Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rétt og rangt: Biblían – traustur leiðarvísir

Rétt og rangt: Biblían – traustur leiðarvísir

Við getum ekki treyst því að ákvarðanir okkar verði til góðs ef við byggjum þær bara á tilfinningum okkar og skoðunum annarra. Biblían útskýrir ekki bara hvers vegna heldur veitir hún líka trausta leiðsögn í siðferðismálum, en það er lykillinn að hamingjusömu og innihaldsríku lífi.

LEIÐSÖGN SEM VIÐ ÞURFUM Á AÐ HALDA

Í Biblíunni kemur fram að ætlun Jehóva a Guðs var að menn leituðu leiðsagnar hjá honum en ekki að þeir létu stýrast af eigin hugmyndum. (Jeremía 10:23) Þess vegna hefur hann gefið okkur þær siðferðisreglur sem er að finna í Biblíunni. Hann elskar mennina og vill ekki að við tökum slæmar ákvarðanir sem valda okkur skaða og vonbrigðum. (5. Mósebók 5:29; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þar sem hann skapaði okkur býr hann auk þess yfir visku og þekkingu til að gefa okkur bestu ráðin sem hægt er að fá. (Sálmur 100:3; 104:24) Guð neyðir þó engan til að fara eftir meginreglum sínum.

Jehóva gaf fyrstu hjónunum, Adam og Evu, allt sem þau þurftu til að geta notið lífsins. (1. Mósebók 1:28, 29; 2:8, 15) Hann gaf þeim líka einfaldar leiðbeiningar sem hann ætlaðist til að þau hlýddu. Hann leyfði þeim samt að velja hvort þau myndu fylgja leiðbeiningunum eða ekki. (1. Mósebók 2:9, 16, 17) Því miður völdu Adam og Eva að fara eftir sínum eigin stöðlum frekar en Guðs. (1. Mósebók 3:6) Hver var afleiðingin? Eru mennirnir betur settir þegar þeir ákveða sjálfir hvað er rétt og rangt? Sagan sýnir að það veitir okkur ekki varanlegan frið og hamingju að hunsa meginreglur Guðs. – Prédikarinn 8:9.

Biblían veitir okkur leiðbeiningar sem við þurfum á að halda til að taka skynsamlegar ákvarðanir, óháð uppruna okkar. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; sjá rammann „ Bók fyrir alla“.) Skoðum hvernig Biblían gerir það.

Kynntu þér rökin fyrir því að Biblían er réttilega kölluð ‚orð Guðs‘. – 1. Þessaloníkubréf 2:13. Horfðu á myndbandið Hver er höfundur Biblíunnar? á jw.org.

BIBLÍAN VEITIR OKKUR LEIÐBEININGAR FRÁ GUÐI

Biblían hefur að geyma frásögn af samskiptum Jehóva við mannkynið. Af henni getum við áttað okkur á hvað er rétt og rangt í augum Guðs og hvað hann álítur gagnlegt og skaðlegt. (Sálmur 19:7, 11) Við finnum sígildar meginreglur sem hjálpa okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir í daglegu lífi okkar.

Tökum sem dæmi ráðið í Orðskviðunum 13:20: „Sá sem umgengst hina vitru verður vitur en illa fer fyrir þeim sem hefur félagsskap við heimskingja.“ Þessi meginregla á alveg jafn vel við á okkar tímum og hún átti til forna. Í Biblíunni eru ótal dæmi um gagnlegar og verðmætar meginreglur eins og þessa. – Sjá rammann „ Sígild viska Biblíunnar“.

En þú veltir kannski fyrir þér hvernig við getum verið viss um að leiðbeiningar Biblíunnar eigi við nú á dögum. Í næstu grein skoðum við nokkrar reynslusögur.

a Jehóva er nafn Guðs. – Sálmur 83:18.