Hvað segir Biblían um fóstureyðingar?
Svar Biblíunnar
Biblían talar ekki beint um fóstureyðingar. En það má sjá af mörgum versum í Biblíunni hvernig Guð lítur á mannslífið, þar á meðal líf ófædds barns.
Lífið er gjöf frá Guði. (1. Mósebók 9:6; Sálmur 36:10) Í hans augum er allt líf dýrmætt, líka líf barns í móðurkviði. Að eyða fóstri jafngildir þess vegna manndrápi.
Í lögum Guðs til Ísraelmanna sagði: „Fljúgist menn á og rekist á þungaða konu svo að [barnið fæðist fyrir tímann, Nýheimsþýðing Biblíunnar] án þess að annar skaði hljótist af skal sá sem olli greiða þær bætur sem eiginmaður hennar ákveður. Hann skal greiða bætur frammi fyrir dómurum. En hljótist skaði af skaltu láta líf fyrir líf.“ – 2. Mósebók 21:22, 23. a
Hvenær hefst lífið?
Í augum Guðs hefst lífið við getnað. Af Biblíunni, orði Guðs, má sjá að hann lítur á ófædd börn sem einstaklinga. Skoðum nokkur dæmi sem sýna fram á að Guð gerir ekki greinarmun á lífi barns í móðurkviði og barni sem hefur fæðst.
Davíð konungur sagði við Guð undir innblæstri: „Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni.“ (Sálmur 139:16) Guð leit á Davíð sem einstakling jafnvel áður en hann fæddist.
Áður en Jeremía spámaður fæddist hafði Guð ákveðið að hann myndi fela honum sérstakt verkefni. Guð sagði við hann: „Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar.“ – Jeremía 1:5.
Biblíuritarinn Lúkas, sem var læknir, notaði sama gríska orðið til að lýsa ófæddu barni og nýfæddu barni. – Lúkas 1:41; 2:12, 16.
Mun Guð fyrirgefa þeim sem hafa látið eyða fóstri?
Konur sem hafa farið í fóstureyðingu geta fengið fyrirgefningu Guðs. Þær þurfa ekki að vera gagnteknar af sektarkennd ef þær líta nú lífið sömu augum og Guð. „Náðugur og miskunnsamur er [Jehóva] ... Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss.“ b (Sálmur 103:8–12) Jehóva fyrirgefur öllum sem iðrast í einlægni fyrri synda, líka þeim sem hafa farið í fóstureyðingu. – Sálmur 86:5.
Er rangt að binda enda á þungun ef líf móðurinnar eða barnsins er í hættu?
Í ljósi þess sem Biblían segir um líf ófædds barns réttlætir hugsanleg hætta fyrir móður eða barn ekki fóstureyðingu.
En hvað ef upp koma þær sjaldgæfu aðstæður að velja þarf milli þess að bjarga lífi móðurinnar eða lífi barnsins? Við slíkar aðstæður þurfa þeir sem hlut eiga að máli að ákveða hvoru lífinu eigi að reyna að bjarga.
a Samkvæmt sumum biblíuþýðingum virðist mestu máli skipta í þessum lögum hvað hendir móðurina, ekki fóstrið. En í hebreska textanum er átt við slys sem verður annaðhvort móður eða barni að bana.
b Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar. – 2. Mósebók 6:3, neðanmáls.