaja 2:2-4) Afstaða votta Jehóva til styrjalda er alkunn og greinileg uppfylling þessa spádóms.

34. Á hverju sést að vottar Jehóva hafa ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum‘?

34 Martin Niemöller, mótmælendaleiðtogi í Þýskalandi fyrir og eftir síðari heimsstyrjöldina, talaði um votta Jehóva sem „einlæga biblíufræðimenn er hefðu í hundraða- og þúsundatali farið í fangabúðir og dáið vegna þess að þeir neituðu að gegna herþjónustu og aftóku að skjóta á aðra menn.“ En síðan benti hann á andstæðu og sagði: „Kristnar kirkjur hafa í aldanna rás alltaf fallist á að blessa styrjaldir, hersveitir og vopn og . . . þær hafa beðið á mjög ókristilegan hátt fyrir útrýmingu óvinarins.“⁠30 Hverjir lifa þá í samræmi við það sem Jesús sagði eiga að vera kennimerki sannkristinna manna? Hann sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Eins og 1. Jóhannesarbréf 3:10-12 sýnir glöggt drepa þjónar Guðs ekki hver annan. Það eru börn Satans sem gera það.

35. (a) Hvað sameinar votta Jehóva? (b) Er hollusta þeirra við Guðsríki réttlætanleg út frá Biblíunni?

35 Hollusta við ríki Guðs og fastheldni við meginreglur Biblíunnar sameinar votta Jehóva í eitt bræðrafélag um allan heim. Þeir viðurkenna undanbragðalaust það sem Biblían kennir: Að Guðsríki sé raunveruleg stjórn með lög og vald og að það muni bráðlega ráða yfir allri jörðinni. Það á sér nú þegar milljónir þegna á jörðinni, er láta móta sig sem grundvöll þeirrar siðmenningar sem í vændum er, og þeim fjölgar ört. Spámanninum Daníel var blásið í brjóst að skrifa um þetta ríki: „Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi [núverandi] ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Jesús tók Guðsríki fram yfir allt annað þegar hann sagði: „Þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. . . . til komi þitt ríki.“ — Matteus 6:9, 10.

36. (a) Hvað vill Guð láta gera heyrinkunnugt? (b) Hverjir vinna að því?

36 Hinir mörgu atburðir, sem hafa frá 1914 uppfyllt spár Biblíunnar, sýna að mjög bráðlega mun himneskt ríki Guðs ‚knosa og að engu gera allar aðrar stjórnir.‘ Og Guð vill að þessi ætlun hans sé gerð heyrinkunnug eins og sjá má af þessum mikilvæga þætti táknsins: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Milljónir votta Jehóva, heimsbræðralag, eru nú að uppfylla þennan spádóm.

37. Hvers vegna eru endalok þessa heimskerfis í Harmagedón fagnaðartíðindi?

37 Þegar Guðsríki hefur verið prédikað að því marki sem Guð vill, þá mun heimurinn, að sögn Jesú, sjá ‚þá miklu þrengingu, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei aftur verða.‘ Þessi þrenging mun ná hámarki í stríðinu við Harmagedón og binda enda á ill áhrif Satans. Öll jörðin verður þá losuð við illar þjóðir og menn og brautin rudd fyrir paradís „þar sem réttlæti býr.“ — Matteus 24:21; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 16:14-16; 12:7-12; 2. Korintubréf 4:4.

38. (a) Hvað hefur uppfylling spádóma Biblíunnar sannað? (b) Hvernig er rétt að líta á framtíðarspádóma hennar?

38 Með svona marga uppfyllta spádóma að bakhjarli hefur Biblían sannað sig vera þá bók sem er „innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Taktu þar af leiðandi við henni „ekki . . . sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og [hún] í sannleika er.“ (1. Þessaloníkubréf 2:13) Og þar eð höfundur hennar, Jehóva Guð, ‚kunngjörir endalokin frá öndverðu‘ getur þú fyllilega treyst því að spádómar hennar um ókomna tíma muni rætast. (Jesaja 46:10) Framtíðarhorfurnar eru hreint og beint unaðslegar. Þær eru hið hrífandi viðfangsefni næsta kafla.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 216]

Uppfylltir spádómar vekja traust.

[Rammi á blaðsíðu 222]

Jesús sagði fyrir eyðingu Jerúsalem.

