Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Útbreiðum fagnaðarboðskapinn um einstaka góðvild Guðs

Útbreiðum fagnaðarboðskapinn um einstaka góðvild Guðs

„Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.“ – POST. 20:24.

SÖNGVAR: 101, 84

1, 2. Hvernig sýndi Páll postuli að hann var þakklátur fyrir einstaka góðvild Guðs?

PÁLL postuli gat sagt í fullri einlægni: „Náð [Guðs] við mig hefur ekki orðið til ónýtis“. [1] (1. Korintubréf 15:9, 10.) Páll vissi vel að hann hafði hvorki áunnið sér miskunn Guðs né verðskuldaði hana því að hann hafði áður ofsótt kristna menn.

2 Páll skrifaði Tímóteusi, samstarfsmanni sínum, rétt fyrir dauða sinn: „Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu.“ (1. Tím. 1:12-14) Hvaða þjónusta var það? Páll sagði safnaðaröldungunum í Efesus hvað hún fól í sér: „Mér er líf mitt einskis virði fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.“ – Post. 20:24.

3. Hvaða þjónusta var Páli falin? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Hvaða „fagnaðarerindi“ boðaði Páll sem lagði áherslu á einstaka góðvild Jehóva? Hann sagði kristnum mönnum í Efesus: „Víst hafið þið heyrt um þá náð sem Guð hefur sýnt mér og um það hlutverk sem hann hefur falið mér hjá ykkur.“ (Ef. 3:1, 2) Páli hafði verið falið að boða heiðingjum fagnaðarboðskapinn þannig að þeir gætu líka fengið að stjórna með Kristi í ríki hans. (Lestu Efesusbréfið 3:5-8.) Páll var kostgæfinn að boða boðskapinn og er góð fyrirmynd fyrir kristna menn nú á tímum. Hann sýndi að sú einstaka góðvild Guðs, sem hann naut, hafði ekki verið „til ónýtis“.

HVAÐA LÖNGUN VEKUR EINSTÖK GÓÐVILD GUÐS MEÐ ÞÉR?

4, 5. Hvers vegna má segja að „fagnaðarerindið um ríkið“ sé það sama og ,fagnaðarerindið um náð Guðs‘?

4 Núna á tímum endalokanna hefur þjónum Jehóva verið falið það verk að boða „fagnaðarerindið um ríkið ... um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það“. (Matt. 24:14) Þetta fagnaðarerindi um ríkið er einnig ,fagnaðarerindið um Guðs náð‘ því að öll sú blessun, sem ríki Guðs færir okkur, er tilkomin vegna einstakrar góðvildar hans. (Ef. 1:3) Páll sýndi þakklæti fyrir góðvild Jehóva með því að boða fagnaðarboðskapinn af krafti. Líkjum við eftir honum? – Lestu Rómverjabréfið 1:14-16.

5 Í greininni á undan lærðum við hvernig við njótum góðs af góðvild Jehóva á margvíslegan hátt þó að við séum syndug. Það er skylda okkar að kenna fólki hvernig Jehóva sýnir kærleika sinn og hvernig það getur notið góðs af honum. Hvað getum við bent fólki á svo að það læri að meta einstaka góðvild Guðs?

FLYTJUM FAGNAÐARBOÐSKAPINN UM LAUSNARFÓRNINA

6, 7. Hvernig flytjum við fagnaðarboðskapinn um góðvild Guðs þegar við segjum fólki frá lausnargjaldinu?

6 Í þessum heimi þykir það engin skömm lengur að syndga og margir skilja ekki að mannkynið þurfi á lausnargjaldi að halda. Sífellt fleiri átta sig þó á að það veitir ekki sanna hamingju að láta sífellt undan eigin löngunum. Margir skilja ekki hvað synd er fyrr en þeir tala við votta Jehóva. Þeir vita ekki hvaða áhrif syndin hefur og hvað við þurfum að gera til að losna úr þrælkun hennar. Einlægu fólki léttir að fá að vita að Jehóva sýndi mannkyninu einstakan kærleika og góðvild með því að senda son sinn til jarðar til að leysa okkur frá syndinni og dauðanum sem er afleiðing hennar. – 1. Jóh. 4:9, 10.

7 Páll sagði um elskaðan son Jehóva: „Í honum, fyrir hans blóð, eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans [Jehóva] sem hann gaf oss ríkulega.“ (Ef. 1:7, 8) Lausnarfórn Krists er sterkasta sönnunin fyrir kærleika Guðs til okkar og sýnir hversu mikil góðvild hans er. Það er mikill léttir að vita að með því að trúa á úthellt blóð Jesú verða syndir okkar fyrirgefnar og við fáum hreina samvisku. (Hebr. 9:14) Þetta eru mikil gleðitíðindi sem við getum sagt öðrum.

