Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horfum á hið góða í söfnuði Jehóva

Horfum á hið góða í söfnuði Jehóva

Horfum á hið góða í söfnuði Jehóva

„Vér megum seðjast af gæðum húss þíns.“ — SÁLMUR 65:5.

1, 2. (a) Hvaða áhrif myndi musterið og starfsemin þar hafa á fólk Guðs? (b) Hvernig studdi Davíð byggingu musterisins?

DAVÍÐ Ísraelskonungur er ein af þekktustu persónum Hebresku ritninganna. Þessi fjárhirðir, tónlistarmaður, spámaður og konungur treysti Jehóva Guði algerlega. Davíð átti náið samband við Jehóva og það vakti löngun með honum til að reisa honum hús eða musteri sem yrði miðstöð sannrar tilbeiðslu í Ísrael. Davíð vissi að musterið og starfsemin, sem færi þar fram, myndi veita þjóð Guðs gleði og vera henni til blessunar. Hann söng því: „Sæll er sá er þú [Jehóva] útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.“ — Sálmur 65:5.

2 Davíð fékk hins vegar ekki að reisa Jehóva hús. Það kom í hlut Salómons, sonar hans. Davíð möglaði ekki yfir því að annar maður skyldi fá það sérstaka verkefni sem hann þráði svo heitt að sjá um sjálfur. Það sem skipti hann mestu máli var að musterið yrði reist. Hann studdi verkið af heilum hug og afhenti Salómon teikningarnar sem hann hafði fengið frá Jehóva. Og Davíð raðaði þúsundum levíta í þjónustuflokka og gaf óhemjumikið af gulli og silfri til byggingar musterisins. — 1. Kroníkubók 17:1, 4, 11, 12; 23:3-6; 28:11, 12; 29:1-5.

3. Hvernig líta þjónar Guðs á sanna tilbeiðslu eins og hún fer fram í söfnuði hans?

3 Ísraelsmenn, sem þjónuðu Guði dyggilega, studdu sanna tilbeiðslu eins og hún fór fram í húsi hans. Við sem erum þjónar Jehóva núna styðjum sömuleiðis þá tilbeiðslu sem fer fram í jarðneskum hluta alheimssafnaðar hans. Þannig sýnum við að við höfum sama hugafar og Davíð. Við kvörtum ekki yfir hlutskipti okkar heldur horfum á hið góða í söfnuði Jehóva. Hefurðu velt fyrir þér öllu því góða sem við megum vera þakklát fyrir? Lítum á nokkur dæmi.

Þakklát fyrir þá sem fara með forystuna

4, 5. (a) Hvernig sinnir hinn „trúi og hyggni þjónn“ verkefni sínu? (b) Hvað segja vottar um andlegu fæðuna sem þeir fá?

4 Við megum vera þakklát fyrir ‚trúa og hyggna þjóninn‘ sem Jesús Kristur hefur sett yfir eigur sínar hér á jörð. Þessi þjónn er hópur andasmurðra kristinna manna sem fer með forystuna í því að boða fagnaðarerindið, skipuleggur samkomur til að tilbiðja Jehóva og gefur út biblíutengd rit á meira en 400 tungumálum. Milljónir manna um heim allan þiggja með þökkum þessa andlegu fæðu á réttum tíma. (Matteus 24:45-47) Það er vissulega engin ástæða til að kvarta yfir henni.

5 Elfi er roskinn vottur Jehóva. Hún hefur árum saman sótt hughreystingu og hjálp í hin biblíulegu ráð sem er að finna í ritum hins trúa og hyggna þjóns. Hún skrifar full þakklætis: „Hvað myndi ég gera ef ég hefði ekki söfnuð Jehóva?“ Peter og Irmgard hafa sömuleiðis verið þjónar Guðs áratugum saman. Irmgard er innilega þakklát fyrir öll ritin sem koma frá „ástríkum og umhyggjusömum söfnuði Jehóva“. Því er við að bæta að sum af þessum ritum eru einnig sniðin að þörfum sjónskertra og heyrnarskertra.

6, 7. (a) Hvernig er umsjón safnaðanna háttað um heim allan? (b) Hvað hafa vottar sagt um söfnuð Jehóva?

