Þrátt fyrir prófraunir hef ég alltaf verið vonglaður
Þrátt fyrir prófraunir hef ég alltaf verið vonglaður
ANDREJ HANÁK SEGIR FRÁ
Það var árið 1943 og heimsstyrjöldin síðari geisaði. Vegna þess að ég var hlutlaus sat ég í fangelsi í Búdapest í Ungverjalandi. Þar bauð skeggjaður rétttrúnaðarprestur mér biblíuna sína í skiptum fyrir þrjá dagskammta af brauði. Þótt ég hafi þjáðst af hungri er ég sannfærður um að ég hagnaðist á skiptunum.
ÞAÐ var enginn hægðarleikur að halda hreinni samvisku sem kristinn maður þegar nasistar tóku völdin í landinu í síðari heimsstyrjöldinni. Síðar, í meira en 40 ára stjórnartíð kommúnista, var einnig erfitt að þjóna skapara okkar, Jehóva Guði, án þess að víkja frá meginreglum Biblíunnar.
Áður en ég lýsi því hvernig það var að vera ráðvandur gagnvart Guði á þeim tíma, ætla ég að segja smávegis frá sjálfum mér. Ykkur finnst vafalaust áhugavert að kynnast því hvað vottar Jehóva þurftu að þola fyrr á árum. Fyrst ætla ég að segja frá trúarlegu atviki sem vakti mig til umhugsunar um helstu trúarbrögðin á okkar slóðum.
Torskilin trúarleg spurning
Ég fæddist 3. desember 1922 í Pácin, ungversku þorpi nálægt slóvakísku landamærunum. Slóvakía tilheyrði þá austurhluta Tékkóslóvakíu. Þar sem Sovétríkin höfðu lagt undir sig meginhluta Tékkóslóvakíu eftir heimsstyrjöldina síðari færðust landamæri Úkraínu um 30 kílómetra inn að Pácin.
Ég var annar í röðinni af fimm börnum trúaðra rómversk-kaþólskra foreldra. Þegar ég var 13 ára átti sér stað atburður sem varð til þess að ég fór að hugsa frekar út í trúarbrögð. Ég fór í fylgd móður
minnar í 80 kílómetra langa pílagrímsferð til þorpsins Máriapócs í Ungverjalandi. Við fórum þangað fótgangandi þar sem við álitum að með því hlytum við meiri blessun. Bæði rómversk-kaþólskir og grísk-kaþólskir fóru í pílagrímsferðina. Áður hafði ég talið að þessar tvær kirkjudeildir væru hluti af fremur sameinuðum kaþólskum trúarbrögðum. En ég komst brátt að raun um annað.Það fór svo að grísk-kaþólska messan var haldin fyrst. Og ég ákvað að sækja hana. Móðir mín komst í uppnám þegar hún fékk síðar að vita hvað ég hafði gert. Hálfráðvilltur spurði ég: „Hvaða máli skiptir hvaða messu við sækjum? Neytum við ekki öll af einum og sama líkama Krists?“
Þar sem móðir mín gat engu svarað sagði hún ekki annað en: „Sonur minn, það er synd að spyrja slíkra spurninga.“ Spurningarnar liðu mér samt ekki úr minni.
Spurningunum svarað
Þegar ég var 17 ára — stuttu eftir að heimsstyrjöldin síðari braust út 1939 — flutti ég nokkra kílómetra í burtu, til Streda nad Bodrogom, lítillar borgar sem tilheyrir núna austanverðri Slóvakíu. Ég fór þangað til að vinna sem iðnnemi hjá járnsmið. En á heimili hans lærði ég það sem var dýrmætara en að búa til skeifur undir hesta og móta aðra hluti úr bræddum málmi.
Mária Pankovics, eiginkona járnsmiðsins, var vottur Jehóva. Það fór svo að ég lærði járnsmíðar hjá eiginmanni hennar á daginn en á kvöldin kynnti ég mér Biblíuna og sótti samkomur vottanna á staðnum. Sem járnsmíðanemi fór ég að skilja betur orðin í Sálmi 12:7: „Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.“ Mikið voru kvöldin skemmtileg sem fóru í að rannsaka orð Jehóva og fá spurningum mínum um Biblíuna svarað.
