Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI

Bera mótmæli árangur?

Bera mótmæli árangur?

Vottar Jehóva, útgefendur þessa tímarits, eru hlutlausir í stjórnmálum. (Jóhannes 17:16; 18:36) Þótt bent sé á dæmi í þessari grein um borgaralegar óeirðir tökum við hvorki afstöðu í pólitískum ágreiningsmálum né gerum upp á milli þjóða.

MOHAMED BOUAZIZI var nóg boðið þann 17. desember 2010. Hann var 26 ára götusali í Túnis sem var mjög vonsvikinn yfir því að finna ekki betri vinnu. Hann vissi líka að spilltir embættismenn kröfðust mútugjafa. Þennan umrædda morgun gerði lögreglan upptækar birgðir hans af perum, banönum og eplum. Þegar þeir tóku vigtina af honum veitti hann mótspyrnu. Sjónarvottar segja að lögreglukona hafi slegið hann.

Niðurlægður og bálreiður fór Mohamed inn á næstu bæjarskrifstofu til að kvarta en fékk enga áheyrn. Sagt er að hann hafi æpt fyrir framan bygginguna: „Hvernig ætlist þið til að ég geti séð fyrir fjölskyldunni?“ Síðan hellti hann yfir sig eldsneyti og kveikti í sér. Hann lést af brunasárum sínum innan þriggja vikna.

Örþrifaráð Mohameds hafði áhrif á fólk í Túnis og víðar. Margir telja að það hafi hrundið af stað uppreisnaröldu sem varð til þess að stjórn landsins var steypt af stóli og mótmæli breiddust hratt út til annarra arabalanda. Árið 2011 veitti Evrópuþingið Mohamed Bouazizi, ásamt fjórum öðrum, Sakharov-verðlaunin vegna baráttu þeirra fyrir tjáningafrelsi. Breska dagblaðið The Times valdi Mohamed mann ársins 2011.

Eins og þetta dæmi sýnir geta mótmæli haft í för með sér miklar breytingar. En hvað veldur því að mótmæli hafa færst svona í aukana undanfarin ár? Eru þau eina leiðin til að koma á breytingum?

 Hvers vegna eru mótmæli orðin svo algeng?

Eftirfarandi er kveikjan að mörgum mótmælum:

  • Óánægja með þjóðfélagskerfið. Þegar fólk trúir því að stjórnvöld og hagkerfið þjóni hagsmunum þess finnur það litla þörf hjá sér til að mótmæla. Fólk leysir úr sínum málum innan kerfisins. En ef fólki finnst kerfið vera spillt og óréttlátt og hygla fámennum forréttindahópum skapar það ólgu.

  • Kornið sem fyllir mælinn. Oft verður einhver ákveðinn atburður til þess að fólk finnur sig knúið til að grípa til sinna ráða í stað þess að sætta sig við ástandið. Mál Mohameds hleypti til dæmis af stað fjöldamótmælum í Túnis. Aðgerðarsinninn Anna Hazare fór í hungurverkfall til að mótmæla spillingu á Indlandi og það hratt af stað mótmælum meðal stuðningsmanna hans í 450 borgum og bæjum.

Í Biblíunni stendur að við búum í heimi þar sem „einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu“. (Prédikarinn 8:9) Spilling og óréttlæti er orðið enn útbreiddara núna en þegar þetta var ritað. Fólk gerir sér betur grein fyrir því nú en áður hvernig stjórnmála- og efnahagskerfi manna hafa brugðist þeim. Fréttaflutningur allan sólarhringinn, snjallsímar og Netið hafa þau áhrif að atburðir á afskekktum svæðum geta vakið viðbrögð á mörgum stöðum.

Hverju hafa mótmæli áorkað?

Stuðningsmenn mótmælaaðgerða benda eflaust á að mótmæli hafi áorkað eftirfarandi:

  • Bætt kjör bágstaddra. Í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar urðu óeirðir meðal leigjenda í Chicago í Bandaríkjunum. Borgaryfirvöld frestuðu ákvörðun sinni um að bera út leigjendur og gerðu ráðstafanir til að sumir mótmælendanna fengju vinnu. Í New York urðu svipuð mótmæli sem komu því til leiðar að 77.000 fjölskyldur fengu heimili sín aftur eftir að hafa verið bornar út.

  • Stemmt stigu við óréttlætinu. Á miðjum sjötta áratug síðustu aldar sniðgengu blökkumenn strætisvagna í Montogomery í Alabama. Það leiddi til þess að aðskilnaður kynþátta var afnuminn í strætisvögnum.

  • Stöðvað byggingaframkvæmdir. Í desember 2011 mótmæltu tugir þúsunda byggingaframkvæmdum á kolaraforkuveri nálægt Hong Kong  vegna mengunarhættu. Hætt var við framkvæmdirnar.

Fólk nær stundum sínu fram með mótmælum en ríki Guðs býður upp á betri lausn.

Þeir sem mótmæla fá að sjálfsögðu ekki alltaf vilja sínum framgengt. Yfirvöld ákveða stundum að hegna þeim í staðinn fyrir að láta að vilja þeirra. Það er ekki langt síðan forseti lands nokkurs í Mið-Austurlöndum sagði um mótmælaölduna þar: „Það verður að svara henni með járnhnefa.“ Þúsundir hafa fallið í þeim óeirðum.

Þótt fólk nái sínu fram með mótmælum leiða þau nær undantekningarlaust af sér ný vandamál. Maður nokkur, sem tók þátt í að steypa leiðtoga Afríkuríkis af stóli, sagði í viðtali við bandaríska tímaritið Time um nýju stjórnina: „Þetta var útópía sem endaði strax í algerri ringulreið.“

Er til betri leið?

Mörgu þekktu fólki hefur fundist það vera siðferðileg skylda sín að mótmæla kúgun af hendi yfirvalda. Václav Havel, fyrrverandi forseti Tékklands, sat árum saman í fangelsi vegna mannréttindabaráttu sinnar. Hann skrifaði árið 1985: „[Andófsmaðurinn] getur aðeins lagt sjálfan sig að veði – og hann gerir það eingöngu vegna þess að hann hefur enga aðra leið til að lýsa yfir sannfæringu sinni.“

Orð Havels minna á örþrifaráð Mohameds Bouazizis og  margra annarra. Í Asíulandi nokkru hafa fjölmargir kveikt í sér undanfarið til að mótmæla trúarlegri og pólitískri kúgun. Maður nokkur lýsti hvernig fólki, sem grípur til slíkra örþrifaráða, er innanbrjósts. Hann sagði í viðtali við tímaritið Newsweek: „Við eigum ekki byssur. Við viljum ekki skaða aðra. Hvað annað er hægt að gera?“

Biblían bendir á lausn á óréttlæti, spillingu og kúgun. Hún segir frá stjórn sem Guð hefur komið á fót á himnum. Þessi stjórn mun koma í stað stjórnmála- og efnahagskerfa sem bregðast og verða til þess að fólk gerir uppreisn. Í spádómi um þann sem fer með völdin í þessari stjórn stendur: „Hann bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá.“ – Sálmur 72:12, 14.

Vottar Jehóva trúa því að Guðsríki sé eina örugga vonin um friðsaman heim. (Matteus 6:9, 10) Þeir taka því ekki þátt í mótmælum. En er óraunhæft að ímynda sér að stjórn Guðs geti fjarlægt allt sem gefur fólki ástæðu til að mótmæla? Það gæti virst svo í fljótu bragði. Margir hafa þó lært að treysta á stjórn Guðs. Við hvetjum þig til að athuga málið.