Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Blessun hlýst af því að gera það sem Jehóva biður um

Blessun hlýst af því að gera það sem Jehóva biður um

„Við skulum gera það!“ Þannig svöruðum við hjónin ásamt bróður mínum og mágkonu þegar okkur var boðið að taka að okkur verkefni. Hvers vegna tókum við það að okkur og hvernig blessaði Jehóva okkur? Áður en ég segi frá því langar mig að segja svolítið frá sjálfri mér.

ÉG FÆDDIST árið 1923 í bænum Hemsworth í Yorkshire á Englandi. Ég átti einn bróður sem hét Bob en hann var eldri en ég. Pabbi hafði óbeit á hræsni trúarbragðanna, en þegar ég var um níu ára fékk hann bækur sem afhjúpuðu fölsk trúarbrögð. Það sem hann las hafði mikil áhrif á hann. Nokkrum árum síðar bankaði Bob Atkinson upp á og spilaði fyrir okkur eina af ræðum bróður Rutherfords á grammófón. Við áttuðum okkur á að ræðan var frá sama félagi og hafði gefið út bækurnar. Foreldrar mínir buðu bróður Atkinson að borða með okkur kvöldmat öll kvöld og svara þeim mörgu spurningum sem við höfðum um Biblíuna. Okkur var boðið að sækja samkomur heima hjá bróður í nokkurra kílómetra fjarlægð. Við vorum fljót að taka við okkur og lítill söfnuður var myndaður í Hemsworth. Ekki leið á löngu þar til við vorum farin að hýsa farandhirða og bjóða brautryðjendum á svæðinu í mat. Þessir bræður og systur höfðu mjög góð áhrif á mig.

Á þessum tíma höfðum við stofnað fyrirtæki. En pabbi sagði við bróður minn að við myndum losa okkur við það ef hann langaði að gerast brautryðjandi. Bob fannst það góð hugmynd og fór að heiman 21 árs til að starfa sem brautryðjandi. Tveim árum síðar, þegar ég var 16 ára, var ég útnefnd brautryðjandi. Ég starfaði yfirleitt ein á virkum dögum og notaði boðunarspjöld og grammófón. Jehóva blessaði starf mitt og ég fékk biblíunemanda sem tók góðum framförum. Með tímanum tóku margir úr fjölskyldu nemandans líka við sannleikanum. Ári síðar var ég útnefnd sérbrautryðjandi ásamt Mary Henshall. Okkur var falið að starfa á óúthlutuðu svæði í Cheshire-sýslu.

Í síðari heimsstyrjöldinni voru konur látnar taka þátt í stríðsrekstrinum. Þar sem sérbrautryðjendur boða trúna í fullu starfi bjuggumst við við að fá sömu undanþágu og trúboðar annarra trúarbragða. Dómstóllinn var hins vegar ekki á sama máli og ég var dæmd í 31 dags fangelsisvist. Ári síðar, þegar ég varð 19 ára, þurfti ég að koma tvisvar sinnum fyrir rétt því að ég neitaði samvisku minnar vegna að styðja stríðsreksturinn. Í bæði skiptin var ég sýknuð. Ég vissi allan þennan tíma að Jehóva hjálpaði mér með heilögum anda sínum, að hann hélt í hönd mína og studdi mig og styrkti. – Jes 41:10, 13.

NÝR SAMSTARFSFÉLAGI

Við Arthur Matthews kynntumst árið 1946. Hann hafði nýlokið við að afplána þriggja mánaða fangelsisdóm fyrir að neita að gegna herþjónustu. Eftir að hann losnaði úr fangelsinu fluttist hann til Hemsworth til að starfa með Dennis, bróður sínum, sem var sérbrautryðjandi. Pabbi þeirra hafði frætt þá um Jehóva allt frá unga aldri og þeir skírðust á unglingsaldri. Stuttu síðar var Dennis falið að fara til Írlands og því var Arthur án brautryðjandafélaga. Foreldrum mínum líkaði vel hvernig þessi ungi duglegi brautryðjandi kom fram og buðu honum því að búa hjá sér. Þegar ég kom í heimsókn vorum við Arthur vön að bjóðast til að vaska upp eftir matinn. Seinna meir fórum við að skrifast á. Árið 1948 var Arthur aftur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi. Við giftum okkur í janúar 1949 og höfðum það markmið að þjóna Jehóva í fullu starfi eins lengi og við gætum. Við vorum sparsöm og notuðum fríin til að vinna okkur inn peninga með því að tína ávexti. Með blessun Jehóva gátum við haldið áfram sem brautryðjendur.

Í Hemsworth árið 1949 stuttu eftir að við giftum okkur.

