Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dýrmætara en núverandi líf

Dýrmætara en núverandi líf

Dýrmætara en núverandi líf

Murat Ibatullin segir frá

Árið 1987 var ég sendur á vegum rússneska heilbrigðisráðuneytisins til Úganda í Afríku. Ég hafði tekið að mér að starfa þar sem læknir og gert samning til fjögurra ára. Eiginlega ætlaði ég mér aldrei að snúa aftur til Rússlands en vonaðist til að öðlast reynslu sem nýttist mér til að starfa í löndum eins og Ástralíu, Kanada eða Bandaríkjunum. En árið 1991 höfðu áætlanir mínar breyst og ég sneri aftur til Rússlands. Ég ætla útskýra ástæðuna.

ÉG FÆDDIST árið 1953 í borginni Kazan, höfuðborg lýðveldisins Tatarstan í Mið-Rússlandi. Foreldrar mínir eru tatarar og flestir tatarar eru múhameðstrúar. Ég man eftir að hafa séð afa og ömmu krjúpa og biðja til Allah meðan ég var barn. Pabbi og mamma sögðu okkur að ónáða þau ekki og fara út úr herberginu. Þau gáfu okkur merki með því að depla auga og urðu vandræðaleg af því að þau voru kommúnistar og guðleysingjar á þeim tíma.

Ég fékk mænusótt fjögurra ára þegar síðasti faraldurinn af því tagi gekk yfir Sovétríkin. Æskuminningarnar snúast aðallega um ferðir á spítala og heilsuhæli í læknisskoðanir. Ég man eftir að afi bað þess að mér batnaði. Mig langaði til að vera heilbrigður eins og önnur börn svo að ég spilaði fótbolta, hokkí og stundaði aðrar íþróttir þótt ég væri fatlaður á fæti.

Þegar ég varð eldri langaði mig til að verða læknir. Ég var hvorki trúhneigður né trúlaus. Ég hugsað hreinlega aldrei um Guð. Á þessum tíma var ég gagnrýninn á hugmyndafræði kommúnista og rökræddi oft við föður minn og mann móðursystur minnar. Hann var háskólakennari í heimspeki og faðir minn starfaði hjá öryggismálanefnd ríkisins sem er betur þekkt undir nafninu KGB. Þegar ég lauk námi við læknadeildina hafði ég það markmið að verða góður taugaskurðlæknir og flytja til útlanda.

Leitin að betra lífi

Árið 1984 lauk ég við doktorsritgerð um greiningu á heilaæxlum. Árið 1987 var ég sendur til að starfa á sjúkrahúsi í Mulago í Úganda. Ég flutti til þessa fallega lands ásamt Dilbar, eiginkonu minni, og Rustem og Alisu, börnum okkar, sem þá voru sjö og fjögurra ára. Starfið á spítalanum var erfitt og þar fóru fram skurðaðgerðir á sjúklingum sem voru HIV-smitaðir. Ég ferðaðist oft til annarra spítala víðs vegar um landið þar sem þá voru aðeins tveir taugaskurðlæknar starfandi í Úganda.

Dag einn vorum við Dilbar stödd við bóksöluborð í Úganda og sáum þá í fyrsta sinn Biblíuna á rússnesku. Við keyptum nokkur eintök til að senda vinum í Sovétríkjunum þar sem næstum ómögulegt var að kaupa biblíur þar á þeim tíma. Við lásum nokkra kafla en okkur fannst svo erfitt að skilja efnið að við gáfumst fljótlega upp.

Í þrjú ár sóttum við samt ýmsar kirkjur í Úganda og reyndum að skilja á hvað fólkið trúði og hvers vegna. Ég ákvað einnig að lesa Kóraninn á frummálinu. Við Rustem létum meira að segja innrita okkur á námskeið í arabísku. Eftir nokkra mánuði gátum við bjargað okkur á einfaldri arabísku.

