Þau buðu sig fúslega fram – í Tyrklandi
KRISTNIR menn á fyrstu öld lögðu mikið á sig til að boða sem allra flestum „fagnaðarerindið um ríkið“. (Matt. 24:14) Sumir ferðuðust jafnvel til annarra landa. Páll postuli fór til dæmis til þess svæðis sem nú heitir Tyrkland og boðaði þar trúna vítt og breitt á trúboðsferðum sínum. * Um 2.000 árum síðar, nánar tiltekið árið 2014, var aftur gert sérstakt boðunarátak í Tyrklandi. Hvers vegna var ráðist í þetta átak? Og hverjir tóku þátt í því?
„HVAÐ ER UM AÐ VERA?“
Rúmlega 2.800 boðberar búa í Tyrklandi en íbúar landsins eru um 80 milljónir. Það þýðir að hlutfall boðbera miðað við íbúafjölda er næstum 1 á móti 28.000. Eins og þú getur ímyndað þér hafa vottarnir aðeins getað hitt lítinn hluta íbúa þessa lands. Markmiðið með þessu sérstaka boðunarátaki var að ná til sem flestra á stuttum tíma. Um 550 tyrkneskumælandi bræður og systur frá öðrum löndum ferðuðust til Tyrklands til að boða trúna með boðberum á svæðinu meðan á átakinu stóð. Hver var árangurinn?
Boðunin vakti mikla athygli. Söfnuður í Istanbúl skrifaði: „Þegar fólk sá okkur spurði það: ,Er einhver sérstök ráðstefna hjá ykkur? Það eru vottar Jehóva út um allt!‘“ Söfnuður í borginni Izmir skrifaði: „Maður, sem vann hjá leigubílastöð, gekk upp að öldungi sem býr í borginni og spurði: ,Hvað er um að vera? Hafið þið aukið starf ykkar?‘“ Átakið fór greinilega ekki fram hjá fólki.
Boðberarnir, sem komu frá öðrum löndum, höfðu mikla ánægju af boðuninni. Steffen býr í Danmörku. Hann segir: „Á hverjum degi gat ég vitnað fyrir fólki sem hafði aldrei heyrt um Jehóva. Mér fannst ég sannarlega eiga þátt í að gera nafn Jehóva kunnugt.“ Jean-David frá Frakklandi skrifar: „Við vorum nokkra klukkutíma að boða trúna í aðeins einni götu. Það var dásamlegt! Fæstir könnuðust við Votta Jehóva. Við gátum átt samræður, sýnt myndskeið og látið húsráðendur hafa rit við nánast hverjar dyr.“
Þeir 550 boðberar, sem komu og lögðu hönd á plóginn, dreifðu um 60.000 ritum á aðeins tveim
vikum. Átakið skilaði greinilega árangri og boðskapurinn náði til margra.Eldmóðurinn í boðuninni jókst. Þetta sérstaka átak hafði hvetjandi áhrif á bræður og systur í landinu. Margir fóru að hugsa um að þjóna Jehóva í fullu starfi. Brautryðjendum í Tyrklandi fjölgaði reyndar um 24 prósent næstu 12 mánuðina eftir átakið.
Boðberar, sem komu til að hjálpa, tjáðu sig um hve mikil áhrif átakið hafði á boðun þeirra, líka eftir að þeir sneru heim. Şirin, systir sem býr í Þýskalandi, skrifar: „Bræður og systur í Tyrklandi eru mjög dugleg að boða trúna óformlega. Ég er mjög feimin hvað það varðar. En þökk sé átakinu, fordæmi trúsystkina í Tyrklandi og fjölda bæna að ég gat gert það sem ég hafði ekki getað gert áður. Ég vitnaði meira að segja fyrir fólki í neðanjarðarlestarstöðinni og dreifði smáritum. Nú er ég ekki eins feimin og áður.“
„Ég lærði ýmislegt sem nýtist mér vel í boðuninni,“ segir Johannes en hann býr í Þýskalandi. „Bræður og systur í Tyrklandi hafa sterka löngun til að segja eins mörgum og hægt er frá sannleikanum. Þau nota öll tækifæri sem gefast. Ég ákvað að ég skyldi gera það líka þegar ég sneri aftur til Þýskalands. Og nú vitna ég fyrir fleira fólki en áður.“
„Átakið hafði mikil áhrif á boðun mína. Ég varð hugrakkari og lærði að treysta betur á Jehóva,“ segir Zeynep frá Frakklandi.
Boðberarnir urðu nánari. Kærleikurinn og einingin, sem ríkti meðal bræðra og systra frá mismunandi löndum, á seint eftir að gleymast. „Við fundum sterklega fyrir gestrisni trúsystkina,“ segir Jean-David sem minnst var á fyrr í greininni. Hann bætir við: „Þau tóku á móti okkur sem vinum og litu á okkur sem fjölskyldu sína. Þau opnuðu heimili sín fyrir okkur. Ég vissi að við værum alþjóðlegt bræðrafélag – ég hafði lesið um það margoft í ritunum okkar. En í þetta skipti upplifði ég það af eigin raun. Ég var stoltari en nokkru sinni fyrr yfir því að tilheyra söfnuði Jehóva, og ég þakka honum fyrir þennan stórkostlega heiður.“
„Hvort sem við vorum frá Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi eða Tyrklandi vorum við öll ein stór fjölskylda. Það var eins og Guð hefði strokað út öll landamæri með stóru strokleðri,“ segir Claire en hún býr í Frakklandi.
