Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lögfræðingur rannsakar trú votta Jehóva

Lögfræðingur rannsakar trú votta Jehóva

Lögfræðingur rannsakar trú votta Jehóva

„ÞEKKING mín á vottum Jehóva var sáralítil,“ segir Les Civin en hann er lögfræðingur og rekur lögfræðiskrifstofu í Suður-Afríku. Hvers vegna kynnti hann sér trú vottanna? Að hvaða niðurstöðu komst hann um trú þeirra? Svör hans fara hér á eftir.

Hver var trúarlegur bakgrunnur þinn?

Ég er alinn upp sem gyðingur en snemma á sjöunda áratugnum kvæntist ég Carol og hún var í biskupakirkjunni. Hún hafði engan áhuga á trúmálum og þau höfðu engin áhrif á líf okkar á þeim tíma. En þegar Andrew, sonur okkar, var átta ára fannst Carol að við ættum að gera eitthvað til þess að hann tilheyrði einhverju trúarsamfélagi. Rabbíni sagði mér að ef Carol snerist til gyðingatrúar yrði Andrew sjálfkrafa gyðingur, og þegar hann yrði 13 ára gæti hann hlotið bar mitzvah (athöfn til að tákna að drengur hafi náð fullorðinsaldri í trúarlegum efnum). Við fórum því að mæta vikulega á námskeið fyrir trúskiptinga sem haldið var í samkunduhúsi gyðinga.

Hvernig komstu í samband við votta Jehóva?

Þegar vottarnir komu til okkar vildi ég ekkert með þá hafa. Ég var vanur að segja að ég væri gyðingur og tryði ekki því sem stæði í Nýja testamentinu. Carol sagði mér þá að ein af vinkonum hennar væri vottur og væri mjög vel heima í Biblíunni. Carol stakk upp á að við kynntum okkur Biblíuna svolítið betur. Ég samþykkti þá með semingi að hitta vottana í þeim tilgangi.

Hver voru viðbrögð þín við biblíunáminu?

Ég var mjög yfirlætislegur. Ég hafði endurheimt gyðingatrúna og mér fannst ég vera af hinum útvalda kynstofni. Ég hugsaði með mér: „Hvað getur þetta fólk kennt mér?“ Í fyrstu umræðunni, sem við áttum við vottinn á heimili okkar, sagði ég: „Ég fæddist sem gyðingur. Ég hef fundið trú mína og ég mun deyja sem gyðingur. Ekkert sem þú segir mun breyta afstöðu minni.“ Hann virti skoðun mína með vinsemd. Á föstudags- og mánudagskvöldum fórum við á námskeið fyrir trúskiptinga í samkundunni og á sunnudagsmorgnum (ef ég komst ekki undan því) hittum við vottana. Vel að merkja var námið hjá þeim ókeypis ólíkt kennslunni í samkunduhúsinu.

Ég var með biblíuna, sem gyðingar nota, því að ég hélt að vottarnir væru með þýðingu sem hentaði sjónarmiðum þeirra. En það kom mér á óvart hvað þessar tvær biblíur voru samhljóða. Það gerði mig enn ákveðnari í að sanna að vottarnir vissu ekki um hvað þeir væru að tala.

Þegar við höfðum sótt nokkrar kennslustundir hjá rabbínanum sagði Carol mér að sér fyndist rabbíninn ekki þekkja Biblíuna nógu vel. Hún sagði mér að hún ætlaði að hætta að mæta í kennslustundirnar og myndi ekki afneita Kristi. Ég varð miður mín og hugleiddi að binda enda á hjónaband okkar. En þegar ég hafði komist yfir áfallið ákvað ég að beita annarri aðferð — ég ætlaði að nota lögfræðikunnáttu mína til að sanna fyrir Carol að þessi ,klikkaði sértrúarflokkur‘ hefði á röngu að standa.

Tókst þér það?

Rabbíni gaf mér bók sem var skrifuð til að hrekja spádómana um Messías. Við hjónin kynntum okkur þessa bók í eitt og hálft ár. Við héldum einnig áfram vikulegu námsstundunum með vottunum. Við rannsökuðum hvern spádóm fyrir sig, sem var rætt um í bók rabbínans, og ég varð sífellt órólegri. Andstætt röksemdunum í bókinni bentu messíasarspádómarnir í Biblíunni alltaf til einnar persónu — Jesú Krists. Að lokum dró til úrslita þegar við kynntum okkur spádóminn í Daníel 9:24-27 þar sem sagt er fyrir að Messías ætti að koma fram árið 29 e.Kr. * Votturinn tók fram biblíu á hebresku með orðréttri þýðingu á ensku milli línanna. Ég kannaði orðalagið, reiknaði sjálfur út tímatalið, og sagði: „Gott og vel, spádómurinn bendir til 29 e.Kr. Og hvað með það?“

„Það ár var Jesús skírður,“ sagði votturinn.

Ég var agndofa. Ég varð einnig undrandi á því hvað spádómar Biblíunnar eru nákvæmir og hvernig þeir tengjast innbyrðis.

Hvernig brugðust vinirnir við breyttum skoðunum þínum?

Sumir þeirra höfðu miklar áhyggjur og lofuðu að kynna okkur hjónin fyrir fólki sem gæti sýnt okkur að við hefðum verið heilaþvegin. En sannfæring okkar var byggð á ítarlegum rannsóknum og rökstuðningi — andstætt því sem gerist við heilaþvott.

Af hverju ákvaðstu að verða vottur Jehóva?

Í fyrstu fór ég að sækja samkomur í ríkissalnum af og til með konu minni sem var þá orðin vottur. * Ég hreifst af því hvað vottarnir voru vingjarnlegir og af kærleikanum sem þeir sýndu hver öðrum, óháð kynþætti. Ég hafði ekki orðið var við það í trúfélaginu mínu. Ég hélt biblíunáminu áfram og lét skírast um þrem árum síðar.

Hvað finnst þér um þá ákvörðun að gerast vottur?

Það er heiður að geta sagt: „Ég er vottur Jehóva.“ En þegar ég íhuga hvernig ég barðist á móti sannleikanum finnst mér að ég eigi ekki skilið þá blessun sem Jehóva hefur veitt mér. Ég mun aldrei sjá eftir þeirri ákvörðun að gerast vottur.

Hvaða blessun hefurðu hlotið?

Mikla. Mér þykir vænt um að fá að þjóna sem öldungur, að vera hirðir og kennari í söfnuðinum okkar. Ég hef einnig getað aðstoðað lögfræðideildina á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Suður-Afríku. En mesta blessunin er án efa að þekkja Jehóva og son hans og skilja á hvaða tímum við lifum og hvað þeir örlagaríku atburðir merkja sem skekja heiminn.

[Neðanmáls]

^ Fjallað er um spádóm Daníels um Messías á bls. 197 í bókinni Hvað kennir Biblían?

^ Carol lést árið 1994 og Les Civin hefur gifst aftur.

[Innskot á bls. 11]

Ég varð . . . undrandi á því hvað spádómar Biblíunnar eru nákvæmir og hvernig þeir tengjast innbyrðis.