Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég hef séð kraft sannleikans að verki

Ég hef séð kraft sannleikans að verki

Ég hef séð kraft sannleikans að verki

Vito Fraese segir frá

NAFNIÐ Trentinara segir þér líklega ekki mikið. Það er nafn á litlum bæ sunnan við Napólí á Ítalíu. Foreldrar mínir og Angelo, eldri bróðir minn, fæddust þar. Eftir að Angelo fæddist fluttust foreldrar mínir til Bandaríkjanna og settust að í Rochester í New York þar sem ég fæddist 1926. Árið 1922 komst pabbi fyrst í kynni við biblíunemendurna eins og vottar Jehóva voru þá kallaðir. Foreldrar mínir urðu fljótlega biblíunemendur.

Pabbi var hæglátur og íhugull maður en honum gramdist eigi að síður óréttlæti. Hann þoldi ekki hvernig prestarnir héldu fólki í vanþekkingu og lét ekkert tækifæri ónotað til að segja frá sannleika Biblíunnar. Þegar hann komst á eftirlaun gerðist hann boðberi í fullu starfi þar til hann neyddist til að hætta vegna heilsubrests og vetrarharðinda, þá 74 ára. Hann hélt þó áfram að boða fagnaðarerindið milli 40 og 60 klukkustundir í mánuði fram á tíræðisaldur. Fordæmi pabba hafði djúpstæð áhrif á mig. Þótt hann gæti verið gamansamur á stundum var hann alvörugefinn maður. Hann var vanur að segja: „Sannleikann ber að taka alvarlega.“

Við vorum fimm systkinin, og pabbi og mamma kappkostuðu að kenna okkur öllum orð Guðs. Ég lét skírast 23. ágúst 1943 og gerðist brautryðjandi í júní 1944. Carmela systir var brautryðjandi í Geneva í New York ásamt Fern, líflegri starfssystur sinni. Fljótlega varð mér ljóst að Fern var stúlkan sem mig langaði til að eyða ævinni með. Við giftumst í ágúst 1946.

Trúboðsstarf

Fyrstu sameiginlegu verkefnin okkar voru að starfa sem sérbrautryðjendur í borgunum Geneva og Norwich í New York-ríki. Í ágúst 1948 hlaust okkur sú ánægja að fá inngöngu í Gíleaðskólann. Við vorum í 12. nemendahópnum. Síðan vorum við send til Napólí á Ítalíu ásamt öðrum trúboðshjónum, þeim Carl og Joanne Ridgeway. Heimamenn voru þá að basla við að endurreisa borgina eftir eyðileggingu stríðsins. Erfitt var að fá húsnæði og í nokkra mánuði bjuggum við í lítilli tveggja herbergja íbúð.

Ég ólst upp við að heyra foreldra mína tala Napólí-mállýskuna svo að ítalskan, sem ég talaði, skildist þokkalega þrátt fyrir ameríska hreiminn. Fern átti í erfiðleikum með ítölskuna fyrst í stað en ég verð að viðurkenna að hún var fljót að ná mér og vel það.

Í fyrstu var eina áhugasama fólkið, sem við hittum í Napólí, fjögurra manna fjölskylda sem seldi smyglaðar sígarettur. Teresa sá um söluna. Hvern virkan dag tók hún undraverðum breytingum. Á morgnana, þegar sígarettum hafði verið troðið í ótal vasa á pilsinu hennar, virtist hún vera í gildara lagi. Að kvöldi var hún orðin tággrönn. Sannleikurinn í Biblíunni gerbreytti þessari fjölskyldu. Um síðir urðu 16 þeirra vottar. Núna eru nærri 3.700 vottar í Napólí.

Andstaða

Við höfðum aðeins verið í níu mánuði í Napólí þegar yfirvöld neyddu okkur fjögur til að yfirgefa borgina. Við fórum til Sviss og vorum þar í um það bil mánuð og komum aftur til Ítalíu með vegabréfsáritun fyrir ferðamenn. Við Fern vorum send til Tórínó. Í byrjun leigðum við herbergi með aðgangi að baði og eldhúsi hjá konu nokkurri. Þegar Ridgewayhjónin komu til borgarinnar leigðum við saman íbúð. Um tíma bjuggu fimm trúboðshjón í sama húsinu.

Þegar yfirvöld skipuðu okkur að yfirgefa Tórínó árið 1955 hafði verið lagður grunnur að fjórum nýjum söfnuðum. Hæfir bræður á staðnum gátu nú séð málunum borgið. Embættismenn sögðu okkur: „Það er alveg öruggt að þegar þið Ameríkanarnir eruð farnir mun allt hrynja sem þið hafið gert.“ En aukningin, sem átti eftir að verða, sýndi að árangur starfsins er undir Guði kominn. Nú eru fleiri en 4.600 vottar í Tórínó og söfnuðirnir eru 56.

