Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað á ég að gera til að fá skýringar á einhverju sem ég les í Biblíunni eða þegar mig vantar ráðleggingar varðandi persónulegt vandamál?

Orðskviðirnir 2:1-5 hvetja okkur til að öðlast skilning og hyggindi. Þar er okkur sagt að ,grafa eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum‘. Af þessum orðum má sjá að við þurfum sjálf að leggja á okkur rannsóknarvinnu til að finna svör við biblíutengdum spurningum eða lausnir á vandamálum okkar. En hvernig getum við gert það?

Á blaðsíðu 33-38 í bókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum er að finna kafla sem heitir „Rannsóknir og efnisleit“. Í þessum kafla er útskýrt hvernig við getum fundið svör við spurningum okkar með því að nota verkfærin sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur látið okkur í té. (Matt. 24:45) Á blaðsíðu 36 er útskýrt hvernig á að nota efnisskrá Varðturnsfélagsins en henni er skipt í atriðisorðaskrá og ritningarstaðaskrá. Það er því hægt að leita annaðhvort eftir lykilorðum eða ritningarstöðum og finna lista með tilvísunum í ýmis rit. Gefinn hefur verið út Lykill að efnisskrá Varðturnsins sem nota má til að kanna hvaða efni hefur birst í íslenskri útgáfu þessa blaðs. Sýndu þolinmæði þegar þú leitar svara við spurningum þínum. Gleymdu ekki að þú ert að leita að „fólgnum fjársjóðum“ svo að það mun kosta tíma og fyrirhöfn.

Ritin okkar hafa auðvitað ekki tekið öll umræðuefni eða ritningarstaði sérstaklega fyrir. Og jafnvel þótt fjallað hafi verið um versið, sem þú hefur áhuga á, finnurðu kannski ekki nákvæmt svar við spurningunum þínum. Sumar biblíufrásögur vekja líka upp spurningar því að ekki eru öll smáatriði nákvæmlega útskýrð. Við ættum því ekki að búast við að finna samstundis svör við öllum spurningum okkar. Ef við finnum ekki svar í ritunum ættum við að forðast að geta okkur til um svarið því að þá gætum við ,fremur verið að efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs‘. (1. Tím. 1:4; 2. Tím. 2:23; Tít. 3:9) Hvorki deildarskrifstofan né aðalstöðvarnar eru í aðstöðu til að kryfja til mergjar og svara öllum þeim spurningum sem ekki hefur verið fjallað um í ritunum. En við getum verið viss um að í Biblíunni eru nægar upplýsingar til að leiðbeina okkur. Og það sem við skiljum ekki enn gefur okkur tækifæri til að sýna að við treystum á Guð og orð hans. – Sjá bókina Nálægðu þig Jehóva, bls. 185-186.

Hvað nú ef þú hefur reynt þitt ýtrasta til að rannsaka málefni sem snertir þig án þess að finna svar eða lausn? Þá gætirðu talað við þroskaðan kristinn einstakling, til dæmis einn af öldungum safnaðarins. Þeir hafa haldgóða þekkingu á Biblíunni og hafa þjónað Jehóva í mörg ár. Ef þú stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun eða vantar ráðleggingar varðandi persónulegt vandamál væri upplagt að leita til þeirra því að þeir þekkja þig og aðstæður þínar. Þú skalt heldur aldrei gleyma að tala við Jehóva í bæn um það sem veldur þér áhyggjum og biðja hann um leiðsögn heilags anda, því að „Drottinn veitir speki . . . og hyggindi“. – Orðskv. 2:6; Lúk. 11:13.