Ekki renndi mig grun í að þar sem heimsstyrjöldin síðari magnaðist yrði hin nýfundna trú mín fyrir prófraun áður en langt um liði.
Fangelsaður vegna trúarinnar
Það leið ekki langur tími frá því að ég byrjaði í járnsmíðanáminu þar til krafist var að ungir menn í Ungverjalandi tækju þátt í herþjálfun. En ég ákvað að fara eftir meginreglu Biblíunnar í Jesaja 2:4 um ‚að temja sér ekki hernað framar.‘ Vegna viljafestu minnar var ég dæmdur í tíu daga fangelsi. Þegar ég var laus úr haldi hélt ég áfram að kynna mér Biblíuna. Síðan táknaði ég vígslu mína til Jehóva með niðurdýfingarskírn 15. júlí 1941.
Um þetta leyti höfðu nasistar í Þýskalandi ráðist inn í Sovétríkin og Austur-Evrópa var komin á kaf í stríð. Stríðsáróðurinn óx gífurlega og þjóðernistilfinningin breiddist út. En í samræmi við sannfæringu sína, sem byggð var á meginreglum Biblíunnar, héldu vottar Jehóva áfram að vera hlutlausir.
Í ágúst 1942 var skipulögð grimmileg árás á okkur. Yfirvöld tilnefndu tíu staði þar sem jafnt ungum sem eldri vottum var safnað saman. Það var jafnvel farið með þá sem höfðu ekki látið skírast, en vitað var að hefðu samband við okkur, á þessa smölunarstaði. Ég var meðal þeirra sem voru settir í fangelsi í Sárospatak, borg sem var í um 20 kílómetra frá þorpinu mínu, Pácin.
Sá yngsti í fangelsinu var aðeins þriggja mánaða gamall. Hann hafði verið fangelsaður með móður sinni sem var vottur. Þegar við báðum um mat, að minnsta kosti handa barninu, hreytti vörðurinn út úr sér: „Látið hann grenja.
Það hjálpar honum að verða sterkur vottur.“ Við fundum til með litla snáðanum en það hryggði okkur einnig að þjóðernisáróður skyldi geta gert unga vörðinn svona harðneskjulegan.Ég var dæmdur í tveggja ára fangelsi. Síðan var ég fluttur í fangelsið að Margit Körut 85 í Búdapest. Klefarnir, sem voru 4 sinnum 6 metrar að stærð, voru troðfullir af fólki, um það bil 50 til 60 manns. Við vorum þarna í 8 mánuði án þess að hafa bað- eða snyrtiaðstöðu. Við gátum því hvorki farið í sturtu né bað og þaðan af síður þvegið fötin okkar. Við vorum öll grálúsug og á næturnar skriðu pöddur yfir óhreina líkamana.
Við urðum að fara á fætur klukkan fjögur á morgnana. Morgunverðurinn var aðeins lítill bolli af kaffi. Í hádeginu fengum við álíka skammt af súpu og um 150 grömm af brauði ásamt smástöppu. Á kvöldin fengum við ekkert. Enda þótt ég væri tuttugu ára og hefði verið heilsuhraustur varð ég að lokum svo óstyrkur að ég gat ekki gengið. Fangarnir fóru að deyja úr hungri og sýkingum.
Um þetta leyti kom nýr fangi í klefann til okkar. Það var skeggjaði rétttrúnaðarpresturinn sem ég minntist á í upphafi. Honum hafði verið leyft að halda biblíunni sinni. Æ, hvað mig langaði til að lesa í henni! En þegar ég bað hann um leyfi til þess neitaði hann mér um það. Seinna kom hann þó að máli við mig og sagði. „Heyrðu, strákur. Þú getur fengið biblíuna. Ég skal selja þér hana.“
„Selja hana? Fyrir hvað?“ spurði ég. „Ég hef enga peninga á mér.“
Það var þá sem hann bauð mér biblíuna í skiptum fyrir þriggja daga brauðskammtinn. Mikið átti ég eftir að hagnast á þeim skiptum! Þrátt fyrir matarleysið fékk ég andlegu fæðuna sem stuðlaði að því að halda lífinu í mér og öðrum í prófraunum okkar á þessum erfiðu tímum. Ég hef geymt þessa biblíu fram á þennan dag. — Matteus 4:4.
