Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þakklát Jehóva Þrátt fyrir prófraunir

Þakklát Jehóva Þrátt fyrir prófraunir

Þakklát Jehóva Þrátt fyrir prófraunir

Maatje de Jonge-van den Heuvel segir frá

ÉG ER 98 ára. Þar af hef ég þjónað Jehóva í 70 ár en ekki án þess að reynt hafi verið á trú mína. Í síðari heimsstyrjöldinni hafnaði ég í fangabúðum þar sem stundarkjarkleysi varð til þess að ég tók ákvörðun sem ég iðraðist síðar. Nokkrum árum eftir það varð ég aftur fyrir erfiðri reynslu. En ég er þakklát Jehóva fyrir að hafa mátt þjóna honum þrátt fyrir prófraunir.

Líf mitt breyttist í október árið 1940. Ég átti heima í Hilversum, 24 kílómetra suðaustur af Amsterdam. Landið var undir stjórn nasista. Ég hafði verið gift Jaap de Jonge í fimm ár. Hann var umhyggjusamur eiginmaður og við áttum þriggja ára dóttur sem hét Willy og okkur þótti ákaflega vænt um. Við bjuggum í næsta húsi við fátæka fjölskyldu sem baslaði við að sjá átta börnum sínum farborða. Þau sáu einnig ungum manni fyrir föstu fæði og húsnæði. Ég velti fyrir mér hvers vegna þau hefðu tekið á sig þessa aukabyrði. Einu sinni kom ég með matvörur til þeirra og fékk þá að vita að ungi maðurinn væri brautryðjandi. Hann sagði mér frá Guðsríki og þeirri blessun sem það hefði í för með sér. Ég var snortin af því sem ég lærði og ég tók fljótlega á móti sannleikanum. Sama ár vígði ég mig Jehóva og lét skírast. Ári eftir að ég skírðist tók eiginmaður minn einnig afstöðu með sannleikanum.

Þótt ég hefði litla biblíuþekkingu skildi ég fyllilega að með því að verða vottur gekk ég í söfnuð sem var bannaður. Mér var einnig kunnugt um að fjölmargir vottar höfðu þá þegar verið settir í fangelsi fyrir að boða fagnaðarerindið um Guðsríki. Eigi að síður byrjaði ég strax að prédika hús úr húsi og við hjónin veittum brautryðjendum og farandhirðum húsaskjól. Heimilið varð einnig geymslustaður fyrir biblíutengd rit sem bræður og systur frá Amsterdam komu með til okkar. Reiðhjólin, sem þau notuðu, voru hlaðin bókum og vatnsheldur segldúkur breiddur yfir. Þessir boðberar voru mjög kærleiksríkir og hugrakkir. Þeir hættu lífinu fyrir trúsystkini sín. — 1. Jóh. 3:16.

„Kemurðu fljótt aftur, mamma?“

Um það bil hálfu ári eftir að ég lét skírast birtust þrír lögregluþjónar í dyrunum hjá okkur. Þeir komu inn í húsið og gerðu leit. Þótt þeir fyndu ekki skápinn sem var fullur af ritum fundu þeir nokkrar bækur sem voru faldar undir rúminu okkar. Þeir skipuðu mér að koma tafarlaust með sér á lögreglustöðina í Hilversum. Þegar ég faðmaði dóttur mína í kveðjuskyni spurði hún: „Kemurðu fljótt aftur, mamma?“ „Já, elskan, mamma kemur fljótt aftur,“ svaraði ég. En það liðu 18 erfiðir mánuðir þangað til ég gat haldið henni í fangi mér á ný.

Lögregluþjónn fór með mig í lest til Amsterdam þar sem ég var yfirheyrð. Við yfirheyrsluna var reynt að fá mig til að bera kennsl á þrjá bræður frá Hilversum. „Ég þekki ekki nema einn þeirra,“ sagði ég. „Hann er mjólkurpósturinn okkar.“ Og það var satt. Þessi bróðir bar út mjólk. „En hvort hann er vottur Jehóva,“ bætti ég við, „ættirðu að spyrja hann um, ekki mig.“ Þegar ég neitaði að segja meira börðu þeir mig í andlitið og læstu mig inni í klefa þar sem ég mátti dúsa í tvo mánuði. Þegar maðurinn minn komst að því hvar ég var niðurkomin gat hann fært mér föt og mat. Í ágústmánuði 1941 var ég send til Ravensbrück, um 80 kílómetra norður af Berlín, en þar voru illræmdar kvennafangabúðir.

