Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjónvarp

Sjónvarp

Sjónvarp

SKÖMMU eftir að menn lærðu að útvarpa hljóði fóru uppfinningamenn að velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að senda lifandi myndir. Til að skilja málið betur skulum við líta á hvernig sjónvarpið virkar.

Sjónvarpsmyndavélin varpar mynd á myndflögu sem „les“ myndina ekki ósvipað og við lesum prentaðan texta. En í stað þess að skima raðir af stöfum á blaðsíðu skimar myndflagan depla eða díla á myndinni. Deplunum er breytt í rafræn myndboð eða merki sem hægt er að senda milli staða. Viðtökutækið breytir síðan merkinu í lifandi mynd.

Það var Skoti að nafni John Logie Baird sem er talinn hafa verið fyrstur til að sýna sjónvarpsmynd. Sökum heilsubrests þurfti hann að hætta störfum sem rafmagnsverkfræðingur og beindi þá athygli sinni að viðfangsefni sem hafði heillað hann allt frá unglingsaldri. Var hægt að smíða vél sem gat sent lifandi myndir?

Sjónvarpsmyndavél Bairds var búin skífu sem var í fyrstu útgáfu gerð úr öskju utan af hatti. Á skífunni voru um 30 göt sem mynduðu spíral. Með því að snúa skífunni var hægt að skima mynd línu fyrir línu og varpa ljósinu á ljósnema. Frá ljósnemanum kom síðan merki sem hægt var að senda til viðtökutækis. Þar var merkið magnað til að knýja breytilegt ljós að baki sams konar snúningsskífu og endurskapa myndina. Helsti vandinn var fólginn í því að samhæfa skífurnar. Baird framfleytti sér með því að pússa skó meðan hann vann að þessu verkefni.

Fyrstu sjónvarpsmyndina sendi Baird 2. okt- óber 1925 milli enda risíbúðarinnar þar sem hann bjó. Fyrsta manneskjan, sem kom fram í sjónvarpi, var dauðskelfdur sendisveinn á skrifstofu á neðri hæð hússins. Baird greiddi honum tvo og hálfan skilding fyrir. Baird sendi fyrstu sjónvarpsmyndirnar yfir Atlantshaf árið 1928. Þessi hlédrægi Skoti fór allur hjá sér þegar hann kom í eigin persónu til New York og sveit sekkjapípuleikara tók á móti honum. Hann var orðinn frægur. En var hann fyrstur til að senda lifandi myndir?