Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Enginn getur þjónað tveimur herrum

Enginn getur þjónað tveimur herrum

„Enginn getur þjónað tveimur herrum ... Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ – MATT. 6:24.

1-3.(a) Hvaða vanda eiga margir við að glíma og hvernig reyna sumir að leysa hann? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvaða spurningar vakna varðandi uppeldi barnanna?

 „MAÐURINN minn, James, kom útkeyrður heim úr vinnunni á kvöldin en tekjurnar hrukku rétt fyrir daglegum nauðsynjum,“ segir Marilyn. * „Mig langaði til að létta undir með honum og geta gefið Jimmy, syni okkar, fína hluti eins og skólafélagarnir áttu.“ Marilyn langaði líka til að styðja stórfjölskylduna og leggja eitthvað fyrir. Margt af vinafólki hennar hafði flutt til annarra landa til að þéna betur. En hún hafði blendnar tilfinningar þegar hún velti fyrir sér hvort hún ætti að fara að dæmi þeirra. Hvers vegna?

2 Marilyn var smeyk við að fara frá fjölskyldunni sem henni þótti svo vænt um. Hvað yrði um þjónustuna við Jehóva sem var fastur þáttur í fjölskyldulífinu? Aðrir höfðu þó flutt til útlanda um tíma, hugsaði hún með sér, og fjölskyldurnar virtust halda áfram að þjóna Jehóva. En hvernig gat hún annast Jimmy úr fjarlægð? Gat hún notað Netið til að ala hann upp „með aga og fræðslu um Drottin“? – Ef. 6:4.

3 Marilyn leitaði ráða. Maðurinn hennar vildi ekki að hún færi en sagðist þó ekki vilja standa í vegi fyrir því. Öldungarnir og ýmsir aðrir í söfnuðinum ráðlögðu henni að fara ekki en nokkrar systur hvöttu hana samt til þess. „Þú gerir það ef þú elskar fjölskyldu þína,“ sögðu þær. „Þú getur samt þjónað Jehóva áfram.“ Þótt Marilyn væri á báðum áttum ákvað hún að lokum að kveðja James og Jimmy til að vinna erlendis. „Ég verð ekki lengi í burtu,“ lofaði hún.

MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR OG SKYLDUR VIÐ FJÖLSKYLDUNA

4. Hvers vegna flytja margir búferlum og hverjir sjá þá oft um börnin?

4 Jehóva vill ekki að þjónar sínir búi við örbirgð. (Sálm. 37:25; Orðskv. 30:8) Eitt elsta ráðið við fátækt er að flytja búferlum. Jakob sendi syni sína til Egyptalands til að kaupa matvæli þegar hungursneyð skall á heima fyrir. * (1. Mós. 42:1, 2) Fæstir sem flytja búferlum nú á dögum gera það til að flýja hungur. Margir eru hins vegar að sligast undan skuldum. Aðra langar hreinlega til að bæta lífskjör fjölskyldunnar. Til að ná markmiði sínu grípa margir til þess ráðs að búa fjarri fjölskyldunni, annaðhvort í heimalandinu eða erlendis. Oft verða börnin eftir í umsjá annars foreldrisins, eldri systkina, afa og ömmu, annarra ættingja eða vina. Margir sem flytja til annars lands telja sig ekki eiga um annað að velja þó að aðskilnaðurinn sé sár.

5, 6. (a) Hvað kenndi Jesús um hamingju og öryggi? (b) Um hvaða efnislegu hluti kenndi Jesús fylgjendum sínum að biðja? (c) Hvernig blessar Jehóva okkur?

5 Margir voru líka fátækir og bágstaddir á dögum Jesú. Þeir hugsuðu kannski sem svo að þeir yrðu ánægðari og öruggari ef þeir hefðu bara meira handa á milli. (Mark. 14:7) En Jesús vildi að fólk byndi vonir sínar við annað. Hann vildi að það treysti á Jehóva sem gefur þjónum sínum varanleg auðæfi. Í fjallræðunni tók hann fram að sönn hamingja og öryggi byggðist hvorki á efnislegum hlutum né okkar eigin erfiði heldur á vináttu okkar við föðurinn á himnum.

