ÆVISAGA
,Að verða öllum allt‘
„Ef þú skírist fer ég frá þér!“ Faðir minn hótaði móður minni með þessum orðum árið 1941. Þrátt fyrir hótanir hans ákvað hún að láta skírast til tákns um vígsluheit sitt við Jehóva Guð. Faðir minn stóð við orð sín og yfirgaf okkur. Ég var aðeins átta ára þegar þetta gerðist.
ÁHUGI minn á biblíusannindum hafði vaknað nokkru áður. Móðir mín hafði fengið biblíutengd rit sem ég skoðaði af miklum áhuga, sérstaklega myndirnar. Faðir minn vildi ekki að móðir mín talaði við mig um það sem hún var að læra en ég var forvitinn og spurði spurninga. Þess vegna kenndi hún mér en gerði það þegar faðir minn var ekki heima. Það leiddi til þess að ég ákvað líka að vígja líf mitt Jehóva. Ég skírðist í Blackpool á Englandi árið 1943, þá tíu ára.
FYRSTU SKREFIN Í ÞJÓNUSTUNNI VIÐ JEHÓVA
Upp frá því tókum við móðir mín reglulega þátt í boðuninni saman. Við notuðum grammófóna til að kynna boðskap Biblíunnar. Þeir voru frekar fyrirferðarmiklir og vógu um fimm kíló. Sjáið mig fyrir ykkur, lítinn dreng að burðast með svona tæki!
Þegar ég var 14 ára langaði mig til að verða brautryðjandi. Móðir mín sagði mér að tala fyrst við farandhirðinn. Hann lagði til að ég reyndi að öðlast einhvers konar
fagkunnáttu þannig að ég gæti séð fyrir mér í brautryðjandastarfinu og ég gerði það. Ég vann í tvö ár og ráðfærði mig síðan við annan farandhirði um að verða brautryðjandi. Sá sagði við mig: „Ekki hika við það!“Þar af leiðandi losuðum við mæðginin okkur við húsgögnin sem við áttum í leiguhúsnæði okkar og fluttumst til Middleton, nálægt Manchester, í apríl 1949. Þar hófum við brautryðjandastarf. Fjórum mánuðum síðar fann ég mér brautryðjandafélaga og deildarskrifstofan mælti með að við flyttumst til Irlam þar sem nýlega hafði verið stofnaður söfnuður. Móðir mín starfaði með systur í öðrum söfnuði.
Ég var aðeins 17 ára en okkur brautryðjandafélaga mínum var samt falin sú ábyrgð að stýra samkomum vegna þess að fáir hæfir bræður voru í þessum nýja söfnuði. Síðar var mér boðið að flytja til Buxton-safnaðarins, en þar voru mjög fáir boðberar og þörf var á aðstoð. Ég hef alltaf litið á þessa reynslu sem góða þjálfun fyrir komandi verkefni.
Árið 1951 sótti ég um skólavist í Biblíuskólanum Gíleað. En í desember 1952 var ég kallaður til herþjónustu. Ég bað um undanþágu á þeim grundvelli að ég stundaði trúboð í fullu starfi en dómstóllinn viðurkenndi
ekki starf mitt og dæmdi mig í sex mánaða fangelsi. Meðan ég sat inni fékk ég boð um að sækja Gíleaðskólann. Þannig bar það til að í júlí 1953 sat ég um borð í skipinu Georgic á leið til New York til móts við 22. nemendahóp skólans.Þegar ég kom í land gat ég sótt mótið sem haldið var í New York það ár. Skólinn var í South Lansing í New York og eftir mótið tók ég lestina þangað. Eftir fangelsisvistina var ég mjög auralítill. Ég þurfti að taka strætó eftir lestarferðina til að komast á leiðarenda en til þess þurfti ég að fá 25 sent lánuð hjá öðrum farþega.
VERKEFNI Á ERLENDRI GRUND
Í Gíleaðskólanum fengum við frábæra kennslu í að ,vera öllum allt‘ í trúboðsstarfinu. (1. Kor. 9:22) Þrír okkar – við Paul Bruun og Raymond Leach – vorum sendir til Filippseyja. Við þurftum að bíða nokkra mánuði eftir vegabréfsáritunum en eftir það sigldum við af stað. Leið okkar lá um Rotterdam, Miðjarðarhaf, Súesskurðinn, Indlandshaf, Malasíu og Hong Kong – 47 daga sjóferð! Þann 19. nóvember 1954 komumst við loks til Maníla.
Nú þurftum við að hefjast handa við að laga okkur að nýju fólki, nýju landi og líka nýju tungumáli. Til að byrja með vorum við reyndar sendir til safnaðar í Quezon-borg þar sem margir heimamenn töluðu ensku. Eftir sex mánuði kunnum við því aðeins fáein orð á tagalog. Næsta verkefni okkar átti þó eftir hjálpa okkur að takast á við tungumálið.
Dag einn í maí 1955, þegar við komum heim úr boðuninni, fundum við Raymond bunka af bréfum. Við höfðum verið útnefndir farandhirðar. Ég var aðeins 22 ára en þetta verkefni gaf mér tækifæri til að ,verða öllum allt‘ á nýjan hátt.