HJÁLPAÐU FÓLKI AÐ EIGNAST VINÁTTUSAMBAND VIÐ GUÐ

8. Af hverju þurfa ófullkomnir menn að komast í sátt við Guð?

8 Okkur ber skylda til að segja öðrum frá því að þeir geti eignast vináttusamband við skapara sinn. Guð álítur fólk óvini sína nema það trúi á lausnarfórn Jesú. Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ (Jóh. 3:36) Til allrar hamingju getum við orðið vinir Guðs vegna lausnarfórnar Krists. Páll sagði: „Ykkur, sem voruð áður fráhverf Guði og óvinveitt í huga og vondum verkum, hefur hann nú sætt við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama.“ – Kól. 1:21, 22.

9, 10. (a) Hvaða ábyrgð fól Kristur andasmurðum bræðrum sínum? (b) Hvernig hjálpa aðrir sauðir andasmurðum bræðrum sínum?

9 Kristur hefur falið andasmurðum bræðrum sínum á jörð „þjónustu sáttargerðarinnar“ eins og Páll kallar hana. Hann skrifaði kristnum mönnum á fyrstu öld: „Allt er frá Guði sem sætti mig við sig fyrir Krist og gaf mér þjónustu sáttargerðarinnar. Því að það var Guð sem í Kristi sætti heiminn við sig er hann tilreiknaði mönnum ekki afbrot þeirra og fól mér að boða orð sáttargjörðarinnar. Ég er því erindreki Krists sem Guð notar til að hvetja ykkur. Ég bið í orðastað Krists: Látið sættast við Guð.“ – 2. Kor. 5:18-20.

10 Aðrir sauðir líta á það sem heiður að aðstoða andasmurða bræður sína við boðunina. (Jóh. 10:16) Það má segja að þeir séu sendifulltrúar Krists enda bera þeir hitann og þungann af því að kenna fólki sannleikann og hjálpa því að eignast vináttusamband við Jehóva. Þetta er mikilvægur þáttur í því að bera vitni fagnaðarerindinu um góðvild Guðs.

FLYTJUM FÓLKI ÞAU GLEÐITÍÐINDI AÐ GUÐ HEYRI BÆNIR

11, 12. Hvers vegna eru það gleðitíðindi fyrir fólk að það geti beðið til Jehóva?

11 Margir biðja af því að þá líður þeim vel en þeir trúa ekki endilega að Guð heyri bænir þeirra. Þeir þurfa að fá að vita að Jehóva „heyrir bænir“. Sálmaskáldið Davíð orti: „Þú, sem heyrir bænir, til þín leita allir menn. Þegar misgjörðir vorar verða oss um megn fyrirgefur þú oss.“ – Sálm. 65:3, 4.

12 Jesús sagði við lærisveina sína: „Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni mun ég gera það.“ (Jóh. 14:14) Hér er auðvitað átt við að biðja um það sem er í samræmi við vilja Jehóva. Jóhannes skrifaði: „Þetta er traustið sem við berum til hans: Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur.“ (1. Jóh. 5:14) Það er gott að kenna öðrum að bænin er annað og meira en aðferð til að líða betur. Bænin er stórkostleg leið til að nálgast „hásæti Guðs náðar“. (Hebr. 4:16) Með því að kenna öðrum að biðja til Jehóva, biðja á réttan hátt og um réttu hlutina getum við hjálpað þeim að nálgast Jehóva og finna huggun á erfiðleikatímum. – Sálm. 4:2; 145:18.

EINSTÖK GÓÐVILD GUÐS Í NÝJA HEIMINUM

13, 14. (a) Hvaða einstaka heiður fá andasmurðir í framtíðinni? (b) Hvað munu andasmurðir gera fyrir mannkynið?

13 Jehóva heldur áfram að sýna einstaka góðvild eftir að illur heimur nútímans líður undir lok. Páll skrifaði um þann mikla heiður sem Guð hefur veitt þeim 144.000 sem eiga að ríkja með Kristi á himnum: „Guð er auðugur að miskunn. Svo mikil var elska hans til okkar að þótt við værum dauð vegna misgjörða okkar endurlífgaði hann okkur með Kristi – af náð eruð þið hólpin orðin – og reisti okkur upp með Kristi Jesú og bjó okkur stað hjá honum í himinhæðum. Þannig vildi hann sýna á komandi öldum ómælanlega auðlegð náðar sinnar og gæsku við okkur í Kristi Jesú.“ – Ef. 2:4-7.

