Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | FORELDRAHLUTVERKIÐ

Kenndu barninu þínu þrautseigju

Kenndu barninu þínu þrautseigju

 „Ég get þetta ekki,“ segir sonur þinn grátandi. „Þetta er of erfitt. Ég mun aldrei læra þetta.“ Hann er of fljótur til að gefast upp á erfiðu verkefni. Það hryggir þig að sjá son þinn í vanda en þú vilt engu að síður að hann læri að sigrast á hindrunum. Ættirðu að flýta þér að koma honum til hjálpar? Ættirðu bara að leyfa honum að gefast upp? Eða geturðu kennt barninu þínu þrautseigju?

Gott að vita

 Þrautseigja er nauðsynleg. Þegar foreldar hjálpa barni sínu að þroska þrautseigu með því að leggja á sig erfiði eru meiri líkur á að því muni ganga vel í skóla, njóta betri geðheilsu og almennrar heilsu og að það muni mynda sterkari og jákvæðari vináttubönd. Ef foreldrar á hinn bóginn hlífa barni sínu við erfiðleikum og mistökum er líklegra að það verði þunglynt, finnist það lélegt í flestu og að líf þess verði síður ánægjulegt þegar það verður fullorðið.

 Hægt er að efla þrautseigju. Jafnvel mjög ung börn geta styrkt einbeitni sína í að sigrast á hindrunum og leysa þrautir. Rannsókn sem gerð var á 15 mánaða gömlum börnum sýndi að þau lögðu harðar að sér ef þau horfðu fyrst á fullorðinn einstakling glíma við verkefni frekar en að takast það fyrirhafnarlaust.

 „Ég man eftir því þegar ég kenndi dætrum mínum að reima skóna sína. Barn lærir það ekki á einum degi. Í hvert skipti sem þær þurftu að reima skóna sátu þær einar í 10 til 15 mínútur og reyndu að muna hvernig átti að fara að. Síðan hjálpaði ég þeim. Það tók þær nokkra mánuði og nokkur tár féllu en á endanum lærðu þær það. Ég hefði getað auðveldað mér lífið með því að kaupa skó án reima. En stundum þurfum við sem foreldar meira að segja að sýna þrautseigju til að kenna börnum okkar að verða þrautseig.“ – Colleen.

 Hægt er að grafa undan þrautseigju. Sumir foreldar gætu óafvitandi grafið undan þrautseigju barnsins síns. Hvernig þá? Þeir gætu haldið að þeir séu að efla sjálfsmat þess með því að grípa inn í og „bjarga“ því frá vonbrigðum eða mistökum. En það er stór galli við þessa aðferð eins og rithöfundurinn Jessica Lahey bendir á: „Í hvert skipti sem við björgum börnum okkar frá áskorunum erum við að senda þeim skýr skilaboð um að við álítum þau óhæf, duglaus og að þau verðskuldi ekki traust okkar.“ a Með hvaða afleiðingum? Hætt er við að þau gefist auðveldlega upp þegar þau standa andspænis nýjum áskorunum og þeim finnist að þau þurfi hjálp fullorðinna til að bjarga sér úr vanda.

Í stað þess að „bjarga“ barni þínu úr erfiðum aðstæðum geturðu kennt því að sýna þrautseigju.

Hvað er til ráða?

 Hvettu þau til að leggja sig fram. Foreldrar geta kennt börnum sínum þrautseigju með því að gefa þeim verkefni sem hæfa aldri þeirra. Börn á forskólaaldri geta til dæmis flokkað þvott eða gengið frá dótinu sínu. Ung börn geta hjálpað til við að ganga frá innkaupavörum, leggja á borð, fara út með ruslið og þrífa upp það sem sullast niður. Unglingar geta fengið erfiðari verkefni eins og þrif, viðhald og viðgerðir. Börn sækjast kannski ekki eftir að fá slík verkefni en þau njóta gagns af því að foreldrar geri þau ábyrg fyrir þátttöku í heimilshaldinu frá unga aldri. Hvernig gagnast það þeim? Þau læra að bera virðingu fyrir vinnu sem mun hjálpa þeim að gefast ekki upp frammi fyrir erfiðum en nauðsynlegum verkefnum þegar þau verða fullorðin.

 Meginregla Biblíunnar: „Af allri erfiðisvinnu hlýst ávinningur“ – Orðskviðirnir 14:23.

