Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Móse – auðmjúkur maður

Móse – auðmjúkur maður

HVAÐ ER AUÐMÝKT?

Auðmýkt felur í sér að vera laus við hroka og stolt. Sá sem er auðmjúkur lítur ekki niður á aðra. Auðmjúkur maður er meðvitaður um ófullkomleika sinn og þekkir takmörk sín.

HVERNIG SÝNDI MÓSE AUÐMÝKT?

Móse hrokaðist ekki upp þótt honum væri fengið mikið vald. Oft kemur fljótlega í ljós hvort menn séu auðmjúkir eða stoltir þegar þeir komast til valda. Rithöfundurinn Robert G. Ingersoll, sem var uppi á 19. öld, sagði: „Næstum allir geta þolað mótbyr en viljirðu reyna manninn skaltu fá honum völd í hendur.“ Móse sýndi afbragðsgott fordæmi hvað þetta varðar. Hvernig þá?

Móse var gefið mikið vald þegar Jehóva skipaði hann leiðtoga yfir Ísrael. Hann lét það samt ekki stíga sér til höfuðs. Lítum til dæmis á hvernig auðmýkt Móse kom í ljós þegar hann þurfti að taka á flóknu erfðaréttarmáli. (4. Mósebók 27:1-11) Málið vó þungt því að niðurstaðan hafði lagalegt fordæmisgildi fyrir komandi kynslóðir.

Hvað gerði Móse? Hugsaði hann sem svo að þar sem hann var nú leiðtogi Ísraelsmanna væri hann vel fær um að dæma í málinu? Reiddi hann sig á eigin hæfni, margra ára reynslu eða allt það sem hann vissi um viðhorf Jehóva?

Stoltur maður hefði kannski gert það. En það gerði Móse ekki. Í Biblíunni segir: „Móse lagði mál þeirra fyrir Drottin.“ (4. Mósebók 27:5) Að hugsa sér. Jafnvel eftir að hafa leitt Ísraelsþjóðina í um 40 ár treysti Móse ekki á sjálfan sig heldur á Jehóva. Hann var svo sannarlega auðmjúkur maður.

Móse ríghélt ekki í völdin sem hann hafði heldur gladdist þegar Jehóva fól öðrum Ísraelsmönnum að vera spámenn ásamt honum. (4. Mósebók 11:24-29) Þegar tengdafaðir Móse stakk upp á að hann ætti að létta byrði sína með því að fá öðrum verkefni fór hann auðmjúkur að ráðum hans. (2. Mósebók 18:13-24) Og þegar síga fór á seinni hluta ævinnar bað Móse Jehóva að skipa eftirmann sinn jafnvel þótt sjálfur væri hann vel á sig kominn. Móse studdi heilshugar við bakið á Jósúa þegar Jehóva valdi hann og hvatti fólkið til að fylgja honum inn í fyrirheitna landið. (4. Mósebók 27:15-18; 5. Mósebók 31:3-6; 34:7) Hann mat það auðvitað mikils að mega leiða Ísraelsmenn í tilbeiðslunni á Jehóva en hann setti ekki vald sitt ofar velferð annarra.

HVAÐ LÆRUM VIÐ?

Við viljum ekki að hæfni okkar eða völd stígi okkur til höfuðs. Munum að í þjónustu Jehóva skiptir auðmýkt meira máli en hæfileikar. (1. Samúelsbók 15:17) Þegar við erum auðmjúk reynum við eftir öllum mætti að fylgja þessum viturlegu ráðleggingum Biblíunnar: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ – Orðskviðirnir 3:5, 6.

Við lærum einnig af Móse að vera ekki of upptekin af stöðu okkar eða valdi.

Hvernig er það okkur til góðs að vera auðmjúk eins og Móse? Ef við erum auðmjúk gerum við lífið léttara fyrir þá sem eru í kringum okkur og fyrir vikið þykir þeim vænna um okkur. Þó skiptir enn meira máli að við verðum hjartfólgnari Jehóva Guði sem sjálfur býr yfir þessum fagra eiginleika. (Sálmur 18:36, Biblían 1981) „Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð.“ (1. Pétursbréf 5:5) Við höfum vissulega ríka ástæðu til að vera auðmjúk eins og Móse.