Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

3. KAFLI

Rahab trúði á Jehóva

Rahab trúði á Jehóva

Ímyndum okkur að við séum í borginni Jeríkó sem er í Kanaanslandi. Fólkið þar trúir ekki á Jehóva. Í borginni býr kona sem heitir Rahab.

Þegar Rahab var lítil stelpa heyrði hún sögur af því hvernig Móse klauf Rauðahafið og leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Hún heyrði líka af því hvernig Jehóva hjálpaði Ísraelsmönnum að sigra óvinaþjóðir í stríði. Núna fréttir hún að Ísraelsmenn hafi sett upp tjöld nálægt Jeríkó.

Rahab verndaði njósnarana af því að hún trúði á Jehóva.

Kvöld eitt fara tveir Ísraelsmenn inn í Jeríkó til að njósna um borgina. Þeir koma að húsinu hennar Rahab. Hún býður þeim að koma inn og dvelja hjá sér. Seinna um kvöldið fréttir konungurinn í Jeríkó að það séu njósnarar í borginni og að þeir hafi farið heim til Rahab. Hann sendir því menn til að sækja þá. En Rahab felur njósnarana uppi á flötu þaki hússins og segir við menn konungs: ,Njósnararnir eru ekki lengur hér, þeir eru farnir úr borginni. Ef þið flýtið ykkur getið þið náð þeim.‘ Veistu af hverju Rahab verndar njósnarana? – Af því að hún trúir á Jehóva og veit að hann ætlar að gefa Ísraelsmönnum Kanaansland.

Áður en njósnararnir fara frá Rahab lofa þeir henni að hún og fjölskylda hennar verði óhult þegar Jeríkó verður eytt. Veistu hvað þeir segja henni að gera? – Þeir segja við hana: ,Taktu þetta rauða reipi og láttu það hanga niður úr glugganum þínum. Ef þú gerir það bjargast allir í húsinu.‘ Rahab gerir nákvæmlega það sem njósnararnir segja henni að gera. Veistu hvað gerist svo? –

Jehóva bjargaði Rahab og fjölskyldu hennar.

Nokkrum dögum síðar ganga Ísraelsmenn í kringum Jeríkó. Enginn þeirra segir orð. Þetta gera þeir einu sinni á dag, sex daga í röð. En sjöunda daginn ganga þeir sjö sinnum í kringum borgina. Síðan hrópa þeir allir mjög hátt. Þá lætur Jehóva borgarmúrana hrynja til grunna. En húsið, þar sem rauða reipið hangir út um gluggann, stendur enn. Sérðu það á myndinni? – Rahab og fjölskyldu hennar er borgið!

Hvað getur þú lært af Rahab? – Rahab trúði á Jehóva vegna þess að hún hafði heyrt um allt það stórkostlega sem hann hafði gert. Þú ert líka að læra stórkostlega hluti um Jehóva. Trúir þú á hann eins og Rahab gerði? – Það gerirðu örugglega.