Spurningar frá lesendum
Ef kristinn maður skilur við eiginkonu sína án þess að hafa biblíulega gilda ástæðu og giftist aftur, hvernig lítur þá söfnuðurinn á fyrra og núverandi hjónaband hans?
Við slíkar aðstæður lítur söfnuðurinn svo á að fyrra hjónabandinu hafi verið slitið þegar hann giftist aftur og að nýja hjónabandið sé bindandi. Við skulum skoða það sem Jesús sagði um það að skilja og giftast aftur til að sjá á hverju þetta byggist.
Í Matteusi 19:9 benti Jesús á einu biblíulega gildu ástæðuna til að binda enda á hjónaband. Þar segir: „Sá sem skilur við konu sína, nema hún hafi gerst sek um kynferðislegt siðleysi, og giftist annarri fremur hjúskaparbrot.“ Orð Jesú bera með sér (1) að kynferðislegt siðleysi er eina biblíulega ástæðan til að binda enda á hjónaband með skilnaði og (2) að maður sem skilur við konu sína án þess að hafa biblíulega ástæðu til þess og giftist annarri fremur hjúskaparbrot. a
Þýðir það sem Jesús sagði að manni sem gerist sekur um kynferðislegt siðleysi og skilur við konu sína sé frjálst samkvæmt Biblíunni að giftast aftur? Ekki endilega. Ef eiginmaður fremur hjúskaparbrot ákveður saklaus eiginkonan hvort hún fyrirgefur honum eða ekki. Ef hún fyrirgefur ekki og skilur við hann lögum samkvæmt er báðum frjálst að giftast um leið og skilnaðarferlinu er lokið.
En vera má að saklaus eiginkonan vilji varðveita hjónaband sitt og sýna þannig að hún fyrirgefur eiginmanninum. Hvað þá ef eiginmaðurinn, sem gerðist sekur um hjúskaparbrot, hafnar fyrirgefningu eiginkonunnar og fær lögskilnað frá henni? Hann hefur ekki biblíulegt frelsi til að giftast aftur þar sem hún er fús til að fyrirgefa honum og bjarga hjónabandinu. Hann fremur því hjúskaparbrot aftur ef hann er ákveðinn í að fara gegn því sem Biblían segir og giftist annarri konu. Öldungar safnaðarins skipa þá dómnefnd aftur til að taka á málinu. – 1. Kor. 5:1, 2; 6:9, 10.
Ef kristinn maður skilur við konu sína án þess að hafa biblíulega gilda ástæðu og giftist aftur, hvernig lítur þá söfnuðurinn á fyrra og núverandi hjónaband hans? Er fyrra hjónabandið enn í gildi samkvæmt Biblíunni? Getur saklaus eiginkonan enn valið um að fyrirgefa fyrrverandi eiginmanni sínum eða hafna honum? Myndi núverandi hjónaband hans áfram jafngilda hjúskaparbroti?
Söfnuðurinn leit áður svo á að slíkt hjónaband jafngilti hjúskaparbroti eins lengi og saklausi makinn væri á lifi, ekki genginn í hjónaband aftur og ekki sekur um kynferðislegt siðleysi. En Jesús fjallaði ekki um hlið saklausa makans þegar hann ræddi um skilnað og það að giftast aftur. Hann sagði að sá sem skildi við konu sína
án þess að hafa biblíulega gilda ástæðu og giftist annarri fremdi hjúskaparbrot. Jesús lagði það að skilja og giftast aftur við slíkar aðstæður að jöfnu við hjúskaparbrot og það bindur enda á fyrra hjónabandið.„Sá sem skilur við konu sína, nema hún hafi gerst sek um kynferðislegt siðleysi, og giftist annarri fremur hjúskaparbrot.“ – Matt. 19:9.
Ef maður skilur við konu sína og giftist aftur hefur hún ekki lengur möguleika á að fyrirgefa honum eða hafna. Hún þarf því ekki að ákveða hvort hún vilji fyrirgefa fyrrverandi manni sínum eða ekki. Viðhorf safnaðarins til nýja hjónabandsins fer ekki eftir því hvort saklausi makinn sé dáinn, hafi gifst aftur eða gerst sekur um kynferðislegt siðleysi. b
Í dæminu á undan framdi eiginmaðurinn hjúskaparbrot og þau hjónin skildu. En hvað nú ef eigimaðurinn hefur ekki framið hjúskaparbrot en skilur samt við konu sína og giftist annarri? Eða segjum að eiginmaðurinn hafi ekki framið hjúskaparbrot áður en þau skildu en gert það eftir á og gifst aftur jafnvel þótt kona hans vildi fyrirgefa honum? Í þessum dæmum jafngildir það að skilja og giftast aftur hjúskaparbroti og bundinn er endi á hjónabandið. Nýja hjónabandið er lagalega bindandi. Eins og kemur fram í Varðturninum á ensku 15. nóvember 1979, bls. 32, hefur hann „gengið í hjónaband á ný og getur ekki einfaldlega slitið því og snúið aftur til fyrrverandi maka síns. Skilnaður, hjúskaparbrot og nýtt hjónaband batt enda á fyrra hjónabandið.“
Þessi nýi skilningur gerir ekki lítið úr heilagleika hjónabandsins eða því hve hjúskaparbrot er alvarlegt mál. Ef maður skilur við eiginkonu sína án þess að hafa biblíulega gilda ástæðu og giftist annarri án þess að hafa biblíulegt frelsi til þess skipa öldungar safnaðarins dómnefnd á grundvelli hjúskaparbrots. (Ef nýja eiginkonan er skírður vottur er líka skipuð dómnefnd í máli hennar.) Þótt nýja hjónabandið jafngildi ekki hjúskaparbroti myndi maðurinn ekki fá nein sérstök verkefni í söfnuðinum í mörg ár og ekki fyrr en ávirðingar hans væru fallnar í gleymsku. Öldungarnir myndu líka taka mið af núverandi aðstæðum fyrrverandi maka hans sem hann hefur ef til vill komið sviksamlega fram við og einnig barna hans undir lögaldri sem hann yfirgaf. – Mal. 2:14–16.
Í ljósi þess hve alvarlegar afleiðingar það hefur að skilja við maka sinn án biblíulegrar ástæðu og giftast aftur er viturlegt af kristnum mönnum að hafa viðhorf Jehóva til hjónabandsins og líta á það sem heilagt. – Préd. 5:3, 4; Hebr. 13:4.
a Til einföldunar er sá sem fremur hjúskaparbrot nefndur í karlkyni og saklausi makinn í kvenkyni. En Jesús tók það skýrt fram að leiðbeiningar hans eigi jafnt við karla sem konur, eins og kemur fram í Markúsi 10:11, 12.
b Þetta er breyttur skilningur. Áður skildum við það svo að slíkt hjónaband jafngilti hjúskaparbroti þangað til saklausi makinn dæi, giftist aftur eða gerðist sekur um kynferðislegt siðleysi.