„Hertu upp hugann, vinan“

Við komuna var okkur sagt að við gætum farið heim ef við undirrituðum yfirlýsingu þar sem við afneituðum trú okkar. En auðvitað skrifaði ég ekki undir. Ég varð þá að láta af hendi persónulega muni og afklæðast inni á baðherbergi. Þar hitti ég nokkrar trúsystur mínar frá Hollandi. Við vorum látnar fá disk, krús og skeið ásamt fangabúningi með ásaumuðum fjólubláum þríhyrningi. Fyrstu nóttina vorum við settar í skála fyrir nýja fanga. Þar fór ég að gráta í fyrsta sinn frá því að ég var handtekin. „Hvað verður um mig? Hversu lengi verð ég hér?“ sagði ég snöktandi. Satt að segja var samband mitt við Jehóva ekki orðið mjög náið þar sem ég hafði aðeins þekkt sannleikann í nokkra mánuði. Ég átti svo margt ólært. Við nafnakall næsta dag hlýtur hollensk systir að hafa tekið eftir hvað ég var döpur. Hún sagði við mig: „Hertu upp hugann, vinan, hertu upp hugann. Hvað getur gert okkur mein?“

Eftir nafnakallið var farið með okkur í annan skála þar sem nokkur hundruð trúsystur frá Þýskalandi og Hollandi tóku á móti okkur. Nokkrar þýsku systranna höfðu búið í þessum skála í meira en ár. Félagsskapurinn við þær styrkti mig og ég hresstist. Ég var einnig hrifin af því hvað skálinn, sem systurnar voru í, var miklu hreinni en aðrir skálar í fangabúðunum. Skálinn okkar var ekki aðeins hreinn heldur var hann einnig þekktur fyrir að þar var hvorki stolið, bölvað né slegist. Hann stakk í stúf við harðneskjulegt umhverfið því að hann var eins og hrein eyja í skítugu hafi.

Daglegt líf í búðunum

Lífið í fangabúðunum fólst í mikilli vinnu og naumum matarskammti. Við urðum að fara á fætur klukkan fimm á morgnana og stuttu síðar hófst nafnakallið. Verðir létu okkur standa utan dyra í um það bil klukkustund í hvaða veðri sem var. Klukkan fimm síðdegis, eftir erfiðan vinnudag, var nafnakallið endurtekið. Síðan fengum við svolítið af súpu og brauði og fórum að sofa að niðurlotum komnar.

Alla daga nema sunnudaga var ég látin vinna á bóndabýlum við að slá hveiti með orfi og ljá, grafa skurði og hreinsa svínastíur. Þótt vinnan væri erfið og sóðaleg gat ég þolað hana dag eftir dag af því að ég var enn ung og sterk. Ég fékk einnig styrk með því að syngja söngva með biblíulegum boðskap meðan ég var að vinna. En ég þráði manninn minn og barn á hverjum degi.

Við fengum mjög lítinn mat en við trúsysturnar reyndum allar að taka frá brauðbita á hverjum degi svo að við gætum haft eitthvað aukalega á sunnudögum. Þá höfðum við tækifæri til að koma saman og ræða biblíuleg málefni. Við höfðum engin biblíutengd rit en ég hlustaði af áhuga á eldri systurnar frá Þýskalandi þegar þær ræddu um efni Biblíunnar. Við héldum meira að segja minningarhátíðina um dauða Krists.

Þjáning, eftirsjá og uppörvun

Stundum var okkur skipað að vinna verk sem voru beinlínis í þágu stríðsrekstrar nasista. Allar systurnar sýndu það hugrekki að neita að taka að sér þá vinnu vegna hlutleysis í stjórnmálum. Ég fór að dæmi þeirra. Okkur var hegnt með því að vera án matar svo dögum skipti og við urðum að standa klukkustundum saman þegar nafnakallið fór fram. Um veturinn vorum við einu sinni læstar inni í óupphituðum skála í 40 daga.

Þar sem við vorum vottar Jehóva var okkur margsinnis sagt að við yrðum leystar úr haldi og gætum farið heim ef við undirrituðum yfirlýsingu um að afneita trú okkar. Þegar ég hafði verið í Ravensbrück í meira en ár var ég einu sinni mjög niðurdregin. Löngunin til að sjá eiginmann minn og dóttur varð svo sterk að ég fór til varðanna, bað um eyðublaðið með yfirlýsingunni um að ég væri ekki lengur biblíunemandi og undirritaði það.

