Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farðu varlega með áfengi

Farðu varlega með áfengi

Farðu varlega með áfengi

„Vínið er illkvittið, sterkur drykkur glaumsamur og fávís verður sá sem þau leiða afvega.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 20:1, Biblíurit; ný þýðing 1998.

1. Hvernig lét sálmaritarinn í ljós þakklæti fyrir góðar gjafir sem við fáum frá Jehóva?

„SÉRHVER góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. (Jakobsbréfið 1:17) Sálmaritarinn lét í ljós innilegt þakklæti fyrir allar góðu gjafirnar, sem við fáum frá Guði, og söng: „Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.“ (Sálmur 104:14, 15) Vín og aðrir áfengir drykkir eru því gjafir frá Guði rétt eins og jurtir, brauð og olía. En hvernig ættum við að fara með áfengi?

2. Hvaða spurningar um notkun áfengis ætlum við að skoða nánar?

2 Góð gjöf er því aðeins góð að hún sé rétt notuð. „Hunang“ er til dæmis gott en „það er ekki gott að eta of mikið hunang“. (Orðskviðirnir 24:13; 25:27) Þó að ‚lítið eitt af víni‘ geti verið gott er ofnotkun áfengis alvarlegt vandamál. (1. Tímóteusarbréf 5:23) „Vínið er illkvittið,“ segir í Biblíunni, „sterkur drykkur glaumsamur og fávís verður sá sem þau leiða afvega.“ (Orðskviðirnir 20:1, Biblíurit, ný þýðing 1998) En hvað er fólgið í því að láta áfengi leiða sig afvega? * Hve mikið er of mikið? Hvar liggja mörkin?

Hvernig getur áfengi ‚leitt afvega‘?

3, 4. (a) Hvernig sjáum við að það er fordæmt í Biblíunni að drekka sig drukkinn? (b) Nefndu nokkur einkenni ölvunar.

3 Í Forn-Ísrael átti að grýta iðrunarlausa svallara og drykkjurúta til dauða. (5. Mósebók 21:18-21) Páll postuli hvatti kristna menn: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ Biblían fordæmir augljóslega að drekka sig drukkinn. — 1. Korintubréf 5:11; 6:9, 10.

4 Biblían lýsir einkennum ölvunar og segir: „Horf þú ekki á vínið, hve rautt það er, hversu það glóir í bikarnum og rennur ljúflega niður. Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra. Augu þín munu sjá kynlega hluti, og hjarta þitt mun mæla fláræði.“ (Orðskviðirnir 23:31-33) Ofdrykkja bítur eins og eitraður höggormur því að hún veldur veikindum, ruglingi og jafnvel meðvitundarleysi. Drykkjurútur sér kannski „kynlega hluti“ sem geta verið ofsjónir eða hugarburður. Hann gæti líka orðið hömlulausari og mælt fláræði í þeim skilningi að hann lætur í ljós ósæmilegar hugsanir og langanir sem hann heldur venjulega í skefjum.

5. Hvers vegna er ofnotkun áfengis skaðleg?

5 Er þá skaðlaust að nota áfengi ef fólk gætir þess aðeins að það sjáist ekki á því? Sumir sýna lítil sem engin merki um ölvun þótt þeir séu búnir að drekka mikið. Ef menn halda að slík hegðun sé skaðlaus eru þeir í rauninni að blekkja sjálfa sig. (Jeremía 17:9) Með tímanum geta þeir orðið sífellt háðari áfenginu og lent „í ánauð ofdrykkjunnar“. (Títusarbréfið 2:3) Rithöfundurinn Caroline Knapp segir að drykkjusýki sé „hægt, stigvaxandi og lúmskt ferli“. Ofnotkun áfengis er greinilega stórhættuleg snara!

6. Hvers vegna ætti bæði að forðast ofát og ofdrykkju?

6 Jesús gaf þessa viðvörun: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.“ (Lúkas 21:34, 35) Fólk þarf ekki að drekka svo mikið að það verði ölvað til að verða syfjað og latt — bæði líkamlega og andlega. Hvað ef dagur Jehóva kæmi á slíkri stundu?