Um þetta leyti hittum við Heinz og Marianne Wertholz sem voru trúboðar og biblíukennarar. Hann var frá Þýskalandi en hún frá Austurríki. Við fyrstu kynni töluðum við ekkert um trúarbrögð. Við vorum eins og hverjir aðrir Evrópubúar sem hittust í Afríku. Við spurðum þau af hverju þau væru í Úganda og fengum að vita að þau væru trúboðar í söfnuði Votta Jehóva og væru í landinu til að hjálpa fólki að kynna sér efni Biblíunnar.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að okkur hafði verið sagt á námskeiði í heimspeki í háskólanum í Rússlandi að Vottarnir væru trúarregla sem fórnaði börnum og drykki blóð þeirra. Ég sagði Heinz og Marianne þetta þar sem ég gat ekki trúað að þau væru því samþykk. Við Dilbar þáðum hvort sitt eintakið af bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð og við sökktum okkur niður í hana næstu klukkustundirnar. Þegar ég hætti lestrinum og spurði Dilbar hvað henni fyndist sagðist hún vera svo gagntekin af því sem hún væri að lesa að hún væri með gæsahúð. Ég sagði henni að því væri eins farið hjá mér.

Eftir þetta vorum við spennt að hitta Heinz og Marianne aftur. Þegar þar að kom höfðum við um margt að ræða. Það sem við lærðum um Biblíuna hafði enn meiri áhrif á okkur. Við fórum að segja vinum og kunningjum frá því sem við vorum að læra. Þar á meðal voru rússneski sendiherrann, ræðismenn frá Rússlandi og öðrum löndum og fulltrúi frá Vatíkaninu. Hann kom okkur verulega á óvart þegar hann hélt því fram að Gamla testamentið væri „eintómar goðsagnir“.

Heim aftur

Mánuði áður en við snerum aftur til Rússlands árið 1991 ákváðum við Dilbar að verða vottar Jehóva. Þegar við kæmum aftur til Kazan ætluðum við halda áfram að sækja safnaðarsamkomur. En okkur til skelfingar tókst okkur ekki að finna einn einasta ríkissal í þrjá mánuði, né sáum við nokkur ummerki um trúsystkini. Við ákváðum því að fara hús úr húsi eins og vottar Jehóva gera alls staðar í heiminum þó að við þyrftum að gera það upp á eigin spýtur. Það bar þann árangur að við hófum nokkur biblíunámskeið. Þar á meðal leiðbeindum við konu sem varð síðar vottur.

Eftir þetta kom í heimsókn aldraður vottur en hann hafði fengið heimilisfangið hjá vottunum í Úganda. Við fórum þá að hittast, 15 manna hópur, og héldum samkomur í lítilli eins herbergis íbúð. Heinz og Marianne héldu sambandi við okkur og komu meira að segja í heimsókn til okkar í Kazan. Seinna heimsóttum við þau í Búlgaríu en þangað voru þau send til að starfa eftir að hafa verið í Úganda. Og þar hafa þau starfað sem trúboðar allt fram á þennan dag.

Góður árangur heima fyrir

Við hvert tækifæri, sem gefst, kynni ég sannleika Biblíunnar fyrir vinnufélögum á sjúkrahúsum í Rússlandi þar sem ég starfa. Með tímanum hafa margir tekið við boðskapnum og orðið vottar Jehóva, að meðtöldum fjölda lækna. Árið 1992, árið eftir að við komum heim, voru vottarnir í Kazan orðnir 45 og næsta ár rúmlega 100. Núna eru sjö söfnuðir Votta Jehóva í Kazan, fimm rússneskumælandi, einn tatarmælandi og einn táknmálsmælandi. Þar eru einnig hópar sem tala armensku og ensku.

Árið 1993 sótti ég læknaráðstefnu í New York og fékk þá tækifæri til að fara í skoðunarferð um aðalstöðvar Votta Jehóva í Brooklyn. Ég hitti Loyd Barry sem vann við að samhæfa boðunarstarf Votta Jehóva um allan heim. Þrátt fyrir annríki gaf hann sér tíma til að tala við mig.

Við ræddum um þörfina fyrir að gefa út biblíutengd rit á tatar. Nokkrum árum síðar var myndað þýðingateymi í Rússlandi og rit á tatar fóru að koma út. Mikið urðum við ánægð þegar við fórum að fá reglulega blaðið Varðturninn en það er biblíunámsrit sem Vottar Jehóva gefa út. Stuttu síðar var fyrsti tatarmælandi söfnuðurinn myndaður.

Aðferðir til að draga úr blóðmissi

Ég fer eftir öllum siðferðisreglum Guðs að meðtalinni þeirri sem nefnd er í Postulasögunni 15:20. Þar er þjónum Guðs sagt að ,halda sig frá blóði‘. Í versi 29 er bætt við að þjónar Guðs eigi að halda sig „frá kjöti, er fórnað hefur verið, skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði“.

