Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

5. LÆRDÓMUR

Leiðsögn frá fullorðnum

Leiðsögn frá fullorðnum

HVERJIR EIGA AÐ LEIÐBEINA BÖRNUNUM?

Börn þurfa leiðsögn og ráðleggingar frá fullorðnum. Foreldrar eru í bestu aðstöðunni til að sinna þeirri þörf barnanna og þeim ber líka skylda til þess. En aðrir fullorðnir geta einnig gefið börnunum ráð og leiðbeint þeim.

HVERS VEGNA ER LEIÐSÖGN FRÁ FULLORÐNUM MIKILVÆG?

Víða um heim verja börn litlum tíma með fullorðnum. Hugleiddu eftirfarandi:

  • Börn verja meirihluta dagsins í skólanum þar sem nemendur eru mun fleiri en kennarar og aðrir fullorðnir.

  • Sum skólabörn koma heim í autt hús eftir skóla því að báðir foreldrarnir þurfa að vinna úti.

  • Könnun sýndi að 8–12 ára börn í Bandaríkjunum verja að meðaltali um sex klukkustundum á dag í að hlusta á tónlist, horfa á sjónvarp og spila tölvuleiki. *

Í bókinni Hold On to Your Kids segir: „Unglingar leita ekki leiðsagnar, leiðbeininga og fyrirmynda hjá foreldrum, kennurum og öðrum fullorðnum og ábyrgum einstaklingum heldur hjá ... jafnöldrum sínum.“

HVERNIG ER HÆGT AÐ VEITA LEIÐSÖGN?

Verðu tíma með börnunum.

MEGINREGLA: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ – Orðskviðirnir 22:6.

Börn leita venjulega til foreldra sinna til að fá aðstoð og leiðbeiningar. Sérfræðingar segja að börn vilji frekar ráð frá foreldrum sínum en jafnöldrum, jafnvel þegar þau eru komin á unglingsaldur. „Foreldrarnir halda áfram að vera sterkasti áhrifavaldurinn varðandi viðhorf og hegðun barna sinna í gegnum unglingsárin og fram á fullorðinsaldur,“ skrifar dr. Laurence Steinberg í bók sinni You and Your Adolescent. Hann bætir við: „Táningarnir vilja vita hvað þú hugsar og þeir hlusta á það sem þú segir, jafnvel þó að þeir viðurkenni það ekki alltaf og séu ekki sammála öllu sem þú segir.“

Notfærðu þér eðlilega tilhneigingu barna þinna til að líta upp til þín. Verðu tíma með þeim og leyfðu þeim að kynnast viðhorfum þínum, gildum og reynslu.

Sjáðu þeim fyrir fyrirmynd.

MEGINREGLA: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur.“ – Orðskviðirnir 13:20.

Þekkirðu einhvern fullorðinn sem gæti orðið góð fyrirmynd fyrir táninginn? Gætirðu komið því í kring að þeir verji tíma saman? Þú afsalar þér að sjálfsögðu ekki foreldraábyrgðinni en hvatning frá einhverjum sem þú treystir og veist að gerir barninu ekkert illt getur stutt við þá þjálfun sem þú veitir. Biblían segir að Tímóteus hafi haft mikið gagn af því að eiga félagsskap við Pál postula – jafnvel þegar hann var orðinn fullorðinn. Og Páll hafði einnig gagn af félagsskap Tímóteusar. – Filippíbréfið 2:20, 22.

Síðastliðna öld hafa margar fjölskyldur sundrast þar sem afar, ömmur, frændur og frænkur búa jafnvel annars staðar á hnettinum. Ef því er þannig háttað í þinni fjölskyldu geturðu reynt að sjá til þess að unglingarnir í fjölskyldunni fái tækifæri til að læra af öðrum fullorðnum sem hafa til að bera eiginleika sem þú vilt gjarnan sjá í fari barnanna þinna.

^ gr. 9 Könnunin sýndi að unglingar verja að meðaltali hátt í níu klukkustundum á dag í að hlusta á tónlist, horfa á sjónvarp og spila tölvuleiki. Tíminn sem börn og unglingar vinna skólaverkefni á Netinu er ekki innifalinn.