Reynt á hlutleysi okkar
Í júní 1943 var farið með unga votta hvaðanæva af Ungverjalandi — við vorum um það bil 160 karlmenn — til Jászberényborgar í grennd við Búdapest. Þegar við neituðum að setja upp hermannahúfur og láta þrílitan borða um handleggina vorum við settir í vöruflutningavagna og fluttir til Köbánya-járnbrautarstöðvarinnar í Búdapest. Þar kölluðu herforingjar okkur út úr vögnunum einn í einu með nafnakalli og skipuðu okkur að gefa okkur fram til herþjónustu.
Okkur var fyrirskipað að segja „Heil Hitler“ sem þýðir „lof sé Hitler.“ Þegar vottarnir neituðu hver og einn að gera það voru höggin látin dynja á þeim. Um síðir urðu pyndararnir þreyttir og einn þeirra sagði: „Jæja þá, við skulum berja einn í viðbót en sá mun ekki lifa það af.“
Tibor Haffner, roskinn og gamalreyndur vottur, hafði fengið afrit af nafnalista yfir vottanna sem voru í vagninum. Hann hvíslaði að mér: „Bróðir, þú ert næstur. Vertu hugrakkur! Treystu Jehóva.“ Í sama bili var kallað á mig. Þar sem ég stóð í dyrunum á flutningavagninum var mér sagt að koma niður. „Það er ekkert hold á honum til að berja,“ sagði einn hermannanna. Síðan sagði hann við mig: „Ef þú gefur þig fram eins og þú hefur verið beðinn um skulum við sjá til þess að þú verðir settur í eldhúsið til að sjá um matinn. Annars muntu láta lífið.“
„Ég mun ekki gefa mig fram til herþjónustu,“ svaraði ég. „Ég vil fara aftur inn í flutningavagninn þar sem bræður mínir eru.“
Sálm 20:2: „Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.“
Hermaður, sem vorkenndi mér, þreif í mig og henti mér aftur inn í flutningavagninn. Þar sem ég var ekki nema um 40 kíló reyndist það ekki erfitt fyrir hann. Bróðir Haffner kom og faðmaði mig að sér, strauk mér um kinnarnar og vitnaði fyrir mig íÍ vinnubúðum
Eftir þetta vorum við fluttir með bát eftir Dóná til Júgóslavíu. Í júlí 1943 komum við til vinnubúðanna í nánd við borgina Bor en þar voru stærstu koparnámur í Evrópu. Með tímanum komst fjöldinn í búðunum upp í allt að 60.000 manns af ýmsu þjóðerni, þar á meðal voru 6.000 Gyðingar og um 160 vottar Jehóva.
Vottunum var komið fyrir í stórum skála. Miðsvæðis í honum voru borð og bekkir og þar héldum við samkomur okkar tvisvar í viku. Við fórum yfir Varðturnsblöðin en þeim var smyglað inn í búðirnar og lásum í biblíunni sem ég fékk í skiptum fyrir brauðskammtinn. Við sungum einnig söngva og fórum sameiginlega með bænir.
Við reyndum að hafa gott samband við aðra fanga og það reyndist heillavænlegt. Einn af bræðrunum var með mikla innvortis verki og verðirnir vildu ekki ná í hjálp. Þar sem ástandi hans hrakaði féllst einn af föngunum, sem var Gyðingur og læknir, á að skera hann upp. Hann gaf bróðurnum nokkurs konar deyfingarlyf og framkvæmdi skurðaðgerðina með brýndu skeiðarskafti. Bróðirinn náði sér og sneri heim eftir stríðið.