Rúmu ári síðar vorum við beðin að fara til Norður-Írlands, fyrst til Armagh og síðan Newry, en flestir íbúanna þar voru kaþólskir. Mikil spenna ríkti á svæðinu og við þurftum að vera mjög varkár og sýna dómgreind þegar við töluðum við fólk. Samkomur voru haldnar heima hjá hjónum í söfnuðinum 16 kílómetra frá heimili okkar. Um átta manns sóttu samkomurnar. Stundum var okkur boðið að gista og þá sváfum við á gólfinu og áttum saman ánægjulega morgunverðarstund daginn eftir. Það er dásamlegt til þess að vita að nú eru margir vottar á þessu svæði.

„VIÐ SKULUM GERA ÞAÐ!“

Bróðir minn og Lottie, konan hans, voru sérbrautryðjendur á Norður-Írlandi og árið 1952 fórum við fjögur saman á umdæmismót í Belfast. Bróðir nokkur var svo vænn að hýsa okkur öll ásamt bróður Pryce Hughes sem var þá deildarþjónn í Bretlandi. Eitt kvöldið ræddum við um bæklinginn God’s Way Is Love sem hafði nýlega verið gefinn út sérstaklega með Írland í huga. Bróðir Hughes talaði um það hve erfitt það væri að ná til kaþólskra í Írska lýðveldinu. Bræður og systur neyddust til að yfirgefa húsnæði sitt og urðu fyrir múgárásum sem prestarnir ýttu undir. „Okkur vantar hjón með bíl sem eru reiðubúin að taka þátt í sérstöku átaki til að dreifa bæklingnum um allt landið,“ sagði Pryce. * Það var þá sem við svöruðum: „Við skulum gera það!“

Á mótorhjóli með hliðarvagni ásamt öðrum brautryðjendum.

Þegar brautryðjendur voru í Dyflinni gátu þeir alltaf gist heima hjá Rutland „mömmu“ sem var trúföst systir til margra ára. Við dvöldum hjá henni um tíma og seldum hluta af eigum okkar. Eftir það fórum við fjögur á mótorhjólinu hans Bobs, sem var með hliðarvagni, í leit að bíl. Við fundum hentugan notaðan bíl og báðum seljandann að aka honum til okkar þar sem ekkert okkar kunni að keyra. Arthur sat á rúminu allt kvöldið og æfði sig að skipta um gíra í huganum. Daginn eftir, þegar hann var að reyna að koma bílnum út úr bílskúrnum, kom trúboðssystirin Mildred Willett (sem síðar giftist John Barr). Hún kunni að keyra! Hún kenndi okkur og með smá æfingu vorum við tilbúin að leggja í hann.

Bíllinn okkar og hjólhýsið.

Nú þurftum við að finna stað til að búa á. Við höfðum verið vöruð við því að búa í hjólhýsi því að andstæðingar gætu kveikt í því. Við leituðum því að annars konar húsnæði en fundum ekkert. Þessa nótt sváfum við fjögur í bílnum. Daginn eftir fundum við ekkert nema lítið heimasmíðað hjólhýsi með lítilli koju. Það varð heimili okkar. Ótrúlegt en satt þá áttum við ekki í neinum vandræðum með að leggja hjólhýsinu á landareignum vingjarnlegra bænda. Við boðuðum trúna á svæði sem var 15 til 25 kílómetra í burtu. Þegar við höfðum fært okkur á nýjan stað snerum við aftur til að heimsækja íbúana á svæðunum þar sem við höfðum áður lagt hjólhýsinu.

Við heimsóttum hvert einasta heimili í suðausturhluta lýðveldisins án teljandi vandræða. Við dreifðum meira en 20.000 bæklingum og sendum deildarskrifstofunni í Bretlandi nöfnin á þeim sem sýndu áhuga. Jehóva hefur augljóslega blessað starfið því að nú eru mörg hundruð vottar á svæðinu.

AFTUR TIL ENGLANDS, SÍÐAN TIL SKOTLANDS

Þegar fram liðu stundir vorum við send til suðurhluta Lundúna. Fáeinum vikum síðar var hringt í Arthur frá deildarskrifstofunni í Bretlandi og hann beðinn að byrja í farandstarfi daginn eftir. Við fengum þjálfun í viku og síðan héldum við á farandsvæðið okkar í Skotlandi. Arthur hafði engan tíma til að undirbúa ræðurnar sínar en mér fannst mjög hvetjandi að sjá hve viljugur hann var að takast á við krefjandi verkefni í þjónustu Jehóva. Við nutum þess að vera í farandstarfi. Við höfðum verið á óúthlutuðu svæði um nokkurra ára skeið og því var dásamleg blessun að vera innan um svo marga bræður og systur.

