Eiginleiki sem maðurinn einn hefur til að bera
Eiginleiki sem maðurinn einn hefur til að bera
Jodie á fyrirtæki sem sér um að verðleggja og selja dánarbú. Hann er að aðstoða konu við að flokka og selja búslóð látinnar systur hennar. Þegar hann er að gramsa í dóti hjá gömlum arni finnur hann tvo gamla veiðikassa. Hann opnar annan þeirra og trúir vart eigin augum. Þarna liggja búnt af 100 dollara seðlum pökkuð inn í álpappír — alls 82.000 Bandaríkjadollarar í reiðufé (tæplega sex milljónir íslenskra króna). Jodie er einn í herberginu. Hvað á hann að gera? Á hann að laumast til að taka kassann eða á hann að segja viðskiptavininum frá peningunum?
SPURNINGIN, sem Jodie stendur frammi fyrir, lýsir einum þeirra eiginleika sem aðgreina okkur frá skynlausum skepnunum. Í alfræðibókinni The World Book Encyclopedia stendur: „Eitt af séreinkennum mannanna er að þeir geta spurt ígrundaðra spurninga um hvað þeir eigi að gera og hvað ekki.“ Hungraður hundur, sem finnur kjötstykki á garðborði, fer tæplega að velta fyrir sér hvort hann eigi að gæða sér á því. Hins vegar býr Jodie yfir þeim hæfileika að geta vegið og metið hvort ákvörðun sín sé siðferðilega rétt. Ef hann tekur peningana er það þjófnaður þótt ólíklegt megi teljast að hann verði gómaður. Hann á ekkert í peningunum enda þótt viðskiptavinurinn hafi ekki hugmynd um tilvist þeirra. Þar við bætist að langflestum í því samfélagi þar sem Jodie býr þætti heimskulegt af honum að afhenda viðskiptavininum peningana.
Hvað myndir þú gera í hans sporum? Svar þitt fer eftir því hvaða siðfræði þú hefur kosið að hafa að leiðarljósi í lífinu.
Hvað er siðfræði?
Orðið „siðfræði“ hefur verið skilgreint sem „fræðigrein um grundvöll siðferðis þar sem leitast er við að skýra mannlega breytni og finna forsendur og réttlætingu siðareglna, og rannsaka mismunandi hefðir og skoðanir um hvað sé rétt og rangt.“ — Íslensk orðabók.
Lengi vel hafa trúarbrögðin ákvarðað siðgæðismælikvarða fólks almennt. Orð Guðs, Biblían, hefur haft mikil áhrif í mörgum löndum. En um allan heim hafna æ fleiri trúarlegum siðareglum og telja þær óraunhæfar og líta svo á að siðferðislög Biblíunnar séu úrelt. En hvað hefur komið í staðinn? Í bókinni Ethics in Business Life segir: „Veraldleg rökhyggja . . . hefur náð til sín því valdi sem trúarbrögðin höfðu áður.“ Í stað þess að hafa trúarlegan mælikvarða leita margir leiðsagnar veraldlegra siðfræðinga. Paul McNeill, sérfræðingur í siðfræði raunvísinda, segir: „Ég tel að siðfræðingar séu veraldlegir prestar. . . . Fólk vísar nú til siðfræðinnar eins og það vísaði áður til trúarbragðanna.“
Hvernig greinir þú rétt frá röngu þegar þú þarft að taka erfiðar ákvarðanir? Ákvarðar Guð siðgæðismælikvarða þinn eða þú sjálfur?