Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FARSÆLT FJÖLSKYLDULÍF

Samskipti við þá sem eru utan stjúpfjölskyldunnar

Samskipti við þá sem eru utan stjúpfjölskyldunnar

MARGRÉT, * STJÚPMÓÐIR Í ÁSTRALÍU: „Fyrrverandi kona mannsins míns sagði stelpunum að hlusta ekki á neitt af því sem ég segði þeim, jafnvel þótt ég væri bara að minna þær á að bursta tennurnar.“ Margréti finnst eins og þetta lymskubragð hafi komið niður á hjónabandi hennar.

Samskipti við þá sem eru utan stjúpfjölskyldunnar geta verið mikil áskorun fyrir alla á heimilinu. * Flestir stjúpforeldrar þurfa að hafa einhver samskipti við hitt foreldri barnsins um mál eins og heimsóknartíma, aga og fjárhagsstuðning. Vinum og ættingjum getur líka reynst erfitt að mynda tengsl við nýja fjölskyldumeðlimi. Lítum á hvernig leiðbeiningar úr Biblíunni geta hjálpað stjúpfjölskyldum að takast á við slíkar áskoranir.

SAMSKIPTI VIÐ HITT FORELDRI BARNSINS.

Sara, sem er stjúpmóðir í Namibíu, segir: „Móðir stjúpbarnanna minna sagði þeim einu sinni að ég væri bara kona pabba þeirra og að ef við eignuðumst einhvern tíma börn yrðu þau ekki systkini þeirra. Þessi orð særðu mig því að ég elska stjúpbörnin mín eins og þau væru mín eigin.“

Sérfræðingar eru sammála um að samband nýja makans við hitt foreldri barnsins geti oft verið mjög flókið og valdið sundrungu innan stjúpfjölskyldunnar. Oftast eru það móðirin og stjúpmóðirin sem eiga í mestum erfiðleikum. Hvað getur hjálpað þeim?

Lykill að árangri: Settu sanngjarnar umgengnisreglur. Ef þú reynir að útiloka öll samskipti við hitt foreldrið getur það vakið mikla vanlíðan hjá barninu. * Kynforeldrar barnsins eiga sérstakan sess í lífi þess. (Orðskviðirnir 23:22, 25) Ef þú hins vegar leyfir hinu foreldrinu að ráða of miklu í þinni fjölskyldu getur það pirrað eða jafnvel reitt nýja makann til reiði. Reyndu að finna gott jafnvægi með því að setja sanngjarnar umgengnisreglur til að vernda hjónabandið. En reyndu um leið að vera eins samvinnufús og þú getur við hitt foreldrið.

GÓÐ RÁÐ FYRIR FORELDRA

  • Þegar þú ræðir við fyrrverandi maka þinn reyndu þá að láta umræðurnar snúast að mestu leyti um börnin og minna um önnur mál. Til dæmis gætir þú spurt hlýlega hvort ekki væri hægt að hringja á fyrir fram ákveðnum tímum. Það gæti gefist betur en að hringt sé á mismunandi tímum og jafnvel seint á kvöldin.

  • Ef börnin búa ekki hjá þér getur þú hringt í þau, sent þeim bréf, textaskilaboð eða tölvupóst til að viðhalda reglulegu sambandi við þau. (5. Mósebók 6:6, 7) Sumir nýta sér jafnvel tölvu með vefmyndavél. Þetta gæti haft meiri áhrif en þig grunar. Þú gætir fengið dýpri skilning á þörfum og vandamálum barna þinna og þar af leiðandi hjálpað þeim betur.

GÓÐ RÁÐ FYRIR STJÚPMÆÐUR

  • Sýndu móður barnanna samkennd og gerðu henni ljóst að þú sért ekki að reyna að koma í hennar stað. (1. Pétursbréf 3:8) Láttu hana vita hvernig börnunum vegnar þegar þau eru í þinni umsjá og einbeittu þér aðallega að því jákvæða. (Orðskviðirnir 16:24) Spyrðu hana ráða og þakkaðu henni fyrir þegar hún gefur þér ráð.

