Vissir þú?
Hvaða heimildir eru utan Biblíunnar fyrir því að Ísraelsmenn hafi verið þrælar í Egyptalandi?
Biblían segir að ættfaðirinn Jakob og fjölskylda hans hafi flust frá Kanaanslandi til Egyptalands einhvern tíma eftir að Midíanítar fóru með Jósef þangað. Þau settust að á svæði sem nefnt er Gósenland og er nálægt ósum Nílar. (1. Mós. 47:1, 5, 6) Ísraelsmenn „voru frjósamir svo að þeim fjölgaði“. Það leiddi til þess að Egyptar óttuðust þá og neyddu þá til að vinna þrælavinnu. – 2. Mós. 1:7–14.
Sumir biblíugagnrýnendur hafa hæðst að þessari frásögn Biblíunnar og kallað hana goðsögn. En til eru heimildir fyrir því að Semítar * hafi búið í Egyptalandi til forna og verið þrælar.
Fornleifafræðingar hafa til dæmis fundið leifar af fornum byggðum í Norður-Egyptalandi. Doktor John Bimson segir að heimildir séu fyrir því að þar hafi verið 20 eða fleiri semískar byggðir. Auk þess segir Egyptalandsfræðingurinn James K. Hoffmeier: „Á tímabilinu frá um 1800 til 1540 f.Kr. sóttist semískumælandi fólk frá Vestur-Asíu eftir að flytjast búferlum til Egyptalands.“ Hann bætir við: „Þetta er sama tímabil og svonefndi ,ættfeðratíminn‘ og stemmir því við tíma og aðstæður sem lýst er í 1. Mósebók.“
Það eru líka til heimildir frá Suður-Egyptalandi. Papírushandrit frá tímum Miðjuríkisins (um 2000–1600 f.Kr.) inniheldur nöfn þræla sem unnu á heimili í Suður-Egyptalandi. Rúmlega fjörutíu nafnanna eru semísk. Þrælarnir, eða þjónustufólkið, elduðu, ófu textílefni og unnu aðra erfiðisvinnu. Hoffmeier segir: „Í ljósi þess að rúmlega fjörutíu semítar unnu á sama heimili í Thebaid [Suður-Egyptalandi] er líklegt að fjöldi þeirra um allt Egyptaland og sérstaklega við ósa Nílar hafi verið talsverður.“
Fornleifafræðingurinn David Rohl bendir á að sum nöfnin séu eins og komin af blöðum Biblíunnar. Papírusslitrin innihalda til dæmis nöfn sem eru svipuð nöfnum eins og Íssakar, Asser og Sifra. (2. Mós. 1:3, 4, 15) „Þetta sannar að Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi,“ segir Rohl að lokum.
Doktor Bimson segir: „Arfsagnir Biblíunnar um þrælkunina í Egyptalandi og brottförina þaðan eiga sér trausta stoð í sögunni.“
^ gr. 4 Heitið Semíti er dregið af nafninu Sem en hann var einn þriggja sona Nóa. Meðal afkomenda Sems voru líklega Elamítar, Assýringar, Fornkaldear, Hebrear, Sýrlendingar og ýmsir ættbálkar Araba.