Þau buðu sig fúslega fram
FJÖLMARGAR einhleypar systur eru meðal þeirra kappsömu votta sem starfa í löndum þar sem mikil þörf er á fleiri boðberum Guðsríkis. Sumar þeirra hafa starfað erlendis svo áratugum skiptir. Hvað hjálpaði þeim á árum áður að taka af skarið og flytjast til annars lands? Hvað hafa þær lært af því að starfa á erlendri grund? Hvaða áhrif hafði það á líf þeirra? Við tókum nokkrar af þessum reyndu systrum tali. Ef þú ert einhleyp systir sem langar einlæglega til að taka þátt í þessu ánægjulega starfi hefurðu eflaust gagn af því sem þær hafa að segja. Í rauninni geta allir þjónar Guðs notið góðs af því að hugleiða fordæmi þeirra.
AÐ SIGRAST Á EFASEMDUM
Efastu um að þú hafir það sem þarf til að geta starfað sem einhleypur brautryðjandi í öðru landi? Anita, sem er nú á miðjum áttræðisaldri, efaðist stórlega um að hún væri hæf til þess. Hún ólst upp á Englandi þar sem hún hóf brautryðjandastarf 18 ára. „Mér fannst gaman að hjálpa fólki að kynnast Jehóva,“ segir hún, „en það hvarflaði aldrei að mér að ég gæti starfað erlendis. Ég hafði aldrei lært annað tungumál og var sannfærð um að ég gæti það ekki. Ég var því steinhissa þegar ég fékk boð um að sækja Gíleaðskólann. Mér fannst ótrúlegt að einhver jafn ómerkilegur og ég skyldi fá slíkt boð. En ég hugsaði með mér: ,Fyrst Jehóva heldur að ég geti það ætla ég að reyna.‘ Þetta var fyrir meira en 50 árum og allar götur síðan hef ég starfað sem trúboði í Japan.“ Hún bætir við: „Stundum segi ég með blik í augum við yngri systur: ,Skelltu á þig bakpokanum og komdu með mér í mesta ævintýri allra tíma!‘ Ég get með ánægju sagt að það hafa margar gert.“
AÐ SAFNA KJARKI
Margar systur, sem hafa starfað erlendis, hikuðu í fyrstu við að flytja. Hvernig gátu þær safnað þeim kjarki sem til þurfti?
„Þegar ég var að vaxa úr grasi vildi ég lifa innihaldsríku lífi og hjálpa öðrum,“ segir Maureen sem er nú á miðjum sjötugsaldri. Þegar hún varð tvítug fluttist hún til Quebec í Kanada þar sem mikil þörf var á fleiri brautryðjendum. „Seinna fékk ég boð um að sækja Gíleaðskólann en óttaðist að fara út í óvissuna án vina minna.“ Hún bætir við: „Mér fannst líka erfitt að hugsa til þess að yfirgefa
móður mína sem þurfti að annast veikburða föður minn. Mörg kvöld úthellti ég hjarta mínu fyrir Jehóva og grátbað hann um leiðsögn. Þegar ég sagði foreldrum mínum frá áhyggjum mínum hvöttu þeir mig til að þiggja boðið. Ég sá líka að söfnuðurinn studdi foreldra mína af ást og umhyggju. Að sjá hvernig Jehóva annaðist þá hjálpaði mér að treysta því að hann sæi einnig fyrir mér. Nú var ég tilbúin að fara.“ Árið 1979 hóf Maureen trúboðsstarf í Vestur-Afríku þar sem hún starfaði í 30 ár. Nú annast hún móður sína í Kanada og er enn þá sérbrautryðjandi. Þegar hún horfir um öxl á þau ár sem hún starfaði erlendis segir hún: „Jehóva sá alltaf fyrir því sem ég þurfti þegar ég þurfti það.“Wendy, sem er nú á miðjum sjötugsaldri, gerðist brautryðjandi í Ástralíu á unglingsaldri. Hún segir: „Ég var mjög feimin og átti erfitt með að tala við ókunnuga. En brautryðjandastarfið kenndi mér að tala við alls konar fólk og þannig jókst sjálfsöryggið. Seinna áttaði ég mig á því að sjálfsöryggið var ekki lengur hindrun. Brautryðjandastarfið kenndi mér að reiða mig á Jehóva og mér fór að líka betur við þá hugmynd að starfa erlendis. Síðan gerðist það að einhleyp systir, sem hafði verið trúboði í Japan í meira en 30 ár, bauð mér að koma og boða trúna í þrjá mánuði í Japan. Að starfa með henni kveikti með mér enn sterkari löngun til að flytjast til annars lands.“ Um miðjan níunda áratuginn fluttist Wendy til Vanúatú sem er eyríki um 1.770 kílómetra austur af Ástralíu.