Borgin yndislega Flórens

Næsta verkefni okkar var að starfa í Flórens. Við höfðum oft heyrt um þessa borg þar sem Carmela systir og Merlin Hartzler, eiginmaður hennar, störfuðu sem trúboðar. En ímyndaðu þér hvernig var að búa þar. Staðir eins og Piazza della Signoria, Ponte Vecchio, Piazzale Michelangelo og Palazzo Pitti gerðu hana að yndislegri borg. Og ánægjulegt var að sjá hvernig sumir Flórensbúar brugðust við fagnaðarerindinu.

Við vorum með fjölskyldu í biblíunámi og foreldrarnir létu skírast. En faðirinn reykti. Árið 1973 var bent á það í Varðturninum að reykingar væru óhreinn ávani og lesendur voru hvattir til að láta af honum. Eldri börnin sárbændu pabba sinn um að hætta að reykja. Hann lofaði því en hætti ekki. Kvöld eitt sendi eiginkonan níu ára tvíburadrengina eina í rúmið áður en hún hafði beðið kvöldbænina með þeim. En svo fékk hún bakþanka og fór inn til þeirra. Þeir voru þá búnir að fara með bænirnar sínar: „Um hvað báðuð þið?“ spurði hún. „Jehóva, viltu hjálpa pabba að hætta að reykja.“ Hún kallaði á eiginmanninn: „Komdu, heyrðu um hvað drengirnir þínir biðja.“ Hann gerði það, brast í grát og sagði: „Ég ætla aldrei að reykja framar!“ Hann stóð við það og nú eru 15 í fjölskyldunni orðnir vottar.

Til Afríku

Árið 1959 vorum við beðin um að fara til Mogadishu í Sómalíu ásamt tveim öðrum trúboðum, Arturo Leveris og Angelo, bróður mínum. Spennuástand ríkti í stjórnmálum þegar við komum þangað. Ítölsku ríkisstjórninni var ætlað að leiða Sómalíu til sjálfstæðis í umboði Sameinuðu þjóðanna en ástandið virtist fara versnandi. Ítölsku biblíunemendurnir okkar fóru sumir úr landi og ekki var hægt að stofna söfnuð þar.

Á þessum tíma óskaði umsjónarmaður, sem heimsótti deildarskrifstofur, eftir að ég yrði aðstoðarmaður hans og við fórum að heimsækja löndin í kring. Sumir þeirra sem við fræddum um Biblíuna tóku framförum en urðu að yfirgefa heimkynni sín vegna andstöðu. Aðrir urðu eftir þótt þeir yrðu að þola miklar þjáningar. * Okkur vöknar enn um augu þegar við hugsum um kærleika þeirra til Jehóva og það sem þeir máttu þola til að standa trúfastir.

Hitinn og rakinn í Sómalíu og Erítreu var oft óskaplegur. Okkur hitnaði jafnvel enn meira af sumum réttunum sem eru algengir þar um slóðir. Í fyrsta skipti sem við borðuðum einn þeirra heima hjá biblíunemanda sagði eiginkona mín í gamni að eyrun á sér lýstu eins og rauð umferðarljós!

Þegar Angelo og Arturo voru sendir á annað svæði vorum við ein eftir. Það var erfitt að hafa engan til að stappa í sig stálinu. En þetta hjálpaði okkur að styrkja sambandið við Jehóva og treysta enn frekar á hann. Heimsóknir til landa þar sem starfið var bannað reyndust mjög uppörvandi fyrir okkur.

Í Sómalíu var við ýmsa erfiðleika að etja. Við höfðum ekki ísskáp svo að við keyptum aðeins mat fyrir einn dag í einu, hvort sem um var að ræða bita af sleggjuháfi eða ávexti eins og mangó, papaja, greipaldin, kókoshnetur eða banana. Við þurftum oft að berjast við fljúgandi skordýr. Stundum lentu þau á hálsinum á okkur meðan við vorum heima hjá biblíunemendum að kenna þeim. En við höfðum þó vespu til að komast milli staða, svo að við þurftum ekki að ganga klukkutímum saman í brennandi sólinni.

Aftur til Ítalíu

Svo var örlátum vinum fyrir að þakka að við gátum fengið far með bananaskipi til Ítalíu til að sækja alþjóðamótið í Tórínó árið 1961. Við fengum þá að vita að við ættum að flytja okkur um set. Við komum aftur til Ítalíu í september 1962 og ég fór að starfa þar sem farandhirðir. Við keyptum lítinn bíl sem við notuðum í fimm ár á ferðalögum okkar um tvö farandsvæði.

