Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

Hvað er „Babýlon hin mikla“?

Hvað er „Babýlon hin mikla“?

Í OPINBERUNARBÓKINNI er að finna alls konar táknmál sem ber ekki að skilja bókstaflega. Til dæmis er nefnd þar kona sem er með nafnið „Babýlon hin mikla“ skrifað á enni sér. Hún er sögð vera við vötn sem „eru lýðir og fólk“. (Opinberunarbókin 17:1, 5, 15) Hér er augljóslega um táknmál að ræða þannig að Babýlon hin mikla getur varla verið bókstafleg kona. Hvað táknar þá þessi skækja?

Í Opinberunarbókinni 17:18 er þessi sama kona kölluð „borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar“. Orðið ‚borg‘ gefur til kynna skipulagðan hóp fólks. Þar eð Babýlon hin mikla, hér nefnd „borgin mikla“, ræður yfir „konungum jarðarinnar“ hlýtur hún að tákna samtök eða stofnun sem fer með völd á alþjóðavettvangi. Það má kalla hana heimsveldi. Hvers konar heimsveldi? Við getum dregið þá ályktun af nokkrum ritningarstöðum í Opinberunarbókinni að það sé trúarlegs eðlis.

Heimsveldi getur verið pólitískt, viðskiptalegt eða trúarlegt. Konan Babýlon hin mikla er ekki pólitískt veldi því að Biblían segir að „konungar jarðarinnar“, það er að segja stjórnmálaöflin, hafi „drýgt saurlifnað með henni“. Með saurlifnaði er átt við sambönd sem hún á við valdhafa jarðar og bandalög sem hún hefur myndað við þá, og það skýrir hvers vegna hún er kölluð ‚skækjan mikla‘. — Opinberunarbókin 17:1, 2; Jakobsbréfið 4:4.

Babýlon hin mikla getur ekki verið viðskiptaveldi vegna þess að „kaupmenn jarðarinnar“, sem tákna viðskiptaöflin, harma eyðingu hennar. Bæði konungar og kaupmenn eru sagðir standa „langt frá“ og horfa á Babýlon hina miklu. (Opinberunarbókin 18:3, 9, 10, 15-17) Það er því eðlilegt að draga þá ályktun að Babýlon hin mikla sé hvorki pólitískt veldi né viðskiptalegt heldur trúarlegt.

Annað sem staðfestir að Babýlon hin mikla sé trúarveldi er að hún er sögð leiða allar þjóðir í villu með „töfrum“ sínum, það er að segja kukli og andatrúariðkunum. (Opinberunarbókin 18:23) Þar sem hvers kyns kukl og andatrú er trúarlegs eðlis og á upptök sín hjá illum öndum kemur ekki á óvart að Biblían skuli kalla Babýlon hina miklu „djöfla heimkynni“. (Opinberunarbókin 18:2; 5. Mósebók 18:10-12) Þessu mikla veldi er auk þess lýst þannig að það berjist gegn sannri trú og ofsæki ‚spámenn og heilaga‘. (Opinberunarbókin 18:24) Svo djúpstætt er hatur Babýlonar hinnar miklu á sannri trú að hún ofsækir grimmilega og myrðir jafnvel „Jesú votta“. (Opinberunarbókin 17:6) Konan Babýlon hin mikla táknar því greinilega heimsveldi falstrúarbragðanna en það eru öll trúarbrögð sem eru andsnúin Jehóva Guði.