Ástæður til að treysta Biblíunni
3. Innra samræmi
Ímyndaðu þér að 40 menn af ólíkum uppruna væru beðnir að skrifa bók þar sem hver og einn skrifar sinn hluta. Ritararnir eru frá ýmsum löndum og þekkja ekki allir hver annan. Sumir vita ekki hvað hinir hafa skrifað. Myndirðu gera ráð fyrir innra samræmi í bók sem væri rituð með þessum hætti?
BIBLÍAN er slík bók. * Hún er jafnvel skrifuð við enn óvenjulegri aðstæður en lýst er hér fyrir ofan. Það má því segja að innra samræmi hennar sé kraftaverki líkast.
Var Jesús í purpuralitaðri eða skarlatsrauðri flík?
Einstakar kringumstæður.
Biblían var skrifuð á um það bil 1600 árum frá 1513 f.Kr. til um 98 e.Kr. Ritararnir voru um 40 talsins og sumir þeirra voru uppi með margra alda millibili. Þeir höfðu mismunandi störf. Sumir voru fiskimenn, aðrir fjárhirðar eða konungar og einn þeirra var læknir.
Samhljóða boðskapur.
Allt sem biblíuritararnir skrifuðu beindist að einu heildarstefi: Rétti Guðs til að stjórna mönnunum og hvernig fyrirætlun hans nær fram að ganga fyrir milligöngu ríkis hans, sem er himnesk alheimsstjórn. Þetta stef er kynnt í 1. Mósebók, útskýrt nánar í bókunum á eftir og nær hámarki í Opinberunarbókinni. — Sjá „Um hvað fjallar Biblían?“ á bls. 19.
Sammála um smáatriði.
Biblíuriturunum ber jafnvel saman um minnstu smáatriði, og oft var það greinilega óafvitandi. Tökum dæmi. Biblíuritarinn Jóhannes segir frá því að þegar mannfjöldi safnaðist í kringum Jesú hafi Jesús spurt Filippus hvar þeir gætu keypt brauð fyrir fólkið. (Jóhannes 6:1-5) Í samsvarandi frásögn Lúkasar segir að þetta hafi átt sér stað nálægt borginni Betsaídu. Fyrr í bók sinni vill svo til að Jóhannes nefnir að Filippus sé frá Betsaídu. (Lúkas 9:10; Jóhannes 1:44) Það er því eðlilegt að Jesús skuli beina spurningu sinni til eins þeirra sem hafði búið í nágrenninu. Smáatriðunum ber saman, án þess að það hafi verið samantekin ráð ritaranna. *
Eðlileg frávik.
Stundum er viss munur á frásögum Biblíunnar. En ættum við ekki að gera ráð fyrir því? Segjum sem svo að hópur fólks verði vitni að glæp. Fyndist þér ekki grunsamlegt ef öll vitnin nefndu sömu smáatriðin og notuðu sömu orðin? Það er eðlilegt að framburður þeirra sé mismunandi eftir sjónarhorni hvers og eins. Þannig var það hjá biblíuriturunum.
Tökum dæmi. Var Jesús klæddur í purpuralitaða flík daginn sem hann var tekinn af lífi eins og Markús og Jóhannes segja? (Markús 15:17; Jóhannes 19:2) Eða var hún skarlatsrauð eins og Matteus segir? (Matteus 27:28) Báðar lýsingarnar gætu verið réttar því að í purpuralit er rauður blær. Sjónarhorn áhorfandans, endurkast ljóssins og bakgrunnur gæti hafa breytt litblænum og varpað mismunandi skuggum á flíkina. *
Samræmið í frásögum biblíuritaranna, jafnvel þótt það hafi augljóslega verið óafvitandi, undirstrikar enn frekar að hægt sé að treysta orðum þeirra.
^ Biblían er safn 66 bóka. Hún byrjar á 1. Mósebók og endar á Opinberunarbókinni.
^ Fleiri dæmi um innra samræmi Biblíunnar er að finna á bls. 16-17 í bæklingnum Bók fyrir alla menn, gefinn út af Vottum Jehóva.
^ Nánari upplýsingar er að finna í 7. kafla bókarinnar The Bible — God’s Word or Man’s?, gefin út af Vottum Jehóva.