Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rétt viðhorf til mistaka

Rétt viðhorf til mistaka

Don og Margaret * fengu dóttur sína og fjölskyldu hennar í heimsókn í nokkra daga. Síðasta daginn þeirra saman eldaði Margaret, sem var kokkur á eftirlaunum, uppáhaldsmat tveggja dóttursona sinna – makkarónur í ostasósu.

Þegar allir voru sestir við matarborðið kom Margaret inn með matinn. Hún tók lokið af pottinum og sá sér til hrellingar að það var bara heit ostasósa í honum. Margaret hafði gleymt að setja aðalhráefnið út í réttinn – sjálfar makkarónurnar.

Við gerum öll mistók, óháð aldri og reynslu. Við getum til dæmis sagt eða gert eitthvað í hugsunarleysi eða á röngum tíma. Kannski steingleymum við einhverju sem við eigum að gera. En hvers vegna gerum við mistök og hvernig getum við tekist á við þau? Getum við komist hjá því að gera mistök? Rétt viðhorf til mistaka hjálpar okkur að svara þessum spurningum.

MISTÖK – VIÐHORF OKKAR OG GUÐS

Þegar okkur tekst vel til tökum við gjarnan við hrósi og viðurkenningu. Ættum við þá ekki einnig að viðurkenna mistök okkar jafnvel þótt þau séu óviljandi eða enginn hafi tekið eftir þeim? Til að geta gert það þurfum við að vera auðmjúk.

Ef við lítum of stórt á okkur gerum við sennilega lítið úr mistökum okkar, skellum skuldinni á aðra eða neitum jafnvel að hafa gert þau. Ef þetta er viðhorf okkar getur það haft slæmar afleiðingar. Við leysum ekki vandamál með slíkum hætti og aðrir gætu verið hafðir fyrir rangri sök. Og jafnvel þó að okkur takist að breiða yfir mistök okkar skulum við hafa í huga að með tímanum þarf „sérhvert okkar [að] gera Guði skil á sjálfu sér“. – Rómverjabréfið 14:12.

Guð lítur raunsæjum augum á mistök okkar. Í Biblíunni er sagt að Guð sé „náðugur og miskunnsamur ... Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.“ Guð veit að við erum ófullkomin og skilur meðfædda veikleika okkar. Hann „minnist þess að vér erum mold“. – Sálmur 103:8, 9, 14.

Þar að auki vill Guð, sem er miskunnsamur faðir okkar mannanna, að við lítum mistök sömu augum og hann. (Sálmur 130:3) Í orði hans, Biblíunni, finnum við fjölda leiðbeininga og ráða sem hjálpa okkur að takast á við eigin mistök og annarra.

AÐ BREGÐAST RÉTT VIÐ MISTÖKUM

Þegar okkur verður á eyðum við oft miklum tíma og orku í að skella skuldinni á aðra eða réttlæta það sem við höfum sagt eða gert. Væri ekki betra að biðjast bara afsökunar ef við höfum móðgað einhvern, leiðrétta mistökin og halda vinskapnum? Hefur þú gert eitthvað á hlut einhvers og valdið honum eða sjálfum þér óþægindum eða erfiðleikum? Væri ekki ráð að gera sitt besta til að laga það sem afvega fór í stað þess að áfellast sjálfan sig eða kenna öðrum um? Að halda því fram að mistökin séu einhverjum öðrum að kenna eykur sennilega spennuna og vandann. Reyndu þess í stað að læra af þeim, leiðrétta þau og hætta að hugsa um þau.

Þegar einhver annar gerir mistök er mjög auðvelt að bregðast við með vanþóknun. Það væri hins vegar vænlegra að fylgja þessu ráði Jesú Krists: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matteus 7:12) Þegar þú gerir mistök, jafnvel þótt þau séu smávægileg, viltu án efa að aðrir sýni þér samkennd eða horfi jafnvel fram hjá mistökunum. Ættum við ekki á svipaðan hátt að gera okkar besta til að sýna öðrum slíka góðvild? – Efesusbréfið 4:32.

MEGINREGLUR SEM HJÁLPA OKKUR AÐ DRAGA ÚR MISTÖKUM

Ástæður mistaka geta verið „slæm dómgreind, skortur á þekkingu eða eftirtektarleysi,“ segir í orðabók nokkurri. Við verðum að viðurkenna að eitthvað af þessu getur hent okkur öll einhvern tíma á lífsleiðinni. En við getum hins vegar fækkað mistökum með því að fylgja nokkrum meginreglum úr Biblíunni.

Eina slíka meginreglu finnum við í Orðskviðunum 18:13 en þar segir: „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ Ef við tökum okkur tíma til að hlusta á alla söguna og íhuga svar okkar mun það án efa hjálpa okkur að svara ekki í fljótfærni. Með því að gefa gaum að því sem sagt er eigum við auðveldara með að forðast þau mistök að vera of fljót til að dæma.

Önnur meginregla úr Biblíunni hljómar svona: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18) Gerðu það sem þú getur til þess að halda friðinn og góðri samvinnu. Vertu tillitssamur og sýndu virðingu þegar þú vinnur með öðrum, leitastu við að hrósa þeim og hvetja þá. Í slíku andrúmslofti er auðveldara að fyrirgefa eða líta fram hjá hugsunarlausum orðum og misgerðum. Og hægt er að græða sár og leita lausna í vinsemd.

Reyndu að læra af mistökum þínum. Í stað þess að koma með afsakanir þegar þér verður á skaltu líta á það sem tækifæri til þess að þroska með þér góða eiginleika. Þarftu að sýna meira langlyndi, góðvild eða sjálfsaga? Eða kannski hógværð, frið og kærleika? (Galatabréfið 5:22, 23) Þú getur í það minnsta lært að bregðast öðruvísi við næst þegar svipaðar aðstæður koma upp. Taktu ábyrgð en ekki taka sjálfan þig of alvarlega. Að geta hlegið að sjálfum sér dregur úr spennu.

RÉTT VIÐHORF ER GAGNLEGT

Að hafa rétt viðhorf hjálpar okkur að bregðast jákvætt við mistökum. Við verðum sáttari við okkur sjálf og við aðra. Ef maður reynir að læra af mistökunum verður maður skynsamari og þægilegri í umgengni. Þá verðum við heldur ekki niðurlút eða hugsum neikvætt um sjálf okkur. Þegar maður sér aðra lagfæra mistök sín metur maður þá enn betur. Og síðast en ekki síst er það okkur til gagns að líkja eftir kærleika Guðs og fúsleika hans til að fyrirgefa. – Kólossubréfið 3:13.

Höfðu mistök Margaretar, sem minnst var á áður, slæm áhrif á samverustund fjölskyldunnar? Nei, alls ekki. Öllum fannst þetta fyndið, ekki síst henni sjálfri, og svo borðuðu þau matinn með bestu lyst – með engum makkarónum! Mörgum árum síðar sögðu dóttursynirnir tveir sínum eigin börnum söguna af þessari ógleymanlegu fjölskyldumáltíð og rifjuðu upp góðar minningar sem þeir áttu af ömmu og afa. Þegar öllu er á botninn hvolft voru þetta bara mistök!

^ gr. 2 Nöfnum hefur verið breytt.