Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÚR SÖGUSAFNINU

„Hvenær verður næsta mót?“

„Hvenær verður næsta mót?“

ÁRIÐ er 1932 og nóvember er að ljúka. Staðurinn er Mexíkóborg. Það er ekki nema vika síðan fyrstu umferðarljósin komu til skjalanna í þessari iðandi borg þar sem rúmlega milljón manns búa. En umferðarljósin eru þegar orðnar gamlar fréttir. Fréttamenn borgarinnar eru farnir að tala um atburð þessarar viku. Þeir standa á lestarstöðinni með myndavélarnar tilbúnar og bíða eftir sérstökum gesti – Joseph F. Rutherford, þáverandi forseta Varðturnsfélagsins. Vottar í borginni eru einnig mættir á staðinn til að taka vel á móti honum, en hann er kominn til að sækja þriggja daga landsmót sem þar er haldið.

Í blaðinu The Golden Age var sagt: „Það er engin spurning að þessa móts verður minnst sem mjög mikilvægs atburðar í framrás sannleikans í lýðveldinu Mexíkó.“ En aðeins um 150 manns sóttu mótið. Hvers vegna var það þá svona mikilvægt?

Fyrir þetta mót hafði boðun sannleikans borið lítinn ávöxt í Mexíkó. Fámenn mót höfðu verið haldin frá árinu 1919. Engu að síður hafði söfnuðunum fækkað á árunum þar á eftir. Vonarneisti kviknaði þegar deildarskrifstofa var opnuð í Mexíkóborg árið 1929 en ýmislegt stóð í vegi fyrir vextinum. Farandbóksali varð gramur og ákvað að hætta og mynda eigin biblíunámshóp eftir að honum var sagt að hann mætti ekki stunda viðskipti í boðuninni. Um sama leyti gerðist umsjónarmaður deildarskrifstofunnar sekur um óbiblíulega hegðun og nauðsynlegt var að skipta honum út. Trúfastir vottar í Mexíkó þurftu á uppörvun að halda.

Bróðir Rutherford var mjög hvetjandi við þessa trúföstu þjóna Guðs meðan á heimsókninni stóð. Hann flutti tvær áhrifaríkar ræður á mótinu og hélt fimm kraftmikla fyrirlestra í útvarpi. Þetta var í fyrsta skipti sem fagnaðarerindinu var útvarpað um allt Mexíkó. Eftir mótið skipulagði nýútnefndur umsjónarmaður deildarskrifstofunnar starfið og með blessun Jehóva héldu ákafir vottar boðuninni áfram af miklum krafti.

Mótið árið 1941 í Mexíkóborg.

Árið eftir voru haldin tvö mót í landinu, annað í hafnarborginni Veracruz og hitt í Mexíkóborg. Bræður og systur lögðu hart að sér og árangurinn lét ekki á sér standa. Árið 1931 voru aðeins 82 boðberar í landinu. Tíu árum síðar hafði fjöldi þeirra tífaldast! Um 1.000 manns sóttu mótið sem haldið var í Mexíkóborg árið 1941.

„INNRÁS Á GÖTURNAR“

Árið 1943 klæddust vottarnir svokölluðum „samlokuskiltum“ til að auglýsa „Mót frjálsrar þjóðar“ sem haldið var í 12 borgum í Mexíkó. * Tvö plaköt voru bundin saman og látin hanga yfir axlirnar þannig að annað plakatið sneri fram og hitt aftur. Vottarnir höfðu notað þessa auglýsingaraðferð frá árinu 1936.

Úrklippa úr tímariti frá 1944 sem sýnir göngu með samlokuskilti á götum Mexíkóborgar.

Tímaritið La Nación fjallaði um hve mikil áhrif gangan með samlokuskiltin um götur Mexíkóborgar hafði og sagði: „Á fyrsta [móts]deginum voru [vottarnir] hvattir til að bjóða fleirum. Á öðrum degi var mótsstaðurinn orðinn yfirfullur.“ Kaþólska kirkjan var ekki par hrifin af auglýsingagöngunum og áhrifum þeirra, og ákvað að fara í herferð gegn Vottunum. Þrátt fyrir andstöðuna héldu bræður og systur ótrauð áfram að ganga um með auglýsingaskiltin. La Nación sagði einnig: „Öll borgin sá þau ... karla – og konur – sem breyttust í ,auglýsingasamlokur‘.“ Greininni fylgdi mynd af bræðrum á götum Mexíkóborgar. Undir myndinni stóð: „Innrás á göturnar.“

„RÚMIN VORU MÝKRI OG HLÝRRI EN STEINSTEYPUGÓLFIГ

Á þessum árum þurftu flestir vottar að færa miklar fórnir til að geta sótt þau fáu mót sem haldin voru í Mexíkó. Margir mótsgestir komu frá afskekktum sveitaþorpum en þangað lágu engir lestarteinar og jafnvel engir vegir. Söfnuður nokkur skrifaði: „Það eina, sem fer hér fram hjá, er símskeytalínan.“ Mótsgestir þurftu því að ferðast á múldýrum eða ganga dögum saman til að komast í lest sem færi til borgarinnar þar sem mótið var haldið.

Flestir vottar voru fátækir og gátu varla borgað ferðina á mótsstaðinn. Margir fengu að gista hjá vottum sem bjuggu á staðnum og tóku fúslega á móti þeim á heimilum sínum. Aðrir fengu inni í ríkissölum. Eitt sinn fengu um 90 mótsgestir að gista á deildarskrifstofunni þar sem „hver og einn fékk 20 bókakassa til að sofa á“. Í árbókinni segir að gestirnir hafi verið mjög þakklátir því að þessi rúm voru „mýkri og hlýrri en steinsteypugólfið“.

Þessum þakklátu vottum, sem söfnuðust glaðir saman á mót, þótti vel þess virði að færa allar þessar fórnir. Boðberum í Mexíkó fjölgar stöðugt. Þeir nálgast það nú að vera orðnir milljón talsins og hafa enn sama þakkláta hugarfarið. * Í skýrslu frá deildarskrifstofunni í Mexíkó frá árinu 1949 segir um þjóna Jehóva þar í landi: „Þeir erfiðu tímar, sem þeir upplifa, draga ekki úr ákafa þeirra í trúnni því að eftir hvert mót, sem er haldið, er það eitt aðalumræðuefni þeirra um langan tíma og þeir spyrja aftur og aftur: Hvenær verður næsta mót?“ Þessi lýsing á eins vel við nú á tímum og hún gerði í þá daga. – Úr sögusafninu í Mið-Ameríku.

^ gr. 9 Í árbókinni 1944 segir að þetta mót hafi „komið Vottum Jehóva á kortið í Mexíkó“.

^ gr. 14 Í Mexíkó sóttu 2.262.646 minningarhátíðina árið 2016.