Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er fólgið í nafni?

Hvað er fólgið í nafni?

Hvað er fólgið í nafni?

Eþíópísk kona fæðir lítinn dreng. En gleði hennar breytist í sorg þegar hún sér að barnið liggur hreyfingarlaust. Þegar amman tekur upp máttlausan nýburann til að baða hann byrjar hann skyndilega að hreyfa sig, draga andann og gráta! Nafn föður hans þýðir „kraftaverk“ þannig að foreldrarnir sameina það nafn öðru orði úr amharísku og nefna drenginn „kraftaverk hefur gerst“.

Ungur maður í Búrúndí flýr undan hermönnum sem ætla að drepa hann. Meðan hann felur sig á akri nokkrum gefur hann Guði heit. Ef Guð bjargar honum ætlar hann að láta frumburðinn sinn heita Manirakiza sem þýðir „Guð er sá sem bjargar“. Fimm árum seinna eignast hann fyrsta soninn og gefur honum þetta nafn, þakklátur fyrir að vera á lífi.

AÐ GEFA börnum nöfn, sem hafa sérstaka þýðingu, er kannski nýlunda fyrir suma en þessi siður á sér langa sögu. Í Biblíunni er að finna hundruð slíkra nafna. Þú færð meira út úr biblíulestri þínum ef þú veist hvað nöfn ýmissa persóna í Biblíunni þýða. Tökum nokkur dæmi.

Merkingarrík nöfn í hebresku ritningunum

Eitt af fyrstu nöfnunum í Biblíunni er Set sem þýðir „útnefndur, settur“. Eva, móðir Sets, útskýrði af hverju hún gaf honum þetta nafn: „Nú hefur Guð gefið mér annað afkvæmi í stað Abels sem Kain drap.“ (1. Mósebók 4:25) Lamek var afkomandi Sets og hann nefndi son sinn Nóa sem þýðir „hvíld“ eða „huggun“. Lamek sagðist hafa gefið syni sínum þetta nafn vegna þess að hann myndi „veita okkur styrk í erfiði og striti handa okkar á jörðinni sem Drottinn lýsti bölvun yfir“. — 1. Mósebók 5:29.

Guð breytti nöfnum sumra á fullorðinsárum í spádómlegum tilgangi. Til dæmis breytti hann nafninu Abram, sem þýðir „faðir er upphafinn“, í Abraham sem merkir „faðir fjölda“. Og Abraham varð einmitt ættfaðir margra þjóða. (1. Mósebók 17:5, 6) Eiginkona Abrahams hét Saraí, sem þýðir hugsanlega „þrætugjörn“. Hún hlýtur að hafa verið glöð þegar Guð gaf henni nafnið „Sara“ sem þýðir „prinsessa“ en það vísaði óbeint til þess að hún yrði ættmóðir konunga. — 1. Mósebók 17:15, 16.

Guð ákvað auk þess nöfn ýmissa barna. Hann sagði til dæmis Abraham og Söru að þau ættu að nefna son sinn Ísak sem þýðir „hlátur“. Það nafn myndi stöðugt minna þessi trúföstu hjón á viðbrögð þeirra þegar þau fengu að vita að þau myndu eignast son á gamals aldri. Þegar Ísak óx úr grasi og varð trúfastur þjónn Guðs hélt nafn hans örugglega áfram að gleðja Abraham og Söru. — 1. Mósebók 17:17, 19; 18:12, 15; 21:6.

Rakel, tengdadóttir Ísaks, hafði allt aðra ástæðu fyrir nafninu sem hún gaf síðasta syni sínum. Þegar hún lá fyrir dauðanum kallaði hún barnið Benóní sem þýðir „þjáningarsonur minn“. Jakob, sorgmæddur eiginmaður hennar, breytti nafninu í Benjamín sem þýðir „hægri handar sonur“. Þetta nafn gaf til kynna bæði hylli og stuðning. — 1. Mósebók 35:16-19, NW; 44:20.

Stundum voru nöfn gefin í tengslum við líkamleg einkenni fólks eða fólk tók sér slík nöfn. Ísak og Rebekku fæddist til dæmis sonur með rautt hár sem var þykkt eins og ullarflík. Þau gáfu honum því nafnið Esaú. Af hverju? Á hebresku þýðir nafnið „loðinn“. (1. Mósebók 25:25, 26) Eins og fram kemur í Rutarbók átti Naomí tvo syni. Annar hét Mahlón sem þýðir „heilsuveill, sjúklingur“ og hinn hét Kiljón sem þýðir „veikleiki“. Ekki er vitað hvort þeir fengu þessi nöfn við fæðingu eða síðar á ævinni, en þau virðast hafa hæft þeim vel því að þeir féllu frá sem ungir menn. — Rutarbók 1:5.

Það var einnig algengt að breyta nöfnum eða lagfæra þau. Þegar Naomí sneri aftur til Betlehem bjargarlaus eftir að hafa misst bæði eiginmann og syni vildi hún breyta nafni sínu úr Naomí sem merkir „hin hamingjusama“. Hún sagði: „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara [sem merkir „hin beiska“] því að Hinn almáttugi hefur búið mér beiska harma.“ — Rutarbók 1:20, 21.

