GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND
Klám getur eyðilagt hjónaband þitt
Eiginkona hans uppgötvaði leyndarmál hans. Hann baðst ákaft fyrirgefningar. Hann lofaði að hætta, sem hann og gerði – um tíma. Þá fékk hann bakslag, og var aftur kominn á byrjunarreit.
Ert þú í svipuðum sporum og þessi eiginmaður? Ef svo er þarftu að skilja hvaða áhrif sá ávani að horfa á klám hefur á maka þinn og hvernig þú getur losað þig við ávanann fyrir fullt og allt. a
Í þessari grein
Hvað þarftu að vita?
Klám getur eyðilagt hjónaband. Það ýtir undir gremju og tortryggni hjá saklausa makanum. b
Eiginkona manns sem horfir á klám getur upplifað eftirfarandi tilfinningar:
Svik. Eiginkona að nafni Sarah segir: „Mér leið eins og eiginmaður minn hefði framið hjúskaparbrot aftur og aftur.“
Vanmáttarkennd. Eiginkona ein segir að klámáhorf eiginmanns hennar hafi orðið til þess að henni fannst hún ljót og hún skammaðist sín.
Tortryggni. „Ég tortryggi allt sem maðurinn minn gerir,“ segir eiginkona sem heitir Helen.
Kvíði. Eiginkona að nafni Catherine viðurkennir: „Áhyggjur vegna ávana eiginmanns míns heltóku mig.“
Til umhugsunar: Biblían segir að eiginmaður eigi að elska eiginkonu sína. (Efesusbréfið 5:25) Gerir hann það ef hann lætur hana upplifa tilfinningarnar sem er lýst hér að ofan?
Hvað geturðu gert?
Það er ekki auðvelt að losa sig við þann ávana að horfa á klám. „Maðurinn minn hætti að reykja sígarettur og marijúana, og að drekka áfengi,“ segir kona sem heitir Stacey, „en hann er enn að berjast við að hætta að horfa á klám.“
Ef þú ert í þessum sporum geta eftirfarandi tillögur hjálpað þér að losa við þennan ávana fyrir fullt og allt.
Áttaðu þig á hvers vegna klám er skaðlegt. Klám ýtir undir eigingirni og fær mann til að hugsa fyrst og fremst um að uppfylla eigin langanir. Það grefur undan kærleika, trausti og trúfesti, eiginleikum sem eru nauðsynlegir til að hjónabandið geti verið hamingjuríkt. Það endurspeglar líka skort á virðingu fyrir höfundi hjónabandsins, Jehóva Guði.
Meginregla Biblíunnar: ‚Hafið hjónabandið í heiðri.‘ – Hebreabréfið 13:4.
Taktu ábyrgð á gerðum þínum. Segðu ekki: Ég þyrfti ekki að horfa á klám ef konan mín væri ástríkari. Það er ekki sanngjarnt að kenna konunni þinni um og það er aðeins þægileg afsökun fyrir að horfa aftur á klám þegar hún veldur þér vonbrigðum.
Meginregla Biblíunnar: „Það er girnd hvers og eins sem reynir hann með því að lokka hann og tæla.“ – Jakobsbréfið 1:14.
Vertu heiðarlegur við maka þinn. Eiginmaður að nafni Kevin segir: „Ég tala daglega við konuna mína um hvort mér hafi tekist að forðast að horfa aftur á það sem gæti vakið rangar hugsanir eða ekki. Þessi stöðugu tjáskipti taka burt alla leynd.“
Meginregla Biblíunnar: „Við … viljum vera heiðarlegir í öllu sem við gerum.“ – Hebreabréfið 13:18.
Vertu alltaf á verði. Þú getur fengið bakslag jafnvel mörgum árum eftir að þú taldir þig vera búinn að sigrast á þessum ávana. Kevin, sem er vitnað í áður, segir: „Ég hélt mig frá klámi í tíu ár og sannfærði sjálfan mig um að vandamálið væri úr sögunni. En fíknin lá í dvala og beið eftir rétta tækifærinu til að skjóta aftur upp kollinum.“
Meginregla Biblíunnar: „Sá sem heldur að hann standi gæti því að sér að falla ekki.“ – 1. Korintubréf 10:12.
Bíddu þegar þú verður fyrir freistingu. Þú getur ef til vill ekki hindrað ranga löngun að skjóta upp kollinum en þú getur kosið hvað þú gerir við hana. Löngunin líður hjá, og jafnvel hraðar en ella ef þú tileinkar þér að beina huganum að einhverju öðru.
Meginregla Biblíunnar: „Hvert og eitt ykkar ætti að kunna að hafa stjórn á líkama sínum og halda honum heilögum og til sóma en ekki láta stjórnast af girnd og taumlausum losta.“ – 1. Þessaloníkubréf 4:4, 5.
Forðastu aðstæður sem gætu leitt til bakslags. „Um leið og þú ert kominn í aðstæður þar sem þú ert berskjaldaður,“ segir í bókinni Willpower’s Not Enough, „ertu búinn að kveikja á eldspýtu. Nú þarf ekki nema smá eldsneyti … til að kveikja eld.“
Meginregla Biblíunnar: „Megi ekkert illt ná tökum á mér.“ – Sálmur 119:133.
Misstu ekki vonina. Það getur tekið langan tíma – jafnvel fleiri ár – að ávinna þér traust eiginkonu þinnar á ný. En reynslan sýnir að það er hægt.
Meginregla Biblíunnar: „Kærleikurinn er þolinmóður.“ – 1. Korintubréf 13:4.
a Í greininni er athyglinni beint að eiginmönnum en meginreglurnar í henni gagnast líka eiginkonum sem horfa á klám.
b Sum hjón halda því fram að það geti bætt samband þeirra að horfa saman á klám. En þessi iðja er ekki í samræmi við meginreglur Biblíunnar. – Orðskviðirnir 5:15–20; 1. Korintubréf 13:4, 5; Galatabréfið 5:22, 23.