Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifandi þýðing á orði Guðs

Lifandi þýðing á orði Guðs

„Orð Guðs er lifandi.“ – HEBR. 4:12.

SÖNGVAR: 37, 116

1. (a) Hvers konar verkefni fól Guð Adam? (b) Hvernig hafa þjónar Guðs notað talgáfuna allt frá því?

 JEHÓVA GUÐ gæddi sköpunarverur sínar hæfileikanum að geta átt samskipti. Eftir að hafa búið Adam heimili í Edengarðinum fékk Guð honum verkefni sem fól í sér að hann notaði málgetuna. Hann átti að gefa dýrunum nöfn. Adam notaði vitsmuni sína og sköpunargáfu til að finna viðeigandi nafn fyrir hvert og eitt þeirra. (1. Mós. 2:19, 20) Allt frá því hafa þjónar Guðs notað talgáfuna til að lofa Jehóva og segja öðrum frá vilja hans. Á okkar dögum hafa þeir notað talgáfuna og tungumálahæfileika sína til að þýða Biblíuna, og það hefur reynst vera mikilvæg leið til að efla hreina tilbeiðslu.

2. (a) Hvaða grundvallarreglum hefur Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar fylgt? (b) Hvað verður skoðað í þessari grein?

2 Til eru þúsundir biblíuþýðinga en það er misjafnt hversu trúar þær eru frumtextanum og boðskap hans. Á fimmta áratug síðustu aldar setti Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar niður grundvallarreglur um þýðingar og þeim hefur verið fylgt við biblíuþýðingar á rúmlega 130 tungumálum. Þær eru þessar: (1) Að helga nafn Guðs með því að hafa það með þar sem það stóð í frumtexta Biblíunnar. (Lestu Matteus 6:9.) (2) Að þýða innblásinn boðskap frumtextans bókstaflega þar sem það er hægt en merkinguna þar sem orðrétt þýðing myndi brengla hana. (3) Að nota auðskilið mál sem hvetur fólk til lestrar. * (Lestu Nehemíabók 8:8, 12.) Skoðum núna hvernig þessum reglum hefur verið fylgt í Nýheimsþýðingunni, bæði í endurskoðuðu útgáfunni á ensku frá 2013 og á öðrum tungumálum.

AÐ HEIÐRA NAFN GUÐS

3, 4. (a) Í hvaða fornu handritum er fjórstafanafnið að finna? (b) Hvað hafa margir biblíuþýðendur gert við nafn Guðs?

3 Þeir sem rannsaka forn hebresk biblíuhandrit, eins og Dauðahafshandritin, eru undrandi yfir því hve oft fjórstafanafnið kemur fyrir, það er að segja hebresku stafirnir fjórir í nafni Guðs. En nafn Guðs er ekki bara að finna í þessum fornu hebresku handritum. Það birtist einnig í sumum eintökum af grísku Sjötíumannaþýðingunni frá annarri öld f.Kr. til fyrstu aldar e.Kr.

4 Í mörgum biblíuþýðingum er heilögu nafni Guðs sleppt þrátt fyrir skýrar sannanir fyrir því að það eigi að standa í Biblíunni. Aðeins tveimur árum eftir að Nýheimsþýðing Grísku ritninganna var gefin út árið 1950 kom út biblíuþýðingin Revised Standard Version. Í þeirri þýðingu var nafni Guðs sleppt og þar með var snúið frá þeirri stefnu sem ritstjórar American Standard Version höfðu fylgt, en sú þýðing kom út árið 1901. Hvers vegna var því sleppt? Í formálanum stendur að það sé „algerlega óviðeigandi í sameiginlegri trú kristinnar kirkju“ að nefna hinn eina og sanna Guð ákveðnu eiginnafni. Margir biblíuþýðendur, sem þýddu á ensku og önnur mál, fylgdu síðan þessari sömu stefnu.

5. Hvers vegna er mikilvægt að varðveita nafn Guðs í Biblíunni?

5 Hvers vegna skiptir það máli hvort nafn Guðs stendur í biblíuþýðingum eða ekki? Fær þýðandi gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að skilja ásetning höfundarins en það hefur töluverð áhrif á ákvarðanir hans við þýðinguna. Ótal vers í Biblíunni sýna hve mikilvægt það er að nota nafn Guðs og helga það. (2. Mós. 3:15; Sálm. 83:19; 148:13; Jes. 42:8; 43:10; Jóh. 17:6, 26; Post. 15:14) Jehóva Guð, höfundur Biblíunnar, innblés riturum hennar að nota nafnið óhikað. (Lestu Esekíel 38:23.) Að sleppa nafni Guðs, sem kemur mörg þúsund sinnum fyrir í fornum handritum, er vanvirðing við höfund Biblíunnar.

6. Hvers vegna kemur nafn Guðs fyrir sex sinnum til viðbótar í endurskoðaðri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar?