Ofnotkun áfengis er skaðleg

7. Af hverju samræmist ofnotkun áfengis ekki fyrirmælunum í 2. Korintubréfi 7:1?

7 Margar hættur, bæði líkamlegar og andlegar, fylgja óhóflegri áfengisneyslu. Hún getur til dæmis valdið skorpulifur, lifrabólgu og drykkjuæði sem er truflun á taugastarfsemi. Langvarandi misnotkun áfengis getur einnig leitt til krabbameins, sykursýki og vissra hjarta- og magasjúkdóma. Misnotkun áfengis samræmist greinilega ekki fyrirmælum Biblíunnar um að ‚hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og sál og fullkomna helgun vora í guðsótta‘. — 2. Korintubréf 7:1.

8. Hvaða afleiðingar getur ofneysla áfengis haft samkvæmt Orðskviðunum 23:20, 21?

8 Þeir sem misnota áfengi sólunda einnig tekjum sínum og eiga á hættu að missa vinnuna. Salómon konungur Ísraels til forna veitti þessa viðvörun: „Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt.“ Hvers vegna? Hann sagði: „Því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra.“ — Orðskviðirnir 23:20, 21.

9. Af hverju er viturlegt að setjast ekki undir stýri eftir að hafa neytt áfengis?

9 Bókin The Encyclopedia of Alcoholism bendir á aðra hættu: „Rannsóknir hafa leitt í ljós að áfengisneysla dregur úr færni manna til að aka bifreið þar sem hún hefur áhrif á viðbragstíma, samhæfingu, athygli, árvekni og dómgreind.“ Afleiðingar ölvunaraksturs eru hræðilegar. Í Bandaríkjunum deyja á hverju ári tugir þúsunda og hundruð þúsunda slasast í umferðaslysum vegna ölvunaraksturs. Unglingar eru í sérstökum áhættuhópi þar sem þeir hafa hvorki reynslu í að keyra né drekka. Getur nokkur maður sagst virða lífið sem gjöf frá Jehóva Guði ef hann ekur bifreið eftir að hafa drukkið nokkur glös af áfengi? (Sálmur 36:10) Í ljósi þess að lífið er heilagt ætti enginn að setjast undir stýri eftir að hafa neytt áfengis.

10. Hvaða áhrif hefur áfengi á hugann og hvers vegna er það hættulegt?

10 Ofneysla áfengis skaðar fólk ekki aðeins líkamlega heldur einnig andlega. „Vín og vínberjalögur tekur vitið burt,“ segir í Biblíunni. (Hósea 4:11) Áfengi hefur áhrif á hugann. Í riti frá bandarískri stofnun, sem fæst við forvarnir (U.S. National Institute on Drug Abuse), segir: „Þegar fólk drekkur berst áfengið hratt úr meltingarveginum út í blóðrásina og nær fljótt til heilans. Það hægir síðan á starfsemi í þeim hlutum heilans sem stjórna hugsun og tilfinningum. Fólki finnst það ekki eins þvingað, því finnst það frjálsara.“ Þegar svo er komið erum við líklegri til að ‚leiðast afvega‘, gerast nærgöngul við hitt kynið og verða fyrir mörgum freistingum. — Orðskviðirnir 20:1, Biblíurit, ný þýðing 1998.

11, 12. Hvaða skaði hlýst af óhóflegri áfengisneyslu?

11 Biblían segir enn fremur: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Er það Guði nokkurn tíma til dýrðar ef við drekkum mikið magn áfengis? Kristinn maður myndi alls ekki vilja hafa orð á sér fyrir að drekka mikið. Slíkur orðstír væri nafni Guðs ekki til dýrðar heldur myndi kasta rýrð á það.

12 Hvað ef óhófleg áfengisneysla kristins manns hneykslar trúsystkini hans, kannski nýjan lærisvein? (Rómverjabréfið 14:21) Jesús sagði: „Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.“ (Matteus 18:6) Ofnotkun áfengis getur einnig orðið til þess að bróðir missi þjónustuverkefni sín í söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 3:1-3, 8) Og þá er ónefndur skaðinn sem misnotkun áfengis getur haft innan fjölskyldunnar.

