Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Allir sannkristnir menn boða fagnaðarerindið

Allir sannkristnir menn boða fagnaðarerindið

Allir sannkristnir menn boða fagnaðarerindið

„Syngið [Jehóva], lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.“ — SÁLMUR 96:2.

1. Hvaða fagnaðarerindi þarf fólk að heyra og hvernig hafa Vottar Jehóva útbreitt það dyggilega?

HÖRMUNGAR eru daglegt brauð í heiminum. En Biblían boðar að styrjaldir, glæpir, hungur og kúgun taki bráðlega enda og það er hughreystandi. (Sálmur 46:10; 72:3, 7, 8, 12, 16) Eru það ekki fagnaðartíðindi sem allir þurfa að heyra? Vottar Jehóva eru þeirrar skoðunar og eru þekktir hvarvetna fyrir að ‚flytja gleðitíðindi.‘ (Jesaja 52:7) Margir vottar hafa vissulega verið ofsóttir fyrir það að boða fagnaðarerindið staðfastlega, en þeir bera hag fólks fyrir brjósti. Og óneitanlega hafa Vottarnir sýnt af sér mikla kostgæfni og þrautseigju!

2. Nefndu eina ástæðu fyrir kostgæfni Votta Jehóva.

2 Kostgæfni Votta Jehóva nútímans er hliðstæð því sem var hjá kristnum mönnum á fyrstu öld. Rómversk-kaþólska dagblaðið L’Osservatore Romano segir réttilega um þá: „Frumkristnir menn höfðu ekki fyrr tekið skírn en þeir álitu sér skylt að útbreiða fagnaðarerindið. Þrælar fluttu fagnaðarerindið munni til munns.“ Hvers vegna eru Vottar Jehóva svona kappsamir, líkt og hinir frumkristnu? Í fyrsta lagi vegna þess að fagnaðarerindið, sem þeir flytja, er frá Jehóva Guði sjálfum. Varla er hægt að hugsa sér betra tilefni til að vera kappsamur. Boðun þeirra er svar við hvatningu sálmaritarans: „Syngið [Jehóva], lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.“ — Sálmur 96:2.

3. (a) Nefndu aðra ástæðu fyrir kostgæfni Votta Jehóva. (b) Hvað er fólgið í ‚hjálpráðum Guðs‘?

3 Orð sálmaritarans minna á aðra ástæðu fyrir kostgæfni Votta Jehóva: Þeir boða hjálpræði. Fjöldi fólks vinnur hörðum höndum á sviði heilbrigðisþjónustu, félagsmála og efnahagsmála til að bæta hlutskipti meðbræðra sinna og það er hrósunarvert. En í samanburði við ‚hjálpráð Guðs‘ er það ósköp takmarkað sem einn maður getur gert fyrir annan. Fyrir milligöngu Jesú Krists mun Jehóva bjarga auðmjúkum mönnum úr greipum syndar, sjúkdóma og dauða, og þeir sem hann bjargar munu lifa að eilífu! (Jóhannes 3:16, 36; Opinberunarbókin 21:3, 4) Hjálpræði er eitt þeirra ‚dásemdarverka‘ sem kristnir menn segja öðrum frá, líkt og hvatt er til í Sálmunum: „Segið frá dýrð [Guðs] meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða. Því að mikill er [Jehóva] og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.“ — Sálmur 96:3, 4.

Fordæmi meistarans

4-6. (a) Hver er þriðja ástæðan fyrir því að Vottar Jehóva eru atorkusamir? (b) Hvernig sýndi Jesús brennandi áhuga á boðun fagnaðarerindisins?

4 Þriðja ástæðan fyrir því að Vottar Jehóva eru atorkusamir er sú að þeir fylgja fordæmi Jesú Krists sem var fullkominn. (1. Pétursbréf 2:21) Hann tók skilyrðislaust að sér það verkefni að vera boðberi fagnaðarerindisins og „að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap.“ (Jesaja 61:1; Lúkas 4:17-21) Hann fór um Galíleu og Júdeu þvera og endilanga og „prédikaði fagnaðarerindið um ríkið.“ (Matteus 4:23) Og hann vissi að margir myndu taka við fagnaðarerindinu þannig að hann sagði lærisveinunum: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ — Matteus 9:37, 38.

5 Jesús þjálfaði nýja boðbera í samræmi við þessa bæn. Er fram liðu stundir sendi hann postulana út og sagði þeim: „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“ Hefðu þeir ekki gert meira gagn með því að reyna kerfisbundið að bæta þjóðfélagsmein samtíðarinnar? Eða hefðu þeir betur tekið þátt í stjórnmálum í þeim tilgangi að berjast gegn útbreiddri spillingu samtímans? Nei, Jesús lagði öllum kristnum boðberum línurnar er hann sagði fylgjendum sínum: „Farið og prédikið.“ — Matteus 10:5-7.