6 Í faðirvorinu kenndi Jesús okkur ekki að biðja um fjárhagslegt öryggi heldur um daglegar nauðsynjar, það er að segja „daglegt brauð“. Hann sagði áheyrendum sínum: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu ... Safnið yður heldur fjársjóðum á himni.“ (Matt. 6:9, 11, 19, 20) Við getum treyst að Jehóva blessar okkur eins og hann hefur lofað. Blessunin er ekki bara fólgin í velþóknun hans heldur því að hann sér okkur fyrir því sem við þurfum raunverulega á að halda. Eina leiðin til að hljóta sanna hamingju og öryggi er að treysta á umhyggjusaman föður okkar en ekki á peninga. – Lestu Matteus 6:24, 25, 31-34.

7. (a) Hverjum hefur Jehóva falið þá ábyrgð að ala upp börnin? (b) Hvers vegna þurfa báðir foreldrarnir að taka þátt í uppeldi barnanna?

7 Til að ,leita fyrst réttlætis Guðs‘ er nauðsynlegt að sjá skyldur sínar við fjölskylduna sömu augum og hann. Í Móselögunum er að finna þessa meginreglu sem kristnir menn þurfa að halda: Foreldrar eiga að kenna börnum sínum að þjóna Jehóva. (Lestu 5. Mósebók 6:6, 7.) Þetta er ábyrgð sem Guð hefur falið foreldrunum, ekki afa, ömmu eða nokkrum öðrum. Salómon konungur sagði: „Hlýddu, sonur minn, á áminningar föður þíns og hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar.“ (Orðskv. 1:8) Jehóva ætlaðist til að báðir foreldrarnir væru til staðar til að leiðbeina börnunum og kenna þeim. (Orðskv. 31:10, 27, 28) Börnin læra mikið af því sem þau sjá og heyra til foreldra sinna dag frá degi, ekki síst um þjónustuna við Jehóva.

ÓVILJANDI AFLEIÐINGAR

8, 9. (a) Hvaða breytingar verða oft þegar foreldri býr fjarri fjölskyldunni? (b) Hvernig getur það komið niður á fjölskyldunni tilfinningalega eða siðferðilega að búa ekki saman?

8 Áður en fólk flytur til annars lands ætti það að vega og meta hætturnar og fórnirnar sem fylgja því. Fáir sjá þó fyrir að öllu leyti hvaða afleiðingar það hefur að skilja fjölskylduna eftir heima. (Orðskv. 22:3) * Marilyn fann strax sárlega fyrir því að vera aðskilin frá fjölskyldunni. Hið sama var að segja um eiginmann hennar og son. Jimmy spurði hana aftur og aftur: „Af hverju fórstu frá mér?“ Marilyn hafði aðeins ætlað sér að vera í burtu í nokkra mánuði, en mánuðirnir urðu að árum og breytingarnar, sem hún sá á fjölskyldunni, skelfdu hana. Jimmy dró sig inn í skel og fjarlægðist hana. „Honum hætti smám saman að þykja vænt um mig,“ segir hún döpur í bragði.

9 Þegar foreldrar og börn búa ekki saman sem fjölskylda getur það komið niður á þeim tilfinningalega og siðferðilega. * Því yngri sem börnin eru og því lengri sem aðskilnaðurinn er, því alvarlegri eru áhrifin. Marilyn útskýrði fyrir Jimmy að hún væri að færa fórnir fyrir hann. Jimmy fannst hins vegar að mamma hans hefði yfirgefið hann. Í fyrstu gramdist honum að hún skyldi vera í burtu. En síðar gramdist honum návist hennar þegar hún kom í heimsókn. Honum fannst að hún ætti ekki lengur rétt á hlýðni hans eða væntumþykju. Þetta er algengt meðal barna sem eru aðskilin frá öðru foreldri sínu eða báðum. – Lestu Orðskviðina 29:15.

Það er ekki hægt að faðma barnið sitt á Netinu. (Sjá 10. grein.)

10. (a) Hvaða áhrif getur það haft á börnin ef foreldrarnir gefa þeim gjafir í stað þess að vera hjá þeim? (b) Hvað vantar þegar foreldri reynir að ala barn sitt upp úr fjarlægð?

10 Marilyn reyndi að bæta fyrir fjarveru sína með því að senda peninga og gjafir heim en áttaði sig á að hún var að slíta soninn úr tilfinningatengslum við sig. Hún var óviljandi að kenna honum að peningar skiptu meira máli en sambandið við fjölskylduna og Jehóva. (Orðskv. 22:6) „Ekki koma aftur,“ sagði Jimmy. „Haltu bara áfram að senda gjafir.“ Það rann upp fyrir Marilyn að hún gat ekki alið soninn upp úr fjarlægð með bréfum, myndsímtölum eða símleiðis. „Maður getur ekki faðmað barnið sitt eða kysst það góða nótt á Netinu,“ segir hún.

