18. HLUTI
Hvernig veitum við trúsystkinum neyðaraðstoð?
Þegar náttúruhamfarir eða aðrar hörmungar verða eru Vottar Jehóva fljótir til að skipuleggja neyðaraðstoð handa bágstöddum trúsystkinum. Þannig sýnum við að við berum ósvikinn kærleika hvert til annars. (Jóhannes 13:34, 35; 1. Jóhannesarbréf 3:17, 18) Hvers konar aðstoð veitum við?
Við gefum fjármuni. Þegar mikil hungursneyð varð í Júdeu sendu kristnir menn í Antíokkíu fé til trúsystkina sinna þar. (Postulasagan 11:27-30) Ef við fréttum að trúsystkini okkar einhvers staðar í heiminum séu í nauðum stödd sendum við líka framlög fyrir milligöngu safnaðar okkar til að veita neyðaraðstoð. – 2. Korintubréf 8:13-15.
Við skipuleggjum hjálparstarf. Öldungarnir, sem búa á hamfarasvæðinu, reyna að hafa uppi á öllum í söfnuðinum til að kanna hvar þeir séu niður komnir og hvort þeir séu heilir á húfi. Hjálparnefnd samræmir eftir þörfum dreifingu á mat, hreinu drykkjarvatni og fatnaði, og sér til þess að allir fái húsaskjól og læknishjálp. Margir vottar með nauðsynlega fagmenntun bjóðast til að fara á eigin kostnað til að taka þátt í hjálparstarfi eða gera við skemmdir á húsum og ríkissölum. Einingin innan safnaðarins og reynslan, sem við höfum af því að vinna saman, gerir okkur kleift að bregðast skjótt við á neyðarstund. Þó að við leggjum áherslu á að liðsinna „trúsystkinum okkar“ aðstoðum við einnig aðra eftir föngum, hverrar trúar sem þeir eru. – Galatabréfið 6:10.
Við notum Biblíuna til að hughreysta. Fórnarlömb náttúruhamfara hafa brýna þörf fyrir huggun og hughreystingu. Við slíkar aðstæður getum við leitað til Jehóva sem er „Guð allrar huggunar“ og fengið styrk frá honum. (2. Korintubréf 1:3, 4) Við segjum fúslega frá fyrirheitum Biblíunnar og bendum þeim sem örvænta á að ríki Guðs bindi bráðlega enda á allt sem veldur kvöl og þjáningum. – Opinberunarbókin 21:4.
-
Af hverju geta Vottar Jehóva brugðist skjótt við þegar náttúruhamfarir verða?
-
Hvernig getum við hughreyst fórnarlömb náttúruhamfara?