6 Síðar sendi Jesús út annan lærsveinahóp til að boða: „Guðs ríki er komið í nánd við yður.“ Hann gladdist mjög er þeir sneru aftur úr boðunarferðinni og gerðu honum grein fyrir góðum árangri af starfi sínu. Hann sagði í bæn: „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.“ (Lúkas 10:1, 8, 9, 21) Lærisveinar Jesú höfðu áður verið vinnusamir fiskimenn, bændur og þvíumlíkt og voru eins og smælingjar í samanburði við hámenntaða trúarleiðtoga þjóðarinnar. En lærisveinarnir voru þjálfaðir í því að boða mestu gleðitíðindi sem hugsast gat.

7. Hvar boðuðu fylgjendur Jesú fagnaðarerindið fyrst eftir að hann steig upp til himna?

7 Fylgjendur Jesú héldu áfram að útbreiða fagnaðarerindi hjálpræðisins eftir að hann var stiginn upp til himna. (Postulasagan 2:21, 38-40) Meðal hverra prédikuðu þeir fyrst í stað? Héldu þeir út til annarra þjóða sem þekktu ekki Guð? Nei, fyrst í stað störfuðu þeir í Ísrael, meðal þjóðar sem hafði þekkt Jehóva í meira en 1500 ár. Áttu þeir rétt á að prédika í landi þar sem Jehóva var tilbeðinn? Já, Jesús hafði sagt þeim: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Ísraelsmenn þurftu að heyra fagnaðarerindið ekkert síður en aðrar þjóðir.

8. Hvernig líkja Vottar Jehóva nútímans eftir fylgjendum Jesú á fyrstu öld?

8 Vottar Jehóva nútímans boða líka fagnaðarerindið um allan heim. Þeir vinna með englinum sem Jóhannes sá „fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ (Opinberunarbókin 14:6) Árið 2001 störfuðu þeir í 235 löndum og stjórnarsvæðum, þar á meðal í löndum sem almennt eru kölluð kristin. Er það rangt af Vottum Jehóva að prédika í löndum þar sem kirkjufélögin hafa komið sér fyrir? Sumir segja það og líta jafnvel á slíka boðun sem „sauðaþjófnað.“ En Vottar Jehóva eru minnugir þess hvernig Jesús hugsaði um auðmjúka Gyðinga í sinni tíð. Hann hikaði ekki við að boða þeim fagnaðarerindið þó að þeir ættu sér prestastétt. Hann „kenndi . . . í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Þegar vottar Jehóva finna auðmjúkt fólk sem þekkir ekki til Jehóva eða ríkis hans, eiga þeir þá að neita þessu fólki um fagnaðarerindið af því að einhver kirkjudeild telur sig ráða yfir því? Við svörum því neitandi og tökum þar postulana til fyrirmyndar. Það þarf að prédika „öllum þjóðum“ fagnaðarerindið, án undantekningar. — Markús 13:10.

Allir frumkristnir menn boðuðu fagnaðarerindið

9. Hverjir tóku þátt í boðunarstarfi kristna safnaðarins á fyrstu öld?

9 Hverjir tóku þátt í prédikuninni á fyrstu öld? Staðreyndir sýna að allir kristnir menn boðuðu fagnaðarerindið. Rithöfundurinn W. S. Williams segir: „Allar vísbendingar hníga að því að allir kristnir menn í frumkirkjunni . . . hafi boðað fagnaðarerindið.“ Biblían segir um atburði hvítasunnudagsins árið 33: „Þeir [bæði karlar og konur] fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“ Bæði karlar og konur, ungir og aldnir og jafnt þrælar sem frjálsir menn boðuðu fagnaðarerindið. (Postulasagan 1:14; 2:1, 4, 17, 18; Jóel 3:1, 2; Galatabréfið 3:28) Er margir kristnir menn urðu að flýja Jerúsalem vegna ofsókna og dreifðust ‚fóru þeir víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.‘ (Postulasagan 8:4) Allir „sem dreifst höfðu“ boðuðu fagnaðarerindið, ekki aðeins fáeinir útvaldir.

10. Hvaða tvíþættu verkefni gerðu frumkristnir menn skil áður en gyðingakerfinu var eytt?

10 Og þessi var raunin á fyrstu áratugum kristninnar. Jesús spáði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þessi orð rættust þannig á fyrstu öld að fagnaðarerindið var svo sannarlega prédikað mjög víða áður en rómverskur her eyddi trúar- og stjórnmálakerfi Gyðinga. (Kólossubréfið 1:23) Og allir fylgjendur Jesú hlýddu fyrirmælum hans: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Frumkristnir menn létu sér ekki nægja að hvetja auðmjúka menn til að trúa á Jesú og eftirlétu þeim síðan að þjóna Guði upp á eigin spýtur eins og sumir prédikarar okkar daga gera. Þeir kenndu nýjum þannig að þeir urðu lærisveinar Jesú, stofnuðu söfnuði og þjálfuðu þá svo að þeir gætu líka prédikað fagnaðarerindið og gert menn að lærisveinum. (Postulasagan 14:21-23) Vottar Jehóva nútímans fylgja þessari fyrirmynd.

