Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viska Guðs birtist í náttúrunni

Viska Guðs birtist í náttúrunni

Viska Guðs birtist í náttúrunni

„[Hann] hefur veitt okkur meiri þekkingu en dýrum merkurinnar og meiri skynsemi en fuglum himinsins.“ — JOBSBÓK 35:11.

FUGLAR búa yfir ótrúlegum hæfileikum. Flugvélahönnuðir öfunda þá af flugfimi þeirra. Sumar tegundir fljúga þúsundir kílómetra yfir opnu hafi þar sem engin kennileiti eru en rata samt nákvæmlega á áfangastað.

En fuglar búa yfir öðrum stórkostlegum hæfileika sem vitnar um visku skapara þeirra. Þetta er hæfileikinn til að eiga tjáskipti við aðra fugla með söng og köllum. Tökum nokkur dæmi.

Samskipti fugla

Ungar sumra fuglategunda eiga samskipti sín á milli áður en þeir klekjast út úr eggjunum. Tökum kornhænuna sem dæmi en hún verpir að minnsta kosti átta eggjum á jafnmörgum dögum. Ef eggin þroskuðust á nákvæmlega sama hraða myndu ungarnir klekjast út á átta dögum. Erfitt væri fyrir mömmuna að annast fjöruga vikugamla unga á meðan hún lægi enn á eggi. En í staðinn skríða átta kornhænuungar úr eggjum á innan við sex klukkustundum. Hvernig er það mögulegt? Vísindamenn telja helstu ástæðuna vera þá að ungarnir eigi samskipti sín á milli innan úr eggjunum og stilli saman strengi sína þannig að þeir klekist út nánast samtímis.

Þegar fuglar þroskast er það yfirleitt karlfuglinn sem syngur. Þetta gerir hann sérstaklega á fengitímanum til að helga sér svæði eða laða að sér maka. Fuglategundir skipta þúsundum og hver hefur sitt eigið „tungumál“ en það hjálpar kvenfuglum að finna maka sinnar tegundar.

Fuglar syngja aðallega snemma á morgnana og við sólsetur og fyrir því er góð ástæða. Á þeim tíma er lygnara og minni umhverfishljóð. Fræðimenn hafa komist að því að söngvar fugla berast allt að 20 sinnum betur á morgnana og kvöldin en yfir miðjan daginn.

Þótt það séu yfirleitt karlfuglar sem syngja nota bæði kynin ýmis köll eða skræki sem hafa ákveðna merkingu. Bókfinkur nota til dæmis níu mismunandi köll. Þær nota eitt kall til að vara við hættu úr lofti — til dæmis fljúgandi ránfugli — en annað kall til að vara við hættu á jörðu niðri.

Enn verðmætari gjöf

Eðlislæg viska fuglanna er sannarlega tilkomumikil. En hæfni manna til að tjá sig er enn tilkomumeiri. Guð hefur veitt mönnum „meiri skynsemi en fuglum himinsins“, segir í Jobsbók 35:11. Mennirnir einir búa yfir þeim hæfileika að geta tjáð óhlutstæðar og flóknar hugsanir og hugmyndir með látbragði eða hljóðum sem þeir mynda með raddböndunum.

Ólíkt dýrum virðast börn vera forrituð til að læra flókin tungumál. Í nettímaritinu American Scientist segir: „Börn læra tungumál jafnvel þótt foreldrar þeirra tali ekki beint við þau. Heyrnarlaus börn búa jafnvel til sitt eigið táknmál ef þeim er ekki kennt táknmál á heimilinu.“

Hæfileikinn til að tjá hugsanir okkar og tilfinningar með tali eða táknum er stórkostleg gjöf frá Guði. Önnur enn betri gjöf, sem menn hafa fengið, er hæfileikinn að tjá sig við Guð í bæn. Jehóva Guð hvetur okkur meira að segja til að tala við sig. Í orði hans, Biblíunni, segir: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ — Filippíbréfið 4:6.

Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum vill Jehóva að við nýtum okkur Biblíuna, en hún hefur að geyma óþrjótandi visku sem hann lét skrásetja okkur til handa. Hann kennir okkur líka að fylgja þeim ráðum sem þar er að finna. Biblíuritarinn Jakob segir: „Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust og honum mun gefast.“ — Jakobsbréfið 1:5.

Hvaða áhrif hefur þetta á þig?

Hvaða áhrif hefur það á þig að hlusta á fagran fuglasöng eða heyra barn mæla fyrstu orðin? Sérðu visku Guðs í því sem hann hefur skapað?

Þegar sálmaritarinn Davíð hugleiddi hvernig hann var úr garði gerður fann hann sig knúinn til að segja við Guð: „Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ (Sálmur 139:14) Það er traustvekjandi að skoða viskuna sem birtist í sköpunarverki Guðs. Hún er trygging fyrir því að hann geti veitt okkur örugga leiðsögn.

[Innskot á blaðsíðu 5]

Hæfileikinn til að tjá sig er gjöf frá Guði.

[Mynd credit line á blaðsíðu 4]

© Dayton Wild/Visuals Unlimited