Hvernig er hægt að forðast hætturnar?

13. Hvað er nauðsynlegt til að forðast ofnotkun áfengis?

13 Ein leið til að forðast hætturnar sem fylgja ofneyslu áfengis er að vita hvar mörkin liggja — ekki mörkin milli ofnotkunar og ölvunar heldur milli hófs og ofnotkunar. Hver getur ákveðið hvar mörk þín liggja? Þar sem margir þættir geta haft áhrif er ekki hægt að setja algildar reglur um það hve mikið er of mikið. Hver og einn verður að þekkja mörk sín og halda sér innan þeirra. Hvað getur hjálpað þér að ákveða hve mikið er of mikið fyrir þig? Er einhver meginregla sem getur leiðbeint okkur?

14. Hvaða meginregla getur hjálpað okkur að sjá mörkin milli hófs og ofnotkunar?

14 Biblían segir: „Varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum, þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.“ (Orðskviðirnir 3:21, 22) Meginreglan er því þessi: Ef áfengismagnið er farið að skerða dómgreind þína og slæva hugsunina er það of mikið fyrir þig. Þú verður að vera heiðarlegur við sjálfan þig til að sjá hver takmörk þín eru.

15. Undir hvaða kringumstæðum gæti einn drykkur verið einum of mikið?

15 Stundum getur einn drykkur verið einum of mikið. Barnshafandi kona gæti kosið að drekka alls ekki í ljósi þess hve hættulegt það getur verið fyrir fóstrið. Það er einnig merki um tillitssemi að drekka ekki í návist þeirra sem hafa glímt við drykkjusýki eða þeirra sem vilja ekki drekka samviskunnar vegna. Jehóva gaf þeim sem sinntu prestsstörfum við tjaldbúðina þessi fyrirmæli: ‚Hvorki skalt þú drekka vín eða áfengan drykk, þegar þú gengur inn í samfundatjaldið, svo að þú deyir ekki.‘ (3. Mósebók 10:8, 9) Við skulum því ekki drekka áfengi rétt áður en við förum á safnaðarsamkomur, í boðunarstarfið eða sinnum öðrum verkefnum sem tengjast trúnni. Í löndum, þar sem fólk verður að ná ákveðnum aldri til að drekka áfengi, ætti að virða lög landsins. — Rómverjabréfið 13:1.

16. Hvaða ákvörðun þarft þú að taka ef þér er boðið áfengi?

16 Ef þér er boðinn eða færður áfengur drykkur ættirðu fyrst að spyrja sjálfan þig: „Vil ég yfirhöfuð drekka?“ Ef þú ákveður að þiggja áfengi ættirðu að hafa mörk þín skýr í huga og fara ekki yfir þau. Leyfðu ekki örlátum gestgjafa að hafa áhrif á þig. Gættu þín einnig ef boðið er upp á ótakmarkað áfengi í samkvæmum eins og til dæmis brúðkaupum. Í mörgum löndum mega börn lögum samkvæmt drekka áfengi. Þá er það á ábyrgð foreldra að fræða þau um meðferð áfengis og fylgjast með þeim. — Orðskviðirnir 22:6.

Þú getur tekið á vandanum

17. Hvað getur hjálpað þér að átta þig á hvort þú misnotir áfengi?

17 Hættir þér til að misnota áfengi? Ef þú ert farinn að syndga í laumi með því að misnota áfengi kemur það þér í koll fyrr eða síðar. Þú ættir því að líta heiðarlega í eigin barm og spyrja þig nærgöngulla spurninga eins og: „Drekk ég oftar en ég gerði? Er ég farinn að drekka sterkari drykki? Drekk ég til að flýja áhyggjur, álag eða erfiðleika? Hefur vinur eða einhver í fjölskyldunni sagst hafa áhyggjur af því hvað ég drekk mikið? Hefur áfengisneysla mín valdið erfiðleikum innan fjölskyldunnar? Finnst mér erfitt að vera án áfengis í viku, mánuð eða jafnvel nokkra mánuði? Fel ég fyrir öðrum hve mikið ég drekk?“ Hvað ef þú svarar nokkrum þessara spurninga játandi? Vertu þá ekki eins og maður sem „skoðar andlit sitt í spegli . . . fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var“. (Jakobsbréfið 1:22-24) Gerðu ráðstafanir til að takast á við vandann. Hvað geturðu gert?