6 Hið stjórnandi ráð Votta Jehóva er fulltrúi hins ‚trúa þjóns‘. Hér er um að ræða fámennan hóp andasmurðra manna sem starfa við aðalstöðvar Votta Jehóva í Brooklyn í New York. Hið stjórnandi ráð útnefnir reynda þjóna Jehóva til að starfa við deildarskrifstofurnar en þær hafa umsjón með starfi meira en 98.000 safnaða um heim allan. Karlmenn, sem uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar, eru skipaðir öldungar og safnaðarþjónar í þessum söfnuðum. (1. Tímóteusarbréf 3:1-9, 12, 13) Öldungarnir fara með forystuna og annast hjörðina sem Guð hefur falið þeim. Það er mikil blessun að mega tilheyra hjörðinni og njóta kærleikans og einingarinnar sem einkennir allt „bræðrafélagið“. — 1. Pétursbréf 2:17; 5:2, 3.

7 Það er miklu algengara að þjónar Jehóva séu þakklátir fyrir kærleiksríka leiðsögn safnaðaröldunganna en að þeir kvarti undan henni. Birgit er dæmi um það en hún er kristin eiginkona á fertugsaldri. Á unglingsárunum lenti hún í vonum félagsskap og minnstu munaði að hún gerði sig seka um alvarlega synd. Hún fékk þá skýr, biblíuleg ráð frá öldungunum og tókst, með stuðningi trúsystkina, að forða sér úr þeirri hættu sem hún var komin í. Hvernig er henni innanbrjósts núna? Hún segir: „Ég er innilega þakklát fyrir að ég skuli enn þá tilheyra frábærum söfnuði Jehóva.“ Andreas, sem er 17 ára, segir: „Þetta er söfnuður Jehóva, besti söfnuður í heimi.“ Ættum við ekki að vera þakklát fyrir allt hið góða sem við fáum frá söfnuði Jehóva hér á jörð?

Þeir sem fara með forystuna eru ófullkomnir

8, 9. Hvernig breyttu sumir samtíðarmenn Davíðs og hvernig brást hann við því?

8 Þeir sem útnefndir eru til að fara með forystuna í sannri tilbeiðslu eru auðvitað ófullkomnir. Allir gera þeir sín mistök og sumir eiga við þráláta veikleika að stríða og þurfa að leggja hart að sér til að halda þeim í skefjum. Þurfum við að láta það koma okkur úr jafnvægi? Nei, menn sem gegndu háum ábyrgðarstöðum í Ísrael forðum daga gerðu líka mistök, stundum alvarleg. Davíð var enn þá ungur maður þegar hann var kallaður í þjónustu Sáls konungs til að róa hann með hörpuleik. Sál reyndi síðar að drepa Davíð sem þurfti að lokum að flýja til að bjarga lífi sínu. — 1. Samúelsbók 16:14-23; 18:10-12; 19:18; 20:32, 33; 22:1-5.

9 Nefna má fleiri dæmi um Ísraelsmenn sem breyttu sviksamlega. Jóab, hershöfðingi Davíðs, drap til dæmis Abner sem var ættingi Sáls. Absalon gerði samsæri gegn Davíð, föður sínum, um að steypa honum af stóli. Og Akítófel, ráðgjafinn sem Davíð treysti, sveik hann. (2. Samúelsbók 3:22-30; 15:1-17, 31; 16:15, 21) En Davíð varð ekki bitur og möglaði ekki, og hann sneri ekki baki við sannri tilbeiðslu. Mótlætið hafði gagnstæð áhrif. Hann hélt sér enn fastar við Jehóva og varðveitti sama hugarfar og hann hafði þegar hann flúði undan Sál. Þá söng hann: „Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.“ — Sálmur 57:2.

10, 11. Hverju varð Gertrud fyrir sem ung kona og hvað sagði hún um mistök annarra í söfnuðinum?

10 Við höfum enga ástæðu til að kvarta undan sviksemi innan safnaðar Guðs. Hvorki Jehóva né englarnir né safnaðaröldungarnir umbera sviksama og óguðlega menn í kristna söfnuðinum. En þrátt fyrir það blasir ófullkomleiki mannsins sífellt við okkur — bæði í fari sjálfra okkar og samþjóna okkar í söfnuðinum.

