Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eiga leiðbeiningar Biblíunnar við nú á tímum?

Eiga leiðbeiningar Biblíunnar við nú á tímum?

SUMIR SEGJA AÐ SVO SÉ EKKI. Læknir nokkur líkti því að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar við að kenna efnafræði upp úr hundrað ára gamalli kennslubók. Sá sem efast um gildi Biblíunnar gæti spurt hvort maður myndi nota gamla handbók fyrir úrelta tölvu til að læra á nýjustu tölvurnar. Með öðrum orðum líta margir á Biblíuna sem löngu úrelta bók.

Hvers vegna ætti maður að nota svona forna bók til að leiðbeina sér í tæknivæddum heimi nútímans? Á ótal vefsíðum og bloggsíðum er stöðugt hægt að nálgast nýjustu ráð og leiðbeiningar. Í sjónvarpsþáttum og spjallþáttum er boðið upp á ráðgjöf sérfræðinga og rætt við sálfræðinga, lífsstílsráðgjafa og rithöfunda. Og bókaverslanir selja fjöldann allan af sjálfshjálparbókum en sá iðnaður veltir milljörðum dollara árlega.

Fyrst svo auðveldlega er hægt að nálgast nýjustu upplýsingar hvers vegna ætti maður þá að leita ráða í Biblíunni – bók sem lokið var við að rita fyrir næstum 2.000 árum? Hafa efasemdamenn eitthvað til síns máls þegar þeir segja að við gætum allt eins notað úreltar efnafræðibækur eða tölvuhandbækur og að leita ráða í Biblíunni? En í raun er ekki hægt að leggja það að jöfnu. Vísindi og tækni breytast stöðugt en grunnþarfir manna hafa ekki breyst. Enn í dag þráir fólk innihaldsríkt líf, hamingju, öryggi, samheldna fjölskyldu og trausta vini.

Þó að Biblían sé gömul bók hefur hún að geyma leiðbeiningar um allt þetta. Og það sem meira er, Biblían fullyrðir að hún sé innblásin af skaparanum. Hún gefur okkur ráð sem gagnast okkur á öllum sviðum lífsins og gerir okkur kleift að takast á við ýmsar áskoranir sem mæta okkur. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Þar að auki segir hún að ráð hennar séu sígild og falli aldrei úr gildi. Biblían segir sjálf: „Orð Guðs er lifandi.“ – Hebreabréfið 4:12.

En eru fullyrðingar Biblíunnar sannar? Er hún úrelt bók eða hefur hún í raun og veru að geyma ráð sem eru gagnleg og standast tímans tönn? Eru orð hennar lifandi? Þetta tölublað Varðturnsins, sem er fyrsta sérútgáfan af nokkrum, hjálpar þér að finna svörin við þessum spurningum.