Hvað merkir talan 666?
Svar Biblíunnar
Samkvæmt síðustu bók Biblíunnar er 666 tala eða nafn villidýrsins sem er með sjö höfuð og tíu horn og kemur upp úr hafinu. (Opinberunarbókin 13:1, 17, 18) Þetta dýr táknar stjórnmálaveldi heimsins sem ríkir yfir „hverjum ættflokki, kynþætti, tungu og þjóð“. (Opinberunarbókin 13:7) Nafnið 666 gefur til kynna að stjórnmálaveldið sé mjög gallað og ófullkomið í augum Guðs. Skoðum það nánar.
Nafnið hefur þýðingu. Nöfn sem Guð gefur hafa merkingu. Hann gaf til dæmis manninum Abram, sem þýðir ‚faðir er hár (upphafinn)‘, nafnið Abraham sem þýðir ‚faðir fjölda‘, þegar Guð lofaði að gera hann að „ættföður margra þjóða“. (1. Mósebók 17:5, neðanmáls) Nafnið 666, sem Guð gaf dýrinu, táknar það sem einkennir dýrið.
Talan sex gefur til kynna ófullkomleika. Tölur eru oft notaðar táknrænt í Biblíunni. Talan sjö merkir gjarnan fullkomleika eða algerleika. Þar sem talan sex er einum minna en sjö táknar hún stundum það sem er ófullkomið eða gallað í augum Guðs og hún er líka notuð í tengslum við óvini Guðs. – 1. Kroníkubók 20:6; Daníel 3:1.
Þrítekin til áherslu. Biblían leggur stundum áherslu á hluti með því að þrítaka þá. (Opinberunarbókin 4:8; 8:13) Nafnið 666 gefur því sterklega til kynna að stjórnmálaveldi manna séu mjög ófullkomin og gölluð í augum Guðs. Þau hafa reynst óhæf að gera það sem aðeins ríki Guðs getur gert – að koma á varanlegum friði og öryggi.
Merki dýrsins
Biblían segir að fólk fái „merki villidýrsins“ með því að fylgja dýrinu fullt „aðdáunar“ og tilbiðja það. (Opinberunarbókin 13:3, 4; 16:2) Það sést greinilega á því hvernig fólk heiðrar land sitt, tákn þess eða hernaðarmátt. Í The Encyclopedia of Religion segir: „Þjóðernishyggja er orðin ríkjandi trú í heimi nútímans. a
Hvernig er merki dýrsins sett á hægri hönd eða enni einhvers? (Opinberunarbókin 13:16) Guð sagði varðandi fyrirmæli sín til Ísraelsþjóðarinnar: „Bindið þau á hönd ykkar til að muna eftir þeim og hafið þau eins og ennisband á höfði ykkar.“ (5. Mósebók 11:18) Þetta þýddi ekki að Ísraelsmenn ættu að merkja hendur sínar og enni bókstaflega heldur að orð Guðs ætti að stýra huga þeirra og verkum. Í stað þess að talan sé bókstafleg, eins og 666-húðflúr, táknar merki dýrsins þá sem láta stjórnmálakerfið ráða lífi sínu. Þeir sem bera merki dýrsins gera sig að andstæðingum Guðs. – Opinberunarbókin 14:9, 10; 19:19–21.
a Sjá einnig Nationalism in a Global Era, bls. 134, og Nationalism and the Mind: Essays on Modern Culture, bls. 94.