Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Kurteisi í SMS-samskiptum

Kurteisi í SMS-samskiptum

VANDINN

Þú ert að tala við vin þinn þegar þú færð SMS. Hvað áttu að gera?

  1. Lesa skilaboðin á meðan þú talar við vin þinn.

  2. Afsaka þig við vin þinn og lesa skilaboðin.

  3. Leiða skilaboðin hjá þér og halda áfram að tala við vin þinn.

Skiptir einhverju máli hvað þú gerir? Já, það skiptir máli.

ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA

Að senda SMS til eins vinar á meðan þú talar við annan má líkja við að spila íþrótt sem þér finnst skemmtileg en fylgja ekki reglunum. Þér finnst það kannski í lagi vegna þess að þetta eru vinir þínir. En þá er enn meiri ástæða til að vera kurteis. Það þýðir ekki að þú þurfir að vera formlegur eða stífur í samskiptum við vinina. En staðreyndin er einfaldlega þessi: Ef þú ert ókurteis við vini þína hætta þeir fyrr eða síðar að vera vinir þínir.

Hvers vegna er það þannig? Vegna þess að fólki líkar ekki að komið sé dónalega fram við það. Ung kona, sem heitir Beth, * segir: „Mér finnst pirrandi þegar vinkona mín er sífellt að kíkja á símann sinn á meðan við erum að tala saman. Það er eins og hún sé að bíða eftir að eitthvað skemmtilegra gerist.“ Hve lengi heldurðu að Beth nenni að vera vinkona hennar?

Skoðaðu aftur aðstæðurnar undir fyrirsögninni „Vandinn“ og berðu þær saman við hvernig þú kemur fram við fólk. Hver finnst þér besti kosturinn? Líklega finnst þér valkostur A ekki lýsa kurteisi. En hvað um valkosti B og C? Væri dónalegt af þér að trufla samræður bara til að athuga SMS? Eða væri dónalegt að hunsa SMS bara til að halda áfram að tala við einhvern?

Eins og sjá má getur stundum verið erfitt að vita hvað er kurteist og hvað ekki. En Biblían gefur þetta ráð: „Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“ (Lúkas 6:31) Það má heimfæra þetta ráð upp á SMS-samskipti. Hvernig þá?

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Sendu ekki skilaboð á tíma sem myndi trufla fólk. „Stundum fæ ég SMS mjög seint á kvöldin,“ segir ungur maður að nafni Richard. „Skilaboðin eru sjaldnast mikilvæg en þau halda fyrir mér vöku.“ Spyrðu þig: „Sendi ég fólki SMS þegar það gæti verið farið að sofa?“ – Meginregla: Prédikarinn 3:1.

Hugsaðu um hvernig skilaboðin hljóma. Við tjáum okkur með orðum, raddblæ, svipbrigðum og líkamsburðum. Því miður kemst fæst af þessu til skila þegar við sendum SMS. Hvernig er hægt að bæta það upp? „Sýndu almenna kurteisi,“ ráðleggur ung kona að nafni Jasmine. „Heilsaðu, vertu vingjarnlegur í orðavali og mundu eftir að þakka fyrir þegar það á við.“ – Meginregla: Kólossubréfið 4:6.

Sýndu dómgreind. Líttu aftur á aðstæðurnar undir fyrirsögninni „Vandinn“. Ef þú ert að bíða eftir mikilvægum skilaboðum gætirðu þurft að afsaka þig og lesa skilaboðin þó að þú sért að tala við vin þinn. En oft geta þau beðið. „Síminn fer ekki neitt á meðan vinur þinn er að tala við þig,“ segir Amy sem er 17 ára. „En vinurinn gæti verið farinn þegar þú ert búinn að svara skilaboðunum.“ Sýndu líka dómgreind þegar þú ert í hópi fólks. „Vertu ekki allan tímann að senda SMS,“ segir Jane sem er 18 ára. „Þá ertu eiginlega að segja: ,Mig langar ekki að vera með ykkur. Ég vildi frekar vera annars staðar.‘“

Hugsaðu þig um áður en þú sendir. Er hægt að misskilja það sem þú skrifaðir? Myndi hjálpa að nota tilfinningatákn? „Bættu við broskarli ef þú ert að grínast,“ segir Amber sem er 21 árs. „Fólk móðgast og deilur geta jafnvel kviknað þegar það sem sagt er í gríni er tekið alvarlega.“ – Meginregla: Orðskviðirnir 12:18.

Það skiptir greinilega máli að vera kurteis þegar við notum farsímann.

Til umhugsunar: Góð framkoma er merki um kærleika. Hvernig birtist hann? Í Biblíunni stendur: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki.“ (1. Korintubréf 13:4, 5) Hvaða hliðar kærleikans þarft þú að æfa þig í að sýna betur?

^ gr. 11 Sumum nöfnum í greininni er breytt.