Hvers vegna býður Guð mönnunum eilíft líf?
Lesendur spyrja . . .
Hvers vegna býður Guð mönnunum eilíft líf?
▪ Í Biblíunni stendur að Guð gefi okkur tækifæri til að hljóta „eilíft líf“. (Jóhannes 6:40) En hvað liggur að baki því að hann skuli veita slíka von? Snýst það aðeins um réttlæti?
Réttlæti felur í sér að koma fram við fólk á heiðarlegan og réttan hátt. En eigum við lífið skilið? Nei, Biblían segir: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ (Prédikarinn 7:20) Synd leiðir til refsingar. Guð varaði fyrsta manninn, Adam, við því að hann myndi deyja um leið og hann syndgaði. (1. Mósebók 2:17) Síðar var Páli postula innblásið að skrifa: „Laun syndarinnar er dauði.“ (Rómverjabréfið 6:23) Ef allir afkomendur Adams eiga með réttu skilið að deyja hvers vegna býður Guð þá upp á möguleikann á endalausu lífi?
Mennirnir verðskulda ekki að Guð skuli bjóða þeim eilíft líf. Það sýnir hve náð Guðs og kærleikur er mikill og víðtækur. Í Biblíunni stendur: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.“ — Rómverjabréfið 3:23, 24.
Þótt við eigum öll skilið að deyja hefur Guð kosið að veita eilíft líf þeim sem elska hann. Er það óréttlátt? Í Biblíunni segir: „Hvað skal um þetta segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Hann segir við Móse:,Ég miskunna þeim sem ég vil miskunna og líkna þeim sem ég vil líkna.‘ . . . Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð?“ — Rómverjabréfið 9:14-20.
Sums staðar í heiminum getur hátt settur valdsmaður eða dómari náðað afbrotamann sem afplánar þungan dóm. Ef sá seki uppfyllir refsikröfurnar og breytir um afstöðu og hegðun gæti dómari eða forseti kosið að náða hann með því að milda dóminn eða fella hann alveg niður. Þá ákvörðun væri hægt að skýra sem óverðskuldaða náð.
Á svipaðan hátt getur Jehóva kosið að refsa ekki öllum syndurum eins og þeir eiga skilið. Vegna kærleika síns getur hann gefið eilíft líf þeim sem elska hann og lifa samkvæmt meginreglum hans. Í Biblíunni stendur: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
Mesta kærleiksverk Jehóva í okkar þágu var að senda son sinn til að þjást og deyja fyrir okkur. Jesús sagði um föður sinn: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.
Allir sem elska Jehóva Guð og gera vilja hans eru jafn velþóknanlegir honum hver sem bakgrunnur þeirra er. Vonin um eilíft líf vitnar fyrst og fremst um óverðskuldaða náð Guðs og framúrskarandi kærleika.
[Innskot á bls. 29]
Vonin vitnar fyrst og fremst um óverðskuldaða náð Guðs og framúrskarandi kærleika.