Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Öldungar – endurnærið þið þá sem eru þreyttir?

Öldungar – endurnærið þið þá sem eru þreyttir?

Angela * er einhleyp systir á fertugsaldri. Hún er svolítið taugaóstyrk því að hún á von á öldungum í heimsókn. Hvað skyldu þeir segja við hana? Hún hefur svo sem misst af fáeinum samkomum en hún er bara úrvinda eftir að hafa unnið allan daginn við að annast aldraða. Og ekki bætir úr skák að hún hefur miklar áhyggjur af heilsufari móður sinnar.

Hvernig myndirðu uppörva Angelu ef þú værir öldungur og ætlaðir að heimsækja hana? Hvernig myndirðu búa þig undir slíka heimsókn til að geta endurnært þreytta trúsystur eins og hana? – Jer. 31:25.

VELTU FYRIR ÞÉR AÐSTÆÐUM TRÚSYSTKINA ÞINNA

Við erum stundum þreytt vegna vinnunnar eða verkefna okkar í söfnuðinum. Daníel spámaður var einu sinni „máttvana“ eftir að hafa séð sýn sem hann skildi alls ekki. (Dan. 8:27) Gabríel engill birtist honum þá og skýrði sýnina fyrir honum. Hann fullvissaði hann um að Jehóva hefði heyrt bænir hans og hann væri enn þá „ástmögur Guðs“. Þetta hressti Daníel. (Dan. 9:21-23, Biblían 1981) Öðru sinni, þegar spámaðurinn var þrotinn að kröftum, birtist honum engill sem styrkti hann með vel völdum orðum. – Dan. 10:19.

Veltu fyrir þér aðstæðum trúsystkina áður en þú heimsækir þau.

Áður en þú heimsækir trúsystkini, sem er lúið eða niðurdregið, skaltu velta fyrir þér aðstæðum þess. Við hvaða erfiðleika á þessi bróðir eða systir að stríða? Hvers vegna geta þeir verið lýjandi? Hvaða góðu eiginleika hefur hann eða hún til að bera? „Ég einbeiti mér að styrkleikum bræðra og systra,“ segir Richard en hann hefur verið safnaðaröldungur í meira en tvo áratugi. „Ég velti fyrir mér aðstæðum þeirra áður en ég heimsæki þau. Það auðveldar mér að uppörva hvern og einn miðað við aðstæður.“ Ef annar öldungur fer með þér í heimsóknina væri ágætt fyrir ykkur að ræða saman um aðstæður þessa bróður eða systur.

AUÐVELDAÐU ÞEIM AÐ TJÁ SIG

Sumum finnst hálfvandræðalegt að tala um tilfinningar sínar. Bróðir gæti til dæmis átt erfitt með að tjá sig opinskátt við öldunga sem heimsækja hann. Hvernig er hægt að brjóta ísinn? Það getur haft mjög góð áhrif að brosa vingjarnlega og segja nokkur uppörvandi orð. Michael hefur verið öldungur í rúmlega 40 ár. Hann byrjar oft á því að segja eitthvað í þessa áttina: „Veistu að eitt það ánægjulegasta, sem öldungar gera, er að heimsækja bræður og systur til að kynnast þeim betur. Ég er búinn að hlakka til þess að heimsækja þig.“

Þú gætir farið með innilega bæn fljótlega eftir að þú kemur. Páll postuli minntist gjarnan á trú, kærleika og staðfestu bræðra og systra í bænum sínum. (1. Þess. 1:2, 3) Með því að segja hvað þér finnst um mannkosti trúbróður þíns ertu að búa hjarta þitt og hans undir uppbyggilegar samræður. Bænin getur líka verið hughreystandi fyrir bróðurinn. „Okkur hættir öllum til að gleyma því góða sem við látum af okkur leiða,“ segir Ray en hann er reyndur öldungur. „Það er uppörvandi þegar einhver minnir okkur á það.“

NOTAÐU BIBLÍUNA TIL AÐ MIÐLA AF GJÖFUM ANDANS

Þú getur „miðlað af gjöfum andans“, líkt og Páll gerði, með því að lesa úr Biblíunni, þó ekki sé nema eitt vers. (Rómv. 1:11) Niðurdregnum bróður getur fundist hann einskis virði, ekki ósvipað og sálmaskáldinu sem líkti sjálfum sér við ,skorpinn vínbelg‘. (Sálm. 119:83, 176) Þú gætir lesið versið og skýrt hvað sálmaskáldið átti við. Síðan gætirðu sagt bróðurnum að þú sért sannfærður um að hann hafi „ekki gleymt“ boðum Guðs.

Hvernig gætirðu uppörvað systur sem hefur fjarlægst söfnuðinn eða tekur minni þátt í boðuninni en áður? Gæti dæmisagan um týndu drökmuna hreyft við hjarta hennar? (Lúk. 15:8-10) Týnda drakman kann að hafa tilheyrt dýrmætu hálsmeni sem gert var úr mörgum silfurpeningum. Þú gætir notað dæmisöguna til að sýna systurinni fram á að það sé verðmætt að hafa hana í söfnuðinum. Síðan gætirðu minnt hana á hve Jehóva láti sér annt um alla sauðina, einnig hana.

Bræður og systur hafa yfirleitt gaman af að ræða um biblíuvers sem þau hafa lesið. Talaðu ekki of mikið sjálfur. Eftir að hafa lesið vers gætirðu valið ákveðið orð eða orðasamband og beðið þau að tjá sig um það. Öldungur gæti til dæmis lesið 2. Korintubréf 4:16 og spurt: „Manstu eftir að Jehóva hafi einhvern tíma gefið þér nýjan kraft?“ Spurningar sem þessar geta hjálpað ykkur að „uppörvast saman“. – Rómv. 1:12.

Trúsystkini okkar hafa yfirleitt gaman af að tjá sig um biblíuvers sem þau hafa lesið.

Þú gætir líka hvatt boðbera með því að lesa og ræða um biblíupersónu sem hann getur samsamað sig. Niðurdreginn boðberi getur trúlega sett sig í spor Hönnu eða Epafrodítusar. Þau voru stundum niðurdregin en voru samt alltaf jafn dýrmæt í augum Guðs. (1. Sam. 1:9-11, 20; Fil. 2:25-30) Væri ekki ráð að ræða um fólk sem sagt er frá í Biblíunni þegar tækifæri gefst?

FYLGDU HEIMSÓKNINNI EFTIR

Sýndu trúsystkinum ósvikna umhyggju eftir að þú hefur heimsótt þau. (Post. 15:36) Í lok heimsóknar gæti verið góð hugmynd að ákveða samstarf með bróður þínum eða systur. Bernard er reyndur öldungur. Þegar hann hittir bróður eða systur, sem hann heimsótti nýlega, spyr hann stundum án þess að mikið beri á: „Segðu mér, gekk þetta vel hjá þér?“ og ýjar þannig að leiðbeiningum sem hann gaf. Með þessum hætti geturðu komist að því hvort frekari aðstoðar sé þörf.

Bræður og systur þurfa meir en nokkru sinni fyrr að finna að öldungum safnaðarins sé annt um þau, skilji þau og elski. (1. Þess. 5:11) Áður en þú ferð í hirðisheimsókn skaltu því velta fyrir þér aðstæðum boðberans. Biddu Jehóva að aðstoða þig. Veldu viðeigandi biblíuvers til að ræða. Þá finnurðu réttu orðin til að endurnæra þá sem eru þreyttir.

^ Nöfnum er breytt.