Hvers vegna notaði Satan höggorm til að tala við Evu?
Lesendur spyrja . . .
Hvers vegna notaði Satan höggorm til að tala við Evu?
▪ Þú ert kannski sammála því að það hafi verið Satan sem notaði höggorminn til að tala við Evu, eins og fram kom á bls. 8. Í Biblíunni segir að svo hafi verið. Ef til vill hefurðu samt velt fyrir þér hvers vegna voldug andavera myndi nota höggorm á svipaðan hátt og búktalari notar brúðu.
Í Biblíunni er bent á að Satan beiti slægum aðferðum eða ,vélabrögðum‘ og þessi frásaga sannar það. (Efesusbréfið 6:11) Það sem gerðist í Edengarðinum er ekki ævintýri um talandi dýr heldur dæmi um kaldan veruleikann þar sem kænskubrögðum var beitt til að tæla menn burt frá Guði. Hvernig þá?
Satan valdi fórnarlambið vandlega. Eva var yngst allra skynsemigæddra sköpunarvera í alheiminum. Hann notfærði sér reynsluleysi hennar og lagði fyrir hana gildru til að tæla hana. Með því að nota höggorm, dýr sem er varkárt í eðli sínu, faldi Satan með lúmskum hætti metnaðargjörn og ósvífin markmið sín. (1. Mósebók 3:1) Skoðum líka hverju hann náði fram með því að láta líta út fyrir að höggormurinn talaði.
Í fyrsta lagi fékk Satan óskipta athygli Evu. Hún vissi að slöngur geta ekki talað. Maðurinn hennar hafði líklega fylgst vel með öllum dýrunum, þar á meðal slöngunni, þegar hann gaf þeim nöfn. (1. Mósebók 2:19) Eflaust hafði Eva líka gefið gaum að þessum varkáru dýrum. Kænskubragð Satans vakti þess vegna forvitni hennar og fékk hana til að einbeita sér að því eina í öllum garðinum sem henni var bannað að snerta. Í öðru lagi, ef höggormurinn leyndist í laufi forboðna trésins má vel vera að Eva hafi dregið ákveðna ályktun af því. Það er ekki ólíklegt að hún hafi hugsað með sér að þar sem þetta ómerkilega, mállausa dýr gat talað, hlyti það sjálft að hafa borðað af ávextinum. Fyrst ávöxturinn hafði svona mikil áhrif á höggorminn, hvað áhrif gæti hann þá haft á hana? Við vitum ekki með vissu hvað Eva hugsaði eða hvort höggormurinn hafði sjálfur bragðað á ávextinum. Hins vegar vitum við að þegar höggormurinn sagði að hún myndi verða „eins og Guð“ lét hún blekkjast og trúði honum.
Orðaval Satans gefur líka ýmislegt til kynna. Hann vakti efasemdir í huga Evu og gaf í skyn að Guð synjaði henni um eitthvað gott og takmarkaði þannig frelsi hennar að óþörfu. Að Satan tækist ætlunarverk sitt var undir því komið að eigingirni Evu yrði yfirsterkari kærleika hennar til Jehóva sem hafði gefið henni allt. (1. Mósebók 3:4, 5) Því miður bar ráðabrugg Satans árangur. Adam og Eva höfðu hvorug þroskað með sér kærleika og þakklæti til Jehóva eins og þeim bar. Ýtir Satan ekki undir sams konar eigingirni núna og reynir að fá fólk til að réttlæta gerðir sínar með svipuðum hætti?
En hver var tilgangur Satans? Hverju var hann að sækjast eftir? Í Edengarðinum vildi hann leyna því hver hann var og hvað hann hugðist fyrir. Með tímanum lét hann þó í ljós hver hann var. Þegar hann freistaði Jesú vissi hann að það hafði ekkert upp á sig að reyna að villa á sér heimildir. Satan hvatti Jesú umbúðalaust til að ,falla fram og tilbiðja sig‘. (Matteus 4:9) Það er augljóst að Satan hefur lengi öfundað Jehóva af því að mennirnir skuli tilbiðja hann. Þess vegna reynir hann með öllu móti að spilla tilbeiðslunni á Jehóva eða láta hana beinast í aðra átt. Hann nýtur þess að brjóta niður trúfesti þjóna Guðs.
Það kemur greinilega fram í Biblíunni að Satan er snillingur í að úthugsa lúmskar aðferðir til að ná fram markmiðum sínum. Sem betur fer þurfum við ekki að láta blekkja okkur á sama hátt og Eva „því að ekki er okkur ókunnugt um vélráð hans“. — 2. Korintubréf 2:11.