Ég flutti til dæmis mína fyrstu ræðu sem farandhirðir undir berum himni fyrir framan bæjarbúð. Á Filippseyjum var venja á þessum tíma að opinberir fyrirlestrar væru verulega opinberir. Ég áttaði mig fljótt á því. Þegar ég heimsótti söfnuði á farandsvæðinu flutti ég ræður í almennum garðskálum, á mörkuðum, fyrir framan ráðhús, á körfuboltavöllum, í almenningsgörðum og oft á götuhornum. Eitt sinn, þegar ég ætlaði að flytja ræðu á markaði í San Pablo-borg, kom hellidemba svo að ég stakk upp á við bræðurna, sem voru með ábyrgð, að ræðan yrði flutt í ríkissalnum. Eftir á spurðu bræðurnir hvort þetta gæti talist opinber samkoma þar sem hún var ekki haldin á opinberum vettvangi.
Við bjuggum alltaf á heimilum trúsystkina. Þó að heimilin væru látlaus voru þau alltaf hrein. Rúmið mitt var oft ofin motta á trégólfi. Ekki var hægt að baða sig í einrúmi þannig að ég lærði að þvo mér utandyra svo að lítið bæri á. Ég ferðaðist með litlum strætisvögnum og rútum, og stundum með bát þegar ég fór til annarra eyja. Öll árin, sem ég hef þjónað Jehóva, hef ég aldrei átt bíl.
Að boða trúna og heimsækja söfnuði hjálpaði mér að læra tagalog. Ég fór aldrei á formlegt námskeið en ég lærði með því að hlusta á trúsystkini í boðuninni og á samkomum. Þau vildu gjarnan hjálpa mér með tungumálið og ég kunni að meta þolinmæði þeirra og einlægar athugasemdir.
Með tímanum fékk ég ný verkefni sem kölluðu á frekari breytingar. Bróðir Nathan Knorr kom til okkar árið 1956 og mér var falið að sjá um almannatengsl á
landsmótinu. Ég hafði enga reynslu en aðrir hjálpuðu mér fúslega að læra. Annað landsmót var haldið innan við ári síðar og þá kom bróðir Frederick Franz frá aðalstöðvunum. Ég var mótsstjóri á þessu móti og lærði mikið af því hve fús bróðir Franz var að aðlagast fólkinu. Heimamenn voru hæstánægðir að sjá hann klæðast barong Tagalog, hefðbundnum filippseyskum viðhafnarbúningi, þegar hann flutti opinbera fyrirlesturinn.Enn á ný þurfti ég að gera breytingar þegar ég var útnefndur umdæmishirðir. Á þessum tíma sýndum við oft myndina The Happiness of the New World Society. Það var nánast alltaf gert utandyra á almannafæri. Stundum voru skordýr okkur til ama. Þau löðuðust að ljósinu á sýningarvélinni og festust í henni. Það var töluverð vinna að þrífa vélina eftir á. Það var ekki auðvelt að skipuleggja þessar sýningar en það var ánægjulegt að sjá viðbrögð fólksins þegar það kynntist söfnuði Jehóva sem alþjóðlegum samtökum.
Kaþólskir prestar þrýstu stundum á bæjaryfirvöld svo að þau myndu ekki veita okkur leyfi til að halda mót. Þeir reyndu líka að yfirgnæfa dagskrána með því að hringja kirkjuklukkum þegar ræður voru fluttar nálægt kirkjum þeirra. Starfið bar
samt árangur og margir á þessum svæðum þjóna nú Jehóva.VERKEFNI SEM KÖLLUÐU Á FLEIRI BREYTINGAR
Árið 1959 fékk ég bréf þess efnis að mér væri falið að starfa á deildarskrifstofunni. Þar af leiðandi öðlaðist ég reynslu á nýjum sviðum. Síðar var ég beðinn um að heimsækja önnur lönd sem sérstakur fulltrúi aðalstöðvanna. Í einni af þessum ferðum kynntist ég Janet Dumond, trúboðssystur í Taílandi. Við skrifuðumst á um tíma og giftum okkur síðan. Við höfum nú notið þess að þjóna Jehóva saman sem hjón í 51 ár.
Þegar allt er talið fékk ég að heimsækja þjóna Jehóva í 33 löndum. Ég er innilega þakklátur fyrir verkefnin sem ég fékk snemma á ævinni. Þau bjuggu mig undir þá sérstöku áskorun að eiga samskipti við fólk af mjög ólíkum uppruna og menningu. Heimsóknirnar víða um lönd hjálpuðu mér að verða víðsýnni og sjá hvernig kærleikur Jehóva nær til alls konar fólks. – Post. 10:34, 35.
TILBÚIN Í FLEIRI BREYTINGAR
Það hefur verið okkur mikil ánægja að fá að starfa með trúsystkinum okkar á Filippseyjum. Boðberafjöldinn hefur tífaldast frá því að ég byrjaði að starfa hér. Við Janet höldum áfram að starfa á Filippseyjum á deildarskrifstofunni í Quezon-borg. Eftir meira en 60 ára þjónustu á erlendri grund þarf ég enn að vera fús til að laga mig að því sem Jehóva biður um. Breytingar í söfnuðinum á undanförnum árum útheimta að við séum sveigjanleg í þjónustunni við Guð og þegar við þjónum trúsystkinum okkar.
Við höfum lagt okkur fram um að fylgja í öllu leiðsögn Jehóva og við gætum ekki hafa lifað innihaldsríkara lífi. Við höfum líka reynt að gera nauðsynlegar breytingar og þjóna trúsystkinum okkar sem best. Já, svo lengi sem Jehóva leyfir erum við ákveðin í að ,vera öllum allt‘.