Hoppa beint í efnið

17. JÚLÍ 2024
ÚR ÝMSUM ÁTTUM

Sex biblíuþýðingar gefnar út í júní 2024

Sex biblíuþýðingar gefnar út í júní 2024

Gvadelúp-kreólska

Þann 9. júní 2024 tilkynnti bróðir Jeffrey Winder, sem situr í stjórnandi ráði, að tvær biblíubækur, Matteus og Markús, væru komnar út á gvadelúp-kreólsku. Þessi tilkynning kom í lokaræðu sérmótsins „Boðum fagnaðarboðskapinn“ sem haldið var í Baie-Mahault á Gvadelúpeyjum. Alls voru 8.602 viðstaddir mótið. Auk þess voru 5.588 tengdir mótinu með fjarfundabúnaði. Viðstaddir fengu prentað eintak af Biblíunni – Matteusarguðspjalli og á sama tíma var opnað fyrir að sækja bæði guðspjöllin á jw.org og með JW Library-appinu.

Yfir 300.000 manns á Gvadelúpeyjum og 200.000 í Frakklandi tala gvadelúp-kreólsku. Um 3.300 bræður og systur sem tala þetta mál starfa í 42 söfnuðum á Gvadelúpeyjum og 80 að auki í 2 hópum í Frakklandi.

Armenska

Þann 28. júní 2024 tilkynnti bróðir Geoffrey Jackson, sem situr í stjórnandi ráði, að endurskoðuð útgáfa Nýheimsþýðingarinnar væri komin út á armensku. a Þessi tilkynning kom á fyrsta degi umdæmismótsins „Boðum fagnaðarboðskapinn“ sem haldið var í grennd við Jerevan í Armeníu. Alls voru 6.155 viðstaddir mótið. Strax eftir tilkynninguna var opnað fyrir að sækja endurskoðuðu útgáfuna í rafrænu formi á jw.org og með JW Library-appinu. Prentuð útgáfa verður fáanleg síðar á árinu.

Biblían var fyrst þýdd á armensku á fimmtu öld. Nýheimsþýðing Biblíunnar í heild kom upphaflega út á armensku árið 2010. Um þrjár milljónir armenskumælandi manna búa í Armeníu, þar á meðal um 10.550 bræður og systur sem starfa í 117 söfnuðum. Að auki starfa 5.200 vottar í armenskumælandi söfnuðum og hópum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Fante

Þann 28. júní 2024, á umdæmismótinu „Boðum fagnaðarboðskapinn“, tilkynnti bróðir Freeman Abbey, sem situr í deildarnefndinni í Gana, að Matteusarguðspjall væri komið út á fante. Mótið var haldið í Takoradi-mótshöllinni í Sekondi-Takoradi í Gana. Alls voru 1.230 bræður og systur viðstödd mótið en 2.022 voru tengdir dagskránni með fjarfundabúnaði. Viðstaddir fengu í hendur prentað eintak af Biblíunni – Matteusarguðspjalli en samtímis var opnað fyrir að sækja þýðinguna í rafrænu formi á jw.org og með JW Library-appinu.

Áætlað er að sex milljónir manna tali fante. Fyrsti fantemælandi söfnuðurinn var stofnaður í september 1935 þar sem nú er Sekondi-Takoradi í Gana. Núna starfa um 9.700 fantemælandi bræður og systur í 158 söfnuðum víða um landið.

Íslenska

Þann 28. júní 2024 tilkynnti bróðir David Splane, sem situr í stjórnandi ráði, að Nýheimsþýðing Biblíunnar í heild væri komin út á íslensku. Það var á fyrsta degi sérmótsins „Boðum fagnaðarboðskapinn“ sem haldið var í Reykjavík en 1.312 voru viðstaddir. Mótsgestir fengu í hendur prentað eintak af Nýheimsþýðingunni. Samtímis var opnað fyrir að sækja þýðinguna í rafrænu formi á jw.org og með JW Library-appinu.

Nýheimsþýðing Grísku ritninganna kom út á íslensku árið 2019. Fimm íslenskumælandi söfnuðir eru á landinu og boðberarnir eru 395 talsins. Það er þeim mikið gleðiefni að geta notað Nýheimsþýðinguna í heild til að boða trúna meðal landsmanna sem eru um 390.000.

Ngangela

Þann 28. júní 2024, á umdæmismótinu „Boðum fagnaðarboðskapinn“, tilkynnti bróðir Johannes De Jager, sem situr í deildarnefndinni í Angóla, að Matteusarguðspjall, Lúkasarguðspjall og Postulasagan væru komin út á ngangela. Mótið var haldið í Menongue í Angóla og þeir 450 sem voru viðstaddir gátu fengið prentað eintak af Biblíunni – Matteusarguðspjalli en samtímis var opnað fyrir að sækja allar þrjár biblíubækurnar í rafrænu formi á jw.org og með JW Library-appinu.

Í Angóla býr um ein milljón ngangelamælandi manna. Fyrsti ngangela-söfnuðurinn var stofnaður árið 2011. Nú starfa 260 bræður og systur í átta ngangelamælandi söfnuðum og hópum í Angóla og Namibíu.

Ngabere

Þann 30. júní 2024 tilkynnti bróðir Carlos Martinez, sem situr í deildarnefndinni í Mið-Ameríku, að Biblían – Matteusarguðspjall væri komin út á ngabere. Dagskrá sem fylgdi þessari tilkynningu var streymt til margra ríkissala í Kosta Ríka og Panama. Samtals voru 2.032 viðstaddir og þeir fengu prentað eintak af Matteusarguðspjalli. Samtímis var opnað fyrir að sækja biblíubókina í rafrænu formi á jw.org og með JW Library-appinu.

Um 216.000 manns tala ngabere og þeir búa aðallega í Kosta Ríka og Panama. Í þessum löndum eru 877 ngaberemælandi bræður og systur í 26 söfnuðum og 2 hópum.

a Þessi endurskoðaða útgáfa Nýheimsþýðingarinnar var gefin út á austur-armensku. Hún er frábrugðin vestur-armensku sem er töluð í mörgum armenskum samfélögum utan Armeníu.