14 Það er erfitt að ímynda sér hversu stórfenglegt það verður fyrir andasmurða kristna menn að sitja í hásætum og stjórna með Kristi á himnum. (Lúk. 22:28-30; Fil. 3:20, 21; 1. Jóh. 3:2) Jehóva sýnir þeim öðrum fremur „ómælanlega auðlegð náðar sinnar“. Þeir verða brúður Krists, hin ,nýja Jerúsalem‘. (Opinb. 3:12; 17:14; 21:2, 9, 10) Þeir aðstoða Jesú við að ,lækna þjóðirnar‘ og leysa mennina undan byrði syndar og dauða. Mannkynið verður fullkomið. – Lestu Opinberunarbókina 22:1, 2, 17.

15, 16. Hvernig sýnir Jehóva öðrum sauðum einstaka góðvild í framtíðinni?

15 Í Efesusbréfinu 2:7 stendur að Guð sýni góðvild sína í „hinum komandi heimi“. Í nýja heiminum fá allir að upplifa ,ómælanlega auðlegð náðar Guðs‘. (Lúk. 18:29, 30) Ein helsta leið Jehóva til að sýna stórkostlega góðvild sína á jörðinni verður án efa þegar hann reisir upp hina dánu. (Job. 14:13-15; Jóh. 5:28, 29) Trúfastir menn og konur fortíðar, sem dóu áður en Jesús fórnaði lífi sínu, og aðrir sauðir, sem deyja trúfastir á síðustu dögum, verða reistir upp til lífs til að halda áfram að þjóna Jehóva.

16 Milljónir manna, sem dóu án þess að hafa kynnst Guði, verða líka reistar upp. Þeim verður gefið tækifæri til að lúta yfirráðum Jehóva. Jóhannes skrifaði: „Ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu og bókunum var lokið upp. Þá var annarri bókinni lokið upp, það var lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir eftir verkum sínum eins og ritað var í bókunum. Og hafið skilaði hinum dauðu sem í því voru og dauðinn og hel skiluðu þeim dauðu sem í þeim voru og sérhver hlaut dóm eftir verkum sínum.“ (Opinb. 20:12, 13) Að sjálfsögðu verður ætlast til þess að hinir upprisnu læri að fylgja meginreglum Guðs sem er að finna í Biblíunni. Auk þess verða þeir að fylgja nýjum gagnlegum leiðbeiningum sem verður komið á framfæri „í bókunum“. Þar kemur fram til hvers Jehóva ætlast af þeim sem vilja lifa í nýja heiminum. Þessar nýju leiðbeiningar eru önnur leið Jehóva til að sýna einstaka góðvild sína.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ BOÐA FAGNAÐARBOÐSKAPINN

17. Hvað skulum við hafa í huga þegar við boðum fagnaðarerindið?

17 Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að boða fagnaðarerindið um ríkið. (Mark. 13:10) Þessi boðskapur leggur greinilega áherslu á einstaka góðvild Jehóva. Við ættum að hafa það í huga þegar við boðum hann. Markmið okkar er að heiðra Jehóva. Við gerum það með því að benda fólki á að allt sem Jehóva lofar að gera í nýja heiminum ber vitni um einstaka góðvild hans.

Vertu ,góður ráðsmaður margvíslegrar náðar Guðs‘. – 1. Pét. 4:10. (Sjá 17.-19. grein.)

18, 19. Hvernig lofum við Jehóva fyrir einstaka góðvild hans?

18 Þegar við boðum fagnaðarboðskapinn getum við útskýrt fyrir fólki að þegar Kristur ríkir munu mennirnir hafa fullt gagn af lausnarfórninni og verða smám saman fullkomnir. Biblían segir: „Sjálf sköpunin [verður] leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og [fær] frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.“ (Rómv. 8:21) Það er aðeins einstök góðvild Jehóva sem getur komið þessu til leiðar.

19 Við njótum þess mikla heiðurs að fá að segja öllum sem vilja hlusta frá því stórfenglega loforði sem stendur í Opinberunarbókinni 21:4, 5: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Og Jehóva, sem situr í hásætinu, segir: „Sjá, ég geri alla hluti nýja.“ Hann segir líka: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ Þegar við boðum öðrum þennan fagnaðarboðskap erum við sannarlega að lofa Jehóva fyrir einstaka góðvild hans.

^ [1] (1. grein.) Þegar orðið „náð“ kemur fyrir í biblíutextum í þessari grein er átt við einstaka góðvild Guðs.