11. Hverjir boða mannkyni bestu tíðindi sögunnar?

11 Margir vottar Jehóva hafa gerst trúboðar erlendis, að fyrirmynd þeirra Páls, Barnabasar og fleiri á fyrstu öldinni. Starf þeirra hefur reynst mjög árangursríkt vegna þess að þeir hafa hvorki blandað sér í stjórnmál né villst með öðrum hætti frá boðunarumboði sínu. Þeir hafa einfaldlega hlýtt fyrirmælum Jesú: „Farið og prédikið.“ En fæstir vottar Jehóva eru trúboðar erlendis. Margir vinna veraldleg störf til að sjá sér farborða, aðrir eru í skóla og sumir eru að ala upp börn. En allir vottar segja öðrum frá fagnaðarerindinu sem þeir hafa kynnst. Bæði ungir sem aldnir og karlar sem konur hlýða fúslega hvatningu Biblíunnar: „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Þeir ‚láta ekki af að kenna og boða fagnaðarerindið um að Jesús sé Kristur‘ og líkja þar eftir forverum sínum á fyrstu öld. (Postulasagan 5:42) Þeir boða mannkyni bestu tíðindi sögunnar.

Að snúa fólki eða boða fagnaðarerindið?

12. Hvernig líta sumir á það að snúa fólki til annarrar trúar?

12 Sumir halda því fram að það sé beinlínis skaðlegt að reyna að snúa fólki til annarrar trúar eða skoðana. Alkirkjuráðið hefur gefið út plagg þar sem því er jafnvel haldið fram að það sé synd. Hvers vegna? Tímaritið Catholic World Report segir: „Linnulausar kvartanir rétttrúnaðarmanna undan því að verið sé að snúa fólki til annarrar trúar hefur valdið því að það hefur tekið á sig aukamerkinguna að þvinga til trúar.“

13. Nefndu dæmi um skaðlegt trúboð og trúarþvingun.

13 Er það skaðlegt að reyna að snúa fólki til annarar trúar? Það getur verið það. Jesús sagði að trúboð fræðimanna og farísea væri skaðlegt þeim sem snerust til trúar. (Matteus 23:15) Að sjálfsögðu er það rangt að „þvinga“ fólk til trúar. Sagnaritarinn Jósefus segir frá því að Makkabeinn Jóhannes Hyrkanus hafi sigrað Ídúmea en „leyft þeim að búa í landi sínu svo framarlega sem þeir létu umskerast og væru fúsir til að halda lög Gyðinga.“ Ef Ídúmear vildu búa undir stjórn Gyðinga urðu þeir að stunda gyðingatrú. Sagnfræðingar benda á að Karlamagnús hafi sigrað hina heiðnu Saxa í Norður-Evrópu á áttundu öld og neytt þá með hrottaskap til að taka trú. * En hversu einlæg ætli trúhvörf Saxa og Ídúmea hafi verið? Heródes konungur, sem reyndi að myrða Jesú á barnsaldri, var Ídúmei en ekki verður sagt að hann hafi verið sérlega fylgispakur lögmáli Móse. — Matteus 2:1-18.

14. Hvernig reyna sumir trúboðar kirkjufélaganna að snúa fólki til annarrar trúar?

14 Er enn þá reynt að þvinga menn til að skipta um trú? Í vissum skilningi má segja það. Fregnir herma að trúboðar kirkjufélaganna bjóði væntanlegum trúskiptingum styrki til náms erlendis eða láti hungraðan flóttamann sitja undir prédikun áður en hann fær afhentan matarskammt. Árið 1992 var birt yfirlýsing biskupaþings rétttrúnaðarmanna þar sem segir að „stundum sé reynt að snúa fólki til trúar með efnislegum tálbeitum og jafnvel ýmiss konar ofbeldi.“

15. Reyna Vottar Jehóva að þvinga fólk til að skipta um trú? Skýrðu svarið.

15 Það er auðvitað rangt að þvinga fólk til að skipta um trú. Vottar Jehóva beita engum slíkum aðferðum. * Þeir reka ekki trúboð með þvingunum heldur prédika fagnaðarerindið fyrir öllum líkt og kristnir menn á fyrstu öld. Þeim sem vilja er síðan boðin ýtarleg biblíufræðsla og þeir læra að trúa á Guð og tilgang hans. Trúin stendur traustum fótum á nákvæmri biblíuþekkingu. Þeir ákalla síðan nafn Guðs, Jehóva, til hjálpræðis. (Rómverjabréfið 10:13, 14, 17) Hvort menn taka við fagnaðarerindinu eða ekki er persónuleg ákvörðun hvers og eins. Enginn er þvingaður. Ef svo væri, þá væru trúskiptin tilgangslaus því að tilbeiðsla verður að eiga sér rætur í hjartanu til að vera Guði þóknanleg. — 5. Mósebók 6:4, 5; 10:12.