11 Gertrud þjónaði Jehóva áratugum saman. Sem ung kona var hún sökuð um að villa á sér heimildir og vera ekki boðberi í fullu starfi. Hvernig brást hún við? Möglaði hún yfir meðferðinni á sér? Nei, skömmu áður en hún dó árið 2003, þá 91 árs, horfði hún um öxl og sagði: „Þetta atvik og fleiri kenndu mér að þrátt fyrir mistök einstakra manna sér Jehóva svo um að starf hans fái framgang og hann notar okkur, ófullkomna menn, til þess.“ Gertrud leitaði til Jehóva í innilegri bæn þegar ófullkomleiki annarra þjóna Guðs gerði vart við sig.

12. (a) Hvers konar fordæmi setti einstaka maður í kristna söfnuðinum á fyrstu öld? (b) Að hverju ættum við að einbeita okkur?

12 Þar sem dyggustu og guðræknustu þjónar Guðs eru ófullkomnir skulum við halda áfram að gera allt „án þess að mögla“ þegar einhverjum, sem er útnefndur til forystu, verður eitthvað á. (Filippíbréfið 2:14) Það væri miður ef við líktum eftir slæmu fordæmi einstaka manna í kristna söfnuðinum á fyrstu öld. Að sögn lærisveinsins Júdasar gerðu falskennarar sig seka um að „meta að engu drottinvald og lastmæla tignum“. Þessir menn voru bæði „möglarar“ og „umkvörtunarsamir“. (Júdasarbréfið 8, 16) Fetum ekki í fótspor þeirra sem mögla og kvarta. Einbeitum okkur heldur að þeim gæðum sem hinn ‚trúi þjónn‘ lætur okkur í té. Við skulum meta að verðleikum hið góða sem við fáum frá söfnuði Jehóva og gera allt „án þess að mögla“.

„Þung er þessi ræða“

13. Hvernig brugðust sumir við kennslu Jesú?

13 Á fyrstu öldinni mögluðu sumir gegn þeim sem voru útnefndir til starfa í söfnuðinum en aðrir mögluðu yfir kenningum Jesú. Samkvæmt Jóhannesi 6:48-69 sagði Jesús: „Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf.“ Margir af lærisveinum hans, sem hlýddu á, sögðu þá: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“ Jesús vissi „að kurr var með lærisveinum hans út af þessu“. Í framhaldi af því „hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum“. En ekki brugðust allir þannig við. Jesús spurði postulana 12: „Ætlið þér að fara líka?“ Þá svaraði Pétur: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“

14, 15. (a) Af hverju verður einstaka maður stundum óánægður með kenningar kristninnar? (b) Hvaða lærdóm má draga af Emanuel?

14 Á okkar dögum hefur það komið fyrir að einstaka safnaðarmaður hafi orðið óánægður með einhverjar af kenningum kristninnar og möglað gegn söfnuði Jehóva. Hvers vegna gerist það? Oft má rekja það til þess að menn skilja ekki hvernig Guð starfar. Skaparinn opinberar þjónum sínum sannleikann smám saman. Þess vegna hlýtur skilningur okkar á Biblíunni að skerpast og skýrast af og til. Langflestir þjónar Jehóva taka því fagnandi þegar skilningurinn skýrist. Fáeinir verða hins vegar ‚of réttlátir‘ og bregðast illa við breytingunum. (Prédikarinn 7:16) Að hluta til getur það stafað af stolti og sjálfstæðisanda sem sumir láta ná tökum á sér. Mögl af þessu tagi er alltaf hættulegt, af hvaða rótum sem það er sprottið, vegna þess að það getur orðið til þess að við snúum aftur út í heiminn og tökum upp háttsemi hans.

15 Vottur einn, Emanuel að nafni, gagnrýndi sumt af því sem hann las í ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns‘. (Matteus 24:45) Hann hætti að lesa ritin og sagði síðan öldungum safnaðarins að hann vildi ekki vera vottur Jehóva lengur. En áður en langt um leið komst Emanual að þeirri niðurstöðu að kenningar safnaðar Jehóva væru réttar þegar allt kæmi til alls. Hann hafði samband við vottana, viðurkenndi mistök sín og var tekinn inn í söfnuðinn á ný. Nú var hann hamingjusamur á nýjan leik.