  • Stilltu þig um að sýna börnunum of mikla ástúð þegar móðir þeirra er nærri. Beverly, stjúpmóðir í Bandaríkjunum, segir: „Stjúpbörnin mín vildu fá að kalla mig mömmu. Við ákváðum að það væri í lagi heima hjá okkur en að þau ættu ekki að kalla mig mömmu þegar þau væru með móður sinni, Söndru, eða fjölskyldu hennar. Það varð til þess að okkur Söndru samdi betur og við hjálpuðumst meira að segja að þegar börnin tóku þátt í skólaleikritum eða fóru í skólaferðalög.“

Þú getur haft meiri áhrif á börnin þín en þig grunar ef þú hefur oft samband við þau.

GÓÐ RÁÐ SEM HJÁLPA FORELDRUM OG STJÚPFORELDRUM AÐ EIGA GOTT SAMBAND

    Kurteisi og virðing stuðla að friðsamlegum samskiptum.

  • Talaðu aldrei illa um hitt foreldrið eða stjúpforeldrið svo að börnin heyri til. Það er auðvelt að leiðast út í slíkar umræður en það getur fengið mikið á börnin. Og þú veist aldrei hvernig eða hvenær orð þín verða endurtekin. (Prédikarinn 10:20) Ef barnið segir að hitt foreldrið eða stjúpforeldrið hafi talað illa um þig skaltu einbeita þér að tilfinningum barnsins. Þú gætir kannski sagt: „Mér þykir leitt að þú þurftir að heyra þetta. Mamma þín er reið við mig og þegar fólk er reitt segir það stundum eitthvað slæmt.“

  • Reynið að gæta þess að á báðum heimilum gildi svipuð boð og bönn. Ef það er ekki mögulegt skaltu útskýra það fyrir barninu án þess að gera lítið úr hinu foreldrinu. Lítum á eftirfarandi dæmi:

    Stjúpmóðir: Tommi, viltu hengja upp handklæðið þitt.

    Tommi: Heima hjá mömmu megum við skilja þau eftir á gólfinu og hún hengir þau upp.

    Stjúpmóðir (reiðilega): Það kemur nú ekki á óvart að hún leyfi ykkur að komast upp með slíka leti.

    Væru þessi viðbrögð kannski betri?

    Stjúpmóðir (mildilega): Ég skil, en á þessu heimili hengja allir upp handklæðin sín sjálfir.

  • Forðist að skipuleggja eitthvað fyrir börnin þegar þau eiga að vera í umsjá hins foreldrisins. (Matteus 7:12) Ef ekki er hægt að finna annan tíma skaltu fá samþykki hins foreldrisins áður en þú segir börnunum nokkuð.

PRÓFIÐ ÞETTA: Næst þegar þú hittir foreldri stjúpbarna þinna eða stjúpforeldri barnanna þinna skaltu gera eftirfarandi:

  1.  Reyndu að ná augnasambandi og brosa. Forðastu að sýna óvirðingu, andvarpa eða ranghvolfa augunum.

  2.  Heilsaðu viðkomandi vingjarnlega með nafni.

  3.  Ef þú ert að tala við einhverja aðra skaltu reyna að fá hann/​hana með í samræðurnar.

SAMSKIPTI VIÐ UPPKOMIN BÖRN.

Í bókinni Step Wars (Stríð í stjúpfjölskyldunni) er vitnað í konu sem kvartar yfir því að maðurinn hennar taki alltaf málstað uppkominna barna sinna og loki augunum fyrir því að þau komi illa fram við hana. Hún segir: „Reiðin blossar upp í mér.“ Hvernig geturðu komið í veg fyrir að sambandið við uppkomin börn skaði hjónabandið?

Lykill að árangri: Sýndu samkennd. „Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra,“ segir í Biblíunni. (1. Korintubréf 10:24) Reyndu að setja þig í spor hinna í fjölskyldunni og skilja tilfinningar þeirra. Uppkomin stjúpbörn eru kannski hrædd um að missa athygli og ást foreldris síns. Eða þeim finnst þau kannski ekki halda tryggð við upprunalegu fjölskylduna ef þau taka stjúpforeldrinu opnum örmum. Eins gætu foreldrar óttast að þeir ýti börnunum frá sér ef þeir gagnrýna þau.

Í stað þess að þvinga fram vináttutengsl við stjúpbörnin skaltu leyfa sambandinu að þróast eðlilega. Það er óviturlegt að reyna að þrýsta á einhvern til að elska aðra. (Ljóðaljóðin 8:4) Reyndu því að gera þér sanngjarnar og raunhæfar væntingar um náin tengsl við stjúpbörnin þín.

