,Guð býr ekki í musterum sem með höndum eru gjörð‘
,Guð býr ekki í musterum sem með höndum eru gjörð‘
PÁLL postuli þekkti vafalaust ýmis musteri gyðjunnar Aþenu þar sem þau stóðu í mörgum borgum sem hann heimsótti á trúboðsferðum sínum. Í alfræðiorðabókinni The Encyclopædia Britannica kemur fram að Aþena hafi ekki aðeins verið þekkt sem visku- og hernaðargyðja heldur einnig sem gyðja „handiðnar og almennrar iðju á friðartímum“.
Þekktasta musteri Aþenu var Meyjarhofið en það var reist í borginni sem nefnd var eftir gyðjunni. Það var talið vera eitt stórfenglegasta musteri fornaldar og í því stóð 12 metra há gull- og fílabeinsstytta af Aþenu. Þegar Páll kom til Aþenu hafði þetta hvíta marmaramusteri gnæft yfir borgina í 500 ár.
Páll sá til Meyjarhofsins þegar hann prédikaði fyrir hópi Aþeninga um ,Guð sem býr ekki í musterum sem með höndum eru gjörð‘. (Postulasagan 17:23, 24) Sumum áheyrendum Páls þótti kannski mikilfengleg musteri og tignarleg skurðgoð Aþenu tilkomumeiri en einhver ósýnilegur guð sem þeir þekktu ekki. En eins og Páll benti á megum við ekki ætla að skapari mannkynsins „sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna“. — Postulasagan 17:29.
Guðir og gyðjur eins og Aþena hafa komið og farið enda hefur dýrð þeirra verið háð musterum og styttum. Styttan af Aþenu hvarf úr Meyjarhofinu á fimmtu öld og nú eru aðeins til menjar um fáein af musterum hennar. Hverjir myndu núna leita til Aþenu eftir leiðsögn og visku?
Því er öðruvísi farið með Jehóva, hinn eilífa Guð, sem „enginn hefur nokkurn tíma séð“. (Rómverjabréfið 16:26; 1. Jóhannesarbréf 4:12) Synir Kóra ortu ‚að slíkur væri Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi myndi hann leiða okkur‘. (Sálmur 48:15) Jehóva Guð leiðir okkur ef við rannsökum orð hans, Biblíuna, og förum eftir heilræðum hennar í lífinu.