Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað veldur ranglætinu?

Hvað veldur ranglætinu?

Hvað veldur ranglætinu?

FYRIR tæplega 2.000 árum lýsti Biblían samfélagi nútímans með ótrúlegri nákvæmni: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir . . . vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir . . . andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:1-4.

Flestir eru sammála um að þessir eiginleikar verði æ algengari. Þeir birtast í ýmsu, svo sem græðgi, fordómum, andfélagslegri hegðun, spillingu og gríðarlegu bili milli ríkra og fátækra. Lítum nánar á þessi fimm atriði.

GRÆÐGI. Við höfum kannski heyrt fleyg orð eins og „græðgi er góð“. En þau eru ósönn. Græðgi er skaðleg. Hún er til dæmis oft ástæðan fyrir bókhaldssvikum, Ponzi-svindli, óábyrgum lántökum eða lánveitingum sem hafa meðal annars valdið efnahagshruni og skaðað marga. Þó að sum fórnarlambanna séu sjálf ágjörn á það ekki við um þau öll. Meðal þeirra er líka fólk sem vinnur hörðum höndum til að sjá fyrir sér, en hefur sumt hvert misst heimili sitt og lífeyri.

FORDÓMAR. Fordómafullt fólk dæmir aðra með ósanngirni og mismunar þeim jafnvel vegna þjóðernis, hörundslitar, kyns, þjóðfélagsstöðu eða trúar. Til dæmis komst nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna að því að ófrísk kona í Suður-Ameríku hafi látist á sjúkrahúsi vegna þess að henni hafði verið mismunað á annarri heilbrigðisstofnun sökum þjóðernis og þjóðfélagsstöðu. Svo öfgafullir eru fordómarnir stundum að þeir hafa leitt til grófs ranglætis á borð við þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð.

ANDFÉLAGSLEG HEGÐUN. Í ágripi úr bókinni Handbook of Antisocial Behavior stendur: „Á hverju ári splundrast tugþúsundir fjölskyldna, lífi hundraða þúsunda manna eru lögð í rúst og eignir að virði margra milljóna dala eru eyðilagðar vegna andfélagslegrar hegðunar. Ofbeldi og yfirgangur eru svo landlæg í samfélagi okkar að maður getur hæglega ímyndað sér að sagnfræðingar framtíðarinnar muni ekki kalla seinni hluta tuttugustu aldar ,geimöldina‘ eða ,upplýsingaöldina‘ heldur ,andfélagslegu öldina‘ – öldina sem samfélagið fór í stríð við sjálft sig.“ Hegðun fólks og viðhorf hafa ekki skánað síðan þessi bók var gefin út árið 1997.

SPILLING. Í greinargerð um spillingu í Suður-Afríku kemur fram að á sjö árum hafi ekki verið gerð viðunandi grein fyrir meira en 81 prósenti af þeim 25,2 milljörðum randa (sem þá jafngilti 4 milljörðum bandaríkjadala) sem umdæmisskrifstofa heilbrigðismála í einu héraði landsins fékk í hendur. Peningarnir, sem „átti að nota til að halda spítölum, læknastofum og heilsugæslustöðvum í héraðinu gangandi“, höfðu ekki verið notaðir, segir í tímaritinu The Public Manager.

GRÍÐARLEGT BIL MILLI RÍKRA OG FÁTÆKRA. Árið 2005 voru nálægt 30 prósent af árstekjum Breta „greiddar 5 prósentum tekjuhæstu einstaklinganna,“ segir í tímaritinu Time. Á sama tíma fóru „yfir 33 prósent tekna í Ameríku til 5 prósenta tekjuhæstu einstaklinganna,“ að sögn tímaritsins. Um 1,4 milljarðar jarðarbúa lifa á 1,25 bandaríkjadölum eða minna á dag og 25.000 börn deyja sökum fátæktar á hverjum degi.

Er einhver lausn á ranglætinu?

Árið 1987 setti forsætisráðherra Ástralíu ríkisstjórn sinni það markmið að ekkert barn í Ástralíu myndi lifa við fátækt árið 1990. Sú varð ekki raunin. Reyndar sá hann síðar eftir því að hafa sett ríkistjórninni þetta markmið.

Það er sama hversu valdamiklir, ríkir eða áhrifamiklir menn eru, þeir geta ekki útrýmt ranglætinu. Þeir valdamiklu verða líka fyrir óréttlæti, eldast og deyja eins og aðrir. Það minnir á tvennt sem stendur í Biblíunni:

„Enginn maður ræður för sinni, enginn stýrir skrefum sínum á göngunni.“Jeremía 10:23.

„Treystið eigi tignarmönnum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“Sálmur 146:3.

Ef við erum sammála þessu verðum við ekki fyrir vonbrigðum þegar menn geta ekki leyst vandamálin. Eigum við þá að gefa upp alla von? Alls ekki. Réttlátur heimur er innan seilingar, eins og við munum sjá í síðustu greininni í þessari syrpu. En þangað til er ýmislegt sem við getum gert. Við getum litið í eigin barm og athugað hvernig við getum verið réttlátari í samskiptum við aðra og á hvaða sviðum við getum sjálf bætt okkur. Í næstu grein verður tekið á þessum spurningum.

[Myndir á bls. 4, 5]

A. Maður í Kína handtekinn fyrir að taka þátt í kynþáttaóeirðum.

B. Rán og skemmdarverk í London.

C. Hörmuleg fátækt í flóttamannabúðum í Rúanda.

[Rétthafi]

Efst til vinstri: © Adam Dean/​Panos Pictures; efst í miðju: © Matthew Aslett/​Demotix/​CORBIS; Efst til hægri: © David Turnley/​CORBIS.