Láttu ekki allar hugsanir þínar og tilfinningar í ljós jafnvel þegar aðrir koma illa fram við þig. (Orðskviðirnir 29:11) Þegar þér finnst sérlega erfitt að hafa taumhald á tungunni skaltu biðja til Guðs eins og Davíð Ísraelskonungur gerði. Hann bað: „Set þú, Drottinn, vörð við munn minn, gæt hliðs vara minna.“ – Sálmur 141:3.

Ef þið ákveðið að búa áfram í húsinu sem börnin voru alin upp í gæti það komið þér á óvart hversu vænt þeim þykir um það. Reynið að gera sem fæstar breytingar og þá sérstaklega á gömlu herbergjunum þeirra. Kannski væri ráð að flytja í annað húsnæði.

PRÓFIÐ ÞETTA: Ef uppkomin börn maka þíns halda áfram að sýna þér dónaskap eða virðingarleysi skaltu segja maka þínum hvernig þér líður og hlusta vandlega á það sem hann hefur að segja. Þrýstu ekki á maka þinn til að leiðrétta börnin. Reynið frekar að sýna hvort öðru skilning. Þegar ykkur tekst að ,vera samhuga‘ getið þið unnið saman að því að bæta ástandið. – 2. Korintubréf 13:11.

Reyndu að sýna öllum börnunum í fjölskyldunni ástúð og athygli.

SAMSKIPTI VIÐ AÐRA ÆTTINGJA OG VINI.

Stjúpmóðir í Kanada, sem heitir María, segir: „Foreldrar mínir gáfu syni mínum oft gjafir en ekki börnum eiginmanns míns. Við reyndum að bæta þeim það upp með því að kaupa sjálf handa þeim gjafir en stundum höfðum við einfaldlega ekki efni á því.“

Lykill að árangri: Láttu nýju fjölskylduna þína ganga fyrir. Segðu ættingjum þínum og vinum að nú berirðu ábyrgð á nýrri fjölskyldu. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Jafnvel þótt þú getir ekki ætlast til þess að öllum ættingjum þínum og vinum þyki tafarlaust vænt um nýja fjölskyldumeðlimi geturðu beðið þá um að sýna þeim kurteisi og sanngirni. Útskýrðu fyrir þeim hversu særandi það er fyrir börnin ef þau eru skilin út undan og fá ekki athygli og hlýju.

Leyfðu foreldrum fyrrum maka þíns að halda áfram að taka þátt í lífi barnanna. Móðir á Englandi, sem heitir Súsanna, segir: „Ég gifti mig aftur einu og hálfu ári eftir að eiginmaður minn dó. Fyrrum tengdaforeldrum mínum fannst erfitt að taka nýja manninn minn í sátt. En það gekk betur þegar við leyfðum þeim að fylgjast með því sem börnin voru að gera, létum krakkana hringja í þau og sögðum þeim að við værum þakklát fyrir stuðning þeirra.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Ef þið eigið erfitt með að umgangast einhvern ættingja eða vin skuluð þið hjónin ræða saman um hvað þið getið gert til að bæta samskiptin við hann.

Samskipti við þá sem búa ekki á heimilinu geta valdið erfiðleikum í stjúpfjölskyldum. En ef þið leggið ykkur fram um að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar getur fjölskyldan uppskorið ánægjulegt fjölskyldulíf. Biblían segir: „Af speki er hús reist og af skynsemi verður það staðfast.“ – Orðskviðirnir 24:3.

^ gr. 3 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 4 Finna má upplýsingar um hvernig hægt sé að takast á við annars konar erfiðleika sem geta komið upp í stjúpfjölskyldum í forsíðugreinum Vaknið! apríl 2012 á ensku. Blaðið er gefið út af Vottum Jehóva. Einnig er hægt er að lesa blaðið á www.ps8318.com á fleiri erlendum tungumálum.

^ gr. 8 Ef fyrrverandi maki á í hótunum eða er ofbeldisfullur þarf auðvitað að setja strangari reglur til að tryggja öryggi fjölskyldunnar.

SPYRÐU ÞIG ...

  • Hvernig get ég átt betri samskipti við fyrrverandi eiginkonu eða eiginmann maka míns?

  • Hvað getum við gert svo að ættingjar og vinir særi ekki fjölskyldu okkar, jafnvel óafvitandi?