Hvaða hætta getur fylgt því að búa fjarri maka sínum? (Sjá 11. grein.)

11. (a) Hvaða áhrif hefur það á hjónaband að hjón séu aðskilin vegna vinnu? (b) Hvernig rann upp fyrir Marilyn að hún yrði að snúa heim?

11 Aðskilnaðurinn kom líka niður á sambandi Marilynar við Jehóva og við James, eiginmann hennar. Hún gat ekki verið með söfnuðinum nema einu sinni í viku eða sjaldnar. Auk þess þurfti hún að verjast vinnuveitandanum sem leitaði á hana. Marilyn og James gátu ekki hallað sér hvort að öðru til að ræða vandamál sín. Þau leituðu annað til að tala um tilfinningar sínar og minnstu munaði að þau gerðust sek um hjúskaparbrot. Marilyn gerði sér loks grein fyrir að þótt hvorugt þeirra bryti af sér meðan þau voru aðskilin gátu þau ekki fullnægt tilfinningalegum og kynferðislegum þörfum hvort annars eins og Biblían segir að hjón eigi að gera. Þau gátu ekki horfst í augu, brosað hvort til annars, snert hvort annað blíðlega, faðmast, látið vel hvort að öðru eða ,gætt skyldu sinnar‘ hvort við annað. (Ljóðalj. 1:2; 1. Kor. 7:3, 5) Og þau gátu ekki tilbeðið Jehóva í sameiningu ásamt syni sínum. „Ég fór á mót þar sem fram kom að fólk verði að hafa reglu á tilbeiðslustund fjölskyldunnar til að lifa af hinn mikla dag Jehóva. Þá rann upp fyrir mér að ég yrði að snúa heim,“ segir Marilyn. „Ég þurfti að reisa fjölskyldulífið og sambandið við Jehóva úr rústunum.“

GÓÐ RÁÐ OG SLÆM

12. Hvaða ráð Biblíunnar eiga erindi til þeirra sem búa fjarri fjölskyldunni?

12 Marilyn fékk misjöfn viðbrögð þegar hún ákvað að snúa heim aftur. Öldungarnir í söfnuðinum þar sem hún bjó hrósuðu henni fyrir trú hennar og hugrekki. En sumir sem bjuggu fjarri maka sínum og fjölskyldu eins og hún brugðust öðruvísi við. Þeir reyndu að tala um fyrir henni í stað þess að fylgja góðu fordæmi hennar. „Þú kemur fljótt aftur,“ sögðu þeir. „Hvernig ætlarðu að ná endum saman ef þú ferð heim aftur?“ Í stað þess að vera letjandi ættu trúsystkini að hvetja „hinar ungu til að elska menn sína og börn“ og vera „heimilisræknar“, það er að segja að sinna sínu eigin heimili, „til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt“. – Lestu Títusarbréfið 2:3-5.

13, 14. Af hverju kostar það trú að láta vilja Jehóva ganga fyrir óskum fjölskyldunnar? Lýstu með dæmi.

13 Margir sem flytja búferlum vegna vinnu hafa alist upp í samfélögum þar sem hefðir og skyldur gagnvart fjölskyldunni, ekki síst foreldrum, eru mikilvægari en allt annað. Þegar kristin manneskja gengur í berhögg við útbreiddar venjur eða óskir fjölskyldunnar til að þóknast Jehóva ber það vitni um sterka trú.

14 Carin segir svo frá: „Þegar Don, sonur minn, fæddist unnum við hjónin erlendis og ég var nýlega byrjuð að kynna mér Biblíuna. Allir í fjölskyldunni reiknuðu með að ég sendi Don heim og léti foreldra mína annast hann þangað til við hefðum komið undir okkur fótunum.“ Carin tók ekki annað í mál en að ala drenginn upp sjálf en ættingjar hennar, þar á meðal eiginmaðurinn, hlógu að henni og sökuðu hana um leti. „Satt að segja skildi ég ekki alveg á þeim tíma hvað væri að því að láta Don vera hjá foreldrum mínum í nokkur ár,“ segir Carin. „Ég vissi hins vegar að Jehóva fól okkur, foreldrunum, það verkefni að ala son okkar upp.“ Þegar Carin varð ófrísk aftur heimtaði maðurinn hennar, sem var ekki í trúnni, að hún léti eyða fóstrinu. Fyrri ákvörðun Carinar hafði reynst góð og hafði styrkt trú hennar, og það gerði henni kleift að fylgja einnig leiðbeiningum Jehóva í þetta sinn. Þau hjónin og börnin eru ánægð núna að þau skyldu halda hópinn. Ef Carin hefði sent annað barnið eða bæði frá sér og látið aðra sjá um uppeldið hefðu málin getað farið á allt annan veg.

