Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er langlyndur Guð

Jehóva er langlyndur Guð

Jehóva er langlyndur Guð

‚Jehóva, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur.‘ — 2. MÓSEBÓK 34:6.

1, 2. (a) Hverjir nutu góðs af langlyndi Jehóva forðum daga? (b) Hvað merkir orðið „langlyndi“?

SAMTÍÐARMENN Nóa, Ísraelsmenn sem gengu með Móse um eyðimörkina og Gyðingar á jarðvistardögum Jesú bjuggu við ólíkar aðstæður. En allir nutu góðs af sama gæskuríka eiginleika Jehóva — langlyndi. Sumir þeirra áttu líf sitt bókstaflega undir því og svo getur einnig verið um okkur.

2 Hvað er langlyndi? Hvenær sýnir Jehóva það og hvers vegna? Langlyndi getur merkt að „umbera þolinmóður rangindi eða áreitni en neita að gefa upp vonina um að hægt sé að bæta samband sem spillst hefur.“ Langlyndi þjónar því ákveðnum tilgangi. Það beinist einkum að velferð þess sem veldur óþægindum. Að sýna langlyndi er hins vegar ekki hið sama og að láta ranglæti viðgangast. Langlyndið tekur enda þegar markmiði þess er náð eða þegar það er til einskis að sætta sig lengur við stöðu mála.

3. Hvaða tilgangi hefur langlyndi Jehóva þjónað og hvaða takmörk setur hann því?

3 Menn geta verið langlyndir en Jehóva ber af. Allar götur síðan syndin spillti sambandinu milli skaparans og mannanna hefur hann umborið það með þolinmæði, og hann hefur látið í té það sem þarf til að iðrandi menn geti bætt samband sitt við hann. (2. Pétursbréf 3:9; 1. Jóhannesarbréf 4:10) En þegar langlyndi hans hefur náð markmiði sínu grípur hann til aðgerða gegn vísvitandi syndurum og bindur enda á hið illa heimskerfi sem nú er. — 2. Pétursbréf 3:7.

Samrýmist höfuðeiginleikum Guðs

4. (a) Hvernig kemur hugmyndin um langlyndi fram í Hebresku ritningunum? (Sjá einnig neðanmáls.) (b) Hvernig lýsir spámaðurinn Nahúm Jehóva og hvað gefur það til kynna um langlyndi Jehóva?

4 Í Hebresku ritningunum eru tvö orð notuð til að tjá hugmyndina um langlyndi. Þau merkja bókstaflega „langar nasir“ og eru þýdd „þolinmóður“ og „seinn til reiði“ í íslensku biblíunni. * Spámaðurinn Nahúm segir um langlyndi Guðs: „[Jehóva] er seinn til reiði og mikill að krafti, en óhegnt lætur hann ekki.“ (Nahúm 1:3) Langlyndi Jehóva er því ekki veikleikamerki og það er ekki takmarkalaust. Sú staðreynd að alvaldur Guð er bæði seinn til reiði og mikill að krafti sýnir að langlyndi hans kemur til af því að hann heldur viljandi aftur af sér. Hann er nógu máttugur til að refsa en stillir sig af ásettu ráði um að fullnægja refsingunni strax svo að hinn brotlegi fái tækifæri til að breyta sér. (Esekíel 18:31, 32) Langlyndi Jehóva er því merki um kærleika hans og sýnir að hann beitir mætti sínum viturlega.

5. Hvernig samrýmist langlyndi Jehóva réttvísi hans?

5 Langlyndi Jehóva samrýmist einnig réttvísi hans og réttlæti. Þegar hann opinberaðist Móse kallaði hann sig ‚líknsaman Guð, þolinmóðan (eða langlyndan), gæskuríkan og harla trúfastan.‘ (2. Mósebók 34:6) Mörgum árum síðar lofaði Móse hann í söng og sagði: „Allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Miskunn Jehóva, langlyndi hans, réttvísi og réttlæti eru samtvinnuð og samhljóma.