Annar siður var að nefna barn til heiðurs einhverjum mikilvægum atburði. Nafn spámannsins Haggaí þýðir til dæmis „fæddist á hátíð“. *

Merkingarrík nöfn á tímum kristninnar

Nafn Jesú hefur mikla spádómlega þýðingu. Áður en hann fæddist fengu foreldrar hans þessi fyrirmæli frá Guði: „Hann skaltu láta heita Jesú,“ sem þýðir „Jehóva er hjálpræði“. Hvers vegna átti hann að fá þetta nafn? „Hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans,“ sagði engillinn sem talaði við Jósef. (Matteus 1:21) Eftir að Jesús var smurður með heilögum anda við skírn sína var hebreska titlinum „Messías“ bætt við nafn hans. Þessi titill er á grísku „Kristur“. Bæði heitin þýða „hinn smurði“. — Matteus 2:4.

Jesús gaf sumum af lærisveinum sínum lýsandi nöfn. Hann nefndi til dæmis Símon semíska nafninu Kefas en það merkir „klettur“. Kefas varð síðan betur þekktur undir nafninu Pétur sem er grísk þýðing á þessu semíska nafni. (Jóhannes 1:42) Bræðurnir Jakob og Jóhannes voru mjög kappsfullir og Jesús nefndi þá „Boanerges“. — Markús 3:16, 17.

Lærisveinar Jesú héldu áfram að gefa hver öðrum viðeigandi viðurnefni. Til dæmis gáfu postularnir lærisveininum Jósef nafnið Barnabas sem þýðir „huggunarsonur“. Barnabas stóð undir nafni með því að veita mörgum bæði efnislega hjálp og huggun. — Postulasagan 4:34-37; 9:27; 15:25, 26.

Nafnið þitt er mikilvægt

Við ráðum engu um það hvaða nafn við fáum við fæðingu. En við ein getum ákveðið hvaða mannorð við fáum. (Orðskviðirnir 20:11) Spyrðu sjálfan þig: Hvaða nafn myndu Jesús eða postularnir gefa mér ef þeir hefðu möguleika á því? Hvaða nafn myndi lýsa helstu eiginleikum mínum eða orðspori?

Við ættum að hugleiða þessa spurningu alvarlega. Af hverju? „Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður,“ skrifaði hinn vitri konungur Salómon. (Orðskviðirnir 22:1) Ef við eignumst gott nafn eða mannorð í samfélaginu erum við dýrmæt. En það sem meira er, ef Guð hefur gott álit á okkur eignumst við varanlegan fjársjóð. Hvernig þá? Guð hefur lofað að skrifa í bók nöfn allra þeirra sem óttast hann og veita þeim von um eilíft líf. — Malakí 3:16; Opinberunarbókin 3:5; 20:12-15.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Í Afríku er algengt að vottar Jehóva beri nöfn sem tengjast stefjum svæðis- og umdæmismóta sem voru haldin þegar þeir fæddust.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hvaða nafn myndi helst lýsa mannorði þínu?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 14]

Hver var Immanúel?

Nöfn sumra einstaklinga í Biblíunni voru spádómleg og lýstu því sem þeir myndu gera. Til dæmis var Jesaja spámanni innblásið að skrifa: „Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.“ (Jesaja 7:14) Þetta nafn þýðir „Guð með oss“. Sumir biblíuskýrendur hafa reynt að tengja fyrstu uppfyllingu þessa spádóms við einhvern af konungum Ísraels eða sonum Jesaja. Af Matteusarguðspjalli sést hins vegar að þessi spádómur uppfylltist að fullu á Jesú. — Matteus 1:22, 23.

Sumir hafa haldið því fram að með því að gefa Jesú nafnið Immanúel kenni Biblían að Jesús sé Guð. En ef það væri rétt þá væri hinn ungi Elíhú, sem hughreysti og leiðrétti Job, líka Guð. Af hverju? Nafnið hans þýðir „hann er minn Guð“.

Jesús hélt því aldrei fram að hann væri Guð. (Jóhannes 14:28; Filippíbréfið 2:5, 6) Hins vegar endurspeglaði hann persónuleika föður síns fullkomlega og uppfyllti öll loforð hans um Messías. (Jóhannes 14:9; 2. Korintubréf 1:20) Nafnið Immanúel lýsir hlutverki Jesú vel. Hann er hinn fyrirheitni niðji, afkomandi Davíðs og sá sem sannar að Guð er með þeim sem tilbiðja hann.

[Mynd]

IMMANÚEL „Guð með oss“

[Rammi/mynd á blaðsíðu 15]

Mikilvægasta nafnið

Eiginnafn Guðs kemur um 7000 sinnum fyrir í Biblíunni. Þetta nafn er ritað með fjórum táknum á hebresku — יהוה — og er yfirleitt umritað Jehóva. Hvað þýðir þetta nafn? Þegar Móse spurði Guð um nafnið svaraði hann: „Ég verð sá sem ég verð.“ (2. Mósebók 3:14, NW) Eiginnafn Guðs veitir þess vegna tryggingu fyrir því að hann geti orðið hvaðeina sem þarf til að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga. (Jesaja 55:8-11) Þegar Guð gefur loforð getum við treyst því og skipulagt líf okkar í samræmi við það. Af hverju?

Af því að hann heitir Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 13]

ABRAHAM „Faðir fjölda“

[Mynd á blaðsíðu 13]

SARA „Prinsessa“