15, 16. (a) Hvaða áhrif hafði það á systur nokkra að vera aðskilin frá foreldrum sínum? (b) Hvers vegna ákvað hún að dóttir sín skyldi ekki alast þannig upp?

15 Vicky er systir í söfnuðinum. Hún segir svo frá: „Amma mín sá um uppeldi mitt í nokkur ár en yngri systir mín ólst upp hjá foreldrum mínum. Þegar ég flutti aftur til foreldra minna höfðu tilfinningar mínar til þeirra breyst. Systir mín gat tjáð sig óhikað við þau, faðmað þau og átti náin tengsl við þau. Ég átti hins vegar ekki náið samband við þau og fannst erfitt að láta tilfinningar mínar í ljós, jafnvel eftir að ég varð fullorðin. Við systurnar höfum fullvissað foreldra okkar um að við munum annast þau í ellinni. Ég á hins vegar eftir að gera það aðallega af skyldukvöð en systir mín mun gera það af ást.

16 Núna vill mamma að ég sendi dóttur mína til sín svo að hún geti séð um hana, rétt eins og hún sendi mig til mömmu sinnar,“ segir Vicky. „Ég afþakkaði með háttvísi. Við hjónin viljum kenna barninu okkar að elska Jehóva. Og ég vil ekki spilla sambandi mínu við dóttur mína.“ Vicky hefur komist að raun um að eina farsæla leiðin er að taka Jehóva og meginreglur hans fram yfir peninga og væntingar ættingjanna. Jesús sagði berum orðum: „Enginn getur þjónað tveimur herrum,“ það er að segja Guði og mammón. – Matt. 6:24; 2. Mós. 23:2.

JEHÓVA GETUR LÁTIÐ OKKUR „HEPPNAST ALLT“

17, 18. (a) Hvaða valkosti hafa kristnir menn alltaf? (b) Hvaða spurningar eru ræddar í næstu grein?

17 Jehóva, faðir okkar, hefur skuldbundið sig til að láta okkur í té allt sem við þurfum í raun og veru, ef við látum ríki hans og réttlæti ganga fyrir í lífi okkar. (Matt. 6:33) Sannkristnir menn geta því alltaf valið. Jehóva lofar að við getum „staðist“ og fundið leið út úr hvaða erfiðleikum sem er án þess að fara á svig við meginreglur Biblíunnar. (Lestu 1. Korintubréf 10:13.) Jehóva lofar að sjá fyrir okkur ef við vonum á hann og treystum honum með því að biðja hann að veita okkur visku og leiðsögn og með því að fylgja boðum hans og meginreglum. (Sálm. 37:5, 7) Hann blessar okkur þegar við leggjum okkur fram við að þjóna honum einum. Ef við látum vilja hans ganga fyrir í lífi okkar sér hann til þess að við verðum farsæl og okkur ,heppnist allt‘ sem við tökum okkur fyrir hendur. – Samanber 1. Mósebók 39:3.

18 Hvað er hægt að gera til að bæta það tjón sem orðið hefur vegna aðskilnaðar? Hvað getum við gert til að sjá fyrir fjölskyldunni án þess að flytja burt til að vinna? Og hvernig getum við hvatt aðra hlýlega til að taka réttar ákvarðanir í málum af þessu tagi? Rætt er um það í næstu grein.

^ Nöfnum er breytt.

^ Synir Jakobs hafa líklega ekki verið lengur en þrjár vikur í burtu frá fjölskyldum sínum þegar þeir fóru í þessar ferðir til Egyptalands. Þegar Jakob og synir hans fluttu síðar til Egyptalands tóku þeir eiginkonur sínar og börn með. – 1. Mós. 46:6, 7.

^ Sjá greinina „Að flytja milli landa – draumarnir og veruleikinn“ í Vaknið! mars-apríl 2013.

^ Upplýsingar frá ýmsum löndum bera með sér að það geti haft alvarleg vandamál í för með sér að búa fjarri maka sínum eða börnum, svo sem hjúskaparbrot annars eða beggja, samkynhneigð eða sifjaspell. Meðal barna getur orðið vart við hegðunarvandamál og námserfiðleika, árásargirni, kvíða, þunglyndi eða sjálfsvígshugleiðingar.