Stéphanie frá Frakklandi bætir við: „Þetta átak kenndi okkur að það er ekki menningin eða tungumálið sem sameinar okkur heldur það að við elskum öll Jehóva.“
JÁKVÆÐ ÁHRIF TIL LANGS TÍMA
Margir þeirra sem komu og hjálpuðu til fóru að hugsa um að flytja til Tyrklands til að taka þátt í því gífurlega starfi sem enn er óunnið þar. Allmargir hafa þegar flust þangað og starf þeirra er mikils metið.
Tökum sem dæmi lítinn hóp með 25 boðberum sem búa á einangruðu svæði. Um árabil var aðeins einn öldungur í hópnum. Hugsaðu þér hve boðberarnir voru glaðir þegar sex boðberar frá Þýskalandi og Hollandi fluttust þangað árið 2015 til að hjálpa til og styðja þá.
ÞJÓNUSTA Í FREMSTU VÍGLÍNU
Sumir hafa flust til Tyrklands til að hjálpa til og hafa nú búið þar um tíma. Hvað segja þeir um lífið þar? Það getur vissulega stundum verið erfitt en það er mjög gefandi að hjálpa til þar sem þörfin er svona mikil. Skoðum hvað nokkrir þeirra hafa sagt.
„Þar sem ég á ekki margar efnislegar eigur sem kalla á athygli mína finnst mér ég hafa mikið frelsi, og það gerir mér kleift að einbeita mér að því sem mestu máli skiptir,“ segir Federico, en hann er rúmlega fertugur kvæntur bróðir sem flutti frá Spáni. Mælir hann með því að starfa þar sem þörfin er mikil? „Já, tvímælalaust!“ Hann bætir við: „Þegar maður flyst til annars lands til að hjálpa fólki að kynnast Jehóva er maður í rauninni að leggja lífið í hans hendur. Maður finnur meira en nokkurn tíma fyrir umhyggju Jehóva.“
„Það veitir okkur ómælda ánægju að þjóna í fremstu víglínu ef svo má að orði komast, og segja svo mörgum frá sannleikanum sem hafa aldrei heyrt hann áður,“ segir Rudy, kvæntur bróðir frá
Hollandi sem er að nálgast sextugt. „Maður verður mjög ánægður þegar maður sér gleðina sem það veitir fólki að taka við sannleikanum.“Sascha er rúmlega fertugur kvæntur bróðir sem flutti frá Þýskalandi. Hann segir: „Í hvert skipti sem ég boða trúna hitti ég fólk sem hefur aldrei áður heyrt sannleika Biblíunnar. Það veitir mér einstaka ánægju að gefa því tækifæri til að kynnast Jehóva.“
Atsuko er gift systir á miðjum fertugsaldri frá Japan. Hún segir: „Áður vildi ég að Harmagedón kæmi sem fyrst. En eftir að ég fluttist til Tyrklands þakka ég Jehóva fyrir að hann skuli enn sýna þolinmæði. Því betur sem ég sé hönd Jehóva að verki því meira langar mig til að styrkja vináttuböndin við hann.“
Alisa, rúmlega þrítug systir frá Rússlandi, segir: „Með því að þjóna Jehóva á þennan hátt hef ég fundið sterklega fyrir góðvild hans.“ (Sálm. 34:9) Hún bætir við: „Jehóva er ekki aðeins faðir minn heldur líka náinn vinur sem ég kynnist betur við hverjar nýjar aðstæður. Líf mitt er fullt af skemmtilegum augnablikum. Ég upplifi margt spennandi og Jehóva blessar mig ríkulega.“
„HORFIÐ Á AKRANA“
Þetta sérstaka boðunarátak í Tyrklandi varð til þess að margir fengu að heyra fagnaðarerindið sem höfðu aldrei heyrt það áður. Engu að síður er þar stórt svæði sem enn er ósnert. Boðberar, sem hafa flust til Tyrklands, hitta á hverjum degi fólk sem hefur aldrei heyrt um Jehóva. Myndir þú vilja boða trúna á þannig svæði? Hugsaðu þá um eftirfarandi hvatningu: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ (Jóh. 4:35) Getur þú lagt hönd á plóginn í landi þar sem akrarnir eru „fullþroskaðir til uppskeru“? Ef svo er skaltu byrja strax að vinna að því markmiði. Eitt er víst: Ef þú tekur aukinn þátt í boðun fagnaðarerindisins „allt til endimarka jarðarinnar“ hlýturðu óviðjafnanlega blessun. – Post. 1:8.
^ gr. 2 Sjá bæklinginn „See the Good Land“, bls. 32-33.