Geturðu gert meira til að vara fólk við?
Þögul kvikmynd gefur heillandi innsýn í daglegt líf í San Fransico í Bandaríkjunum við upphaf 20. aldar. Myndin nefnist A Trip Down Market Street eða „Ökuferð um Markaðsstræti“. Höfundar hennar höfðu fest handknúna tökuvél framan á sporvagn og myndað iðandi mannlífið á fjölfarinni götu sem vagninn ók um. Í myndinni bregður fyrir hestvögnum og bílum af elstu gerð, fólki að versla og blaðsöludrengjum við daglegt amstur.
Myndin er ekki síst áhrifamikil fyrir það að hún var líklega tekin í apríl 1906, rétt áður en mannskæður jarðskjálfti skók borgina og mikill eldur braust út sem nánast eyddi þennan borgarhluta. Sumir þeirra sem bregður fyrir í myndinni áttu sennilega aðeins fáeina daga ólifaða. Scott Miles er afkomandi eins af kvikmyndagerðarmönnunum. „Maður sér fólkið þarna,“ segir hann, „og það hefur ekki hugmynd um hvað er í vændum. Það er ekki hægt annað en að finna til með því.“
Það er umhugsunarvert að okkar dagar eru að vissu leyti hliðstæðir því sem gerðist í San Fransisco fyrir rúmri öld. Við getum ekki annað en fundið til með samborgurum okkar. Þeir eru uppteknir af daglegu amstri en hafa ekki hugmynd um ógæfuna sem er rétt fram undan – eyðinguna sem bíður þessa heims og endalok þeirra lífshátta sem tíðkast núna. En ólíkt því sem gerist þegar jarðskjálfti ríður óvænt yfir höfum við tækifæri um skamman tíma til að vara meðborgara okkar við dómsdegi Jehóva. Líklegt er að þú ætlir þér ákveðinn tíma í hverri viku til að boða fagnaðarerindið hús úr húsi. En gætirðu gert meira til að vara fólk við?
JESÚS VAR ALLTAF TILBÚINN
Jesús er okkur góð fyrirmynd því að hann var alltaf tilbúinn til að kenna fólki. Hann boðaði öllum sem hann hitti fagnaðarerindið, hvort heldur það var tollheimtumaður sem varð á vegi hans eða kona sem hann hitti við brunn þegar hann settist niður til að hvíla sig. (Lúk. 19:1-5; Jóh. 4:5-10, 21-24) Hann var jafnvel fús til að kenna fólki þegar hann hafði ætlað að gefa sér stund til að slaka á. Hann kenndi í brjósti um fólk og vitnaði ekki bara til málamynda. (Mark. 6:30-34) Hvernig líkja fylgjendur Krists nú á tímum eftir áhuga hans og árvekni?
ÞÆR NOTA HVERT TÆKIFÆRI
Melika býr í fjölbýlishúsi með öryggisgæslu. Margir af nágrönnum hennar eru erlendir
stúdentar með óskráð símanúmer, og nöfn þeirra er ekki að finna á skrá í anddyrinu. Hún nýtir sér aðstæður sínar og bryddar upp á umræðum um trúarleg efni í anddyrinu og lyftunni. „Á vissan hátt lít ég á þetta sem einkasvæði mitt,“ segir hún. Melika hefur með sér rit á nokkrum tungumálum og margir þiggja smárit og blöð hjá henni. Hún beinir líka athygli fólks að vefsíðu okkar, jw.org. Hún hefur komið af stað nokkrum biblíunámskeiðum.Sonia er líka vakandi fyrir því að vitna fyrir hverjum sem hún nær til. Hún vinnur á læknastofu og setti sér það markmið að vitna fyrir öllum vinnufélögum sínum. Hún byrjaði á því að kynnast þörfum og áhugamálum hvers og eins. Síðan notaði hún matarhléin til að brydda upp á umræðum um trúmál við þá hvern af öðrum. Þetta varð til þess að henni tókst að hefja tvö biblíunámskeið. Sonia áformar að eyða sumum af matarhléunum í anddyri læknamiðstöðvarinnar til að tala við þá sem bíða eftir viðtali við lækni.
GRÍPTU ÞAU TÆKIFÆRI SEM GEFAST
Maður, sem lifði af jarðskjálftann árið 1906, kallaði hann „ægilegustu hamfarir sem hafa nokkurn tíma gengið yfir ríki eða borg“. En allar hamfarir blikna í samanburði við hegningardaginn sem á eftir að koma yfir alla sem „þekkja ekki Guð“. (2. Þess. 1:8) Jehóva þráir að fólki snúist hugur og að það taki mark á viðvöruninni sem vottar hans flytja. – 2. Pét. 3:9; Opinb. 14:6, 7.
Geturðu gripið þau tækifæri sem gefast til að vitna fyrir þeim sem þú hittir í dagsins önn?
Þú hefur það sérstaka verkefni að reyna að opna augu fólks fyrir því á hvaða tímum við lifum, hjálpa því að snúa sér frá eigingjörnum hugðarefnum og leita Jehóva. (Sef. 2:2, 3) Geturðu gripið þau tækifæri sem gefast til að vitna fyrir vinnufélögum, nágrönnum og þeim sem þú hittir í dagsins önn? Geturðu gert meira til að vara fólk við?