18, 19. Hvað getur hjálpað þér að hætta að misnota áfengi?

18 Páll postuli aðvaraði kristna menn: „Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum.“ (Efesusbréfið 5:18) Þú þarft að ákveða hvað sé hæfilegt áfengismagn fyrir þig og setja þér viðeigandi takmörk. Einsettu þér að fara ekki yfir þau mörk og sýndu sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23, NW) Hvetja félagarnir þig til að drekka of mikið? Gættu þá að þér. Biblían segir: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ — Orðskviðirnir 13:20.

19 Ef þú notar áfengi til að flýja ákveðið vandamál skaltu frekar takast á við sjálfan vandann. Leysa má vandamál með því að fylgja leiðbeiningum í orði Guðs. (Sálmur 119:105) Hikaðu ekki við að biðja öldung, sem þú treystir vel, um aðstoð. Nýttu þér það sem Jehóva lætur okkur í té til að byggja upp trúna. Styrktu samband þitt við Guð. Biddu reglulega til hans og minnstu sérstaklega á veikleika þinn. Sárbændu hann um að ‚prófa huga þinn og hjarta‘. (Sálmur 26:2) Leggðu þig allan fram um að ganga í ráðvendni eins og rætt var um í greininni á undan.

20. Hvað gætir þú þurft að gera til að takast á við áfengisvanda?

20 Hvað er til ráða ef áfengisvandinn heldur áfram að gera vart við sig þótt þú reynir að takast á við hann? Þá ættirðu að fylgja ráðum Jesú: „Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis,“ það er að segja Gehenna. (Markús 9:43) Þú ættir sem sagt að forðast áfengi algerlega. Kona, sem við skulum kalla Irene, tók þá ákvörðun. Hún segir: „Eftir að hafa ekki snert áfengi í næstum tvö og hálft ár fór ég að hugsa sem svo að það væri kannski allt í lagi að fá sér einn drykk, bara til að sjá hvort ég gæti það. En um leið og ég fer að hugsa svona legg ég málið fyrir Jehóva í bæn. Ég er staðráðin í því að drekka aldrei aftur fyrr en í nýja heimskerfinu, og kannski ekki einu sinni þá.“ Algert bindindi er ekki of hátt verð til að fá að lifa í nýjum heimi Guðs. — 2. Pétursbréf 3:13.

‚Hlaupið þannig að þér hljótið launin‘

21, 22. Hvað getur hindrað að við komumst í mark í hlaupinu um lífið og hvernig getum við tekist á við það?

21 Páll postuli líkti lífshlaupi kristinna manna við keppnishlaup og sagði: „Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær. Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.“ — 1. Korintubréf 9:24-27.

22 Aðeins þeir sem ljúka hlaupinu hljóta launin. Í hlaupinu um lífið getur misnotkun áfengis komið í veg fyrir að við komumst í mark. Við verðum að sýna sjálfstjórn. Til að vera stefnuföst í hlaupinu megum við ekki stunda „ofdrykkju“ heldur verðum við að neita okkur um allt eða sýna sjálfstjórn á öllum sviðum. (1. Pétursbréf 4:3) Þegar áfengi er annars vegar er viturlegt að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega“. — Títusarbréfið 2:12.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Í þessari grein á áfengi við um bjór, léttvín og sterka drykki.

Manstu?

• Hvað er ofnotkun áfengis?

• Hvaða skaði hlýst af því að ofnota áfengi?

• Hvernig geturðu forðast að misnota áfengi?

• Hvernig er hægt að takast á við áfengisvanda?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Vín „gleður hjarta mannsins“.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Við þurfum hvert og eitt að vita hvar mörkin liggja og halda okkur innan þeirra.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Ákveddu fyrir fram hvar þú ætlar að setja mörkin.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Minnstu reglulega á veikleika þinn í bænum þínum.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Foreldrar bera ábyrgð á því að kenna börnum sínum hvernig þau eiga að fara með áfengi.