Við þurftum að taka stóra ákvörðun árið 1962 þegar Arthur var boðið að sækja Gíleaðskólann. Skólinn stóð yfir í tíu mánuði. Ég gat ekki farið með því að mér var ekki boðið en engu að síður fannst okkur réttast í stöðunni að Arthur myndi þiggja boðið. Þar sem ég yrði án starfsfélaga var ég send aftur til Hemsworth til að starfa sem sérbrautryðjandi. Þegar Arthur kom heim ári síðar vorum við beðin að taka að okkur umdæmisstarf. Svæðið okkar náði yfir Skotland, Norður-England og Norður-Írland.

NÝTT VERKEFNI Á ÍRLANDI

Árið 1964 fékk Arthur það verkefni að vera deildarþjónn í Írska lýðveldinu. Í fyrstu kveið ég mjög fyrir breytingunni því að við höfðum mikla ánægju af farandstarfinu. En þegar ég lít um öxl er ég mjög þakklát fyrir að hafa fengið að starfa á Betel. Ég er viss um að ef maður þiggur verkefni, jafnvel þótt mann langi ekki sérstaklega til þess, hlýtur maður alltaf blessun Jehóva. Á Betel vann ég skrifstofustörf, pakkaði inn ritum, eldaði og þreif. Um tíma sinntum við líka umdæmisstarfi og fengum þá tækifæri til að hitta trúsystkini okkar víðs vegar um landið. Þetta, auk þess að sjá biblíunemendur okkar taka framförum, tengdi okkur nánum böndum við andlega fjölskyldu okkar á Írlandi. Hvílík blessun!

ÞÁTTASKIL Í SÖGU SAFNAÐARINS Á ÍRLANDI

Fyrsta alþjóðamótið á Írlandi var haldið í Dyflinni árið 1965. * Mótið gekk eins og í sögu þrátt fyrir andstöðu úr öllum áttum. Fjöldi viðstaddra var 3.948 og 65 létu skírast. Allir þeir sem hýstu hina 3.500 erlendu mótsgesti fengu þakkarbréf frá deildarskrifstofunni. Og gestunum var hrósað fyrir góða hegðun. Þetta markaði þáttaskil fyrir vottana á Írlandi.

Arthur heilsar Nathan Knorr þegar hann kemur á mótið 1965.

Arthur tilkynnir árið 1983 að Biblíusögubókin mín sé komin út á gelísku.

Árið 1966 voru Norður- og Suður-Írland sameinuð undir deildarskrifstofuna í Dyflinni. Þessi eining var gerólík þeirri miklu sundrungu sem ríkti í stjórn- og trúmálum á eyjunni. Við vorum himinlifandi að sjá svo marga kaþólikka taka við sannleikanum og starfa ásamt bræðrum sínum og systrum sem eitt sinn voru mótmælendatrúar.

GERBREYTT VERKEFNI

Líf okkar tók kúvendingu þegar deildarskrifstofurnar í Bretlandi og á Írlandi voru sameinaðar árið 2011 og við vorum beðin að flytja til Betel í Lundúnum. Um sama leyti var ég farin að hafa áhyggjur af heilsu Arthurs. Hann var með parkinsonsveiki. Þann 20. maí 2015 missti ég lífsförunaut minn til 66 ára.

Á síðustu árum hef ég fundið fyrir djúpum harmi, sorg og þunglyndi. Arthur hafði alltaf verið stoð mín og stytta. Ég sakna hans ákaflega mikið. En sambandið við Jehóva styrkist í svona aðstæðum. Það gleður mig líka að vita hversu mörgum þótti vænt um Arthur. Ég hef fengið bréf frá trúsystkinum á Írlandi, í Bretlandi og jafnvel í Bandaríkjunum. Þessi bréf hafa hjálpað mér meira en orð fá lýst, og hið sama er að segja um uppörvunina sem ég hef fengið frá Dennis, bróður Arthurs, Mavis, konunni hans, og Ruth og Judy, bróðurdætrum mínum.

Mér finnst Jesaja 30:18 mjög uppörvandi vers, en þar segir: „Drottinn [bíður] þess að sýna yður náð, þess vegna rís hann upp til að miskunna yður, því að Drottinn er Guð réttlætisins. Sælir eru þeir sem á hann vona.“ Það veitir mér mikla huggun að vita að Jehóva skuli bíða þolinmóður eftir að bæta ástandið og gefa okkur ný og spennandi verkefni í nýja heiminum.

Þegar ég lít yfir farinn veg sé ég hvernig Jehóva hefur stýrt starfinu á Írlandi og blessað það. Ég tel það mikinn heiður að hafa fengið að eiga smá þátt í þessum andlega vexti. Jehóva blessar okkur alltaf ef við gerum það sem hann biður okkur um. Á því leikur enginn vafi.

^ gr. 12 Sjá árbók Votta Jehóva 1988, bls. 101-102.

^ gr. 22 Sjá árbók Votta Jehóva 1988, bls. 109-112.