6 Rökunum fyrir því að hafa nafn Guðs í Biblíunni hefur farið fjölgandi frekar en hitt. Nafnið kemur 7.216 sinnum fyrir í Nýheimsþýðingunni frá 2013 en það er sex skiptum oftar en í útgáfunni frá 1984. Fimm af þeim versum, þar sem nafninu var bætt við, eru 1. Samúelsbók 2:25; 6:3; 10:26; 23:14, 16. Ástæðan var aðallega sú að í Dauðahafshandritunum, sem eru meira en 1.000 árum eldri en masoretatextinn, kemur nafnið fyrir í þessum versum. Nafninu var einnig bætt við í Dómarabókinni 19:18 eftir frekari rannsóknir á fornum handritum.

7, 8. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þjóna Guðs að nafn hans merki „hann lætur verða“?

7 Nafn Jehóva er mjög merkingarríkt fyrir sannkristna menn. Í viðauka Nýheimsþýðingarinnar, útgáfunni frá 2013, er að finna nýjar upplýsingar um nafnið. Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar telur að nafnið sé eins konar orsakamynd hebresku sagnarinnar havah’ og merki „hann lætur verða“. * Í ritunum okkar hefur áður verið bent á að merking nafnsins tengist 2. Mósebók 3:14 þar sem stendur: „Ég verð sá sem ég kýs að verða.“ (NW) Þar af leiðandi var sagt í útgáfunni frá 1984 að nafnið merkti að Guð „uppfylli sjálfur öll fyrirheit sín“. * Í viðauka A4 í endurskoðuðu útgáfunni frá 2013 er hins vegar sagt: „Þó að nafnið Jehóva feli í sér þá hugsun að hann verði það sem hann kýs er nafnið ekki einskorðað við það. Nafnið felur einnig í sér það sem hann lætur sköpunarverk sitt verða til að hrinda vilja sínum í framkvæmd.“

8 Jehóva lætur sköpunarverk sitt verða hvaðeina sem hann kýs. Í samræmi við það sem nafn hans merkir lét hann Nóa verða arkarsmið, Besalel verða mikinn handverksmann, Gídeon verða sigursælan hermann og Pál verða postula heiðingja. Nafn Guðs er sannarlega merkingarríkt fyrir þjóna hans. Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar myndi aldrei gera lítið úr merkingu nafnsins með því að fjarlægja það úr Biblíunni.

9. Nefndu eina ástæðu fyrir því að mikil áhersla hefur verið lögð á biblíuþýðingar.

9 Í Nýheimsþýðingunni, sem hefur komið út á rúmlega 130 tungumálum, er nafn Guðs látið standa þar sem það stóð upphaflega í hinum helga texta og þannig er því gefinn sá heiður sem því ber. (Lestu Malakí 3:16.) Almenn stefna biblíuþýðenda nú á dögum er hins vegar að skipta nafni Guðs út fyrir titla eins og „Drottinn“ eða nafn einhvers guðs sem tilbeðinn er í landinu. Þetta er ein aðalástæðan fyrir því að stjórnandi ráð Votta Jehóva leggur mikla áherslu á að sem flestir fái aðgang að biblíu sem heiðrar nafn Guðs.

SKÝR OG NÁKVÆM ÞÝÐING

10, 11. Nefndu dæmi um erfiðleika sem hafa komið upp við þýðingar á Nýheimsþýðingunni.

10 Að þýða heilaga Biblíu á fjölda tungumála hefur ekki verið þrautalaust. Í enskri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar var áður fylgt fordæmi annarra enskra biblíuútgáfa sem nota hebreska orðið séolʹ í versum eins og Prédikaranum 9:10. Í Nýheimsþýðingunni stóð þar: „Það er hvorki starfsemi, né hugsun, né þekking, né viska í séol, þangað sem þú ferð.“ Þetta skapaði ákveðið vandamál við þýðingar á mörg mál. Fæstir lesendur kannast við orðið séolʹ og það er ekki að finna í orðabókum. Þar að auki hljómar það eins og landfræðilegt heiti. Því var ákveðið að skýra orðið séolʹ og samsvarandi grískt orð, hades, með því að skipta þeim út fyrir orðið „gröf“ sem er nákvæm þýðing á þessum orðum.

11 Á sumum málum hefur það valdið ruglingi að þýða hebreska orðið nefes og gríska orðið psykheʹ út í gegn með orði sem samsvarar enska orðinu fyrir sál. Hvers vegna? Vegna þess að samsvarandi orð fyrir sál gefa á sumum tungumálum til kynna að um óefniskenndan hluta mannsins sé að ræða. Það gæti ýtt undir þann misskilning að sálin sé eins konar andi en ekki maðurinn sjálfur. Af þeim sökum var ákveðið að þýða mætti orðið fyrir sál eftir samhengi, en það er í samræmi við þær leiðbeiningar sem þegar höfðu komið fram í viðaukum Nýheimsþýðingar heilagrar Ritningar – með tilvísunum. Mikið var sem sagt lagt upp úr því að auðvelt yrði að skilja textann við fyrsta lestur og víða var gagnlegum neðanmálsgreinum bætt við þar sem orð eru þýdd með öðrum hætti.

12. Hvaða breytingar urðu á textanum í endurskoðaðri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar frá 2013? (Sjá einnig greinina Nýheimsþýðingin – endurskoðaða útgáfan frá 2013“ í þessu blaði.)

