Að sýna náunganum kærleika
Við erum öll afkomendur Adams, fyrsta mannsins, og tilheyrum því sömu fjölskyldunni. Og þó að gera megi ráð fyrir að fólk elski og virði fjölskyldu sína er náungakærleikur vandfundinn nú á dögum. Kærleiksríkur Guð okkar vill ekki að það sé þannig.
HVAÐ SEGIR RITNINGIN UM KÆRLEIKA?
„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – 3. MÓSEBÓK 19:18.
„Elskið óvini ykkar.“ – MATTEUS 5:44.
HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR AÐ ELSKA NÁUNGANN?
Taktu eftir því hvernig Guð lýsir kærleikanum. Í 1. Korintubréfi 13:4–7 segir:
„Kærleikurinn er þolinmóður og góðviljaður.“
Hugleiddu þetta: Hvernig líður þér þegar aðrir eru þolinmóðir og góðviljaðir við þig og reiðast þér ekki þegar þér verður eitthvað á?
„Kærleikurinn öfundar ekki.“
Hugleiddu þetta: Hvernig líður þér þegar aðrir öfunda þig eða eru tortryggnir gagnvart þér?
Kærleikurinn „hugsar ekki um eigin hag“.
Hugleiddu þetta: Hvernig líður þér þegar aðrir eru fúsir til að virða skoðanir þínar og krefjast þess ekki alltaf að fá sínu framgengt?
Kærleikurinn „heldur ekki reikning yfir rangindi“.
Hugleiddu þetta: Guð er fús til að fyrirgefa þeim sem hafa syndgað gegn honum en iðrast. „Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.“ (Sálmur 103:9) Ef við særum einhvern erum við þakklát ef hann fyrirgefur okkur. Við ættum því að vera fús til að fyrirgefa öðrum þegar þeir særa okkur. – Sálmur 86:5.
Kærleikurinn „gleðst ekki yfir ranglæti“.
Hugleiddu þetta: Við viljum ekki að aðrir hlakki yfir óförum okkar. Við gleðjumst þess vegna ekki heldur yfir erfiðleikum annarra, ekki einu sinni þó að þeir hafi farið illa með okkur.
Ef við viljum njóta blessunar Guðs verðum við að sýna öðrum kærleika á þennan hátt, óháð því hverjir þeir eru. Við getum meðal annars gert það með því að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi.