Hoppa beint í efnið

Þau héldu boðuninni áfram meðan á farsóttinni stóð

Þau héldu boðuninni áfram meðan á farsóttinni stóð

 Bræður okkar og systur aðlöguðu aðferðir sínar við að boða huggunarboðskap Biblíunnar meðan á COVID-19 faraldrinum stóð. Í stað þess að boða trúna á almannafæri eða ganga í hús boðuðu þau hana aðallega símleiðis og með bréfaskriftum. a Margir kunnu að meta þessa viðleitni og blessun Jehóva hefur verið augljós. (Orðskviðirnir 16:3, 4) Hugleiddu nokkrar frásögur frá eyju nokkurri.

 Áður en farsóttin skall á hafði Helen farið reglulega til ungrar konu og boðið henni biblíunámskeið. Konan hafði alltaf afþakkað boðið. En daginn áður en hömlurnar voru settar þáði hún bókina Hvað kennir Biblían? Meðan á COVID-19 hömlum stóð bauð Helen henni aftur biblíunámskeið og útskýrði að það yrði að fara fram símleiðis. Að þessu sinni þáði hún boðið. Hún naut virkilega þessara umræðna og áður en langt um leið bað hún Helen að lesa með sér á hverjum degi. Konan fór líka að tengjast kristnum samkomum með hjálp símans. Hún fer ekki aðeins eftir því sem hún lærir í Biblíunni heldur segir hún líka öðrum frá því sem hún hefur lært.

 Í einum söfnuði Votta Jehóva ákváðu þeir að skrifa lögregluþjónum í samfélaginu þakkarbréf fyrir verðmæta þjónustu þeirra. Lögreglan var undrandi yfir þessum bréfum. Einn lögregluvarðstjóri sagði við Jefferson sem er öldungur í söfnuðinum: „Ég hélt að vottar Jehóva væru andsnúnir lögreglunni.“ Jefferson leiðrétti þennan misskilning. Lögreglan var svo hrifin af jákvæðum anda þessara bréfa að þau voru hengd upp í anddyri lögreglustöðvarinnar. Annar varðstjóri sagði: „Þetta gæti hjálpað öðrum að líta okkur jákvæðum augum.“

 Edna og Ednalyn eru brautryðjendur. b En þar sem þær hafa ekki nettengingu heima hjá sér gátu þær ekki tengst safnaðarsamkomum með fjarfundabúnaði. Þær hringdu því til nágrannakonu, sem er ekki vottur, og spurðu hvort þær gætu fengið aðgang að nettengingu hennar og buðust til að taka þátt í kostnaðinum. Konan bauð þeim vinsamlega að tengjast, þeim að kostnaðarlausu. Þegar Edna og Ednalyn buðu henni að fylgjast með samkomunum þáði hún það. Núna er þessi nágrannakona, eitt af börnum hennar og tvö af barnabörnum hennar að lesa Biblíuna með vottunum og þau koma reglulega á samkomur.

 Bræður og systur á staðnum buðu nágrönnum, vinnufélögum og öðrum að hlýða á opinberan fyrirlestur sem átti að flytja með fjarfundabúnaði. Ellaine, sem vinnur á sjúkrahúsi, hikaði í fyrstu við að bjóða samstarfsfólki sínu. Hún hélt að sumir læknanna væru neikvæðir gagnvart vottunum. Engu að síður sendi hún læknum sjúkrahússins vingjarnlegt boð með smáskilaboðum. Ellaine hikaði sérstaklega við að bjóða tveim læknum – sem eru reyndar hjón. En hún hugsaði málið, lagði það fyrir Guð í bæn og bauð þeim síðan með smáskilaboðum. Konan svaraði: „Svo þú vilt að ég gangi í þinn söfnuð?“ Ellaine sagði að samkoman væri opin öllum, hún væri ekki bara fyrir votta Jehóva. Ellaine var undrandi þegar hjónin tengdust samkomunni snemma næsta dag. Hún segir: „Áður en samkomunni lauk fékk ég þessi skilaboð frá konunni: ‚Þetta var í fyrsta skipti sem ég sótti samkomu hjá Vottum Jehóva. Hún var góð. Ég er er stórhrifin. Takk fyrir að bjóða mér.‘“

Ellaine

 Ellaine bauð 20 læknum á samkomuna og hún gladdist innilega yfir því að 16 þeirra hlustuðu. Hún vitnar í orð Páls postula og segir: „Ég er glöð yfir því að ég ‚tók í mig kjark‘ til að segja vinnufélögum mínum frá ‚fagnaðarboðskap Guðs.‘“ – 1. Þessaloníkubréf 2:2.

 Faraldurinn hefur verið öllum erfiður. En bræður okkar og systur á þessari eyju, sem og annars staðar, hafa getað varðveitt gleði sína og jákvætt viðhorf með því að gera það sem þeir geta til að hjálpa öðrum. – Postulasagan 20:35.

a Vottar Jehóva virða lög um persónuvernd þegar þeir framkvæma starf sitt.

b Brautryðjendur boða trúna í fullu starfi.