Langlyndi Jehóva fyrir Nóaflóðið

6. Hvaða einstakt langlyndi hefur Jehóva sýnt afkomendum Adams og Evu?

6 Uppreisn Adams og Evu í Eden eyðilagði til frambúðar dýrmætt sambandi þeirra við ástríkan skapara sinn. (1. Mósebók 3:8-13, 23, 24) Þessi viðskilnaður bitnaði á afkomendum þeirra sem fengu synd, ófullkomleika og dauða í arf. (Rómverjabréfið 5:17-19) Jehóva leyfði fyrstu mannhjónunum að eignast börn þótt þau hefðu syndgað vísvitandi. Síðar gerði hann kærleiksríka ráðstöfun til að sætta afkomendur þeirra við sig. (Jóhannes 3:16, 36) Páll postuli segir: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni. Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.“ — Rómverjabréfið 5:8-10.

7. Hvernig sýndi Jehóva langlyndi fyrir Nóaflóðið og hvers vegna var réttlætanlegt að tortíma kynslóðinni sem þá var uppi?

7 Jehóva sýndi einnig langlyndi sitt á dögum Nóa. Meira en öld fyrir flóðið „leit [hann] á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.“ (1. Mósebók 6:12) En Jehóva sýndi mannkyninu langlyndi enn um stund. Hann sagði: „Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár.“ (1. Mósebók 6:3) Þessi 120 ár gáfu hinum trúfasta Nóa tíma til að eignast börn og — þegar Guð birti honum fyrirmæli sín — til að smíða örk og vara samtíðarmenn sína við komandi heimsflóði. Pétur postuli skrifar: „Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“ (1. Pétursbréf 3:20) Enginn gaf gaum að prédikun Nóa nema fjölskylda hans. (Matteus 24:38, 39) En með því að láta hann smíða örkina og vera „prédikara réttlætisins,“ ef til vill um nokkra áratuga skeið, gaf Jehóva samtíðarmönnum hans ríflegt tækifæri til að iðrast ofbeldisstefnu sinnar og þjóna sér. (2. Pétursbréf 2:5; Hebreabréfið 11:7) Það var því fyllilega réttlætanlegt að tortíma þessari óguðlegu kynslóð þegar til þess kom.

Aðdáunarvert langlyndi í garð Ísraels

8. Hvernig birtist langlyndi Jehóva í garð Ísraelsmanna?

8 Langlyndi Jehóva í garð Ísraels stóð miklu lengur en 120 ár. Ísraelsmenn voru útvalin þjóð hans í meira en 1500 ár og lengst af reyndu þeir til hins ýtrasta á langlyndi hans. Aðeins fáeinum vikum eftir undraverða björgun þeirra frá Egyptalandi sneru þeir sér að skurðgoðadýrkun og sýndu frelsara sínum fullkomið virðingarleysi. (2. Mósebók 32:4; Sálmur 106:21) Næstu áratugi kvörtuðu þeir undan fæðunni sem Jehóva sá þeim fyrir í eyðimörkinni með kraftaverki, töluðu gegn honum, mögluðu gegn Móse og Aroni, drýgðu hór með heiðingjum og tóku jafnvel þátt í Baalsdýrkun með þeim. (4. Mósebók 11:4-6; 14:2-4; 21:5; 25:1-3; 1. Korintubréf 10:6-11) Jehóva hefði með réttu getað tortímt fólki sínu, en var þess í stað langlyndur. — 4. Mósebók 14:11-21.

9. Hvernig reyndist Jehóva langlyndur Guð á dómara- og konungatímanum?

9 Á dómaratímanum leiddust Ísraelsmenn hvað eftir annað út í skurðgoðadýrkun og þá gaf Jehóva þá í hendur óvinum þeirra. En þegar þeir iðruðust og ákölluðu hann til hjálpar sýndi hann langlyndi og vakti upp dómara til að frelsa þá. (Dómarabókin 2:17, 18) Fáir konungar sýndu Jehóva óskipta hollustu á því langa tímabili sem konungsstjórn var við lýði. Oft blandaði þjóðin saman sannri guðsdýrkun og falskri, jafnvel þegar trúfastir konungar voru við völd. Er Jehóva vakti upp spámenn til að vara við ótrúmennsku vildi fólkið yfirleitt frekar hlýða á spillta presta og falsspámenn. (Jeremía 5:31; 25:4-7) Ísraelsmenn ofsóttu reyndar trúfasta spámenn Jehóva og drápu jafnvel suma þeirra. (2. Kroníkubók 24:20, 21; Postulasagan 7:51, 52) En Jehóva sýndi þeim samt sem áður langlyndi. — 2. Kroníkubók 36:15.