Þegar systurnar fréttu hvað ég hafði gert tóku sumar þeirra að forðast mig. Tvær þýskar eldri systur, Hedwig og Gertrud, komu samt til mín og fullvissuðu mig um að þeim þætti vænt um mig. Meðan við unnum saman í svínastíunum skýrðu þær vingjarnlega fyrir mér hve mikilvægt væri að vera Jehóva trú og hvernig við sýnum honum kærleika með því að gera enga málamiðlun. Móðurleg umhyggja þeirra og ástúð snerti mig djúpt. * Ég vissi að ég hafði gert rangt og ég vildi fá að ógilda yfirlýsinguna. Kvöld eitt sagði ég trúsystur frá ákvörðun minni um að biðja um ógildingu. Starfsmaður í búðunum hlýtur að hafa hlerað samræður okkar því að sama kvöld var ég skyndilega látin laus og send í lest heim til Hollands. Ég man enn eftir andliti einnar umsjónarkonunnar þegar hún sagði við mig: „Þú ert enn biblíunemandi og þú munt ávallt vera það.“ Ég svaraði: „Já, ég verð það ef Jehóva leyfir.“ Ég hélt samt áfram að velta fyrir mér hvernig ég gæti afturkallað yfirlýsinguna.

Eitt atriði í yfirlýsingunni hljóðaði svo: „Ég heiti því að taka aldrei framar nokkurn þátt í starfsemi Alþjóðasamtaka biblíunemenda.“ Ég vissi hvað ég átti að gera. Í janúar 1943, stuttu eftir heimkomuna, fór ég aftur að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Ef nasistar gripu mig í annað sinn í boðunarstarfinu yrði hegningin að sjálfsögðu vægðarlaus.

Til að sýna Jehóva enn betur hvað mig langaði innilega til að vera honum trúföst opnuðum við aftur heimili okkar til gistingar handa sendiboðum og farandhirðum. Ég var mjög þakklát fyrir að hafa fengið annað tækifæri til að sanna að ég elskaði Jehóva og fólk hans.

Sársaukafull lífsreynsla

Nokkrum mánuðum fyrir stríðslok urðum við hjónin fyrir erfiðri lífsreynslu. Í október 1944 veiktist dóttir okkar skyndilega af barnaveiki. Henni hríðversnaði og hún dó þrem dögum síðar. Hún var aðeins sjö ára.

Það var mikið áfall að missa einkadóttur okkar. Prófraunirnar í Ravensbrück voru ekkert í samanburði við sársaukann við að missa barnið. Á erfiðleikastundum sóttum við alltaf huggun í orðin í Sálmi 16:8: „Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki.“ Við hjónin höfðum bæði örugga trú á loforði Jehóva um upprisuna. Við héldum okkur fast við sannleikann og vorum alltaf kappsamir boðberar fagnaðarerindisins. Maðurinn minn hjálpaði mér að þjóna Jehóva með þakklátum huga allt þar til hann lést árið 1969.

Blessun og gleði

Undanfarna áratugi hef ég haft mikla gleði af því að hafa náinn félagsskap við þjóna í fullu starfi. Eins og á stríðsárunum var heimili okkar alltaf opið fyrir farandhirða og eiginkonur þeirra þegar þau heimsóttu söfnuð okkar. Meira að segja bjuggu hjá okkur farandhirðishjón í 13 ár, þau Maarten og Nel Kaptein. Þegar Nel fékk banvænan sjúkdóm gat ég annast hana heima hjá mér síðustu þrjá mánuðina sem hún lifði. Samband mitt við þau og aðra elskulega bræður og systur í söfnuðinum hefur hjálpað mér að njóta þeirrar andlegu paradísar sem við lifum í núna.

Einn af hápunktum lífs míns upplifði ég 1995 þegar mér var boðið á minningarsamkomu sem haldin var í Ravensbrück. Þar hitti ég systur sem höfðu verið í sömu búðum og ég. Ég hafði ekki séð þær í meira en hálfa öld. Það var ógleymanleg reynsla fyrir mig að vera með þeim og gott tækifæri fyrir okkur til að hvetja hver aðra til að horfa fram til dagsins þegar látnir ástvinir okkar verða aftur á lífi.

Páll postuli segir í Rómverjabréfinu 15:4 að við höldum von okkar „vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa“. Ég þakka Jehóva fyrir að gefa þessa von en hún hefur gert mér kleift að þjóna honum með þakklæti þrátt fyrir prófraunir.

[Neðanmáls]

^ gr. 19 Á þessum tíma var ekkert samband við aðalstöðvarnar og bræður og systur leystu úr málum viðvíkjandi hlutleysi eftir bestu getu. Þess vegna brugðust einstaklingar misjafnlega við.

[Mynd á bls. 10]

Við Jaap árið 1930.

[Mynd á bls. 10]

Willy, dóttir okkar, sjö ára.

[Mynd á bls. 12]

Endurfundurinn 1995. Ég er í fremstu röðinni, önnur frá vinstri.