Fagnaðarboðun á okkar dögum

16. Hvernig hefur boðunarstarfi Votta Jehóva vaxið fiskur um hrygg á síðari tímum?

16 Í nútímasögu hafa Vottar Jehóva prédikað fagnaðarerindið um ríkið og er það aðaluppfylling Matteusar 24:14. Tímaritið Varðturninn hefur verið eitt af helstu verkfærum þeirra í því starfi. * Fyrsta tölublaðið kom út á einu tungumáli árið 1879 og upplagið var 6000 eintök. Árið 2001, 122 árum síðar, er upplagið komið í 23.042.000 eintök á 141 tungumáli. Þessi vöxtur hefur haldist í hendur við aukið boðunarstarf Votta Jehóva. Á 19. öld voru notaðar nokkur þúsund klukkustundir á ári til að boða fagnaðarerindið en árið 2001 var varið til þess 1.169.082.225 klukkustundum. Að meðaltali voru haldin 4.921.702 ókeypis biblíunámskeið í hverjum mánuði á liðnu ári. Það var ekkert smáræði sem tókst að áorka á síðasta ári. Og boðberarnir, sem tóku þátt í því, voru 6.117.666 talsins.

17. (a) Hvers konar falsguðir eru tilbeðnir nú á dögum? (b) Hverju þurfa allir að kynnast, óháð þjóðerni, tungu eða þjóðfélagsstöðu?

17 Sálmaritarinn segir: „Allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en [Jehóva] hefir gjört himininn.“ (Sálmur 96:5) Í heimi nútímans hafa menn dýrkað þjóðernishyggju, þjóðartákn, áberandi fólk, efnislega hluti og jafnvel auðinn sjálfan. (Matteus 6:24; Efesusbréfið 5:5; Kólossubréfið 3:5) Mohandas K. Gandhi sagði einu sinni: „Það er bjargföst skoðun mín að . . . Evrópa nútímans sé aðeins kristin að nafninu til. Í raun réttri tilbiður hún mammón.“ Staðreyndin er sú að fagnaðarerindið þarf að heyrast alls staðar. Allir menn þurfa að kynnast Jehóva og tilgangi hans, óháð þjóðerni, tungu eða þjóðfélagsstöðu. Helst vildum við að allir gerðu eins og sálmaritarinn hvetur til: „Tjáið [Jehóva] vegsemd og vald. Tjáið [Jehóva] dýrð þá, er nafni hans hæfir.“ (Sálmur 96:7, 8) Vottar Jehóva hjálpa öðrum að kynnast Jehóva þannig að þeir geti tjáð honum þá dýrð sem honum ber. Og þeir sem áhuga hafa njóta góðs af því. Hvernig þá? Það er umræðuefni næstu greinar.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Kaþólska alfræðibókin The Catholic Encyclopedia segir að menn hafi notað slagorðið Cuius regio, illius et religio (í lauslegri þýðingu: „Sá sem stjórnar landi ræður trúnni“) um það er þjóðir voru þvingaðar til að taka nýja trú á tímum siðaskiptanna.

^ gr. 15 Á fundi bandarískrar nefndar um trúfrelsi í heiminum 16. nóvember árið 2000 gerði einn fundarmanna greinarmun á þeim sem reyna að þvinga aðra til að skipta um trú og á starfi Votta Jehóva. Bent var á að prédikun Votta Jehóva meðal fólks væri þess eðlis að áheyrandinn gæti einfaldlega sagt: „Ég hef ekki áhuga,“ og lokað dyrunum.

^ gr. 16 Fullu nafni heitir tímaritið Varðturninn kunngerir ríki Jehóva.

Geturðu svarað?

• Af hverju eru Vottar Jehóva atorkusamir boðberar fagnaðarerindisins?

• Hvers vegna prédika Vottar Jehóva jafnvel í löndum þar sem kirkjufélögin hafa komið sér fyrir?

• Hvernig boða Vottar Jehóva trú sína og reyna þeir að þvinga fólk til að skipta um trú?

• Hvernig hefur boðunarstarfi Votta Jehóva vaxið fiskur um hrygg á síðari tímum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Jesús boðaði fagnaðarerindið kostgæfilega og þjálfaði aðra í því.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Allir í frumkristna söfnuðinum boðuðu fagnaðarerindið.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Það er rangt að reyna að þvinga fólk til að skipta um trú.