Langlyndi Jehóva tók ekki enda

10. Hvenær þraut langlyndi Jehóva?

10 Sagan sýnir hins vegar að langlyndi Guðs á sér takmörk. Árið 740 f.o.t. leyfði hann Assýringum að kollvarpa tíuættkvíslaríkinu Ísrael og flytja íbúana í útlegð. (2. Konungabók 17:5, 6) Undir lok næstu aldar leyfði hann Babýloníumönnum að ráðast á tveggjaættkvíslaríkið Júda og eyða Jerúsalem og musterinu. — 2. Kroníkubók 36:16-19.

11. Hvernig sýndi Jehóva langlyndi jafnvel þegar hann fullnægði dómi?

11 En Jehóva hætti ekki að sýna langlyndi eftir að hann fullnægði dómi yfir Ísrael og Júda. Fyrir munn Jeremía spámanns boðaði hann endurreisn útvalinnar þjóðar sinnar: „Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað. Vil ég láta yður finna mig . . . og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður.“ — Jeremía 29:10, 14.

12. Hvernig var það undirbúningur fyrir komu Messíasar að leifar Gyðinga skyldu snúa heim til Júda?

12 Leifar hinna útlægu Gyðinga sneru aftur til Júda og tóku að tilbiðja Jehóva á ný í endurbyggðu musteri í Jerúsalem. Það var ætlun Jehóva að þær yrðu eins og ‚dögg frá honum‘ og veittu hressingu og velmegun. Og þær skyldu vera hugrakkar og sterkar eins og „ljón meðal skógardýra.“ (Míka 5:6, 7) Síðari orðin hafa hugsanlega ræst á Makkabeatímanum þegar Gyðingar undir forystu Makkabea ráku óvini sína úr fyrirheitna landinu og endurvígðu musterið sem hafði verið vanhelgað. Þannig varðveittist landið og musterið svo að aðrar trúfastar leifar gætu tekið á móti syni Guðs er hann birtist þar sem Messías. — Daníel 9:25; Lúkas 1:13-17, 67-79; 3:15, 21, 22.

13. Hvernig sýndi Jehóva Gyðingunum langlyndi jafnvel eftir að þeir höfðu drepið son hans?

13 Jafnvel eftir að Gyðingar höfðu drepið son Jehóva sýndi hann þeim langlyndi í þrjú og hálft ár og á þeim tíma höfðu þeir einir tækifæri til að verða hluti af andlegu sæði Abrahams. (Daníel 9:27) * Sumir þeirra hlýddu kallinu fyrir og eftir árið 36 og urðu þá til ‚leifar sem Guð hafði útvalið af náð,‘ eins og Páll komst síðar að orði. — Rómverjabréfið 11:5.

14. (a) Hverjum var boðið að tilheyra andlegu sæði Abrahams árið 36? (b) Hvað fannst Páli um aðferð Jehóva við að velja andlega Ísraelsmenn?

14 Það var fyrst árið 36 sem öðrum en Gyðingum og trúskiptingum bauðst að tilheyra andlegu sæði Abrahams. Þeir sem þáðu boðið nutu jafnframt góðs af náð og langlyndi Jehóva. (Galatabréfið 3:26-29; Efesusbréfið 2:4-7) Páll segir: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ Þannig tjáir hann innilegt þakklæti sitt fyrir viskuna og tilganginn að baki miskunn og langlyndi Jehóva sem fær hann til að leiða fram alla hina kölluðu og fullna tölu hins andlega Ísraels. — Rómverjabréfið 11:25, 26, 33; Galatabréfið 6:15, 16.

Langlyndur vegna nafns síns

15. Hver er meginástæðan fyrir langlyndi Guðs og hvaða deilumál þurfti tíma til að útkljá?

15 Hvers vegna sýnir Jehóva langlyndi? Fyrst og fremst til að mikla heilagt nafn sitt og réttlæta drottinvald sitt. (1. Samúelsbók 12:20-22) Satan vakti upp siðferðilegt deilumál tengt því hvernig Jehóva beitir drottinvaldi sínu, og það þurfti tíma til að útkljá það á fullnægjandi hátt frammi fyrir allri sköpuninni. (Jobsbók 1:9-11; 42:2, 5, 6) Þegar þjóð Jehóva var kúguð í Egyptalandi sagði hann því við faraó: „Þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.“ — 2. Mósebók 9:16.