Vinnan í námunni var lýjandi og matur af skornum skammti. Tveir bræður dóu í vinnuslysi og annar af völdum sjúkdóms. Í september 1944, þegar rússneski herinn nálgaðist, var ákveðið að tæma búðirnar. Því sem síðar gerðist væri erfitt að trúa ef ég hefði ekki séð það með eigin augum.
Hrollvekjandi ganga
Eftir vikulanga þreytandi göngu komum við til Belgrad ásamt mörgum Gyðingum. Þá héldum við enn áfram í nokkra daga og komum til þorpsins Cservenka.
Þegar við komum til Cservenka var vottum Jehóva skipað að stilla sér upp í fimmfaldar raðir. Þá var einn vottur tekinn úr annarri hverri röð. Með tárin í augunum horfðum við á eftir þeim sem teknir höfðu verið og héldum að þeir yrðu líflátnir. En eftir smástund komu þeir aftur. Hvað gerðist? Þýsku hermennirnir ætluðu að láta þá grafa grafir en ungverskur yfirmaður sagði að þeir hefðu einskis neytt í viku og væru of máttfarnir til að vinna.
Um kvöldið var farið með alla vottana upp í þakherbergi í byggingu sem notuð var til þurrkunar á múrsteinum. Þýskur liðsforingi sagði við okkur: „Hafið hljótt um ykkur og verið hér kyrrir. Þetta verður ömurleg nótt.“ Síðan læsti hann dyrunum. Eftir nokkrar mínútur
heyrðum við hermennina hrópa: „Áfram! Áfram!“ Þá heyrðust vélbyssuskot og í kjölfarið kom skelfileg þögn. Og aftur heyrðum við: „Áfram! Áfram!“ og fleiri skothvelli.Í gegnum þakið gátum við séð hvað var að gerast. Hermennirnir komu með fjölda Gyðinga úr fangahópnum, stilltu þeim upp á grafarbarm og skutu þá. Á eftir hentu þeir handsprengjum á líkamshrúgurnar. Áður en dagur rann voru allir Gyðingarnir, nema átta, látnir og þýsku hermennirnir flúnir. Við vorum andlega og líkamlega niðurbrotnir. János Török og Ján Bali eru enn á lífi en þeir voru á meðal vottanna sem urðu vitni að þessari aftöku.
Héldum lífi
Undir eftirliti ungversku hermannanna héldum við áfram göngunni í vestur og síðan norður á bóginn. Við vorum ítrekað beðnir um að taka þátt í hernaðaraðgerðum en gátum samt haldið fast við hlutleysi okkar og lifað af.
Í apríl 1945 vorum við staddir milli þýsku og rússnesku herjanna við borgina Szombathely nálægt landamærum Ungverjalands og Austurríkis. Þegar loftvarnarmerki var gefið spurði ungverskur höfuðsmaður, sem var vörður okkar, hvort hann mætti fara með okkur í leit að byrgi: „Ég sé að Guð er með ykkur,“ sagði hann. Þegar sprengjuárásinni linnti yfirgáfum við borgina, gangandi fram hjá líkum manna og dýra.
Þegar þessi sami höfuðsmaður sá að stríðslokin nálguðust kallaði hann á okkur og sagði: „Ég þakka ykkur fyrir að sýna mér tillitssemi. Ég er hérna með te og sykur handa ykkur öllum. Smáræði að vísu.“ Við þökkuðum honum fyrir hversu mannúðlega hann hefði komið fram við okkur.
Eftir nokkra daga komu Rússarnir og heimferðin var hafin í fámennum hópum. En erfiðleikarnir voru langt frá því að vera úr sögunni. Þegar við komum til Búdapest tóku Rússarnir okkur fasta og við sættum annarri herkvaðningu — í þetta sinn í sovéska herinn.
Maðurinn, sem stjórnaði því sem fram fór, var læknir og háttsettur rússneskur embættismaður. Þegar við komum inn í herbergið könnuðumst við ekkert við hann en hann þekkti okkur. Hann hafði verið með okkur í vinnubúðunum í Bor og var einn af þeim fáu Gyðingum sem höfðu lifað af þjóðarmorð nasista. Þegar hann sá okkur gaf hann vörðunum skipun: „Sendið þessa átta menn heim.“ Við þökkuðum honum fyrir en umfram allt þökkuðum við Jehóva fyrir vernd hans.