Eftir hitann í Afríku urðum við nú að takast á við kuldann. Fyrsta veturinn heimsóttum við söfnuð við rætur Alpafjallanna og sváfum þá í óupphituðu herbergi fyrir ofan heyhlöðu. Þar var svo kalt að við sváfum í yfirhöfnunum. Þessa nótt drápust fjórar hænur og tveir hundar í nágrenninu úr kulda.

Síðar meir þjónaði ég einnig sem umdæmishirðir. Á þessum árum ferðuðumst við um alla Ítalíu. Sum svæði heimsóttum við mörgum sinnum, til dæmis Kalabríu og Sikiley. Við hvöttum ungu mennina til að taka framförum í trúnni og stefna að því að verða umsjónarmenn í söfnuðinum, farandhirðar eða Betelítar.

Við höfum lært mikið af trúföstum vinum sem hafa þjónað Jehóva af heilum hug. Við höfum lært að meta eiginleika þeirra, svo sem einlæga hollustu við Jehóva, örlæti, bróðurkærleika, aðlögunarhæfni og fórnfýsi. Við höfum verið viðstödd brúðkaup í ríkissölum þar sem vottar hafa farið með löggilt umboð til að gefa saman hjón. Það var óhugsandi í landinu á árum áður. Safnaðarsamkomur fara ekki fram í eldhúsum bræðra og systra, og við sitjum ekki lengur á plönkum eins og var gert í Tórínó. Flestir söfnuðir eiga nú fallega ríkissali sem heiðra Jehóva. Við höldum ekki lengur mót í annars flokks húsnæði heldur í rúmgóðum mótshöllum. Það hefur einnig verið mikil gleði að sjá boðberatöluna fara yfir 243.000. Þegar við komum til Ítalíu voru boðberar aðeins 490.

Við völdum rétt

Við höfum fengið okkar skerf af mótlæti, þar á meðal heimþrá og veikindum. Fern fékk heimþrá í hvert sinn sem hún sá til sjávar. Hún hefur einnig þurft að gangast undir þrjá uppskurði. Einu sinni var hún á leiðinni í biblíunám þegar andstæðingur réðst á hana með heykvísl. Árásin leiddi til þess að hún varð að fara á sjúkrahús.

Þótt við höfum stundum verið niðurdregin höfum við vonað á Jehóva í samræmi við Harmljóðin 3:24. Hann er Guð huggunarinnar. Einu sinni þegar við vorum mjög langt niðri fékk Fern yndislegt bréf frá bróður Nathan Knorr en hann fæddist nálægt Bethlehem í Pennsylvaníu þar sem Fern byrjaði að starfa sem brautryðjandi. Hann skrifaði að honum væri vel kunnugt um að þýskættaðar konur eins og hún frá Pennsylvaníu væru sterkar og ákveðnar. Hann hafði rétt fyrir sér. Á umliðnum árum höfum við fengið uppörvun á margan hátt og frá mörgum.

Þrátt fyrir erfiðleikana höfum við reynt að viðhalda brennandi áhuga á boðunarstarfinu. Fern líkir trúboðsandanum við Lambrusco, ljúffengt ítalskt freyðivín, og segir í gamni: „Við megum ekki láta trúboðsandann glata gneistanum.“ Eftir að hafa ferðast í meira en 40 ár í umdæmis- og farandhirðisstarfi fengum við nýtt verkefni sem fólst í því að heimsækja og skipuleggja hópa og söfnuði sem tala annað tungumál en ítölsku. Þessir hópar prédika fyrir fólki frá Bangladess, Erítreu, Eþíópíu, Filippseyjum, Gana, Indlandi, Kína, Nígeríu, Srí Lanka og öðrum löndum. Heil bók nægði ekki til að segja frá því hvernig stórfenglegur kraftur Biblíunnar breytir lífi þeirra sem kynnast miskunn Jehóva. — Míka 7:18, 19.

Við biðjum Jehóva hvern dag að halda áfram að gefa okkur líkamlegan styrk og hugarþrek til að boða fagnaðarerindið. Gleði Drottins er styrkur okkar. Þess vegna ljóma augu okkar og við erum sannfærð um að við höfum valið rétt með því að helga líf okkar því að breiða út sannleika Biblíunnar. — Ef. 3:7; Kól. 1:29.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Sjá árbók Votta Jehóva 1992, bls. 95-184.

[Tafla/​myndir á bls. 27-29]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Foreldrar mínir í Rochester í New York.

1948

Í South-Lansing þar sem ég sótti Gíleaðskólann.

1949

Við Fern rétt ófarin til Ítalíu.

Á Kaprí á Ítalíu.

1952

Í Tórínó og Napóli með öðrum trúboðum.

1963

Fern ásamt nokkrum biblíunemendum sínum.

„Við megum ekki láta trúboðsandann glata gneistanum.“