Þegar vottar Jehóva leita læknishjálpar biðja þeir lækna um að virða skoðanir sínar og veita sér læknismeðferð án blóðgjafar. Um tíma var ég í spítalasamskiptanefnd Votta Jehóva í Kazan. * Árið 1997 þurfti Pavel frá borginni Novosibirsk á bráðri skurðaðgerð að halda. Hann var þá eins árs og móðir hans hafði samband við okkur og bað um aðstoð. Á þeim tíma voru fáir reyndir læknar í Rússlandi sem voru fúsir til að framkvæma uppskurð án blóðgjafar. Við tókum að okkur að reyna að finna lækni sem myndi gera aðgerð án blóðgjafar.

Bráðlega fundum við hjartaskurðdeild í Kazan þar sem læknar féllust á að gera aðgerð án blóðgjafar á Pavel litla til að lagfæra alvarlegan hjartagalla sem nefnist Fallots-ferna. Aðgerðin heppnaðist mjög vel. Þetta var 31. mars árið 1997. Þriðja apríl birtist eftirfarandi frétt í dagblaðinu Vechernyaya Kazan: „Litli drengurinn er heilbrigður og þarf ekki lengur á hjartalyfjum að halda . . . Móðir Pavliks [gælunafnið á Pavel] gat andað léttar í fyrsta sinn í ellefu mánuði.“ Pavel var fljótur að ná sér eftir aðgerðina og gat tekið fyrstu skrefin á spítalaganginum.

Pavel er nú við góða heilsu og lifir eðlilegu lífi. Honum þykir gaman að synda, renna sér á skautum og spila fótbolta. Hann er í áttunda bekk í skóla og er í söfnuði Votta Jehóva í Novosibirsk ásamt móður sinni. Eftir þessa reynslu hafa læknar á þessu sama sjúkrahúsi gert vel heppnaðar aðgerðir án blóðgjafar á nokkrum hjartasjúklingum sem eru vottar Jehóva. Miklar framfarir eru á sviði læknismeðferðar í Tatarstan og skurðaðgerðir án blóðgjafar eru orðnar algengar.

Núverandi starf

Við hjónin vinnum, ásamt öðrum vottum, á spítala þar sem boðið er upp á hátæknimeðferð fyrir sjúklinga sem þjást af tauga- og hjartasjúkdómum. Við tökum þátt í ýmsum skurðaðgerðum, sérstaklega þegar lögð er áhersla á að draga úr blóðmissi. Ég starfa sem geislafræðingur og vinn að rannsóknum á taugalækningum án inngrips og taugaskurðlækningum án blóðgjafar. Þar sem ég er prófessor á taugafræði- og taugaskurðdeildinni við háskólasjúkrahúsið í Kazan held ég fyrirlestra fyrir læknanema og lækna og reyni að sýna þeim fram á kostina við læknismeðferð án blóðgjafar. *

Eiginkona mín vinnur með mér á spítalanum, en sérsvið hennar er ómskoðun. Við njótum starfsins af því að við getum hjálpað fólki. En mestu ánægjuna upplifum við af því að sjá hvernig sannleikur Biblíunnar hjálpar fólki að byggja upp samband við Guð. Það gleður okkur að segja frá loforði Guðs um að fljótlega muni ,enginn borgarbúi segja: „Ég er veikur.“‘ — Jesaja 33:24.

[Neðanmáls]

^ Spítalasamskiptanefndir eru hópar votta Jehóva sem aðstoða sjúklinga í söfnuðinum við að fá læknismeðferð án blóðgjafar og stuðla að góðri samvinnu milli þeirra og heilbrigðisstarfsmanna.

^ Hægt er að velja um aðgerðir með eða án blóðgjafar. Þar sem blóðgjafir eru ekki hættulausar hefur læknismeðferð án blóðgjafar átt vaxandi fylgi að fagna alls staðar í heiminum. Blóðgjöfum fylgir hætta á HIV-smiti og öðrum smitsjúkdómum, auk hættunnar á ofnæmisviðbrögðum.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Við störf í Afríku.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við hjónin fórum að kynna okkur Biblíuna með hjálp votta Jehóva árið 1990.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Með Loyd Barry í Brooklyn í New York árið 1993.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Pavel og móðir hans.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Í boðunarstarfinu með Dilbar, eiginkonu minni.