Ég er enn vonglaður
Loksins kom ég heim til Pácin 30. apríl 1945. Stuttu síðar fór ég til endurfundar við járnsmiðinn í Streda nad Bodrogom til að ljúka iðnnáminu. Pankovicsfjölskyldan hafði gefið mér mikið — ekki aðeins iðn sem ég gat notað
mér til lífsviðurværis heldur einnig það sem skipti meira máli, sannleika Biblíunnar sem breytti lífi mínu. Og þau gáfu mér meira. Árið 1946, 23. september, kvæntist ég Jolönu, hinni yndislegu dóttur þeirra.Við Jolana héldum áfram að kynna okkur Biblíuna og prédika reglulega. Og árið 1948 veittist okkur enn ein blessunin er við eignuðumst soninn Andrej. Gleði okkar yfir trúfrelsinu stóð samt ekki lengi. Brátt tóku kommúnistar völdin í landinu og önnur ofsóknaralda reið yfir. Ég var kvaddur í herinn 1951, í þetta skipti af tékkneskum kommúnistavaldhöfum. Sagan endurtók sig: réttarhöld, fangelsisdómur, fangelsun, þrælkunarvinna og svelti. En með Guðs hjálp lifði ég af í annað sinn. Vegna almennrar sakaruppgjafar var ég leystur úr haldi 1952 og sameinaðist fjölskyldunni í Ladmovce í Slóvakíu.
Þrátt fyrir að boðunarstarfið væri bannað í um það bil 40 ár héldum við áfram heilagri þjónustu. Frá 1954 til 1988 hafði ég þau sérréttindi að þjóna sem farandumsjónarmaður. Ég heimsótti söfnuði Votta Jehóva um helgar og hvatti trúsystkinin til að standa stöðug í ráðvendni sinni. Og hina daga vikunnar var ég með fjölskyldunni og vann veraldleg störf til að sjá okkur farborða. Allan þennan tíma fundum við fyrir kærleiksríkri leiðsögn Jehóva. Mér fannst orð sálmaritara Biblíunnar hitta í mark: „Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss, þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.“ — Sálmur 124:2, 3.
Er frá leið nutum við Jolana þeirrar gleði að Andrej kvæntist og varð um síðir umsjónarmaður í kristna söfnuðinum. Eiginkona hans, Eliška, og synirnir tveir, Radim og Daniel, urðu einnig virkir boðberar. Árið 1998 missti ég mikið þegar elskulega Jolana mín andaðist. Af öllum prófraunum, sem ég hef orðið að þola, hefur mér reynst erfiðast að sætta mig við það. Ég sakna hennar hvern dag en ég finn huggun í hinni dýrmætu upprisuvon. — Jóhannes 5:28, 29.
Núna er ég 79 ára og þjóna sem öldungur í þorpinu Slovenské Nové Mesto í Slóvakíu. Það sem veitir mér mestu gleðina hér er að segja nágrönnum mínum frá þeirri dýrmætu von sem Biblían gefur. Þegar ég lít til baka og til þjónustunnar við Jehóva í meira en 60 ár er ég sannfærður um að með hjálp Jehóva getum við yfirstígið allar hindranir og staðist allar prófraunir. Ósk mín og von er í samræmi við orðin í Sálmi 86:12: „Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu.“
[Mynd á blaðsíðu 12]
Biblían sem ég fékk í skiptum fyrir brauðskammtinn.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Tibor Haffner uppörvaði mig í prófraununum.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Útför votts í vinnubúðunum í Bor að viðstöddum þýskum hermönnum.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Vottar í vinnubúðunum í Bor.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Ég kvæntist Jolönu í september 1946.
[Myndir á blaðsíðu 15]
János Török og Ján Bali (á innfelldu myndinni) sem voru einnig vitni að fjöldamorðunum.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Með syni mínum, eiginkonu hans og sonarsonum mínum.