Wendy býr enn á Vanúatú og starfar nú á þýðingaskrifstofu. „Ekkert gleður mig meira en að sjá hópa og söfnuði myndaða á afskekktum svæðum,“ segir hún. „Það er ólýsanlegur heiður að hafa átt smá þátt í starfi Jehóva á þessum eyjum.“
Kumiko, sem er nú á miðjum sjötugsaldri, var brautryðjandi í Japan þegar brautryðjandafélagi hennar stakk upp á því að þær flyttust til Nepals. „Hún spurði mig aftur og aftur en ég neitaði alltaf,“ segir Kumiko. „Ég kveið fyrir að þurfa að læra nýtt tungumál og aðlagast nýju umhverfi. Það var líka erfitt að afla peninga til að geta flust til annars lands. Meðan ég var að reyna að ákveða hvað ég ætti að gera lenti ég í mótorhjólaslysi og var lögð inn á spítala. Þá hugsaði ég með mér: ,Hver veit hvað gæti komið fyrir mig næst? Ég gæti veikst alvarlega og misst af tækifærinu til að starfa sem brautryðjandi erlendis. Get ég ekki að minnsta kosti prófað í eitt ár?‘ Ég sárbændi Jehóva að hjálpa mér að stíga skrefið.“ Eftir að Kumiko
var útskrifuð af spítalanum heimsótti hún Nepal og nokkru síðar fluttist hún þangað með brautryðjandafélaga sínum.Þegar Kumiko lítur til baka yfir þann tæpa áratug sem hún hefur starfað í Nepal segir hún: „Erfiðleikarnir, sem ég sá fyrir mér, hurfu eins og Rauðahafið opnaðist fyrir Ísraelsmönnum. Ég er svo glöð að hafa ákveðið að starfa þar sem þörfin er mikil. Þegar ég er heima hjá fjölskyldu að kenna biblíusannindi koma oft fimm eða sex nágrannar til að hlusta. Lítil börn biðja mig jafnvel kurteislega að gefa sér smárit um Biblíuna. Það er mjög ánægjulegt að boða trúna á þessu móttækilega svæði.“
AÐ TAKAST Á VIÐ ERFIÐLEIKA
Það kemur ekki á óvart að þær hugrökku einhleypu systur, sem við tókum tali, þurftu að glíma við erfiðleika. Hvernig tókust þær á við þá?
„Í fyrstu fannst mér erfitt að vera svona langt frá fjölskyldunni,“ segir Diane sem er frá Kanada. Hún er rúmlega sextug og var trúboði á Fílabeinsströndinni í 20 ár. „Ég bað Jehóva að hjálpa mér að þykja vænt um fólkið á svæðinu. Bróðir Jack Redford, einn leiðbeinenda minna í Gíleaðskólanum, sagði að í fyrstu gæti okkur brugðið og við jafnvel orðið fyrir áfalli vegna ástandsins þar sem við myndum starfa, sérstaklega þar sem mikil fátækt ríkti. En hann sagði: ,Horfið ekki á fátæktina. Horfið á fólkið, á andlit þess og augu. Fylgist með viðbrögðum þess þegar það heyrir sannleika Biblíunnar.‘ Ég fór að ráðum hans og hlaut ríkulega blessun fyrir. Ég sá gleðina skína úr augum fólks þegar ég sagði því frá hughreystandi boðskap Biblíunnar.“ Hvað annað hjálpaði Diane að aðlagast öðru landi? „Ég tengdist biblíunemendum mínum nánum böndum og fann fyrir djúpstæðri gleði við að sjá þá verða trúfasta þjóna Jehóva. Mér fannst að þarna ætti ég heima. Ég eignaðist andlegar mæður og feður, bræður og systur, rétt eins og Jesús lofaði.“ – Mark. 10:29, 30.