12 Spurningar frá þýðendum leiddu í ljós að svipaður misskilningur gat komið upp varðandi fleiri orð. Í september 2007 gaf hið stjórnandi ráð því leyfi til að endurskoða ensku útgáfuna. Við endurskoðunina var tekið mið af þúsundum spurninga frá biblíuþýðendum. Úreltum enskum orðum og orðalagi var skipt út fyrir nútímalegra mál og mikið átak var gert til að textinn yrði skýr og auðskiljanlegur án þess þó að vera ónákvæmur. Með því að nota svipaðar aðferðir og við þýðingar á önnur mál varð enski textinn mun skýrari. – Orðskv. 27:17.

ÞAKKLÁT FYRIR ÞÝÐINGUNA

13. Hvaða viðbrögð hefur útgáfan frá 2013 vakið?

13 Hvaða áhrif hefur þessi endurskoðaða útgáfa af Nýheimsþýðingunni haft á fólk? Þúsundir þakkarbréfa hafa borist til aðalstöðva Votta Jehóva í Brooklyn. Systir ein lýsir vel hvernig mörgum er innanbrjósts þegar hún segir: „Biblían er eins og fjársjóðskista sem gimsteinarnir flæða út úr. Að lesa orð Jehóva á skýru máli í endurskoðuðu útgáfunni frá 2013 er eins og að skoða vandlega hvern gimstein og dást að hverjum fleti hans, skýrleika hans, lit og fegurð. Að hafa Biblíuna á einföldu máli hefur hjálpað mér að kynnast Jehóva betur. Hann er eins og faðir sem heldur utan um mig meðan hann les hughreystandi orð sín fyrir mig.“

14, 15. Hvaða jákvæðu áhrif hefur Nýheimsþýðingin á öðrum málum en ensku haft á fólk?

14 Það er ekki bara enska útgáfan sem hefur vakið þessi viðbrögð. Roskinn maður í Sofíu í Búlgaríu segir um búlgarska útgáfu Nýheimsþýðingarinnar: „Ég hef lesið Biblíuna í mörg ár en ég hef aldrei lesið þýðingu sem er eins auðvelt að skilja og sem nær beint til hjartans.“ Albönsk systir sagði eftir að hafa fengið eintak af Nýheimsþýðingunni í heild á móðurmáli sínu: „Orð Guðs hljómar svo vel á albönsku! Það er mikill heiður að Jehóva skuli tala til okkar á móðurmáli okkar.“

15 Í mörgum löndum eru biblíur dýrar og ekki mjög aðgengilegar þannig að það eitt að eignast biblíu er mikil blessun. Í bréfi frá Rúanda segir: „Lengi vel tóku margir biblíunemendur litlum framförum vegna þess að þeir áttu ekki biblíu og höfðu ekki efni á að kaupa útgáfu kirkjunnar. Þeir áttu líka erfitt með að skilja almennilega sum vers og það stóð í vegi fyrir að þeir tækju framförum.“ En þetta gerbreyttist þegar Nýheimsþýðingin kom út á þeirra tungumáli. Fjölskylda í Rúanda með fjóra unglinga segir: „Við þökkum Jehóva og trúa og hyggna þjóninum innilega fyrir að hafa gefið okkur þessa biblíu. Við erum mjög fátæk og hefðum aldrei getað keypt biblíu handa öllum í fjölskyldunni. En núna eigum við öll okkar eigin biblíu. Við lesum saman í henni sem fjölskylda á hverjum degi til að sýna Jehóva hve þakklát við erum.“

16, 17. (a) Hvað vill Jehóva að þjónar sínir geti gert? (b) Hvað ættum við að gera?

16 Með tímanum á endurskoðaða útgáfan af Nýheimsþýðingunni eftir að koma út á fleiri tungumálum. Satan reynir að standa í vegi fyrir því en við treystum að Jehóva vilji að allir þjónar sínir geti hlustað þegar hann talar til þeirra á skýru og auðskildu máli. (Lestu Jesaja 30:21.) Það kemur að því að öll jörðin verður ,full af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið‘. – Jes. 11:9.

17 Við skulum nýta okkur vel allar gjafir Jehóva, þar á meðal þessa þýðingu sem heiðrar nafn hans. Láttu hann tala við þig með orði sínu á hverjum degi. Ótakmarkaðir hæfileikar hans gera honum kleift að hlusta vandlega á bænir okkar. Þessi tjáskipti hjálpa okkur að kynnast Jehóva æ nánar og styrkja kærleiksböndin við hann. – Jóh. 17:3.

„Það er mikill heiður að Jehóva skuli tala til okkar á móðurmáli okkar.“

^ Sjá greinina „Hvernig er hægt að velja góða biblíuþýðingu?“ í Varðturninum júlí-september 2008 og viðauka A1 í endurskoðaðri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar á ensku.

^ Sum heimildarit skýra nafnið svona en fræðimenn eru ekki allir sammála.

^ Sjá New World Translation of the Holy Scriptures – With References, viðauka 1A, „The Divine Name in the Hebrew Scriptures“ á bls. 1561.