16. Hvernig getum við sigrast á efasemdum um ákveðnar kenningar kristninnar?

16 Hvað er til ráða ef okkur finnst freistandi að mögla vegna þess að við höfum efasemdir um ákveðnar kenningar safnaðar Jehóva? Gætum þess þá að vera ekki óþolinmóð. Vera má að hinn ‚trúi þjónn‘ birti síðar meir upplýsingar sem svara spurningum okkar og eyða efasemdunum. Það er viturlegt af okkur að leita aðstoðar safnaðaröldunganna. (Júdasarbréfið 22, 23) Við getum einnig unnið gegn efasemdunum með því að biðja, stunda sjálfsnám og umgangast andlega sinnuð trúsystkini. Þannig getum við fengið meiri mætur á þeim trústyrkjandi biblíusannindum sem við höfum fengið eftir boðleið Jehóva.

Verum jákvæð

17, 18. Hvaða hugarfar ættum við að hafa og hvers vegna?

17 Ófullkomnir menn hafa vissulega meðfædda tilhneigingu til að syndga og sumir hafa ef til vill sterka hvöt til að kvarta að óþörfu. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 5:12) Ef við myndum venja okkur á að mögla værum við hins vegar að setja samband okkar við Jehóva Guð í hættu. Þess vegna þurfum við að halda í skefjum sérhverri tilhneigingu til að mögla.

18 Í stað þess að mögla yfir því sem fram fer í söfnuðinum ættum við að vera jákvæð og venja okkur á að vera iðin, glaðlynd, auðmjúk, öfgalaus og heilbrigð í trúnni. (1. Korintubréf 15:58; Títusarbréfið 2:1-5) Jehóva hefur stjórn á öllu sem fram fer í alheimssöfnuði hans og Jesús fylgist með framvindu mála í hverjum einasta söfnuði alveg eins og á fyrstu öld. (Opinberunarbókin 1:10, 11) Við skulum vera þolinmóð og bíða þess að Guð og Kristur, höfuð safnaðarins, taki á málum. Vera má að hirðar safnaðarins verði látnir leiðrétta það sem leiðrétta þarf. — Sálmur 43:5; Kólossubréfið 1:18; Títusarbréfið 1:5.

19. Að hverju ættum við að einbeita okkur þangað til ríki Guðs hefur tekið málefni mannanna að fullu í sínar hendur?

19 Innan skamms líður hið illa heimskerfi undir lok og Messíasarríkið tekur málefni mannanna að fullu í sínar hendur. Þangað til er afar mikilvægt að við temjum okkur öll að vera jákvæð. Það hjálpar okkur að sjá kosti trúsystkina okkar í stað þess að einblína á gallana. Við verðum sjálf ánægðari ef við einbeitum okkur að hinu jákvæða í fari þeirra. Það er uppörvandi og andlega uppbyggjandi fyrir okkur. En ef við værum símöglandi er viðbúið að við myndum örmagnast tilfinningalega.

20. Hvaða blessunar verðum við aðnjótandi ef við erum jákvæð?

20 Ef við erum jákvæð gleymum við ekki heldur allri þeirri blessun sem fylgir því að tilheyra jarðneskum hluta alheimssafnaðar Jehóva. Þetta er eini söfnuðurinn í heimi sem sýnir alvöldum Drottni alheims hollustu. Hvað finnst þér um það og um þann heiður að mega tilbiðja hinn eina sanna Guð, Jehóva? Megir þú vera sama sinnis og Davíð sem söng: „Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold. Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.“ — Sálmur 65:3, 5.

Manstu?

• Af hverju ættum við að vera þakklát fyrir þá sem fara með forystuna í söfnuðinum?

• Hvernig ættum við að bregðast við þegar bræður í ábyrgðarstöðum gera mistök?

• Hvernig ættum við að líta á það þegar biblíuskilningurinn skýrist?

• Hvað getur hjálpað kristnum manni að sigrast á efasemdum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Davíð gaf Salómon teikningar af musterinu og studdi sanna tilbeiðslu af heilum hug.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Öldungarnir aðstoða safnaðarmenn fúslega.