Anne, sem er nú hálffimmtug, starfar í Asíu í landi þar sem hömlur eru á starfi okkar. Hún segir: „Ég hef starfað á ýmsum stöðum og búið með systrum af allt öðrum uppruna en ég og með allt öðruvísi persónuleika. Stundum olli það misskilningi og sárindum. Þegar það gerðist reyndi ég að kynnast þeim nánar og skilja menningu þeirra betur. Ég lagði mig líka fram um að vera elskulegri og sanngjarnari við þær. Ég er glöð að það skyldi bera
árangur því að ég eignaðist margar góðar vinkonur sem hjálpa mér að halda starfi mínu áfram.“Ute er rúmlega fimmtug systir frá Þýskalandi. Árið 1993 var hún send sem trúboði til Madagaskar. Hún segir: „Í fyrstu átti ég erfitt með að læra tungumálið og aðlagast röku loftslaginu, og þar að auki fékk ég malaríu, slímdýr og sníkjuorma. En ég fékk mikla hjálp. Systurnar á staðnum, börnin þeirra og biblíunemendur mínir hjálpuðu mér af þolinmæði að ná góðum tökum á tungumálinu. Trúboðsfélagi minn hugsaði vel um mig þegar ég var veik. En fyrst og fremst hjálpaði Jehóva mér. Ég úthellti oft áhyggjum mínum fyrir honum í bæn. Síðan beið ég þolinmóð eftir að fá svar við bænum mínum – stundum dögum saman og stundum mánuðum saman. Jehóva leysti öll vandamálin.“ Ute hefur nú starfað í Madagaskar í 23 ár.
JEHÓVA HEFUR BLESSAÐ ÞÆR RÍKULEGA
Einhleypar systur, sem hafa flust þangað sem þörfin er mikil, hafa oft á orði að það hafi auðgað líf þeirra. Hvaða blessun hafa þær hlotið?
Heidi er frá Þýskalandi og er nú rúmlega sjötug. Hún hefur starfað sem trúboði á Fílabeinsströndinni síðan 1968. „Það sem veitir mér mesta gleði,“ segir hún, „er að sjá andlegu ,börnin mín hlýða sannleikanum‘. Sumir sem ég aðstoðaði við biblíunám eru nú brautryðjendur og safnaðaröldungar. Margir þeirra kalla mig mömmu eða ömmu. Einn öldunganna, kona hans og börn líta á mig sem eina af fjölskyldunni. Jehóva hefur því gefið mér son, tengdadóttur og þrjú barnabörn.“ – 3. Jóh. 4.
Karen býr í Kanada og er rúmlega sjötug. Hún starfaði í meira en 20 ár í Vestur-Afríku. Hún segir: „Trúboðsstarfið kenndi mér að vera fórnfúsari, kærleiksríkari og þolinmóðari. Ég varð líka víðsýnni af að starfa með bræðrum og systrum af ólíku þjóðerni. Ég komst að því að það er hægt gera hlutina á mismunandi vegu. Og það er stórkostleg blessun að eiga góða vini um allan heim. Þótt líf okkar og verkefni hafi breyst hefur vináttan haldist.“
Margaret er rúmlega sjötug systir á Englandi en hún starfaði sem trúboði í Laos. Hún segir: „Að þjóna í öðru landi gerði mér kleift að sjá með eigin augum hvernig Jehóva dregur fólk af öllum kynþáttum og menningarheimum til safnaðar síns. Það styrkti trú mína gríðarlega. Ég treysti því fullkomlega að Jehóva leiði söfnuð sinn og að fyrirætlanir hans nái fram að ganga.“
Einhleypar systur, sem starfa erlendis, hafa svo sannarlega sett framúrskarandi fordæmi í kristinni þjónustu. Þær eiga skilið innilegt hrós. (Dóm. 11:40) Og þeim fer sífellt fjölgandi. (Sálm. 68:12) Getur þú hagrætt málum þínum þannig að þú getir fetað í fótspor þeirra ötulu systra sem rætt var við? Ef svo er muntu án efa ,finna og sjá að Drottinn er góður‘. – Sálm. 34:9.