[Rammi á blaðsíðu 226]

Ein og sama kynslóðin sér alla þætti táknsins.

[Rammi á blaðsíðu 227]

„Fyrir 1914 . . . ríkti sannur friður, ró og öryggi á þessari jörð.“

[Rammi á blaðsíðu 229]

„Ekki skulu þær temja sér hernað framar.“

[Rammi á blaðsíðu 231]

Biblían hefur sýnt fram á trúverðugleik sinn sem bók innblásin af skaparanum.

[Rammi á blaðsíðu 128]

1914 — STRAUMHVÖRF Í MANNKYNSSÖGUNNI

Jafnvel eftir síðari heimsstyrjöldina líta margir á 1914 sem hin miklu straumhvörf í nútímasögu mannsins:

„Það er árið 1914 en ekki Híróshíma-harmleikurinn sem markar straumhvörf á okkar tímum.“ — René Albrecht-Carrié, The Scientific Monthly, júlí 1951.

„Alla tíð frá 1914 hafa allir, sem fylgst hafa með þróuninni í heiminum, haft þungar áhyggjur af því sem líkist einna helst örlagabundinni hergöngu í átt til sívaxandi stórhörmunga. Margt alvarlega þenkjandi fólk hefur fengið á tilfinninguna að ekkert sé hægt að gera til að afstýra því að heimurinn steypist út í tortímingu. Þeir sjá mannkynið eins og hetju í grískum harmleik sem keyrð er áfram af reiðum guðum og er ekki lengur herra örlaga sinna.“ — Bertrand Russell í The New York Times Magazine, 27. september 1953.

„Nútíminn . . . hófst árið 1914 og enginn veit hvenær eða hvernig honum mun ljúka. . . . Honum gæti lokið með gereyðingu.“ — The Seattle Times, 1. janúar 1959.

„Árið 1914 leið heimurinn, eins og hann var þá þekktur og viðurkenndur, undir lok.“ — James Cameron í bókinni 1914, gefin út árið 1959.

„Allur heimurinn umhverfðist í fyrri heimsstyrjöldinni og við vitum enn ekki ástæðuna. . . . Útópía var í augsýn. Það ríkti friður og velmegun. Þá sprakk allt í loft upp. Við höfum verið í dauðadái síðan.“ — Dr. Walker Percy, American Medical News, 21. nóvember 1977.

„Árið 1914 glataði heimurinn samhengi sínu og hefur aldrei tekist að ná því aftur. . . . Þetta hefur verið tími óvenjulegrar ólgu og ofbeldis, bæði innan landamæra og þvert yfir þau.“ — The Economist, Lundúnum, 4. ágúst 1979.

„Siðmenningin var gripin illvígum og ef til vill banvænum sjúkdómi árið 1914.“ — Frank Peters, St. Louis Post-Dispatch, 27. janúar 1980.

„Allt varð betra og betra. Þetta var sá heimur sem ég fæddist í. . . . Skyndilega, óvænt, morgun einn árið 1914 leið þetta allt undir lok.“ — Breski stjórnmálamaðurinn Harold Macmillan, The New York Times, 23. nóvember 1980.

[Mynd á blaðsíðu 217]

Gerð grjótgarðsins út í eyborgina Týrus uppfyllti spádóma í Biblíunni.

[Mynd á blaðsíðu 218]

Biblíuspádómur rættist þegar Efrat var veitt úr farvegi sínum.

[Mynd á blaðsíðu 219]

Leirkefli Kýrusar (sýnt upp á endann) segir frá þeirri venju hans að senda bandingja heim til fyrri heimkynna.

[Mynd á blaðsíðu 220]

Minnispeningur úr gulli með mynd af Alexander mikla, en sigurvinningar hans voru sagðir fyrir í Biblíunni.

[Myndir á blaðsíðu 221]

Margir spádómanna um Jesú voru þess eðlis að hann gat engin áhrif haft á uppfyllingu þeirra.

[Mynd á blaðsíðu 223]

Þessi veggjalágmynd á innanverðum sigurboga Títusar, sem sýnir fjársjóði Jerúsalem borna burt eftir eyðingu hennar, er þögul áminning.

[Mynd á blaðsíðu 230]

Þegar þetta heimskerfi líður undir lok munu þeir sem lifa af ganga inn í nýjan, réttlátan heim.