 „Sóaðu ekki tíma með því að gefa börnum þínum verkefni til þess eins að halda þeim uppteknum. Enginn, ekki heldur barn, kann að meta það. Láttu þau heldur hjálpa til við eitthvað sem skiptir máli. Meðan barnið þitt er lítið gætirðu látið það þurrka af húsgögnum sem það nær til. Ef þú ert að þvo bílinn skaltu láta barnið þvo neðri hlutann sem þér gæti fundist erfitt að ná til. Vertu fljótur til að hrósa barninu þegar það er duglegt.“ – Chris.

 Leiðbeindu barninu þínu ef verkefnið er erfitt. Stundum gefast börn fljótt upp einfaldlega vegna þess að þau vita ekki hvernig þau eiga að fara að. Þess vegna gætir þú reynt þessa aðferð þegar þú kennir barni þínu nýja færni: Sýndu því hvernig þú vinnur verkið. Gerið það síðan í sameiningu. Næst skaltu fylgjast með barni þínu vinna verkið og gefa því gagnleg ráð. Loks skaltu láta barnið vinna verkið sjálft.

 Meginregla Biblíunnar: „Ég hef gefið ykkur fordæmi. Þið skuluð gera það sama og ég hef gert fyrir ykkur.“ – Jóhannes 13:15.

 „Það er mín reynsla að við foreldrarnir þurfum að gefa börnunum gott fordæmi í að sýna þrautseigju. Við þurfum sjálf að sýna eiginleikann sem við viljum að þau þroski með sér.“ – Doug.

 Hjálpaðu barninu að átta sig á að allir þurfa að glíma við verkefni og allir gera mistök. Segðu því frá dæmum af sjálfum þér, hvernig þú glímdir við verkefni og græddir á því að gefast ekki upp. Útskýrðu fyrir barni þínu að það sé eðlilegt að finnast ný verkefni erfið og að það geti lært af mistökum sínum. Fullvissaðu það um að þó að verkið misheppnist hefur það engin áhrif á kærleika þinn til þess. Rétt eins og vöðvi sem stækkar með notkun mun hæfni og þrautseigja barnsins vaxa ef þú leyfir því að takast á við áskoranir. Í stað þess að vera fljótur að grípa inn í þegar barnið stendur andspænis áskorun skaltu gefa því tíma til að vinna sig í gegnum hindrunina. „Besta leiðin til að hjálpa ungum einstaklingi til að eflast og þroskast er að láta hann glíma við eitthvað sem eru líkur á að honum takist ekki að ljúka,“ segir í bókinni How Children Succeed.

 Meginregla Biblíunnar: „Það er gott fyrir manninn að bera ok í æsku.“ – Harmljóðin 3:27.

 „Ef þú leyfir börnum að glíma við verkefni að vissu marki og ert til staðar til að aðstoða þau njóta þau góðs af. Þegar fram líða stundir hættir það að vera erfitt og þau öðlast sjálfstraust, læra nýja færni og líka að þrautseigja borgar sig.“ – Jordan.

 Hrósaðu fyrir viðleitni en ekki gáfur. Í stað þess að segja: „Frábær frammistaða í prófinu. Þú ert snillingur,“ gætirðu sagt: „Frábær frammistaða í prófinu. Ég dáist að því hvað þú varst duglegur að undirbúa þig.“ Hvers vegna er mikilvægt að hrósa frekar fyrir viðleitni en gáfur? Ef börnum er hrósað fyrir gáfur sínar „fara þau að efast um getu sína um leið og eitthvað er þeim erfitt eða ef eitthvað fer úrskeiðis,“ segir Dr. Carol Dweck. Hún heldur áfram: „Ef foreldrar vilja gefa börnum sínum eitthvað þá er besta gjöfin sú að kenna þeim að elska áskoranir, að vilja skilja hvers vegna þeim mistókst eitthvað, að hafa gaman að fyrirhöfn, að leita nýrra úrlausna og halda áfram að læra. Þannig verða börn þeirra ekki háð hrósi.“ b

 Meginregla Biblíunnar: „Maðurinn [er] reyndur þegar hann fær hrós.“ – Orðskviðirnir 27:21.

a Úr bókinni The Gift of Failure.

b Úr bókinni Mindset.