16. (a) Hvernig gerði langlyndi Jehóva honum kleift að eignast lýð er bæri nafn hans? (b) Hvernig verður nafn Jehóva helgað og drottinvald hans réttlætt?

16 Páll postuli vitnar í orð Jehóva við faraó er hann útskýrir hvernig langlyndi Jehóva tengist því að upphefja heilagt nafn hans. Síðan skrifar hann: „Ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar, og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar? Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja. Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn.“ (Rómverjabréfið 9:17, 22-25) Jehóva eignaðist „lýð meðal heiðinna þjóða“ vegna langlyndis síns. (Postulasagan 15:14) Jesús Kristur er höfuð þessa ‚heilaga lýðs‘ guðsríkiserfingja sem Jehóva ætlar að nota til að helga sitt mikla nafn og réttlæta drottinvald sitt. — Daníel 2:44; 7:13, 14, 27; Opinberunarbókin 4:9-11; 5:9, 10.

Langlyndi Jehóva leiðir til hjálpræðis

17, 18. (a) Hvað gæti orðið til þess að við færum óafvitandi að finna að langlyndi Jehóva? (b) Hvernig erum við hvött til að líta langlyndi Jehóva?

17 Jehóva hefur reynst langlyndur Guð allt frá syndafalli mannkyns og fram til þessa. Vegna langlyndis hans fyrir Nóaflóðið gafst nægur tími til að vara fólk við og smíða örk til björgunar. En þolinmæði hans voru takmörk sett og flóðið kom. Jehóva sýnir líka mikið langlyndi nú á dögum og það hefur varað lengur en sumir hafa kannski búist við. En það er engin ástæða til að örvænta. Það jafngilti því að finna að langlyndi Guðs. Páll spyr: „Lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?“ — Rómverjabréfið 2:4.

18 Ekkert okkar veit hversu mjög við gætum þurft á langlyndi Guðs að halda til að vera örugg um velþóknun hans og hjálpræði okkar. Páll ráðleggur okkur að ‚vinna að sáluhjálp okkar með ugg og ótta.‘ (Filippíbréfið 2:12) Pétur postuli skrifar trúbræðrum sínum: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ — 2. Pétursbréf 3:9.

19. Hvernig getum við nýtt okkur langlyndi Jehóva?

19 Verum því ekki óþolinmóð yfir því hvernig Jehóva heldur á málum. Fylgjum heldur ráði Péturs og ‚álítum langlyndi Drottins vors vera hjálpræði.‘ Hjálpræði hvers? Okkar og óteljandi annarra sem eiga enn eftir að heyra ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ (2. Pétursbréf 3:15; Matteus 24:14) Það hjálpar okkur að virða hið ríkulega langlyndi Jehóva og gerir okkur langlynd í samskiptum við aðra.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Hebreska orðið (ʼaf), sem merkir „nef“ eða „nös,“ er oft notað í óeiginlegri merkingu um reiði af því að bálreiður maður andar þungt eða fnæsir.

^ gr. 13 Frekari útskýringu á spádóminum er að finna í bókinni Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, bls. 191-4, útgefin af Vottum Jehóva.

Geturðu útskýt?

• Hvað merkir orðið „langlyndi“ í Biblíunni?

• Hvernig sýndi Jehóva langlyndi fyrir Nóaflóðið, eftir útlegðina í Babýlon og á fyrstu öld?

• Hvaða mikilvægar ástæður hefur Jehóva fyrir langlyndi sínu?

• Hvaða augum ættum við að líta langlyndi Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Langlyndi Jehóva fyrir Nóaflóðið gaf fólki nægilegt tækifæri til að iðrast.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Gyðingar nutu góðs af langlyndi Jehóva eftir fall Babýlonar.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Bæði Gyðingar og annarra þjóða menn á fyrstu öld nutu góðs af langlyndi Jehóva.

[Myndir á blaðsíðu 27]

Kristnir menn nú á tímum nýta sér langlyndi Jehóva.